Tuesday, June 22, 2004

Þetta er ekki einleikið með sjónvarpið mitt


Fyrir svona viku tók ég eftir að sjónvarpið mitt var eitthvað bilað því það var alltaf verið að sýna einhvern fótboltaleik í því. Ég slökkti bara og kveikti síðan aftur eftir svina tvo klukkutíma í von um að þetta mynd eitthvað skána en nei það var ekki.

Núna hefur þetta ágerst all verulega. Þegar það er ekki verið að sýna fótbolta þá eru einhverjir kastljósþættir þar sem verið er að tala um hver sólaði hvern flottast, hver var rekinn útaf og hver hefði átt að vera rekinn út af.

Núna áðan datt mér í hug að bilunin gæti verið eitthvað rásarbundin. En nei það var ekki. Það var verið að sýna Sviss að keppa við Frakkland og merkilegt nokk það var bæði á RUV og SÝN. Og það sem var undarlegast er að það var verið að sýna sömu leikjarskömmina fyrr um kvöldið á SÝN. Ég verð eiginlega að játa að ég er hálf klumsa yfir þessu. Ég held að ég hefði ekki nógu mikið hugmyndaflug fyrir ömurlegt sjónvarpsefni til að láta mér detta í hug að sýna sama leikinn tvisar á einu kvöldi og hafa mest megnis umræðuþætti um leikina á milli þeirra. Kunna mennirnir ekki að skammast sín? Við erum látin borga fyrir þetta og getum ekki sagt þessum ósköpum upp.

Ég var síðan að hugsa um að prófa að setja vídeóspólu í tækið en ég þori það eiginlega ekki. Óttast all verilega að það sé verið að sýna einhvern æsispennandi leik á milli Búlgaríu og Möltu.

En ég þarf svo sem ekki að kvarta. Veðrið var upp á töluvert marga fiska í dag og ég drusslaðist loksins til að koma mér á línuskauta aftur.

Einhverjir sem lesa þetta vita eitthvað um línuskautaraunir mínar sem felast aðallega í því að ég endurnýjaði skautana mína síðasta haust fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Nýju skautarnir sem áttu sko að vera alveg rosalega mikið alvöru dæmi. Næst dýrustu Rollerblade skautarnir sem fengust í Útilíf minnir mig. Næsta gerð fyrir ofan var úr einvherju geimfaraefni. En þessir eðalskautar sem ég fékk mér þarna reyndust síðan vera eitthvað hið mesta drasl sem ég hef nokkurn tíman sett á mína fætur. Það var svo mikið af tæknifítusum í þeim að ég var í 10 mínútur að koma þeim á mig. Síðan fór fljótlega einhver takki að standa á sér og var ég þá líka 10 mínýutur að komast úr þeim minnir mig. Síðan í vor einhvern tíman þá brotnaði einhver draslplastfítustakki og þar með gafst ég eiginlga upp. Reyndar var mér sagt að ég gæti komið í Útilíf og látið gera við þá en ég var eiginlega búinn að missa allan áhuga á því að nota þetta óbermmi. Endaði á því að taka dekkin bara undan þeim og setja undir gömlu Crazy Creek skautana og er núna kominn á þá. Og hvílíkur munur. Þýt bar áfram og er að fá eitthvað af örygginu sem gufaði upp eins og dögg fyrir sólu með Rollerblade draslinu.

Var síðan aðeins að hugsa


Hvenær er aftur allsberaveltisérdaggarnóttin?

Núna eru sko sumarsólstöður og veðrið sýnist mér er svo upplagt. Væri kannski best að skella sér bara núna. En það virkar líklega ekkert fyrr en hin eina og sanna Jónsmessunótt rennur upp. Verst að það á að vera orðið svo kalt þá held ég. En maður verður bara að bíta á jaxlinn því það getur kostað fórnir að geta óskað sér þess sem maður vill


No comments: