Thursday, December 30, 2004

Undarlegt háttalag hunds um miðja nótt

Stundum er maður heppinn eða ekki


Ég er að lesa alveg frábæra bók. Hún er 268 blaðsíður auk viðauka og seinasti kaflinn í henni er númer 233 en það eru samt ekkert svona margir kaflar í henni en þeir eru bara númeraðir eins og prímtölur.

Og þetta er spennandi morðsaga og verulega spennandi strax frá fyrstu síðu (eða kafla tvö) þar sem það er strax búið að fremja morðið og aukin heldur búið að stinga aðal söguhetjunni í grjótið fyrir að ráðast á lögregluna. Sá dauði er hundur nágrannakonunnar.

Bókin er á ensku og yfirleitt þoli ég ekki að lesa bækur á einhverjum undarlegum tungumálum sem ég skil ekki. En það er allt í lagi með þessa bók því hún er skrifuð af sjónarhóli stráks með Aspergers heilkenni. Þess vegna skil ég hana alveg. Og af einhvejrum ástæðum líka hvað hann er skemmtilega ruglaður þó ég sé ekkert illa haldinn af neinum sérstökum heilkennum held ég.

En þetta er allt út af því að ég þurfti að fara í Kringluna í dag til að kaupa rauðvín í rauðvínshappdrættinu sem ég er í. Ég sé nefnilega vinnufélögunum fyrir áfengi einu sinni í mánuði. Eftir að hafa keypt einhver reiðinnar býsn af áfengi í ríkinu í Kringlunni [þ.á.m. viskí sem er á bragðið einhvern veginn eins og gamall leðurjakki eða kannski frekar eins og hjólbarði sem hefur ofhitnað] þá datt mér í hug að fara upp á þriðju hæðina í Kringlunni og fá mér Kínamat. Og til að mér myndi ekki leiðast mjög mikið þá kom ég við í Eymundssyni á annarri hæðinni og keypti mér eitthvað að lesa og það var alveg óvart þessi bók.

Mæli með henni og viskíinu sem smakkast meira eins og leðurjakki.

En á morgun klárast árið og ég veit ekki meir.

Saturday, December 25, 2004

Lygasaga eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

Jólin eru til að lesa

Fékk reyndar ekki neina lesilega bók í jólagjöf. Myndabók Raxa telst varla mjög lesileg þó hún sé frábær.

En það skiptir ekki neinu máli þegar manns eigin bækur flæða út úr öllum bókaskápum og út um öll gólf. Las í snarheitum Lygasögu Lindu Vilhjálmsdóttur. Dálítið sérstök en skemmtileg lesning. Tók fljótt af en var ágæt samt.



....

Friday, December 24, 2004

Gleðileg jól allirsaman



Myndin að ofan er tekin í Jarlhettudal austan við Langjökul í páskaferð Stélbratts að öllum líkindum árið 1999.

Þennan dag lögðum við af stað frá Hvítárnesi, fórum beina leið yfir Hvítárvatnið og tókum síðan stefnuna í áttina að Hagavatni. Til að byrja með var hríðarmugga og vont skyggni en það létti til og úr þessu varð einn af þessum frábæru góððviðrisdögum sem maður fær á skíðum á hálendi Íslands.

Daginn eftir var komin rigning og allt á floti í bókstaflegri merkingu. Var þá skíðað tímunum saman í ökkladjúpu vatni.

Þetta var frábær ferð en nú eru að koma jól. Óskum okkur öllum til hamingju með það.


Hmmmmm já það er nú það
Mér gleggri menn hafa nú víst bent mér á það að þetta sem hér kemur fram að ofan er allt saman tómt lygimál. Vissulega var gaman í páskaferð Stélbratts árið 1999 og lýsingin nokkuð nærri lagi en myndin er bara alls ekki úr þeirr ferð heldur allt annarri.

Eins og kemur fram í kommenti frá Páli Ásgeiri þá er þetta nefnlega úr skíðaferð sem kennast má við Skíðafélagið Stélbratt á Okið árið 2003 og var líklegast farin árið 2003 ef mér skjátlast þá ekki líka um það efni.

Og þá má reyndar nafngreina skíðamennina sem eru á myndinni. Þ.e. Nefndur Páll Ásgeir, hans sprettharða kona Rósa Sigrún og minn öðlungs bróðir Gunnar.

Það má annars bara lesa um þessa hetjuferð hér.
Og ekki orð um það meir.

Vá, það er kominn aðfangadagur

Verð víst að fara að haska mér, fara í bæinn og kaupa jólagjafir, setja upp jólatré, ryksuga og skúra ef ég ætla einhvern tína að vera búinn að þessu öllu.

Er reyndar búinn að einhverju því ég fór á hreindýraveiðar í Hagkaup í gær og hitti fyrir úrbeinað innralæri. Hreindýrshornsómyndin sem ég er með uppi á vegg og ég hitti á Brúaröræfum kættist öll alveg ógurlega við að fá félagsskapinn!

Það verður því ekki skarfur í matinn að þessu sinni. Ég á það bara inni hjá sjálfum mér.

Thursday, December 23, 2004

Skarfur í jólamatinn

Á ég virkilega að þora að hafa skarf í jólamatinn.

Mér var sagt í fyrragær að þegar maður er að bjóða til sín fólki um jól þá sé nú eiginlega bestast að vera ekki með of mikla tilraunamennsku í eldhúsinu. Ég á nú ekki von á því. En að hafa eitthvað sem maður hefur hvorki eldað né snætt nokkurn tíman áður og aldrei heyrt um að nokkur lifandi sál hafi góflað í sig um jól, er það ekki dálítið langt gengið.

Væri reyndar svo sem alveg í stíl við mig að reyna þetta. Það yrði þá einum skarfi fleira í boðinu en venjulega. Vonandi að það verði samt ekki leiðindaskarfur.

Annars held ég að ég renni á rassinn með þennan skarf og það verði bara bambi í matinn.



....


Wednesday, December 22, 2004

Það er þessi árstími

Var leystur út með gjöfum í vinnunni í dag eftir að hafa drukkið sykursætt jólaglögg.

Fór síðan með Ralldiggni og Kristjáni þar sem við versluðum okkur þessi firnafínu fólatlé ofan úr Þjórsárda af rauðgrenisgerð. Tréð mitt er mjög sérstakt, þar sem það er alþakið stuttum grænum títuprjónum. Já ég mina það, tréð stingur. Trúi hver sem trúað getur en ég legg ekki í vana minn að ljúga hraðar en meðalgreindur maður hefur undan að trúa [tilv. Bolli Magnússon].

Þegar heim var komið beið mín sá rosalegasti konfektkassi sem ég hef nokkurn tíman séð. Hann nálgast það að vera heill fermetri. Ég er eiginlega í mesta basli með að koma honum fyrir. Þarf að skáskjóta honum einhvers staðar. Annars verður hann borðaður með bestu lyst á næstu dögum geri ég ráð fyrir.

Það er annars bara eitt sem er að trufla mig. Um jólin þarf ég ekki að hafa neinar rosalegar áhyggjur af mat nema einn daginn, þ.e. annan í jólum því þá bíð ég til mín svona mínum al nánustu. Nei það er ekkert neitt rosalegt jólaboð með svona 50 manns en samt þá er hefð fyrir því að ég geri dálítið flott úr þessu. Og vandamálið er að ég er ekki enn búinn að ákveða hvurn þremilinn ég ætla að bjóða uppá. Ef svo heldu fram sem horfir þá verð ég bara að kaupa eitthvað í 10-11 á öðrum í jólum. Ég er ekki alveg viss um að það geri neina sérstaka lukku.


....

Afríkuleiðangurinn


Það er farið að styttast í Afríkuferðina. Eftir þrjá mánuði fer súrefnið að þverra!

Og komin þessi stórmerka heimasíða með tk léni: expeditionkilimanjaro.tk

Tuesday, December 21, 2004

Staðir sem fara í taugarnar á mér

Mér leiðist að láta eitthvað fara í taugarnar á mér en samt er það sumt.

Ef ég fer gangandi út í búð þá geng ég oftast framhjá Hlemmi. Hlemmur fer ekkert sérstaklega í taugarnar á mér. Auðvitað er þar svona alls konar fólk sem sumt má muna sinn fífil fegurri. Hlemmur er hins vegar bara einhvers konar samastaður fyrir fólk og biðstöð. Á móti Hlemmi er hins vegar nokkuð sem fer alveg ofboðslega í mínar taugar. Og nei, það er ekki löggustöðin heldur er það hinum megin. Nefnilega spilakassasalurinn.

Ég lofa guð fyrir að það eru yfirleitt fáir þarna inni að tapa peningunum sínum en hvílíkt þrælahald. Þarna getur fólk setið lon og don og troðið aurunum sínum í gullgerðarvélarnar og einhvern veginn á ég ekki von á að fólkið sem venur komur sínar á þennan stað ríði almennt feitum hesti frá því.

Hér áður fyrr fundust mér reyndar þessir spilakassar vera rosalega spennandi en það var reyndar aðallega áður en ég hafði aldur til að fara í þá á löglegan hátt. Þeir kassar voru líka dálítið öðruvísi þar sem maður fékk sjálfur að stýra peningnum. Núna er bara einher tölva í kössunum sem passar uppá það að maður vinni ekki of mikið í þeim. Og í gamla daga þá voru kassarnir svona einn og einn á stangli. Núna eru þetta dimmir óhugnanlegir salir þar sem kassarnir bíða í röðum og þá væntanlega alveg ofboðslega freistandi fyrir þá sem eru veikir fyrir. Á ljósaskilti utan á húsinu sést svo uppfært á hverri sekúndu hvað stóri vinningurinn sem maður verður náttúrlega að reyna að vinna er orðinn hár og hvað hann hækkar hratt. Hann er hins vegar bara að hækka út af því að einhver vesalingurinn sem lét freistast var rétt áður að tapa líklega helmingi hærri upphæð.

Þó þetta eigi að heita gott málefni þá finnst mér þetta ógeðslegt, algjör hörmung.

Annar staður sem fer í taugarnar á mér er nammibarinn í Hagkaup. Þar get ég nú yfirleitt næstum því ælt af óhugnaði. Að horfa á allt þetta nammi og fólk að graðga því ofaní innkaupakörfurnar finnst mér einhvern veginn vera sjúkt. Þetta verður einhvern veginn svo yfirgengilega mikið að það verður ógeðslegt.

En eins og skáldið sagði um húsameistarann sem tók handfylli sína af leir: "Ekki meir, ekki meir"

Sunday, December 19, 2004

Elsku Poona

Datt í bókaskápinn minn

Datt eina ferðina enn í bókaskápinn minn og las um hana elsku Poonu. Dálítið góð morðsaga en ég er líklegast farinn að slappast í að skilja svona bókmenntir.

Þeir sem ætla að lesa bókina hætti að lesa hér
Það kom reyndar fram á fyrstu blaðsíði að einhver væri alblóðugur upp fyrir haus og svona frekar morðingjalegur og aftan á bókinni stóð hver var drepinn. Ég hefði eiginlega ekki þurft að lesa neitt meira ef því hefði verið bætt við að systir líklega aðal söguhetjunnar hefði næstum drepist í bílslysi. Jú það hefði kannski mátt bæta við að annar hver maður í bókinni ætti hund og sumir þeirra væru orðnir lasburða. Það þyrfti kannski ekkert að taka þetta fram um hundana þar sem sagan gerðist í Noregi að mestu leyti.

Það var reyndar ekkert leiðinlegt að lesa bókina en söguþráðurinn var allur upp í loft ennþá þegar bókin var búin. Var það blóðuga steratröllið á rauða Golfinum sem drap hana með líkamsræktarlóðunum sínum eða var það sá sem enginn spurði á hvíta Saabinum sem drap hana í rólegheitunum með bowling kúlunni sinni?

Komst systirin sem lenti í bílslysinu einhvern tíman almennilega til lífsins eða drapst hún bara eða varð að óvita?

Það eina sem varð sæmilega ljóst var að hundur löggunar náði sér eitthvað eftir skurðaðgerðina.

Nei má ég þá frekar biðja um hann Arnald!

Saturday, December 18, 2004

Litla systir manns farin að blogga

Bloggvitleysan skyldi þó ekki liggja í ættum?

Allir að fara að skoða Skottubloggið! hennar Ralldiggnar...........

Stríðsglæpamaðurinn Bobby Fischer

Ég verð eiginlega að játa að það er langt síðan ég hef verið þokkalega sáttur við eitthað sem þeir Dóri og Davi hafa verið að bauka.

Hvort sem hann Fischer kemur hingað eða hvort hann sest hér að kemur eflaust bara í ljós en það hlýtur hver heilvitamaður að sjá að það gengur ekki að einhver maður eigi yfir höfði sér fangelsi og hinar hroðalegustu refsinar fyrir að hafa teflt nokkrar skákir fyrir meira en 10 árum!

Ég held reyndar að engin ákvörðun Dava hafi komið mér jafn mikið á óvart. Honum er greiniega ekki alls varnað.

Friday, December 17, 2004

Að vera húðlöt fitabolla

Er hálf latur. Er eins og Lati-Geir á lækjarbakka sem vildi ekki vatnið smakka af því að hann nennti því ekki.

Fór áðan í Hakaup og verslaði eitthvað sem átti sko svo sannarlega að elda og taka til hendinni. Nenni því núna engan veginn og er að hugsa um að hendast bara út á Devitos og fá eina eða tvær sneiðar og "taka með" eins og þeir segja á ítalskri íslensku. Góðar pizzur. Ég er kannski ekki jafn slappur og hann Lati-Geir enda hefði hann eflaust aldrei nennt út á Devitos.

En þetta gerir mig samt að öllum líkindum að húðlatri fitabollu.

Það kemur annars kannski ekkert til af góðu bara að ég sé þreyttur. Lenti í einhverjum undarlegustu símhringingum í nótt þar sem einhver hringdi í mig aftur og aftur og sagði bara eitthvað vo-vo-vo í símann. Ég reyndi að fá eitthvað annað uppúr þessum furðufugli og talaði við hann fleiri tungumál en ég kann að tala sjálfur en fékk ekkert aminlegt svar. Hélt annars að þetta væri einhver að hringja frá útlöndum. Aumingja hann þegar hann sér allan símreikninginn sinn.

Mér var síðan bent á miklu augljósari skýringu á þessu í morgun. Þetta hefði auðvitað verið jólasveinninn og ekki að segja vo-vo-vo heldur hó-hó-hó!!! Og það kemur reyndar allt heim og saman því þar sem ég var frekar stuttur í spuna við hann og gaf ekki mikið fyrir þessi undarlegu hróp og köll hans í símann þá varð afleiðingin sú að ég fékk ekkert í skóinn!

Klúður!

Síðan bar það annars líka til tíðinda hjá mér í dag að ég lét skerða hár á höfði mínu sem kallast með öðrum orðum klipping og úr því að það er þessi tími ársins þá telst það víst vera jólaklipping. Og í tilefni af þeim gjörningi þá prufaði ég að segtja svona sjampó í hárið á mér. Alveg ótrúlega mikið mál að þvo sér þannig um hausinn og reyndar algjör óþarfi nema kannski þegar maður lætur klippa sig. En sem sagt. Afgreiddi þá jólaklippinguna og jólabaðið [eða a.m.k. jólahárbaðið] í dag. Þetta er sem sagt allt að koma!

Wednesday, December 15, 2004

Síminn hjá netverslun ruv.is

Hvernig dettur einhverjum í hug að auglýsa netverslun í sjónvarpinu og gefa upp símanúmer? !!!

Þetta er svona svipað og 1995 þegar maður hringdi í fólk til að segja því að maður hefði sent því tölvupóst. En þá var allt önnur öld en er núna!

Það þyrfti einhver að benda þeim hjá ruv á það.


....

Mynd vikunnar og svona ýmislegt

Verslaði mér skanna í gær og núna er skannað á fullu. Þessi er svona 15 ára og ættuð frá Tékkóslóvakíu frá því ég var svona IAESTE stúdent þar að læra að drekka bjór. Hún er reyndar upphaflega slidesfilma í fullum litum en mér fannst hún mikið meira spúkí svona. Með að smella á hana og velja "alls sizes" er hægt að fá hana stærri.


The pigeon, originally uploaded by eirasi.


Ég er annars á fullu að eyða peningum í alls konar dót. Keypti mér reyndar ekki fokdýra úrið heldur eitthvað skandinavískt dót með úrverki frá kúalalúmpúr eða eitthvað með stafi fyrir sjóndapra. Fólk hefur verið að spyrja mig í óspurðum fréttum hvort ég sé farinn að sjá svona hroðalega illa. Hvort ég ætti ekki að fara í aðgerð eða kannski að fara að ganga með blindrastaf. Kannski ætti ég frekar að fá mér svona blindrahund. Gæti kannski notað hann sem varðhund líka. Veitir örugglega ekkert af á þessum síðustu og verstu tímum.

Tuesday, December 14, 2004

Í fimbulkulda ... myndir af Fimmvörðuhálsi

Í fimbulkulda þeir örkuðu
og för í fönnina mörkuðu
en þetta var svalt
alveg helvíti kalt
en af sér samt þeir hörkuðu


[Höf vill ekki láta nafns síns getið]


Myndir frá Indriða en ekki mér:


http://www.heima.is/indridi/fimm/




Sunday, December 12, 2004

Það var verið að spila nýja diskinn með Hljómum í útvarpinu

Eða að minnsta kosti eitthvað sem þeir voru að emja núna á þessu ári.

Hvernig gátu mennirnir gert eitthvað svona hallærislegt.
Þetta er eins og ég veit ekki hvað. Sumt á ekki að gera.

Gamall góður Spilverksdiskur datt í spilarann í staðinn.
Takk fyrir - ekki Hljóma dagsins í dag fyrir mig.

En. Best að fara að skafa skít og skeina þannig að maður geti farið að hengja upp einhver fóliljós. Það er kominn tími á það og rúmlega það!

Óþolandi auglýsingar límdar utan á Moggann

Ég er kannski bara orðinn gamall nöldurseggur.

En hvernig dettur Mogganum í hug að lát líma auglýsingar utan á Moggann þannig að blaðið rifnar þegar maður tekur hana af. Reyndar ekki alltaf svona mikið:

en alltaf eyðileggst greinin sem auglýsingin er límd yfir.

Ég er alvarlega að hugsa um að búa til lista yfir þessi óþolandi fyrirtæki sem auglýsa svona [sem ég ætla ekki að skipta við nema ég neyðist til] og síðan þegar ég er kominn með glæpsamlega langan lista þá get ég síðan sagt Mogganum upp.

MOGGI: SKAMMASTU ÞÍN. SVONA LANGT GENGUR MAÐUR EKKI Í AÐ ÞJÓNA AUGLÝSENDUM Í STAÐINN FYRIR AÐ ÞJÓNA ÁSKRIFENDUM.

ÞEIR SEM GEFA BLAÐIÐ SITT GÆTU GERT ÞETTA EN EKKI ÞEIR SEM SELJA ÞAÐ!


Fimmvörðuháls í desember

Þetta var algjört dúndur.

Þeir sem arka Fimmvörðuháls í desmber af öllum mánuðum geta ekki verið normal. Það sagði að minnst kosti einhver við Árna þegar hann var eitthvað að hringja þegar við vorum að næra okkur við Fúkka.

Þurfti að drattast á lappir klukkan fimm um miðja nótt. Rétt eins og maður væri á leið til útlanda og þyrfti að komast í flug. En nei það var ekki. Nú skyldi bara stormað á Fimmvörðuháls. Brottför frá Rauðavatni var klukkan 6. Bara nokkuð stundvíslega.

Við Skóga öxluðu dvergarnir sjö bakpoka sína og örkuðu af stað í niðamyrkri en undir stjörnubjörtum himni. Staðstirnið út við sjóndeildarhring reyndist hvorki vera ljós á jörðu niðri, þyrla, tungl eða fljúgandi furðuhlutur heldur saklaus dagróðabátur.

Fljótlega vorum við komnir í snjó og byrjuðum að sjá eftir að vera ekki á skíðum. Færið þyngdist eftir því sem á leið og frostið herti. Mínum var orðið skítkalt á tánum og næstum hættur að geta talað fyrir frosnum talfærum.

En útsýnið og veðrið maður! Það var algjörlega magnað. Að sjá sólina koma upp hægt og rólega og hvernig birtan kom fyrst blá síðan rauð og gul og allt í einu var kominn dagur sem stóð ekki yfir nema í augnablik því það fór að dimma jafn skjótt og það hætti að birta. Ég var bara með gamla filmumyndavél þannig að ég veit ekki hvað eða hvenær eitthvað af því kemur á netið en aðrir voru með digital dót sumir hverjir. Ég dauðsá auðvitað eftir að hafa ekki tekið stóru digitalvélina með en var í aðra röndina feginn.

Færið varð fljótlega þungt og þetta varð erfiðara. Það varð nokkuð ljóst að við myndum varla ná allir niður í Bása milli fjögur og fimm eins og gert hafði verið ráð fyrir en þangað ætlaði Óli nokkur Halldórs að sækja hópinn á nýja fína Krúsernum sínum. En hann ætlaði síðan að vera mættur uppstrílaður í jólahlaðborð klukkan átta og því nokkuð tímabundinn.

Fúkki var harðfrosinn og þrátt fyrir nokkrar tilraunir með ísaxir var ekki nokkur leið að komast inn í fúkkafýluna þar. Það var ágætt en reyndar fannst tánum á mér það skítt.

Við ákváðum að skipta liði þannig að einhverjir myndu ná niður í Bása í tíma og fór ég í undanfaraflokknum. Þeir sem voru orðnir haltir og skakkir áttu þá að geta komið í humátt á eftir okkur.

Nú. Okkur hraðferðalöngum gekk aðeins að komast áfram en ekki betur en svo að seinagengið náði okkur við Bröttufönn. Komum því saman í einum hóp niður í Bása eftir að hafa fundið færar leiðir um Kattarhryggi og annað brattlendi.

En mikið skelfing varð maður þreyttur og slæptur eftir þetta. Annað hvort er allt form manns endanlega farið út í buskann eða þá að Fimmvörðuháls í desember í snjó sem nær manni í hné er ekki það sama og Fimmvörðuháls um mitt sumar jafnvel þó það geti rignt og blásið þá allhressilega.

Reyndar hallast ég frekar að því að þetta hafi verið aðstæðurnar sem gerðu þetta erfiðara. En í öllu falli. Algjörlega frábær túr og góð æfing fyrir Kilimanjaró!

Friday, December 10, 2004

Fallaferð á morgun

Þarf að vera farinn út úr bænum klukkan sex og þarf þá líklegast að vakna klukkan fimm. Þetta er brjááááálað lið greinilega sem ég er að fara með. Nóg um það í bili. Best að hundskast í rúmið og reyna að sofna á sitt græna.

hrot-hrot zzzzzzzzzzzzzzz

Thursday, December 09, 2004

Að vera meira utan við sig en góðu hófi gegnir

Ég held að ég hafi fæðst viðutan og með árunum hefur það ekki batnað. Núna í kvöld setti ég persónulegt viðutanmet sem gæti verið Íslandsmet. Og þó - sagan af Halldóri I. Elíassyni stærðfræðiprófessor sem skildi bílinn sinn eftir á Akureyri er íslensk og eflaust sönn. Að minnsta kosti var hann einu sini búinn að kenna stærðfræðigreiningu 4 í hálftíma þegar hann áttaði sig á að nemendurnir voru bara í stærðfræðigreiningu 3. En núna er það sem sagt ég sem var að setja persónulegt met.

Ég fór í worldclass í kvöld. Þið vitið, félagsmiðstöð fólksins sem er annað hvort of feitt eða slappt eða heldur að það sé það eða vill ekki verða það. Var að dunda mér við að fara úr öllum fötunum og fara í stuttbuxur og hlaupaskó. Sú einfalda athöfn tík mig reyndar korter þar sem ég þurfti að velta vöngum yfir öllu mögulegu. Sem auðvitað varð til þess að ég varð verulega vankaður. Nú, allt í einu ákvað ég að hætta að velta vöngum og snarast frekar upp til að sprikla. Sem betur fer var ég kominn í stuttbuxurnar því annars hefði ég eflaust farið berrassaðu á hlaupabrettið - ég gerði svoleis í utanviðmennsku minni reyndar í sundi fyrir mjögmargtlöngu. En ég sem sagt snaraðist á fætur. Henti dótatöskunni minni upp á skáp númer 81 og smellti svo lásnum á hann og ætlaði að snarast fram.

Heyrði ég þá einhverja skelfingarfulla rödd við hliðina á mér segja:

"Þetta er skápurinn minn"

Ég horfði skilningsvana á manninn eða strákinn reyndar og fór að furða mig á því hvað hann væri að skipta sér af því hvaða skáp ég væri að nota. Fór að hugsa um hvort þetta væri einn af þessum ótrúlegu sérviskupúkum úr sundlaugunum sem "eiga" einhverja skápa í búningsklefanum.

Þar sem ég horfði gjörsamlega skilningslaus á hann þá endurtók hann:

"Þú varst að læsa skápnum með fötunum mínum"

Og þá fattaði minn.

Skápurinn með fötunum mínum var nefnilega þar þar þar þar næsti skápur eða svo.

Jamm ég er liltu skárri en Halldór Elíasson!



....

Wednesday, December 08, 2004

Þegar mar nennir ekki að gera það sem maður á að vera að gera

Þá er rosalega snjallt að taka svona próf á interentinu til að komast að hvers konar jólajeppi maður er.

Og ég er með rautt nef, no suprise for anyone!

mlml
Well, hello to you, Rudolph! You are the funny,
crazy reindeer. Although you can be seen as
strong in certain cases, you clearly like to be
the joker and/or prankster. It would be funny
to get bogus gifts for people just to see their
reaction. People may either find you humorous
or annoying. Perhaps even weird. That could be
good for you. Anyway, Merry Christmas =)


What Christmas Figure Are You?
brought to you by Quizilla

Tuesday, December 07, 2004

Einu sinni


that horse, originally uploaded by eirasi.

Einu sinni, einu sinni
átti ég hest, átti ég hest
ofurlítinn, ofurlítinn
rauðan, rauðan

Sunday, December 05, 2004

Áhugi Íslendinga á að vinna við byggingu álvers á Reyðarfirði takmarkaður

Verktakinn leitar til Póllands til að fá starfsmenn til að vinna við byggingu álversins á Reyðarfirði. Viðbrögð við auglýsingu sem var birt fyrir nokkrum vikum mjög lítil.

Einhvern veginn er ég ekkert hissa. Við hverju bjuggust menn eiginlega?
Til hvers er þetta álver eiginlega?

Einhvern veginn hef ég heyrt þetta áður og þá þegar verið var að fá fólk til að byggja þessa virkjun sem býr til rafmagnið fyrir þetta álver.

Já það var greinilega þörf á þessari atvinnuuppyggingu þarna fyrir austan.

Fór í dótabúð og eldaði kjúkling

Þetta tvennt tengist reyndar ekki nema óbeint.

En dótabúð er auðvitað búð sem selur útivistardót. Helst eitthvað rosalega dýrt. Það er nefnilega búið að skýra það út fyrir mér að maður þurfi eitthvað af dóti til að komast upp á Kilimanjaro fjallið. Í gærkvöldi dró ég brójann með mér (hann var reyndar ekki mjög þungur í drætti) í 66°N þar sem við versluðum okkur hnausþykkar dúnúlpur. Mig vantar annars almennt ekki mikið af búnaði fyrir þessa ferð. Það eru helst regnbrækurnar mínar frá Cintamani (eða hlíðarbuxurnar svo ég noti virðulegra orð) sem þarfnast einhverrar endurnýjunar því þrátt fyrir að þær buxur eigi að vera hinar bestu í heimi þá mígleka þær hjá mér. Annar læddist einhvern tíman að mér sá grunur að sólarljós hafi skemmilagt þær en geymslan á þeim hjá mér er ekki alveg til fyrirmyndar. En ef ekki þá eru þær bara drasl. En í öllu falli. Núna á ég hnausþykka fagurbláa dúnúlpu í stærð XL.

Þeir í 66°N eru annars ágætir. Buðu okkur herjarinnar afslátt af öllu sem við vildum kaupa af þeim fyrir ferðina. Enda varð afslátturinn að vera mjög ríflegur þar sem þeir voru á sama tíma að auglýsa 20% afslátt á öllu flísdóti í búðinni fram að jólum! Afslátturinn sem við stórkaupendur fáum er ekki mikið meiri en það (en sumir eru að kaupa dót fyrir einhverja hundraðþúsundkalla sýnist mér vegna ferðarinnar, þannig að það er eftir einhverju að slægjast hjá þeim sem reka dótabúðirnar).

Nú til að halda uppá úlpurnar þá bauð ég brójanum upp á kjúkling. Hann kjúllin sko) varð auðvitað ógisslega góður fyrir utan að brójinn kvartaði yfir kjúllinn sjálfur hefði verið skorinn hvílíkt við nögl að þetta hefði nú bara verið grænmetisréttur -- Þetta var þá bara góður grænmetisréttur hjá mér.

Núna um helgina stóð síðan til að fara á Fimmvörðuháls til undirbúnings Kilimanjaró ferðinni en það var blásið af fram að næstu helgi vegna óhagstæðrar veðurspár. Reyndar varð veðrið ekkert svo voðalegt en ég er samt hálf feginn að hafa ekki farið núna. Búinn að vera þreyttur um helgina og kvefið ekki farið alveg úr mér ennþá. Og veðrið hefði í raun alltaf verið skítaveður þó það hafi kannski ekki orðið neitt mannskaðaveður úr þessu.

Verð annars að fara að haska mér út að hlaupa eða eitthvað. Maður æfist ekki mikið fyrir Kilimanjaró gönguferð liggjandi uppi í rúmi með tölvuna á bumbunni, nartandi í mandarínur og súkkulaði. Ja fyrir utan það að ég lenti í raunverulegum lífsháska þegar ég fékk mér mandarínuna. Fór í ískápinn í mínu mesta sakleysi en hann býr yfir trékassa fullum af mandarínum - eða svona hálffullum núna. Var þá ekki ein mandarínan kominin í stríðsbúning. Búin að gera sig græna og alla frekar mjög krumpaða í framan. Yggldi sig á mig og gaf mér skelk í bringu. Ég vígbjóst hið snarasta og var kominn með gaffal að vopni og réðist til atlögu við hana. Náðist megnið af henni af botni kassans í annarri eða þriðju atrennu. Var verkið svo fullkomnað með sápu, uppþvottabursta og sjóiðheitu vatni en án þess hefðu leifar þeirrar grænu ekki náðst úr mandarínu kassanum.

En best að fara að koma sér á lappir. Þarf að vinna smá, finna eldhúsið aftur eftir átökin við kjúklinginn í gær og mandarínuna núna áðan. Síðan var ég að fatta að það er kominn desember og líklega á maður að fara að hengja upp einhver jólaljós.

Mynd vikunnar er af vita


Lighthouse, originally uploaded by eirasi.


Er ekki búinn að setja neina mynd inn í há herjarins tíð. Þ.e. einhverja svona sem mér finnst flott eða þannig. Þessi er kannski ekkert flott en hún er að minnsta kosti af vita.

Friday, December 03, 2004

Lostæti

Sumar myndir eru þannig að það er hægt að horfa á þær aftur og aftur og það er alltaf gaman.

Núna er verið að sýna Delicatessen og ég hef ekki grænan grun um hvað ég hef séð hana oft. Einhvern tíman í bíó og síðan einhvern tíman í sjónvarpinu. Hvað oft? Ekki spurja mig.

Og hún er ennþá jafn útópísk og hún hefur alltaf verið.

Ég ætlaði annars í heví fjallaferð um helgina en lét hana frestast út af væntanlegri stórhríð uppi á Fimmvörðuhálsi.