Wednesday, December 31, 2003

Hvað er aumkunarverðara en fastur jeppi


Ég fékk alveg óvænta skemmtun í gærkvöldi þegar ég var að keyra niðri í miðbæ og lenti á eftir Pajeró "jeppa" sem var ekki með eða var með bilað framdrif. Reyndar hef ég bílstjórann grunaðan um að hafa ekki kunnað að setja hann í drifið. En hann rann fram og til baka ofan í öllum skorningum og var farinn að stefna ískyggilega mikið á 5 milljón króna Reinsróver dæmi þegar ég og aðstoðarökumaðurinn (já það þarf sko 2-3 til að keyra Pajeró í hálku) vorum farinr að ýta blessaðri drossíunni. Hehe okkur Ventó fannst þetta meira en fyndið!

Var síðan vakinn upp með þeim ósköpum að allt í einu birtist dularfullt par haldandi á stóru kústskafti fyrir utan svefnherbergisgluggann hjá mér. Mér datt náttúrlega allur ketill í eld enda áleit ég fyrst að um galdrakarl og kerlingu væri að ræða en svo var þó ekki. Voru þau skötuhjúin reyndar íklædd brunavarðabúningum og komin til þess að hreinsa grýlukerti og snjóhengjur af þakinu hjá mér. Ja það getur sko borgað sig að búa í slömminu niðri í bæ. Það er ekki bara verið að skafa göturnar hérna heldur líka eru húsin skafin að ofan!

En núna þarf maður líklega út til að kaupa nokkra skotelda ..... stóra ...... svaðalega stóra!

Tuesday, December 30, 2003

Var að lesa

Um víðerni Snæfells, eftir Guðmund Pál Ólafsson

Ein af þeim ágætu bókum sem ég fékk í jólagjöf og líklega sú eina sem ég hef þrek til að lesa spjaldanna á milli

Hinar bækurnar reyndar voru svona meira til að skoða og glugga í. Ein mjög svo fróðleg timburhúsabók og síðan einhver dýrafræði eftir Davíð Attenboró. Efast um að ég nenni að lesa hana mikið og hmmm hefði kannski átt að skipta henni. A.m.k. langaði mig ekkert í hana.

En víðerni Snæfells er skyldulesning fyrir alla réttþenkjandi menn og kanski reyndar sérstaklega hina sem eru ekki jafn mikið réttþenkjgandi. Og síðan óþarft að taka fram að konur eru auðvitað líka menn!

Monday, December 29, 2003

Sknjór og stórrhríð ... jibbííí


Á dauða mínum átti ég von en ekki því að verða veðurtepptur heima hjá mér í miðbæ Reykjavíkur þegar til stóð að fara á stúfana í skíðaleiðangur. Miðað við hrakfarirnar sem ég sá að nágranni minn lentí í úti á bílastæði þá sýnist mér að ef ég ætli í umræddan skíðaleiðangur þá þyrfti ég að fara á gömluskíðunum til að kaupa þau nýju. Ég myndi svo láta skrúfa gömlu bindinarnar af á meðan ég biði eftir því að þær nýju væru skrúfaðar á. Síðan færi ég til baka nýskíðaðaður!

En núna er líklega rétti tíminn til að vera bara heima, éta dálítið af hangikjöti og fara yfir próf!

Já annars, fór á skíði í dag

Upp í Bláfjöll og eins og þeir sem þekkja mig geta látið sér detta í hug þá voru það plampskíðin. Varð reyndar bara endalaust plamb afturábak og áfram. Reyndar fullmikið afturábak því brójinn sem var með mér skildi mig bara eftir á meðan ég var að bækslast áfram (er annars nokkuð x í bæxlast, nei það væri of mikil snilld ;-) og rann minnst hálfan metra afturábak fyrir hvern heilan sem mér tókst að paufast áfram. Við nánari eftirgrennslan á rifflum undir miðjum skíðunum sem eiga að koma í veg fyrir þetta bakskrið kom í ljós að þær hafa orðið eftir einhvers staðar uppi á Oki líklega (þangað var sko síðasta "alvöru" skíðaferð) eða einhverjum öðrum ólukkans skaflinum sem ég hef arkað á liðnum árum. Eða kannski nánar tiltekið þá hafa þær dreifst víða. Reyndar var sett fram sú ófrumlega kenning að það væri einhver gamall vax rennslisáburður í rifflunum. Jú það gæti alveg hugsast en annars, hvaða rifflum?
Niðurstaðan varð sú að að ég hafi um fimm kosti að velja:

1. Hætta á skíðum og öðru óþægilegu útisporti en snúa mér þess í stað að hannyrðum

2. Fara að leggja almenn meiri áherslu á hannyrðirnar og finna mér skíðafélaga sem eru svona meira fyrir almenn rólegheit. (þá gætu sko gömlu beyglurnar dugað áfram)

3. Sætta mig við það að ég hafi náð að breyta riffluðu skíðunum í fyrsta flokks áburðarskíði og fara bara að juða áburði á þau.

4. Fræsa rifflur í skíðin

5. Fara á stúfana og nota jólagjafasjóðinn úr vinnunni minni til að versla eitt stykki svona:

Sjá nánar hér.


Stundum er sagt að sá á völina sem á kvölina. Skil það nú reyndar ekki, mig langar mest til að eiga Völuna og sé ekki neina kvöl í því - en það stendur ekkert til boða er það. Af þessum kostum þá er sá númer 3 og 4 mest spennandi en einhvern veginn held ég að ég taki kost númer 5 og breyti bara gömlu skíðunum í skíðasleða. Það eru því töluverðar líkur á því að ég sjáist í Nano... ég meina Útilífi í Kringlunni á morgun mánudag þar sem ég er búinn að lýsa yfir aðgerðaleysi í vinnunni millijóla og nýárs. Sá annars auglýsingu frá Útilífi þar sem þeir voru að guma af gönguskíðum á verði eitthvað frá þúsund og eitthvað. En einhvern veginn grunar mig að það séu ekki alveg eins gönguskíði og ég er á höttunum eftir.

Annars í Bláfjöllunum. Það var ógeðislega kalt og frekar lítill snjór. T.d. ekki hægt að fylgja ljósastaurunum á göngusvæðinu með góðu móti. Og síðan sakir þessa bakskriðs hjá mé þá var ferðin frekar snubbótt. Það var ekkert gaman hjá mér að paufast þetta og ekkert gaman heldur hjá brójanum að þurfa að bíða eftir mér í 10 mínútur á 5 mínútna fresti eða þannig!

Sunday, December 28, 2003

Aumingjablogg


Ég er að hugsa um að fara að þróa bloggið mitt í aumingjablogg. Núna er heil vika síðan ég setti ukkvað hérna inn síðast og næst þarf ég að láta líða eitthvað lengrí tíma. Já svona rúma viku. 10 daga eða kannski 11 daga, það væri enn betra. Síðan gæti ég sett eitthvað inn rétt eftir það svona kannski eftir hálfan mánuð héðan í frá. Þá væri komið lang fram í janúar. Síðan læt ég ekkert heyra í mér fyrr en í lok mánaðarins þegar allir verða farnir að halda að ég sé alveg hættur að blogga. Já þetta verður alveg svakalega spennandi. Nei annars ætli það. En jólin voru fín.

Þorláksmessa
Mjög hefðbundið. Keypti einhvern helling af jólamat. Hnakkreifst við Ralldiggni systur mína. Hætti að rífast við hana og svo var farið í bæinn að klára að kaupa jólagjarnar. Allt svakafínt!

Aðfangadagur
Ennþá meira hefðbundið. A.m.k. hjá mér. Hin árlega íslenska messa hjá prestinum sem tónaði að venju eins og ég veit ekki hvað. Síðan var snædd hin árlega gæs sem endaði reyndar á því að vera svolítið mikið elduð. En góð samt.

Fékk kynstrin öll af bókum í jólagjöf en verð líklega að grípa til þess óyndisúrræðs að nota einhverja bókina í klæði til að ég fari ekki í jólaköttinn því aldrei þessu vant fékk ég enga mjúka pakka. Jú annars, ætli ég geti ekki notast við svuntuna sem ég fékk frá vinnunni minni til að forðast kattarófétið.

Jóladagur
Óttalegur letidagur. Hangikjötsát og bóklestur.

Annar í jólum

Alveg frábært að þessir dagar heiti allir eitthvað. Eitthvað annað en svona venjulegur fimmtudagur sem heitir ekkert sérstakt. Hvernig væri nú að fara að kalla alla daga eitthvað héðan í frá. T.d. gæti dagurinn á morgun heitið Jónatan.....


Fór fyrst á skíði og tjaldaði síðan því sem til var og hélt mína árlegu lundalegu jólaveislu. Annars skil ég þetta eiginlega ekki. Ískápurinn var sneisafullur af mat þegar ég byrjaði að elda. Ég held að ég hafi tekið allt út úr honum og eldað það með tilþrifum. Síðan sá ég ekki annað en allir hefðu étið á sig gat. Samt voru afgangarnir sem ég henti jafn miklir og það sem ég eldaði. Síðan þegar ég var búinn að ganga frá nýtilegu afgöngunum í ísskápinn þá var hann ennþá úttroðnari en hann var þegar ég byrjaði að elda.


Já og auðvitað, gleðileg jól

Sunday, December 21, 2003

Brrrr kalt, kalt

Einhvern tíman um daginn var ég með óráði og sett inn á bloggið mitt óskir um meiri snjó og mikinn kulda. Mér finnst að nú sé að verða ´nóg komið. Reyndar datt mér einhver gömul spaugsaga í hug.


Það var einhvern tíman fyrir einhverjum árum síðan að í einhverju hræðilegu kuldakasti var sagt að frost hefði mælst 30 gráður á Grímstöðum á fjöllum.

Fréttamanni á útvarpinu þótti þetta merkilegt og hringdi norður og svaraði einhver strákur í símann. Fréttamaðurinn kynnti sig og spurðu síðan hvað kalt hjá þeim.

Stráksi sagði fréttamanninum að bíða aðeins og kom síðan aftur og sagði að það væri 5 gráðu frost.

Núnú sagðu fréttamaðurinn, það var einhver að halda þvi fram að það væri 30 gráðu frost hjá ykkur, það hefur þá bara verið einhver vitleysa enda ólíklegt að það geti orðið svo kalt.

Ha, sagði strákur, varstu að meina hvað væri kalt úti?


Ég hef nú annars ekki grun um að þessi saga eigi við mikil rök að styðjast en mér hefur dottið hún nokkrum sinnum í hug síðustu daga þegar það hefur verið frekar kalt úti og þá um leið vegna ofnaleysis frekar kalt líka inni hjá mér. Í baráttu minni til að koma hitastiginu upp í lögbundnar 20 gráður hef ég brugðið á alls kyns ráð eins og að kveikja á bakarofninum án þess að vera beinlínis að vera að fara að baka.

Fann annars heillaráð. Fór út í brunagaddinn trefils- og húfulaus. Þegar ég kom heim aftur var sem eyrun á mér væru að brenna og alveg funhiti um alla íbúð.

En ég á nú samt von á að það fari að hlýna eitthvað svona einhvern tíman á næstunni.

Friday, December 19, 2003

Já já ....

Ég hef á tilfinningunni að einhverjum finnist þetta dálitið fyndið!¨

Bunson jpeg
You are Dr. Bunson Honeydew.
You love to analyse things and further the cause of
science, even if you do tend to blow things up
more often than not.

HOBBIES:
Scientific inquiry, Looking through microscopes,
Recombining DNA to create decorative art.
QUOTE:
"Now, Beakie, we'll just flip this switch and
60,000 refreshing volts of electricity will
surge through your body. Ready?"

FAVORITE MUSICAL ARTIST:
John Cougar Melonhead

LAST BOOK READ:
"Quantum Physics: 101 Easy Microwave
Recipes"

NEVER LEAVES HOME WITHOUT:
An atom smasher and plenty of extra atoms.


What Muppet are you?
brought to you by Quizilla

Frá Stínu

Tuesday, December 16, 2003

Aragorn


aragorn
Congratulations! You're Aragorn!


Which Lord of the Rings character and personality problem are you?
brought to you by Quizilla
Frá Stínu

Og nei, ég svindlaði ekkert!

Monday, December 15, 2003

Núna er ég loksins orðinn matvinnungur á mínu heimili

Bauð famigliunni í mat, lét hana elda helminginn af matnum fyrir mig en fékk að launum þessar líka rosalega góðu mömmulegu smákökur til að maula með gestum og gangandi. Núna er ég því orðinn vel birgur af smákökum bæði með gómsætu mömmubragði og líka þessu hefðbundna Kexsmiðjubragði sem fæst í Hagkaup.

Sunday, December 14, 2003

Nýja gæludýrið mitt

Ætti kannski að líta það sem nýja kærustu því við erum búin að vera að kyssast í allan dag. Er reyndar alveg ferlega slappur. Gat reyndar fljótlega spilað Gamla Nóa og síðan Líi-leppa-lú sem er gamla hlé lagið í Ríkisútvarpinu. Áttaði mig síðan á því til mikillar gleði að ég það er tiltölulega einfalt að spila á þetta yfir gamlan eyðisand. Þetta er því allt að koma en ég óttast reyndar að það sé langt í land með að ég spili neitt af þessu almennilega. En hvað um það. Ef ég spila nógu hátt á þetta þá get ég kannski hefnt mín á granna mínum á hæðinni fyrir neðan sem var vanur að halda heimsins háværustu partý einhvern tíman seinni hluta nætur.

Missti svo af Saddam fréttunum í hádeginu


Af því að ég rakst á of athyglisverða bloggfærslu eða öllu heldur söguna um Stein sem allir verða að lesa!
Eins konar vasaútgáfa af Englum alheimsins sem allir verða reyndar líka að lesa.

Alveg er ég bit, þeir náðu Saddam


Ég verð að játa að ekki átti ég nú von á þessu. Áður en þeir náðu ómenninu Saddam þá voru tvö vandamál sem Búss og Bler stóðu frammi fyrir. Að ná Saddam og finna öll gereyðingarvopnin, nú já fyrir utan það að það er allt í klessu og kaldakoli þarna eftir þá sjálfa.

Vonandi verður þetta þá til þess að þeim tekst að koma ástandinu í landinu eitthvað fram á við eða helst hætt að skipta sér af því. Að minnsta kosti þá hlítur það að vera jákvætt að Saddam kemst varla aftur til valda úr þessu. Það skiptir væntanlega mestu máli í þessu að það takist að koma Írak úr þessu kaldakoli sem landið er í eftir þá alla þrjá, Búss, Bler og Saddam.

Núna fer kannski að vera spennandi að vita hvort þeir finna þessi gereyðingarvopn sem þeir eiga ennþá eftir að finna. Það hefði reyndar átt að vera auðveldara að finna gereyðingarvopnin heldur en einn mann sem felur sig í holu ofan í jörðinni og getur látið fara lítið fyrir sér. Enda hef ég aldrei haft mikla trú á því að þessi vopn séu þarna neins staðar.

Saturday, December 13, 2003

Að ég geti verið eins og Clinton



Það sagði að minnsta kosti þessi "stjörnuspá". Sem ég sá á
Heljarblogginu.

En þetta er reyndar ekkert svo rosalega vitlaus lýsing á mér!
Og svo er ég auðvitað meira en feginn að hafa ekki verið líkt við Búss!

Óttaleg ótíðindi


Heyrði þessui hræðilegu sorgartíðindi í fréttum í morgun. Skil bara ekkert í fréttastofunni að hafa haft þessar stórfréttir fyrir aftan miðjan fréttatímann. Hann aumingja Keikó er bara dáinn og er núna aðal umræðuefnið einhvers staðar hvort hann fái að hvíla í votri gröf eða verði grafinn á þurru landi. Þetta er auðvitað stórmál með útför hans og sanngirnis mál að hann verði grafinn á Íslandi. Ég sé alveg fyrir mér að hann verði grafinn í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum. Það hlítur að minnsta kosti að vera nóg pláss þar fyrir hann enda hefur hann ekki verið notaður lengi. Svo mætti kannski skrifa einhverja skáldsögu um það að þar hafi ekki verið grafinn íslenskur hvalur heldur norskur leir. Nema hann verði núna notaður í kjötbollur eins og einhver sagðist vilja þegar þotan var að skutla blessaðri skepnunni til Vestmannaeyja.

Hin ótíðindin eru reyndar mun alvarlegra mál en dauði eins hvals. Mér varð það nefnilega á að fara að fletta föstudagsmogganum og þá rak mig í rogastans. Fyrir svona 30 árum þegar ég var að læra að lesa þá voru myndasögur í Mogganum. Þar var X-9 minnir mig að njósnarinn hafi heitið. Sakir æsku og vanþroska þá las ég aldrei mikið um X-9 en þeim mun meira um hana Ljósku og manninn hennar, Ferdinand og síðan smáfólk. Svona hægt og rólega síðustu 20 árin kannski þá hefur þetta aðeins þróast. X-9 datt fljótlega út og eitthvað annað kom í staðinn. Eitthvað dýraglens og kötturinn Grettir. En þessi föstudagsmoggi olli mér alvarlegu áfalli. Það var enginn Ferdinand, það var engin Ljóska og það var ekkert smáfólk. Það var einhver litprentaður hryllingur þarna, annars vegar um Lukkulála (sem reyndar getur verið ágætur) og svo eitthvað grín úr dýraríkinu sem ég er búinn að gleyma hvað var. Hvort tveggja svo langt að ég lagði alls ekki í að lesa það. Það endar kannski með því að ég verði að fara að kaupa DV til að fá einhverjar kunnuglegar myndasögur. Þessar litaklessur þarna í föstudagsmogganum eru að minnsta kosti algjörlega óásættanlegar.

Annars er ég bara kátur. Búinn með haustúttektina mína og lifði hana ágætlega af. Búinn að kenna það sem ég er að kenna í Endurmenntun og þá bara kominn í jólafrí í huganum. Verslaði mér hljóðfæri áðan sem ég get síðan dundað mér að verða lélegur að spila á. Þarf bara að ná að geta spilað eitthvað eins og Gunnsi og helst líka Icelandic cowboy eins og Vigdís.

Thursday, December 11, 2003

Geisp, stundum verður maður bara of þreyttur


Þegar maður er búinn að vinna fram yfir miðnætti hálfa vikuna, búinn að lóðsa galdrakaddlinn um húsið í allan dag og búinn að farast úr áhyggjum yfir námskeiði sem ég er með á laugardaginn þá er eiginlega bara skiljanlegt að maður verði hálf þreyttur. En þetta gekk ekkert alilla og námskeiðið reddast líklega í horn þannig að ég sef líklega fram úr hófi fast núna í nótt.

Wednesday, December 10, 2003

Frostwagen Ventó
Í morgun skildi ég loksins af hverju allar þessar hurðir eru á bílnum mínum. Fyrst var ekki hægt að opna neina. Síðan tókst mér að opna aðra afturhurðina. En í hrifningu yfir því þá lokaði ég henni auðvitað aftur hið snarasta og þá tók hún ekki í mál að opnast aftur. Síðan eftir langa leit þá fann ég farþegahurð sem er beint á móti hurðinni sem ég nota yfirleitt til að komast inn í bílinn og þar komst ég inn. Klöngraðist yfir gírstöng og handbremsu og þið megið vita að það var ekki góð lífsreynsla. Setti bílinn síðan í gang, fann sköfuna (sem er reyndar bara gömul kasetta) og fór síðan sömu leið til baka aftur. Skóf rúður hátt og lágt með kasettunni góðu og klöngraðist síðan inn í bílinn aftur sömu leið. Reyndi að beita brögðum á leiðinni í vinnuna og lét miðstöðina blása heitu lofti á hurðarófétið en það dugði ekki til. Ég þurfti aftur að príla yfir í farþegasætið til að komast út úr bílnum aftur.

Tuesday, December 09, 2003

Það var þoka í Laugunum - eða kannski frekar fyrir ofan Laugina
Tók á mig rögg eins og stundum áður og skeytti því engu að um hættuslóðir væri að fara og hélt ótrauður í skokktúr um Laugardalinn í hádeginu í dag. Það var auðvitað algjör snilld eins og úllíngarnir myndu segja.

Síðan var alveg ótrúlega skrýtið að fara í sund á eftir því það hvildi svartaþoka yfir allri lauginni. Á meðan ég synti þá mætti ég alls kyns furðuverum sem birtust skyndilega út úr þokunni, rétt strukust við mig og voru svo horfnar. Fann fljótlega út úr því að til að geta séð sæmilega fram fyrir mig og komið í veg fyrir alvarlega árekstra þá þurfti ég að horfa neðansjávar, eða neðanlaugar kannski frekar. Það var nefnilega hægt að sjá fólkið spriklandi undir yfirborði vatnsins en um leið og hausinn á manni var kominn uppúr þá sást ekkert nema niðadimm þokan. Þetta var bæði ótrúlegt og æðislegt í senn.

Síðan þegar ég var búinn að synda og sitja smástund í heitapottinum (svona rétt til að verða of seinn á fund í vinnunni minni) og stóð svo uppúr þá rauk úr mér eins og um stóralvarlegan eldsvoða væri að ræða. En nei þetta var bara gufan.

Annars var þessi þoka í Laugunum líklega bara önnur hlið á því að í morgun þegar ég kom út þá skóf ég allar rúður vel og vandlega. Þegar því vandaverki var loksins lokið þá var hélan komin aftur á rúðuna sem ég skóf fyrst. Varð það til þess að fyrstu metrarnir voru svona frekar keyrðir eftir minni. Sem sannaðist þá líka að er ekki alveg ónýtt sem betur fer.

Sunday, December 07, 2003

Ég var farinn að halda að bloggerinn væri ónýtur og ég myndi aldrei aftur geta gert nokkurn skapaðan hlut við bloggið mitt
Hann hefur nefnilega gefið mér eintómar errormeldingar í hvert skipti sem ég hef ætlað að blogga blogg í dag.

Er nefnilega búinn að vera hroðalega duglegur þessa helgi. Ósköpin hófust í gær þegar ég ákvað að hengja upp folijólaljósin mín. Sá þá mér til mikillar skelfingar að gluggarnrir sem ljósin áttu að fara í voru fram úr hófi skítugir. Ryk og drulla liðinna mánuða lá í gluggakistunum og því þörf á ærlegri hreingerningu. Það voru sóttar tuskur og alls kyns hreinsiefni og auðvitað langur og góður stigi. Síðan eftir mikla mæðu var búið að þrífa líklega alla 40 gluggana að innanverðu. Rigninin verður að sjá um að þrífa þá að utan að þessu sinni. Nú jólaljósin voru síðan drifin upp eins og má sjá hér.

Á næstu dögum eða í versta falli um næstu viku verður síðan lokið við herlegheitin og sett grílukertaljós á svalirnar og svona alls konar flott. Er meira að segja að velta fyrir mér að troða ljósum á stóra askinn fyrir utan eldhúsgluggann hjá mér. Gæti orðið hroðalega flott. Eða kannski bara hroðalegt. Veit það ekki alveg. Held að það yrði bara flott.

AF öðrum afrekum helgarinnar má nefna gerð prófs fyrir elskulega nemendur mína í Endurmenntastofnun HÍ. Þeir eiga von á einhverju skemmtilegu frá mér eftir tvær vikur!

Já og gleymdi að nefna það. Það eru að fara að koma jól. Komin alls konar hátíðleg og óhátíleg jólamússík í grægjuna mína. Kaupti meirasegja þrjá fólijóladiska í dag. Einn ferlega væminn slappann blásaradisk á 790 kall eða eitthvað. Síðan einn svona simfónískan dáltið hátíðlegan og svo einn frábæran með Þremur á palli. Enda hafa þau ekki gert neitt mikið af því að klikka!

Saturday, December 06, 2003

Vona að það verði hægt að halda áfram að skokka í Laugardalnum
Sá frétt á Moggavefnum um að ráðist hefði verið á konu sem var að skokka niðri í Laugardal. Þetta er náttúrlega stóralvarlegt mál en einhvern veginn var þetta líka dálítið kómísk lýsing. Hún var búin að skokka í svona 40 mínútur og þá væntanlega eitthvað milli 5 og 10 km og kom ekki einhver aulagaur skröltandi á eftir henni strax orðinn móður og másandi og þegar hann ætlaði að ráðast á hana þá bara lúskraði hún á honum. Hann sá auðvitað sitt óvænna og hundskaðist burt. Vona bara að þetta komi ekki í veg fyrir skokk í Laugardalnum því það er svona yfirleitt með því frábærara sem hægt er að gera!

Annars hef ég stundum verið að hugsa þegar ég fer út að skokka hvort þetta gæti gerst að einhver færi að ráðast á mann örþreyttan eftir að hafa skokkað bæinn þveran og endilangan. Vona nú eiginlega að slíkt fari ekki að gerast enda ekki eftir miklu að slægjast hjá skokkara a.m.k. ekki í peningamagni þar sem maður skokkar nú yfirleitt ekki með mikil auðæfi á sér.
Sumir geta lagst lægra en aðrir!
Ég játa að mig hefur oft langað til að fá meiri heimsóknir inn á bloggið mitt en svona lágt hefur mér aldrei dottið í hug að leggast!

Er ekki einhver hallæris Steini farinn að blogga á slóðinni http://haltukjafti.blogspot.com/ eitthvað aulalegt fokking blogg svo ég noti orðalag höfundarins sem er sko alls ekki blogg dauðans sem átti að vera þarna. Held að ég verði að fara að uppfæra linkalistann minn hér til hliðar þar sem ég ætlaði mér ekkert að linka á þennan laumu bloggara!

Kíkti síðan á kommentin sem eru í kommentakerfinu hans og greyið, ég er eiginlega viss um að hann er bara að spjalla þar við sjálfan sig undir ótal misgáfulegum nöfnum. Ég á eiginlega ekki orð. Þetta er eiginlega bara fyndið!

En mæli ég þá frekar með almennilegu orginal bloggi sem ég var rétt að sjá í skilaboðakerfinu mínu. Er nefnilega ekki Páll Ásgeir farinn að blogga! Mæli eindregið með því enda er hann með skemmtilegri pennum sem ég hef komist í kynni við. Held að ég uppfæri linkalistann minn hið snarasta úr því að ég þarf greinilega að gera heilar tvær breytingar á honum!
Hvað getur tveggja metra hundur gelt lengi?
Mikið afskaplega verð ég feginn þegar hann nágranni minn partýhaldarinn á hæðinni fyrir neðan með hundinn flytur í burtu! Þegar ég vaknaði eldsnemma í morgun við kröftugan söng sheffer hundsins hans þá fór ég að hugsa hvað svona hundur gæti gelt lengi. Þetta var ekki mjög vísindaleg könnun en ég held að hann hafi verið geltandi svona um kl. 7 í morgun og hann gelti til svona klukkan 10. Nei þetta voru nú bara þrír tímar og megnið af þeim á svona sæmilega ásættanlegum vökutíma fyrir vinnandi fólk þannig að ég á líklega ekkert að vera að kvarta. Það ætti reyndar hundurinn að gera.

En sá serbneski á fyrstu hæðinni er búinn að segja mér að þeir félagar (þ.e. partýhaldarinn og hundurinn hans) muni flytjast í burt héðan í febrúar. Einhvern veginn held ég að enginn íbúi þessa húss eða næstu húsa eigi eftir að sakna þeirra neitt sérstaklega!

Friday, December 05, 2003

Ég segi nú bara vá !!!

Í boði lesblind.com er mér sagt á mar.anomy.net



Ætli það sé annars dæmigert fyrir lesblindu að vefurinn lesblind.com skuli vera á slóðinni lesblind.is ?
Fékk ég ekki verkfræðingabrandara frá Davíð í morgun til að létta mitt geð!

Jón verkfræðingur deyr og fer auðvitað upp til himna eins og allir verkfræðingar. Þegar þangað kemur leitar Pétur í nafnalistanum og segir svo:

"Þvímiður Jón minn, þú ert ekki ekki á listanum. Þú verður að fara niður".

--"En en, ég er verkfræðingur..."

"Já sorrí, en þú ert ekki á listanum !".

Þannig að Jón er sendur niður til helvítis.

Mánuði síðar er Guð að fara yfir nafnalistana og sér að þau mistök hafa átt sér stað að Jón verkfræðingur hafi óvart verið sendur til helvítis.

Hann bjallar í Satan og biður hann um að skila nú Jóni.

Satan segir strax, "Ekki séns, þú færð Jón sko ekki aftur, þín mistök."

Guð er ekki sáttur og segir, "Láttu ekki svona, Jón er verkfræðingur, hann á heima á himnum með hinum og þú veist það".

Þá var Satan mikið niðri fyrir og sagði "Sko, áður en Jón kom var ógeðslega heitt hérna, það var hraunstraumur hér um allt og brennisteinsfnykur og viðbjóður. Jón breytti þessu öllu. Núna erum við komin með loftræstingu, brýr, vegakerfi, flóðvarnagarða og ég veit ekki hvað og hvað, allt hannað af honum. Þetta er orðið helvíti næs hérna hjá okkur. Það er ekki séns að þú fáir hann".

"Sko Satan, þú lætur mig fá hann aftur, eða ég fer í mál við þig !"

"-Já er það, og hvar þykist þú ætla að fá lögfræðinga..."

Wednesday, December 03, 2003

The F-test
Hvað eru mörg "F" í þessum texta?


FINISHED FILES ARE THE RE-
SULT OF YEARS OF SCIENTIF-
IC STUDY COMBINED WITH THE
EXPERIENCE OF YEARS



Ætti ekki að vera erfitt að Finna þessi F þarna!
En mér tókst það samt ekki fyrr en í annarri tilraun eftir að ég hafði séð svarið!

Monday, December 01, 2003

Er skemmtilegast að versla í Hagkaup?
Mér fannst það reyndar einu sinni og finnst það kannski einhvern tímann en næst ætla ég að mæta með eyrnatappa þegar ég fer þangað. Nú kemur nefnilega nöldur. Þeir sem ekki vilja lesa nöldur, vinsamlegast smellið hér! Þeir sem ennþá eru að lesa: Ég var búinn að vara ykkur við.


Hvurnin er hægt að vera svona ósmekklegur eins og sá sem ræður yfir hátölurunum í Hagkaup í Skeifunni. Þetta er of hátt og þetta er ósmekklegt lagaval. Hverjum dettur í hug að maður vilji heyra endalausa jólaskemmtunartónlist á meðan maður er að spekúlera í hvort betra sé að kaupa basiliku eða kóríander á kjúklinginn? Hvað gerir maður þegar maður er búinn að heyra jólasveina ganga um gólf og búinn að heyra um sigga á síðum buxum og drengi að skoppa gjörðum og stúlkur að vagga brúðum eða hvað þetta er? Það er allt í lagi að heyra einhver jólalög af og til fyrir jól en það má ekki alveg drepa mann samt strax. Það er nú bara fyrsti desember ennþá sko. Og hvað gerði minn? Jú hann gafst upp, keypti hvorki ferkst kórínander né basilku og fann bara næstu röð sem virtist vera sæmilega stutt.

Þar síðan ruddist auðvitað fram fyrir mig eitthvað stórundarlegt par sem var að gera stórinnkaup með tvö brauð, eitt smjörstykki og tvo sjampóbrúsa og síðan álíka marga pilsnera. Og þessu furðufólki tókst að vera hálftíma að átta sig á því hvernig það ætlaði að skipta þessum stórinnkaupum upp í alls konar minni innkaup. Fyrst borgaði konan svo báða pilsnerana og síðan svona um það bil helminginn af öllu hinu sem þau voru að kaupa. Síðan tókst manninum að vera alveg ótrulegan tíma að komast að því hvernig hann ætlaði að borga sinn hlut af þessu.

Og á meðan á öllu stóð þá voru jólasveinarnir reyndar hættir að ganga um gólf og í staðinn komið eitthvað úr Grís. Jú það var reyndar dálítið skárra en mig langaði ekkert sérstaklega til að fara að dansa grís þarna á meðan ég var að bíða. Og næsta lag. Þá gat ég næstum því öskrað. Hefði annars að spyrja einhvern hvort þetta væri söluátak fyrir eyrnatappa eða tilraun til heimsmets í ósmekkleika. Var þá ekki farið að spila Heims um ból rétt eins og jólin væru komin. Það lá við að ég gæfist upp og strunsaði bara út. En nei ég var of svangur til þess.

Það sem reyndar er stórundarlegast við þetta allt saman er að líklegast er þetta allt saman útpælt til að láta fólk kaupa meira. En nei, einhvern veginn er ég að fjarlægjast þennan undarlega meirihluta íslendinga sem finnst skemmtilegast að versla í Hagkaup.


Svo er ég kominn með samviskubit yfir að hafa guggnað á að bjóða til mín í mat á kvöld. En það var kannski eins gott að ég hætti við þetta þar sem það er auðvitað ekki góð kurteisi að gefa fólki ekki að borða fyrr en klukkan er langt gengin í níu eða jafnvel farin að ganga tíu.

Síðan svo ég hætti nú allri geðvonsku, þá er allt í lagi að það komi fram að ég er búinn að hengja upp fyrsta jólaljósið mitt. Sjálfa jólastjöggnuna fallandi af himnum frá!
Matseðill dagsins:
MÁNUDAGUR 01/12
PAPRIKUSÚPA
HAKKA BUFF LINDSTRÖM MEÐ KARTÖFLU MAUKI OG LAUKSÓSU

Ekki skil ég nú hvað þessi Lindström hefur gert af sér að hafa endað sem hakkabuff á pönnunni hjá honum Tobba!
Vona bara að hann hafi ekki verið mjög seigur.