Saturday, December 13, 2003

Óttaleg ótíðindi


Heyrði þessui hræðilegu sorgartíðindi í fréttum í morgun. Skil bara ekkert í fréttastofunni að hafa haft þessar stórfréttir fyrir aftan miðjan fréttatímann. Hann aumingja Keikó er bara dáinn og er núna aðal umræðuefnið einhvers staðar hvort hann fái að hvíla í votri gröf eða verði grafinn á þurru landi. Þetta er auðvitað stórmál með útför hans og sanngirnis mál að hann verði grafinn á Íslandi. Ég sé alveg fyrir mér að hann verði grafinn í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum. Það hlítur að minnsta kosti að vera nóg pláss þar fyrir hann enda hefur hann ekki verið notaður lengi. Svo mætti kannski skrifa einhverja skáldsögu um það að þar hafi ekki verið grafinn íslenskur hvalur heldur norskur leir. Nema hann verði núna notaður í kjötbollur eins og einhver sagðist vilja þegar þotan var að skutla blessaðri skepnunni til Vestmannaeyja.

Hin ótíðindin eru reyndar mun alvarlegra mál en dauði eins hvals. Mér varð það nefnilega á að fara að fletta föstudagsmogganum og þá rak mig í rogastans. Fyrir svona 30 árum þegar ég var að læra að lesa þá voru myndasögur í Mogganum. Þar var X-9 minnir mig að njósnarinn hafi heitið. Sakir æsku og vanþroska þá las ég aldrei mikið um X-9 en þeim mun meira um hana Ljósku og manninn hennar, Ferdinand og síðan smáfólk. Svona hægt og rólega síðustu 20 árin kannski þá hefur þetta aðeins þróast. X-9 datt fljótlega út og eitthvað annað kom í staðinn. Eitthvað dýraglens og kötturinn Grettir. En þessi föstudagsmoggi olli mér alvarlegu áfalli. Það var enginn Ferdinand, það var engin Ljóska og það var ekkert smáfólk. Það var einhver litprentaður hryllingur þarna, annars vegar um Lukkulála (sem reyndar getur verið ágætur) og svo eitthvað grín úr dýraríkinu sem ég er búinn að gleyma hvað var. Hvort tveggja svo langt að ég lagði alls ekki í að lesa það. Það endar kannski með því að ég verði að fara að kaupa DV til að fá einhverjar kunnuglegar myndasögur. Þessar litaklessur þarna í föstudagsmogganum eru að minnsta kosti algjörlega óásættanlegar.

Annars er ég bara kátur. Búinn með haustúttektina mína og lifði hana ágætlega af. Búinn að kenna það sem ég er að kenna í Endurmenntun og þá bara kominn í jólafrí í huganum. Verslaði mér hljóðfæri áðan sem ég get síðan dundað mér að verða lélegur að spila á. Þarf bara að ná að geta spilað eitthvað eins og Gunnsi og helst líka Icelandic cowboy eins og Vigdís.

No comments: