Jón Steinar rokkar!
Verð að blogga eitthvað þar sem ég sé á teljaranum mínum að fastagesirnir eru búnir að koma sumir 10 sinnum og fá bara ekkert að sjá.
Mjá, mér líst alveg sérlega vel á þennan nýja hæstaréttardómara okkar. Og þá til dæmis fyrir það hvað hann er greiðvikinn. Það voru víst einhverjir að vandræðast fyrir framan skrifstofuna hans og þurftu að komast í tölvu. Hann lánaði þeim þá bara tölvuna sína og var ekkert sérstaklega að skoða hvað þeir voru að gera við hana. Kannski eins gott því honum hefði örugglega þótt óþægilegt að vita að þeir voru að búa til undirskriftalista fyrir stuðningsmenn hans. Eða einhvern veginn þannig skilst mér að það eigi að hafa gerst að stórundarlegur undirskriftalisti til stuðnings honum hafi komið úr tölvu hans sjálfs. Mér dettur auðvitað ekki í hug að bera það á hæstaréttardómara en ef þetta er skýringin þá hefði ég nú einhvern tíman sagt að menn ættu að reyna að ljúga líklegar. Að minsta kosti svo meðalgreindur maður hafi undan að trúa.
Síðan finnst mér að hann beri líka af öllum öðrum mönnum fyrir innsæi því ég held að engum öðrum hafi dottið það í hug að nákvæmlega núna væri snjallt fyrir lögmenn með mikla málaflutningsreynslu að sækja um þar sem slík reynsla myndi nákvæmlega núna hafa úrslitaþýðingu um hver fengi embættið og hver ekki. Alveg eins og sá sem fékk stöðu við hæstarétt síðast var snjall að sækja um nákvæmlega þegar þekking á Evrópurétti hafði mest að segja. Já það er þetta með að búa til líklegar skýringar. Er einhvern veginn sumum betur gefið en öðrum.
Fyrir ekki löngu síðan stóð ég reyndar sjálfur að því að ráða manneskju í vinnu og ég verð eiginlega að játa að ég stóð ekki alveg jafn faglega að því ráðnigarferli og Björn, Geir eða hver það var eiginlega sem réði þessu. Ég reyndi af einhverjum undarlegum ástæðum að lýsa sem best þeim eiginleikum sem ég sóttist eftir. Enda fékk ég það allt í hausinn aftur. Það kom heill hópur af mjög frambærilegum umsækjendum og þetta varð hið mesta basl að taka ákvörðun. Sem reyndar tókst og var mjög góð held ég. En það er önnur saga.
Það sem var samt kannski merkilegast við þetta allt saman var þegar vor hæstvirtur forsætisráðherra (sem heitir ekki lengur Davíð) lét hafa eftir sér í einhverju viðtali að hann hefði viljað sjá lögspekinginn úr HÍ fá embættið frekar en verjanda ríkisstjórnarinnar. Dálítið undarlegt allt saman. Ég held að það séu að minnsta kosti 13 ár síðan ég sá forsætisráðherra vorn segja að eitthvað hafi verið gert sem hann hafi ekki verið alveg sáttur við og hann hafi ekki fengið að ráða því að hafa það á þann veg sem hann vildi sjálfur. Jú, það er eitthvað að breytast eða kannski var einmitt ekkert að breytast.
Þetta kemur mér bara svona fyrir sjónir það litla sem ég hef fylgst með þessu. Er líklega allt saman bara einhver rangur misskilngur hjá mér. Og svo sem ekki við því að búast að mikil speki leki úr mínum puttum í gegnum lyklaborðið þar sem ég er enn hálflasinn með helli fyrir eyrunum, verk í gagnauganu og hef af og til fundist ég vera að heyra einhverjar dularfullar raddir í gegnum helluna.
No comments:
Post a Comment