Tuesday, December 09, 2003

Það var þoka í Laugunum - eða kannski frekar fyrir ofan Laugina
Tók á mig rögg eins og stundum áður og skeytti því engu að um hættuslóðir væri að fara og hélt ótrauður í skokktúr um Laugardalinn í hádeginu í dag. Það var auðvitað algjör snilld eins og úllíngarnir myndu segja.

Síðan var alveg ótrúlega skrýtið að fara í sund á eftir því það hvildi svartaþoka yfir allri lauginni. Á meðan ég synti þá mætti ég alls kyns furðuverum sem birtust skyndilega út úr þokunni, rétt strukust við mig og voru svo horfnar. Fann fljótlega út úr því að til að geta séð sæmilega fram fyrir mig og komið í veg fyrir alvarlega árekstra þá þurfti ég að horfa neðansjávar, eða neðanlaugar kannski frekar. Það var nefnilega hægt að sjá fólkið spriklandi undir yfirborði vatnsins en um leið og hausinn á manni var kominn uppúr þá sást ekkert nema niðadimm þokan. Þetta var bæði ótrúlegt og æðislegt í senn.

Síðan þegar ég var búinn að synda og sitja smástund í heitapottinum (svona rétt til að verða of seinn á fund í vinnunni minni) og stóð svo uppúr þá rauk úr mér eins og um stóralvarlegan eldsvoða væri að ræða. En nei þetta var bara gufan.

Annars var þessi þoka í Laugunum líklega bara önnur hlið á því að í morgun þegar ég kom út þá skóf ég allar rúður vel og vandlega. Þegar því vandaverki var loksins lokið þá var hélan komin aftur á rúðuna sem ég skóf fyrst. Varð það til þess að fyrstu metrarnir voru svona frekar keyrðir eftir minni. Sem sannaðist þá líka að er ekki alveg ónýtt sem betur fer.

No comments: