Thursday, September 16, 2004

Það var hryllingsmynd í Kastnjósninu áðan


Það var einhver voðaleg kona þarna sem vildi fara að breyta flugvellinum í einhverja voðalega úthverfabyggð. Ég man ekki hvar ég hef séð svona. Einhvers staðar í mislukkuðum hverfum í Reykjavík, sum hver meira að segja miðsvæðis. Eiga það reyndar flest sameiginlegt að það er hægt að fá yfir 100 fermetra íbúð þar fyrir minna en 13 millur án þess að vera niðurgrafinn kjallari. Síðan man ég líka að ég hef séð fullt af þessu blokkardóti í Austur-Evrópu. Undarlegt að skipulagsfræðin hafi verið fundin upp þar. Eða að minnsta kosti eru flestir íslenskir skipulagsfræðingar menntaðir þar eða þá þeir hafa einhvern veginn heillast af því sköpulagi sem ríkir þar.

Ég veit annars ekki hvort þetta var meira eins og hryllingsmynd eða martröð að horfa á þetta. Egill Helgason var þarna og reyndi eitthvað að malda í móinn og einhver skipulagsverkfræðingur. En nei. Það var sama hvað konan þarna hún Helga Braga skipulagsfræðingur. Alltaf tókst henni bara að fara að tala um eitthvað annað en hún var spurð um og alltaf voru þessar blokkir eins ljótar og hægt er að hugsa sér.

Nei ég held að af tvennu illu þá sé nú bara betra að hafa flugvöllinn þarna en að búa til svona eins og eitt Breiðholtshverfi þarna. Breiðholtið er reyndar ágætt. Ég bjó þar alveg voðalega lengi (þeir sem þekka mig vita hvað ég meina með "voðalega lengi").

No comments: