Thursday, September 30, 2004

Stjórnkænska forsætisrðaherrans


Ég skelfist dálítið stjórnkænsku forsætisráðherrans okkar nýkrýnda.

Ég hef reyndar yfirleitt ekki verið neinn aðdáandi þess brottræka Kristins M Gunnarssonar en fyrr má nú rota en dauðrota. Ég er svona að velta fyrir mér hvort hann var rekinn frá kjóli og kalli frekar til að skapa samheldni í Framsóknarflokknum eða til að gera flokkinn sterkari út á við og afla þá atkvæða.

Einhvern veginn þá get ég ekki ímyndað mér að þessi ákvrörðun þeirra verði til góðs á nokkurn skapaðan hátt nema kannski fyrir þá sem eru á móti framsókninni blessaðri.

Ég get ekki sagt að mér finnist þetta lofa góðu fyrir einn né neinn.


....

Jón Steinar rokkar!


Verð að blogga eitthvað þar sem ég sé á teljaranum mínum að fastagesirnir eru búnir að koma sumir 10 sinnum og fá bara ekkert að sjá.

Mjá, mér líst alveg sérlega vel á þennan nýja hæstaréttardómara okkar. Og þá til dæmis fyrir það hvað hann er greiðvikinn. Það voru víst einhverjir að vandræðast fyrir framan skrifstofuna hans og þurftu að komast í tölvu. Hann lánaði þeim þá bara tölvuna sína og var ekkert sérstaklega að skoða hvað þeir voru að gera við hana. Kannski eins gott því honum hefði örugglega þótt óþægilegt að vita að þeir voru að búa til undirskriftalista fyrir stuðningsmenn hans. Eða einhvern veginn þannig skilst mér að það eigi að hafa gerst að stórundarlegur undirskriftalisti til stuðnings honum hafi komið úr tölvu hans sjálfs. Mér dettur auðvitað ekki í hug að bera það á hæstaréttardómara en ef þetta er skýringin þá hefði ég nú einhvern tíman sagt að menn ættu að reyna að ljúga líklegar. Að minsta kosti svo meðalgreindur maður hafi undan að trúa.

Síðan finnst mér að hann beri líka af öllum öðrum mönnum fyrir innsæi því ég held að engum öðrum hafi dottið það í hug að nákvæmlega núna væri snjallt fyrir lögmenn með mikla málaflutningsreynslu að sækja um þar sem slík reynsla myndi nákvæmlega núna hafa úrslitaþýðingu um hver fengi embættið og hver ekki. Alveg eins og sá sem fékk stöðu við hæstarétt síðast var snjall að sækja um nákvæmlega þegar þekking á Evrópurétti hafði mest að segja. Já það er þetta með að búa til líklegar skýringar. Er einhvern veginn sumum betur gefið en öðrum.

Fyrir ekki löngu síðan stóð ég reyndar sjálfur að því að ráða manneskju í vinnu og ég verð eiginlega að játa að ég stóð ekki alveg jafn faglega að því ráðnigarferli og Björn, Geir eða hver það var eiginlega sem réði þessu. Ég reyndi af einhverjum undarlegum ástæðum að lýsa sem best þeim eiginleikum sem ég sóttist eftir. Enda fékk ég það allt í hausinn aftur. Það kom heill hópur af mjög frambærilegum umsækjendum og þetta varð hið mesta basl að taka ákvörðun. Sem reyndar tókst og var mjög góð held ég. En það er önnur saga.

Það sem var samt kannski merkilegast við þetta allt saman var þegar vor hæstvirtur forsætisráðherra (sem heitir ekki lengur Davíð) lét hafa eftir sér í einhverju viðtali að hann hefði viljað sjá lögspekinginn úr HÍ fá embættið frekar en verjanda ríkisstjórnarinnar. Dálítið undarlegt allt saman. Ég held að það séu að minnsta kosti 13 ár síðan ég sá forsætisráðherra vorn segja að eitthvað hafi verið gert sem hann hafi ekki verið alveg sáttur við og hann hafi ekki fengið að ráða því að hafa það á þann veg sem hann vildi sjálfur. Jú, það er eitthvað að breytast eða kannski var einmitt ekkert að breytast.


Þetta kemur mér bara svona fyrir sjónir það litla sem ég hef fylgst með þessu. Er líklega allt saman bara einhver rangur misskilngur hjá mér. Og svo sem ekki við því að búast að mikil speki leki úr mínum puttum í gegnum lyklaborðið þar sem ég er enn hálflasinn með helli fyrir eyrunum, verk í gagnauganu og hef af og til fundist ég vera að heyra einhverjar dularfullar raddir í gegnum helluna.

Sunday, September 26, 2004

Að vera heima veikur


Nei það er sko enginn leikur. Er með kvef og vesöld og þarf að klára þennan pakka núna um helgina því ég má alls ekkert vera að því að vera veikur inni í miðri viku. Nei takk, það er sko ekki fyrir mig. Að minnsta kosti ekki núna.

Þetta er síðan ekkert grín. Það er eitthvað ógisslegt í hálsinum á mér sem þarf að hóstast upp af og til. Síðan kemur einhver stórundarlegur stingur áf og til inn í hægra eyrað á mér og ég á það til að vakna upp um miðja nótt og geta varla kyngt eigin munnvatni fyrir undarlegum verk í hálsinum. Nei þetta er ekki auðvelt líf. Síðan á öll beinagrindin innan í mér það til að þykjast vera orðin helaum þó hún hafi varla þurft að hreyfa mig í marga daga.

Síðan kemur mamma manns reglulega til manns í hlutverki grasalæknis og leggur til alls konar undarlegar lyfjablöndur. Núna er ég til dlæmis að sötra te með Própólis. Er nýbúinn að fá mér einhverja dularfulla fjallagrasablöndu og á síðan að troða í mig einhverju fjallagrasaópali daginn út og daginn inn. Annars hef ég reynslyu af þessu. Þetta virkar ekkert illa því á endnanum þá batnar manni af þessu. Eða að minnsta kosti þá batnar manni.

Þarf síðan að vera að undirbúa námskeið sem ég þarf að halda á morgun í Endurmenntun og eitthvað fundafargan líka. Aldrei friður, ekki einu sinni til að vera veikur. Það versta er síðan að ég eiginlega í öngum mínum því ég talaði digurbarkalega fyrir helgina um að ég myndi mæta á mánudagsmorgninum með sunnudagskrossgátuna hennar Ásídar leysta. Ég er búinn að rembast eins og rjúpa við staur og árangurinn ekki sérlega mikill. Samt komin nokkur orð en einhvern veginn held ég að ég verði mér til athlægis ef mér tekst ekki að gera eitthvað meira. Veit annars einhver hvaða ellefu stafa orð getur táknað að "Fá til baka slægjulands forboð á drykkjum"? eða hvaða sjö stafa orð getur táknað milluna í bakvörninni. Nei ég bara spyr. Annars er ég bara nokkuð góður með að hafa fattað að "ögurstund" sé líklegast "60 mínútur í Ögri sem eru úrslitastund". Síðan fæddist þessi manneskja á sama degi og ég. Hún hlær sig í hel ef ég get ekki meira í þessu.

Annars var mér bjótt í læri til Mö og Pa. Ætti kannski að taka krossgátuóbermið með mér og leita í völundarhús heila ættingjanna.

Friday, September 24, 2004

Sumar vikur eru bara erfiðari en aðrar


Búið að vera allt of mikið að gera alla þessa viku á öllum vígstöðvum. Hef ekki einu sinni komist til að blogga hvað þá meira. Endaði vikna meira að segja á þvi að fá lumbru í hálsinn á mér. Og annríkið auðvitað kemur í veg fyrir að ég hafi leyfi mér að legjast með tærnar upp í loft.

Hjálpaði annars Ralldiggni að flytja í vikunni og það ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Fyrst eitthvað aukadót til pa og mö og svo það sem eftir var til Kristján þar sem hún æltar bara að fara að búa, já svona í alvöru og allt. Það geta náttúrlega ekki allir gengið lausir endalaust eins og sumir. En til hamingju með þetta bæði!

En sit núna heima yfir sjónvarpi og blogginu mínu með kvef og vesöld og vildi ekki fórna heilsunni fyrir djammið með vinnufélögunum. Má eiginlega alls ekki við því að vera veikur í næstu viku þannig að ég var bara heima að elda mér mat. Er annars stundum að velta því fyrir mér hvort það sé ekki hámark sjálfselskunnar ef maður er kominn með matarást á sjálfum sér. Ég óttast næstum að ég sé kominn með sjálfsmatarást. Í kvöld var eldaður kjúlli:


Slatti af kjúklingabitum með roðiinu á.

Kryddaðir með arabísku kjúklingakryddi frá Pottagöldrum og steiktir á pönnu í ólívuolíu.

Kriddað meira með paprikukryddi og Kreólakryddi.

Steiktir sveppir með.
Líka paprika.
Ristaðar furuhnetur, kasjúhnetur og einhverjar aðrar hnetur og settar út á.

Hvítlaukurinn góði líka. Obbosslega hollur, þarf að borða meira af honum úr því ég er svona sklappur.

Tutti frutti ávextir settir úr á: Apríkósur, sveskjur, rúsínur og eitthvað fleira.

Kjúklingasoð svona smá sett út á (nei reyndar bara teningur)

Soyasósu skvett á.

Cumin sett út á. Svona aðeins í lófann eins og ég mæli krydd þegar ég er að drullumalla af fingrum fram.

Já og svo bara látið malla í svona 20-30 mín á meðan salmonellan drepst örugglega í kjúllanum.

Á meðan brenndi ég svo hrísgrjón


Já er það furða að mar hafi matarást á sjálfum sér. Átti meira að segja einhverja opna hvítvínsflösku í ískápnum sem gerði þetta enn betra.

Sunday, September 19, 2004

Kominn heim alveg úppgefinn...


... eftur rollurekstur helgarinnar.

Þetta voru annars að mestu leyti fastir liðir eins og venjulega. Rollurekstur og hestamennska. Viskídrykkja og lambalærisát. Réttir og kjötsúpa.

Ég var annars að átta mig á því að ég er búinn að fara í göngur á hverju ári síðustu 8 árin við Stykkishólm og ætti því að vera farinn að kallast sæmilega vanur. Fór reyndar ekki sömu leið og venjulega og lenti í hálfgerðu basli með þetta allt saman því tímasetningar fóru eitthvað handaskolum hjá okkur. En þetta náðist nú allt saman.

Eins og venjulega voru hátíðlegar heitstrengingar um að skella sér á réttarball, heitstrengingar sem gufuðu upp þegar fór að nálgast ballið. Var síðan óvenjumikið á hestbaki að þessu sinni. Fékk alvöru hross og reið fram og til baka. Reyndar tókst ekki betur til en svo að þegar ég kom a mínum fráa fáki í réttirnar þá var eiginlega búið að rétta. Fékk samt að draga alveg heila kind í dilkinn og að auki eina á milli dilka. Jamm, bara ágætt það.

Og ekki nóg með að ég hafi riðið fram og til baka, þá var sett upp reiðnámskeið fyrir mig á staðnum og var útskrifaður með 8,3. Já gott að hafa Lalla Hannesar sem einkakennara!


....

Friday, September 17, 2004

Allt að verða klárt í göngur


Flókið mál að pakka niður fyrir göngur með stóru ge-i. En mar er sem sagt að fara um helgina upp um fjöll og firnindi til að elta rolluskjátur. Og niðurpakkning fyrir slíka helgi er með því al flóknasta sem hægt er að hugsa sér. Það þarf að taka með alvöru göngugalla til að smala í, það þarf ballhæf föt ef mar verður dreginn á réttarball og svo þarf eitthvað að vera til að vera í daginn eftir í réttunum og síðan þess utan þarf mar að vera í einhverju. Það er sem sagt búið að pakka hálfum fataskápnum niður.

En þetta verður örglega mikið stuð allt saman. Og reyndar er ég með dagsskipun um að finna tvö vænleg fjallalömb þarna alveg sérstaklega og draga heim til pa og mö.

En það er best að fara að koma sér af stað.

Ætti ég annars að þora að taka munnhörpuna mína með. Veitki. Þori ekki enn að spila á hana þegar ég veit að einhver heyrir. Ja nema kannkski svona meira skelt mér. hjmm....


....

Thursday, September 16, 2004

Mér er orðið íllt í maganum


En ég veit ekki meira hvort það er út af því að í dag er ég búinn að:


- Úða í mig fitugri raspsteik hjá Tobba í mötuneytinu
- Dekka meira en einn líter af kóki og heilan pilsner að auk
- Búinn að sulla í mig vikuskammti venjulegs fólks af kaffi
- Búinn að malla mér einhvern dularfullan brauðskorpurétt með skinku, sveppum og fleiru
- Búinn að úða í mig heilum poka af fitandi hnetum
- Og er rétt í þessu að úða í mig marglitum kúlum sem á stendur "m"


Ég ætti líklega að hafa áhyggjur af þessu sem og ég hef.

Það breytir því samt ekki að á laugardaginn þarf ég að vera sprækari en lækur og æða um fjöll og fyrnindi eltanti rolluskjátur fram og til baka. Það verður gaman.

Annars var þessi bloggfærsla aðallega gerð út af því að ég sá hvað geðveikt margir voru búnir að skoða bloggið mitt í dag og ég vildi eiginlega bæta nokkrum við. Já, reyndar bara geðveikt margir miðað við það hvað þetta eru yfirleitt geðveikt fáir.

Já svo fékk ég líka samkeppni í dag þegar ég komst að því að Ægir er orðinn ofurbloggari.

Það var hryllingsmynd í Kastnjósninu áðan


Það var einhver voðaleg kona þarna sem vildi fara að breyta flugvellinum í einhverja voðalega úthverfabyggð. Ég man ekki hvar ég hef séð svona. Einhvers staðar í mislukkuðum hverfum í Reykjavík, sum hver meira að segja miðsvæðis. Eiga það reyndar flest sameiginlegt að það er hægt að fá yfir 100 fermetra íbúð þar fyrir minna en 13 millur án þess að vera niðurgrafinn kjallari. Síðan man ég líka að ég hef séð fullt af þessu blokkardóti í Austur-Evrópu. Undarlegt að skipulagsfræðin hafi verið fundin upp þar. Eða að minnsta kosti eru flestir íslenskir skipulagsfræðingar menntaðir þar eða þá þeir hafa einhvern veginn heillast af því sköpulagi sem ríkir þar.

Ég veit annars ekki hvort þetta var meira eins og hryllingsmynd eða martröð að horfa á þetta. Egill Helgason var þarna og reyndi eitthvað að malda í móinn og einhver skipulagsverkfræðingur. En nei. Það var sama hvað konan þarna hún Helga Braga skipulagsfræðingur. Alltaf tókst henni bara að fara að tala um eitthvað annað en hún var spurð um og alltaf voru þessar blokkir eins ljótar og hægt er að hugsa sér.

Nei ég held að af tvennu illu þá sé nú bara betra að hafa flugvöllinn þarna en að búa til svona eins og eitt Breiðholtshverfi þarna. Breiðholtið er reyndar ágætt. Ég bjó þar alveg voðalega lengi (þeir sem þekka mig vita hvað ég meina með "voðalega lengi").

Nýi umhverfisráðherrann fer vel af stað


Já hún fer vel af stað. Ætlar að halda því góða starfi sem ríkisstjórnin hefur ástundað í umhverfismálum síðustu ár og hún er sérstaklega ánægð með þá samstöðu sem þó náðist varðandi virkjunina við Kárahnúka. Síðan ætlar hún að halda áfram að friða snjóinn uppi á Vatnajökli út af því að það hefur engum dottið í hug hvernig sé hægt að virkja hann eða græða pening á honum á annan hátt með að eyðileggja hann. Síðan auðvitað ef einhver sér leið til að skemma hann og útvega einhverjum (helst útlendingum) einhverja aura í staðinn þá verður væntanlega hægt að breyta skilgreiningunni á þessum þjóðgarði.

Ojamm

Annars ætti ég nú ekki að segja mikið. Ég hef nefnilega nokkrum sinnum tjaldað í leygisleysi og banni í þessum þjóðgarði. Það má nefnilega ekki enda er ég ekki í réttu klíkunni!


....
En hjálp núna verð ég að stilla úbarpið á eitthvað annað. Hljómar eru farnir að emja á nýja hryllingsdisknum. Hvernig gátu þeir eiginlega gert sjálfum sér og þjóðinni þetta?!

Tuesday, September 14, 2004

Það er líklegast að koma haust!


Bara spruning hvenær það verður fyrsti dagur í sköfu í neðri byggðum Reykjavíkur. Hef verið að heyra mergjaðar sköfusögur úr fjalllendi höfuðborgarinnar. Ég sjálfur slapp með skrekkinn núna í morgun og gærmorgun. Rúðuþurrkur eða öðru nafni vinnukonur og rúðuvökvi öðru nafni rúðupiss dugði. Undarleg orðnotkun þetta. Vinnukonur og piss. Ætli það hafi einhvern tíman fylgt lifandi vinnukona með hverjum bíl sem sat uppi á húddinu tilbúin að þurrka af rúðunni í hvert skipti sem kusk settist á hana. Nei ætli það.


....

Sunday, September 12, 2004

Göngutúr á dag kemur skapinu í lag


Fór dúndurfínan göngutúr í fríðu föruneyti Skýrr starfsmanna frá Þingvöllum (Ölfusvatni) yfir til Hveragerðis. Höfðum ætlað að fá okkur sundsprett í Klambragili en fararstjórinn hafði alveg óvart strikað leiðina niður Rangadal í staðinn fyrir Réttadal og því fór sem fór. Við fengum svo pizzur frá Hveragerði í lokin á meðan leiðsögumaðurinn var að villast í hesthúsunum. En það var allt í lagi því við geymdum alveg eina og hálfa sneið með gráðaosti handa honum. Og honum finnst gráðostur bestur.

Saturday, September 11, 2004

Undarlegir nágrannar


Lenti í undarlegu máli í dag þegar undarleg nágrannakona sigaði á mig lögreglu. Gerist ekki á hverjum degi að einvher hringir á lögreglu út af mér. Held jafnvel að þetta hafi ekki gerst áður.

Það var einhver leki út frá bilaðri leiðslu sem fór svona ofboðslega í taugarnar á gammali konu sem býr aðeins neðar í götunni. Hún hringdi fyrst í mig svona aðeins gröm til að láta mig vita af leka. Hringdi síðan 10 mínútum seinna og kallaði þá til lögreglu úr því að ekki var búið að bæta úr þessu.

Nei sumir eiga bágt held ég.

Ég og kona (ekki sko þessi sem hringdi á lögguna heldur allt önnur kona sem á ekki jafn bágt) úr húsinu við hliðina sem er búin að vera í sambandi við iðnaðarmann til að gera við lekann vorum eiginlega hálfpartinn kyrrsett til að bíða eftir að löggan kæmi til að skakka leikinn í þessu alvarlega máli. Eins og vænta mátti þá leit löggan ekki á þetta sem forgangsmál hjá sér og máttum við bíða lengi lengi. Ég hætti reyndar fljótlega að bíða og fór í matarboð upp í Breiðholt. Veit reyndar ekki enn hvort löggan kom. Skiptir mig enda litlu máli þar sem ég get ekki ímyndað mér að hún myndi gera annað en róa kvörtunarkonuna aðeins.

Það sem hefði nú verið alfáránlegast við þetta er ef ég hefði náð að brenna ofan af mér út af þessu. Því þegar konan sagðist mundu hringja á lögregluna þá brá mér svo mikið að ég strunsaði út og steingleymdi því að ég var í miðri kaffiuppáhellingu og var þar með næstum búinn að brenna ofan af mér! Skemmtilegt hefði það nú ekki orðið.

Í gærkvöldi


Fór annars út á lífið í gær á kokteil og matarveislu eftir Oracle ráðstefnu Skýrr og Teymis. Fín ráðstefna og mikið stuð um kvöldið.

Þarf síðan snemma í rúmið í kvöld þar sem það stendur til herjarinnar göngutúr á morgun frá Þingvöllum til Hveragerðis með viðkomu í Klambragili þar sem skal baðast.

Thursday, September 09, 2004

Enn ein fýlufærslan


Seinasta fýlufærsla var reyndar bara af því að ég var eitthvað pirraður á auglýsingum og einhverju álíka leiðinlegu. Í dag varð ég bara eitthvað almennt fúll. Það sem reyndar er verst við það er hvað það fer mér afskaplega illa að vera fúll held ég. Maður á að brosa. Reyndar tekst mér líka að brosa að fýluköstunum í mér.

Veit annars ekki alveg af hverju ég varð svona fúll. Það gekk kannski ekkert í vinnunni. Samt reyndar gekk aðeins. Ætlaði síðan að fara að skoða íbúð til að kaupa en sá þá mér til mikillar armæðu að það er búið að selja hana. Jæja, farið hefir fé betra. Þetta var einhver íbúðardrusla í húsi með krabbameinsklæðningu. Farið hefur fé betra.

Sá síðan íbúðina hennar systur minnar komna á sölu. Fór að hugsa hvað hlutir sem maður hélt að myndu aldrei breytast geta breyst ótrúlega fljótt og einhvern veginn án þess að maður átti sig á því og alls ekki með því að maður vilji það. En ætli það sé samt ekki manni sjálfum að kenna einhvern veginn líka.

Nei, ég er einhvern veginn ennþá fúll.

Var meira að segja svo fúll í kvöld að ég gerði ekkert af því sem ég þurfti að gera og þarf þess vegna að ljúga mig útúr alls konar hlutum á morgun. En ég hef nú æfingu í því.

En annars. Hlakka líka til. Er vonandi að fara í göngutúr í gegnum Hengilinn með viðkomu í Klambragili um helgina endapunktu í Hveragerði þar sem grillað verður af miklum móð.

Og um aðra helgi á að fara í rollustúss á Snæfellsnes. Ekki sérlega slæmt. Annars herreguð, ég var víst búinn að taka að mér að bjóða svona 20 manns í smalamennsku. Jábbs, allir sem fóru alvöru fjallagöngutúr með mér í fyrrasumar eru boðnir með. Sendi póst um það á morgun.

En annars, þannig að þetta sé ekki alfúlt. Þá er hér mynd sem ég tók fyrir einhverjum vikum úti á Reykjanesi. Mér finnst hún bara flott!


Síðan er ég með svina sirkabát 6 í einkunn fyrir nýjustu myndina á myndakeppnisvefnum voðalega. Það skársta sem ég hef gert hingað til.

Wednesday, September 08, 2004

Ég skil ekki


Ég fór allt í einu að horfa á einhverja sænska mynd um mann sem er að berja og misþyrma konunni sinni. Skil ekki af hverju hún hefur ekki vit á að forða sér frá ruddanum og skil ekki af hverju ég er að horfa á þetta eða af hverju verið er að sýna þetta. Jú líklega víti til varnaðar.

En ég atla ekki að horfa. Betrara að gera eitthvað annað.

En það versta er víst að sumir eru svona og það er svona heima hjá sumum og þeir geta víst ekki bara stillt á eitthvað annað.

Tuesday, September 07, 2004

Gamall og fúll


Ég er stundum að velta svona fyrir mér hvenær ég verði orðinn endanlega gamall og fúll. Það eru ótrúlegustu hlutirnir sem fara í taugarnar á okkur gamla geðvonda fólkinu.

Eins og til dæmis Freyju gott auglýsingarnar. Þær reyndar hafa þá ágætu hliðarverkun að ég get ekki hugsað mér að kaupa neitt frá Freyju og þá er orðið hálf fátt um fína drætti í nammikaupum. Ég meina, ef ég kaupi eitthvað Freyjugott þá finnst mér að ég hljóti að vera orðinn eins og fáránlega fjölskyldan sem keyrir um landið og syngur og segir aulalegar gátur um Freyjugott. Eða mér finnst að ég sé orðinn einhver vörubílstjóri sem hlær endalaust að eigin aulafyndni. Nei ég tek ekki sénsinn á að borða Freyjugott og verða eins og þessir aular.

Það versta eru þessar óþolandi síbylju kókauglýsingar um einhverja fúla brostappa. Það þarf nú reyndar aðeins meira en þær til að ég hætti að drekka svarta gosið en einhvern tíman gætu þeir gengið fram af mér líka.

Jábbs, eins og lesa má, ég er orðinn gamall og grautfúll fyrir aldur fram.

Úff


Stundum er bara allt að!


Það er rigning.

Ég er búinn að éta allt of mikið

Ég er þreyttur og slappur

Ég hef lengi beðið eftir að skyrtan sem ég er í rifni utan af mér. Það gerðist rétt í þessu en reyndar mér til mikillar gleði ekki á ístrunni heldur á olnboganum.

Hún er jafn götótt fyrir því.

Ég er á eftir með allt sem ég er að gera finnst mér.


Svona til að bjarga þessu þá er nýjasta myndin mín á dpchallenge að gera þokkalega hluti með einkunn upp á rúmlega 6 í augnablikinu.

Thursday, September 02, 2004

Rómeó og Júlía


Mikil djöfulsins snilld svo ég vitni í blogg gærdagsins um Spilverk þjóðanna.

Ég sá allt í einu í hendí mér að ég hefði aldrei getað orðið leikari. Annað hvort þarf maður að vera almennilega feitur eða geta farið heljarstökk bæði afturábak og áfram. Mig langar ekki til að verða almennilega feitur og ég var ekki kallaður gúmmítarsan einu sinni í gamla daga fyrir ekki neitt!

Afrekaði það annars að fara til tannlæknisins míns í dag. Þar sannaðist hið fornkveðna að með íllu skal íllt út reka. Var með brotna fyllingu og einhverja hroðalega skemmd þar undir. Var hættur að gera borðað nema með hálfum afköstum og það er náttúrlega alls ekki nógu gott. Hann boraði og hamaðist uppi í túlanum á mér í meira en hálftíma. Deyfði mig samt ekki neitt enda er ég alþekkt hraustmenni sem kveinkar sér ekki við einhvern málamyndasársauka. Tannsinn var reyndar með það skráð hjá sér að ég hef ekki verið deyfður síðan 1993. Geri aðrir betur, sérstaklea miðað við það að geiflurnar uppi í mér eru að verða að mestu leyti úr amalgami og reyndar plasti í seinni tíð. Er annars nokkuð yppsílon í geiflum? Hef ekki Guðmund enda skrifa ég frekar sjaldan geiflur/geyflur, er það annars ekki örugglega löglegt orð fyrir tönnurnar? Nei vinsamlegast. Ef þetta er eitthvað undarlegt ekki gera þá grín að mér. Ég er bara verkfræðingur og get ekkert að þessu gert.

Annars kemur þetta með deyfinarleysið ekkert bara af góðu. Ég dofna nefnilega svo seint að deyfingin er yfirleitt ekkert farin að virka fyrr en ég er löngu farinn frá tannlækninum. Kannski stafar það af því að ég er svo langur að deifingin er svo lengi að ná í gegnum mig allan. Eins og með áfengið. Er svo lengi að virka á mig af því ég er svo langur, eða það sagði Lilja einhvern tíman held ég eða var það Stína. Hvað man ég. Það var að minnsta kosti eftir ammælið hennar Stínu.

Hver ætli hafi annars áhuga á að lesa um tannlæknasögur? Líklega einhver ef þú ert að lesa þetta.

Wednesday, September 01, 2004

Mikil djöfulsins snilld


Fór í Hakaup áðan. Þessi í Skeifunni sko. Æltaði bara að kaupa eitthvað að borða. En sá þá alveg óvart Spilverksdiskinn sem ég á ekki. 999 kall. Ekki smurning. Hann datt í körfuna, reyndar með einhverjum Egó diski.

En Spilverkið. Hvílík djöfulsins snilld er þetta. Af hverju er ekki lengur verið að gera svona? Ég bara spyr.

Úr því að ég á núna allt Spilverkið eins og það leggur sig þá er líklega að verða fært í Spilverkspartý hjá manni!