Thursday, June 24, 2004

Nostalgíuminningablogg


Spurning hvað maður man!

Það er víst eitthvað í tísku að nostalgíublogga. Tók listan af Þórdísarbloggi til að vita hvort ég sé í alvörunni að verða eitthvað gamall einvhern tíman. En nei þetta er allt í lagi. Þessi Þórdís er "miklu" eldri en ég!


- Mirinda? (appelsínulitaður gosdrykkur. Þegar þetta er sagt fara margir að tala um Spur)já, muna það ekki allir. Reyndar er mírindað ennþá til í Danmörku sýndist mér um daginn

- Tískuverzluninni Kiss, Kiss í Lækjargötu 4? (Húsið er núna í Árbæjarsafninu)nei held eiginlega ekki

- Kákasusgerlinum?

- Bjórlíkinu?já, muna það ekki allir?

- Auglýsingunni frá Bílasölu Guðfinns?já, frúin hlær í betri bíl... kassabíl

- Flautubuxunum?nei, hljóta að hafa verið einhverjar stelpubuxur

- Bíómyndinni Morðsögu? já auglýsingunni þegar ég var lítill og svo einhverri endursýningu þegar ég var eldri

- Sjónvarpsmyndinni Lítil þúfa eftir Ágúst Guðmundsson? já já þegar stelpan varð ólétt

- Hennalitaða hárinu?nei, strákar muna ekki eftir hárlitun

- Sparimerkjagiftingunum?

- Garbo, Austurstræti?já og Bonapartie eða hvað þetta hét, gott ef fermingarfötin mín voru ekki þaðan

- Herradeild PÓ ("Allt frá hatti oní skó, frá Herradeild PÓ")já ég held það að minnsta kosti

- Laufeyju í Grjótaþorpinu? (sem allar fullar stelpur á Halló pissuðu og grenjuðu hjá um helgar og kemur fyrir í laginu um Krókódílamanninn)nei eins og hún segir þá var það bara fyrir stelpur!

- Boltaís? (Ís í plastboltum sem mátti opna og loka, étinn með tréskeið)nei reyndar ekki en ég man eftir marglitu plastprikunum sem voru í frostpinnunum og hægt var að smíða heilu húsin úr

- Að kaupa gjaldeyri á svörtum? (þegar þetta er sagt er farið að tala um flugfreyjur sem seldu bjór á svörtum)já og ferðamannagjaldeyrinum

- "Veistu hvað Ljóminn..." með Ríó Tríó?(alltaf syngur einhver þann smjörlíkissöng og þá fer einhver annar að syngja "Í kolli mínum geymi ég gullið, sem gríp ég höndum tveim, svo fæ ég vexti og vaxtavexti og vexti líka af þeim.")já og einn af þeim var bílstjóri í Breiðholtskjör þegar það var svona heimsendingarþjónusta

- Vísitölubrauðunum?

- Hermannaskóm úr Vinnufatabúðinni á Hverfisgötu? Ha, var Vinnufatabúðin á Hverfisgötu

- Grænmetismarkaðinum á Lækjartorgi? (Þar mátti sjá Björk Guðmundsdóttur og Þór Eldon gefa hvort öðru gulrætur)hmmm

- Mensu? (þar mátti sjá Björk Guðmundsdóttur selja handunnar ævintýrabækur eftir sjálfa sig) nei

- Bobbingum? (fengust þeir kannski bara í Ásmundarbakaríi og mjólkurbúðum í Hafnarfirði?)nei, fengust held ég ekki í bakaríinu á Leirubakka

- Stefáni frá Möðrudal?

- Hressingarskálanum áður en Vala Matt var ráðin til að rústa honum eftir fyrirmynd Kaffi Viktor í Kaupmannahöfn og nafninu var breytt í Café Hressó? (þar voru servitrísur í alvöru búningum með litlar hvítar svuntur)

- Útimarkaðinum á Lækjartorgi? já, einu sinni í viku, undir rauðu tjaldi og það var einhvern veginn alltaf rok þegar þessi markaður var

- Skyndimyndum Templarasundi? (þokukenndar myndir úr vél þar sem kona stillti manni upp og setti peninginn í fyrir mann)já, amk man ég eftir skiltinu

- Jasmín? (Þangað gerðu menn sér ferðir víða að til að kaupa allt frá reykelsi og indverskum kjólum og uppí uppstoppaðar leðurblökur)já held það

- Þegar kúlupennar voru kallaði Bíró-pennar? (eftir einhverjum herra Bíró sem fann þá upp)

- Þegar fólk fór í strætó frá Hafnarfirði til Reykjavíkur til þess eins að endurnýja happadrættismiða?nei bara ofan úr Breiðholti, ég þorði aldrei fyrir mitt litla líf upp í þessa dularfullu Hafnarfjarðarstrætóa

- Körfukjúklingi? (þótti algjört hámark matargerðarlistarinnar)Er ekki viss um að þessi toppur matargerðarlistarinnar hafi náð upp í Breiðholt

- Orobrons brúnkupillunum? (appelsínugult fólk, Heiðar snyrtir fremstur í flokki) já þeir sem voru heppnir urðu appelsínugulir en þeir sem voru óheppnir urðu flekkóttir

- Útsýnarkvöldunum á Sögu? (hvað var það eiginlega?)nei hvað var það eiginlega?

- Sædýrasafninu?

- Hreyfilistartvíburunum Hauki og Herði?hmmm ekki viss

- Els Comediants á Listahátíð? nei ekki viss

- Versluninni Flónni og Gerði sem rak hana?já, báðum

- Miðbæjarmarkaðinum Aðalstræti? já líklega

- Silla og Valda búðinni þar sem nú er Jón Forseti og var Fógetinn? já líklega líka

- FUS - gallabuxum (eða Lee Cooper, sá einar svoleiðis í Flóamarkaði Hjálpræðishersins) já a.m.k. Lee Cooper

- Torginu, Austurstræti. "Department Store" sem Sambandið sáluga rak. já og man eftir að hafa næstum verið tekinn fastur í þinghúsinu í USA fyrir að halda á poka þaðan. Leit líklega út fyrir að vera frá Rauða Torginu!



Og til viðbótar þá man ég eftir


- Líterskók í glerflösku með skrúfuðum tappa
- Strætó sem gekk á korteri
- Vasatölvu sem gekk fyrir "alvöru" battaríum og var með stöfum sem lýstu
- "tíugírahjólunum" sem allir keyptu eitt sumarið
- Millet úlpum
- Tommahamborgurum sem var eini hamborgarastðurinn á öll landinu
- D14 og Villta tryllta Villa
- Kolbeinshaus



No comments: