Sunday, April 13, 2003

Ég held að það sé bara komið vor ef það er þá ekki komið sumar!
Fór í sveitina mína austur í Mýrdal í gær og ég verð bara að segja það að grænkan á túnunum var eiginlega eins og um hásumar þarna undir Eyjafjöllunum. Reyndar lítið farið að spretta en þá voru túnin bara eins og það væri nýbúið að slá!

Beljurnar spígsporandi úti á túnunum og vantaði reyndar bara kiðlingana og lömbin.

Síðan í morgun á Laugaveginum þá gerði einn vorboðinn vart við sig. Ég veit ekki hvort þetta er met en allt í einu heyrði ég gamalkunnungt dálítið ergilegt suð. Og viti menn. Var ekki komin ein af þessum bústnu pattaralegu vinkonum mínum af hunangsflugugerð sem vildi fá að komast út í gegnum gluggarúðuna á svölunum hjá mér. Var það reyndar auðsótt mál að opna fyrir henni og flögraði hún fljótlega út í góða veðrið.

Síðan svona til að fullkomna þetta (eða reyndar eyðileggja þetta allt sman) þá er ég sjálfur með kvef og vesöld en það hlýtur að batna fljótt úr því að sumarið er komið.

Versti gallinn við þetta allt saman er síðan snjóleysið. Mér sýndist að það yrði ekki um auðugan garð að gresja að fara á skíði neins staðar um páskana nema þá uppi á hájöklum. Já, fyrir þá sem ekki þekkja mig, þá er skíðaferð hjá mér um páska ekki fólgin í því að hanga í skíðalyftu heldur felst það í æfintýraför um hálendi á tveimur jafnlöngum, brunandi á þessu hvíta (sem vantar illilega núna).

Ég blogga svo fljótlega væntanlega um fyrsta geitunginn sem ræðst á mig þetta vorið. En miðað við reynslu mína héðan af Laugaveginum í fyrra þá verður þess ekki langt að bíða....

No comments: