Friday, June 25, 2004

Áhugavert efni á mbl.is ?!


Ég er að velta fyrir mér hvað þarf til að koma efni í þennan undarlega dálk "Áhugavert efni" á mbl.is.

Það sem er þarna núna er einhver síða með tilboðum um flug, undirskriftasíða vegna færslu Hringbrautar og síðan einhver bókaklúbbs síða en þess utan heilar fjórar Herbalife auglýsingar.

Ég veit að það er fullt af fólki að ná einhverjum tökum á matarræði og heilsuleysi sem fylgir ofáti eða vanáti með að innbyrða Herbalife dót og einhver hópur af fólki sem græðir á tá og fingri af því að selja hinum og enn fleiri sem ætla að græða á tá og fingri en hvernig í óskupunum getur þetta talist áhugavert efni?

Og fyrirsagnirnar eru ótrúlegar. "Ert þú móðir?" og "Íslendingar í Noregi!" og hvað fær maður þegar smellt er á þessar spurningar? Jú það er snjallt fyrir mæður að drýgja tekjurnar með að selja hver annarri Herbalife og það vantar einhvern í Noregi til að selja Herbalife.

Er einhver að borga fyrir þetta eða er einhver að misnota sér aðstöðuna á mbl.is? Þetta virkar að minnsta kosti óhemju hallærislega á mig. Ég get ekki ímyndað mér að þetta geti talist sérlega áhugavert efni fyrir fólk sem hefur annað hvort ekki áhuga á að vinna við að selja megrunarpillur í einhvers konar umboðssölu eða fólk sem nær að lifa heilbrigðú lífi með eðlilegri hreyfingu og almennilegum mat. Og að hafa fjórar svona tengingar með mismunandi fyrirsögnum getur ekki verið annað en grín. Ég skil bara ekki húmorinn í þessu.

Nú fyrir utan það að ég skil ekki hvernig framtíðin getur verið fólgin í því að allir vinni við það að selja hver öðrum megrunarpillur á uppsprengdu verði. En það er önnur Ella.

No comments: