Leikhúsferðir og geitungar
Yfirleitt bloggar maður ekki um allt sem gerist í lífi manns og ekki ætla ég að fara að taka upp á því fyrstur bloggara ....
Samt fór ég í leikhús í gærkveldi og eru núna að hefjast alvarlegir leikhústímar í mínu lífi því ég fer aftur í leikhús í kvöld, aftur um næstu helgi er mér sagt og einnig helgina þar á eftir. Áskriftarkort eru stórhættuleg ef maður hefur ekki vit á að nota þau tímanlega. Er sem sagt með áskriftarkort í Borgarleikhúsinu sem hefur ekki verið notað nándar nærri nóg ennþá. Verður núna gert átak í leikhúsferðum.
Í gær var annars farið í Þjóðleikhúsið séð hið stórbrotna verk "Allir á svið" sem er reyndar ekki neitt sérstaklega merkilegt stykki en fyndið samt. Þrátt fyrir að gærdagurinn hafi ekki verið neitt sérstaklega góður fyrir Ragga þá tókst mér nú samt að kreista upp hlátur nokkrum sinnum og jafnvel svo að eftir var tekið.
Á eftir var sest að pizzu-kók-snakk-bjór-popp-kaptein-viskí drykkjuáti heima hjá mér þar sem önnur öldurhhús miðbæjarins voru helst til of þétt setin fólki sem við vildum í sumum tilfellum helst ekkert sitja hjá.
Í morgun lenti ég svo í fyrsta alvöru bardaga þessa vors. Fyrir nokkrum vikum kom fyrsta vinkonan mín í heimsókn. Bústin, loðin og sæt og hafði vit á að flögra út um svaladyrnar. Í morgun komi hinn illskeytti frændi hennar allsber, langur og mjór, suðandi og fljúgandi í sínum taugaveikluðu rykkjum og skrykkjum. Ég sver það að geitungshelvítið var á fjórðas sentimetra á leng og grannur eftir því bæði hvað varðaði ummál og vit. Hamaðist endalaust á öllum lokuðum gluggum en gat ekki álpast til að finna opnu gluggana eða svaladyrnar. Sveif síðan upp undir rjáfur, beið þar í 4 metra hæð eins og til að undirbúa árás á mig al saklausan sem var bara að reyna að borða brauð með drulli ofaná. Eftir um kukkutíma fyrirsát og skæruhernað hvarf hann allt í einu sjónum mínum. Liggur annað hvort í öngviti á bakvið einhvern ofninn eða þá að hann fór loksins út um gluggann og er þar líklega kominn í óða önn við að reisa sér bústað. Vona bara að hann taki sér ekki bólfestu í bílnum mínum eins og eitt geitungsgrey gerði í fyrra.
No comments:
Post a Comment