Saturday, January 31, 2004

Kvef og vesöld


Var kominn með kvef og vesöld í gærkvöldi. Var reyndar eitthvað asnalegur allan daginn og þorði ekki að hlaupa úti í hádeginu. Skakklappaðist þess vegna innandyra í Laugaparadísinni. Fékk reyndar þann úrskurð að hlaupalagið minnti helst á gamlan dráttarklár sem brokkar þyngslalega heim á leið en þó án þess að þurfa að hafa of mikið fyrir því.

Fór annars í leikhús í vikunni að sjá Chicago. Fór svona aðallega þar sem ég á áskriftarkort enda er ég enginn sérstakur aðdáandi söngleikja. Fannst þetta hálf þreytt fyrir hlé en skánaði mikið eftir hlé. Kannski af því að ég hafði vit á að fá mér einn öllara í hléinu

Wednesday, January 28, 2004

Geisp og gap


Fór á sviguskíði í kvöld. Svigaði um alla brekkuna og datt ekki nema einu sinni á hausinn eða eiginlega ekki einu sinni það þar sem ég datt bara á hliðina. Var svaka kúl eins og sjá má!
En mikið svakalega fannst mér að skíðaskórnir mínir hefðu minnkað mikið nú eða lappirnar á mér stækkað!

Á heimleiðinni uppgötvaði undarlegustu verðlagningu sem ég hef nokkru sinni séð á Subway. Þar er hægt að kaupa gos í glasi og eru glösin í þremur stærðum. Eins og lög gera ráð fyrir þá kostar minnsta glasið minnst en það stærsta mest. En það sem er undarlega er að maður fær frýja áfyllingu eins oft og manni sýnist. Maður borgar sem sagt meira fyrir að fá bara stærra glas og þurfa þá að fara sjaldnar til að fylla á. Kjánalegt. Til að fullkomna rugglið þá þurfti ég að kaupa mið-stærð af "glasi" til að nýta einhvern undarlegan miða afslátt sem tíðkast þarna. En þessi verðlagning er kannski leiðin að þvi að verða ógeðlislega ríkur sem ég hef nýlega frétt að eigandinn sé orðinn all verilega.

Jæja en eftir svona skíðaferð, geisp og gap - vér erum syfjaðir!

Monday, January 26, 2004

Langalangalangalangalangafar mínir


Frumlegheit íslendinga eru held ég að aukast. Af langalangalangalangalangöfum mínum í móður ætt hétu hvorki fleiri né færri en 6 Jón!

Æji, ég veit ekkert hvað ég á segja


Mér líður í bloggheimum aðeins eins og fyrsta viðmælanda mínum í spjallforriti. Var þegar ég var vann hjá Ráðgarði fyrir margtlöngu. Votum búin að tengja saman allar tölvurnar í helarinnar Windows 3.11 net og þóttumst vera svaka góðir. Sáum svo að að var eitthvað popup forrit þarna til að skiptast á skilaboðum. og samtalið var svona:

GHG: Hæ sérðu þetta?
ERS: Já
GHG: [eftir langa þögn] æji ég veit ekkert hvað ég á að segja

Lengra varð það ekki þar sem við fórum báðir að hlæja enda var hann í næsta herbergi við mig. En þetta var í þá gömlu góðu daga þegar ég þekkti ekki orðið Internet en var samt álitiinn tölvugúrú á mínum vinnustað. Núna þekki ég Internet en er ekki lengur álitinn tölvugúrú á vinnustaðnum. Enda hefur þetta allt saman breyst. Ég, internetið og vinnustaðurinn. Og af þessu þrennu ég kannski minnst. En ég er nú bara að bulla þetta af því að mér dettur ekkert í hug að segja!

Ég gæti reyndar alveg bloggað aðeins um "ættarmótið" sem ég fór á um helgina en þar komu saman afkomendur hans afa míns. Það þótti tími til kominn að fólkið myndi hittast án þess að um jarðarför væri að ræða enda sumir hættir að heilsasta á götu þrátt fyrir allan skyldleikann. Þetta var bara sniðugt!

Síðan gæti ég bloggað smá um námskeiðið sem ég var á áðan og á að tryggja það að ég klúðri ekki hlutunum þegar ég fer að kaupa mér íbúð. Ætti kannski bara að fara að drífa mig í því. Skildi samt ekkert í því að Ásta hefði ekki verið þarna að halda þetta námskeið þar sem hún er örugglega svalasti fasteignasalinn í bænum... eða a.m.k. sá ferskasti / nýjasti eða eitthvað. Eða er hún kannski bara að ganga frá einhverjum pappírum þarna á Remax. Hvað veit ég en hún ræður líklega öllu þarna ef ég þekki hana rétt!

Nú og svo gæti ég bloggað um þessa ömurlegu vanish sápuauglýsngu sem var í sjónvarpinu. En nei þarf þess ekki þar sem ég bjargaði því með að ýta á CD og play og hef núna Guðmund Ingólfsson í eyrunum að fara hamförum. Eða er þetta kannski bara minningar eitthvað um hann. Man það ekki en er svaka fínt.

Nú og svo mætti náttúrlega blogga um ísinn sem ég var rétt í þessu að klára eða kannski frekar alla kílómetrana sem ég þarf að skokkast áfram á morgun til að reka ísgrömmin aftur í burtu.

Nú eða kannski ég bloggi eitthvað um fjallaferðirnar sem eru að komast á prjónana. En nei það á auðvitað ekki að blogga um eitthvað sem á eftir að gera heldur eitthvað sem er búið að gera. Óttalegt bull er þetta. Verði ykkur bara að góðu.

En kannski ætti ég að blogga eitthvað um hjólatíkina góðu. En eiginlega nenni ég því ekki. Íslensk pólitík er eiginlega of mikill sandkassi til að ég nenni að gefa henni blogg pláss núna. Annars skammast ég mín dálítið fyrir að hafa ekki bloggað neitt um Hannes rithöfund og þó ég er nú eiginlega frekar stoltur af því að hafa ekki verið að bulla um það.

Það má síðan alveg sko koma með komment og óskir um hvers konar bull verði bloggað. Nú nema ég bara hætti þessu. Kannski tími til kominn eftir heilt ár í bloggi. Ég var annars einhvern tíman að hugsa um að fara að hóta því að hætta að blogga en þorði það ekki. Því sko þetta virkar yfirleitt þannig að fólk hótar að´hætta að blogga, hættir í smá tíma en svo fer alltaf einhver að setja inn komment að að megi ekkert hætta. Og ef ég myndi svona hóta að hætta og Stína væri með kvef eða eitthvað þá myndi kannski enginn kommenta neitt á bloggið og biðja mig um að halda áfram. Kannski ætti ég að fara að gera eins og Ármann J gerði. Þ.e. bara loka blogginu þegjandi og hljóðalaust og bíða svo eftir að einhver auli fari að þykjast vera ég. Og ef ég er ekki nógu frægur til að neinn fari að þykjast vera ég þá gæti ég bara sjálfur þóst vera ég eða einhver annar. Nei annars þetta var dáltið langsótt, jafnvel á minn mælikvarða.

Ég held reyndar að það sé komið yfirdrifið nóg af bulli í bili hjá mér hérna núna en ég mátti til því ég var að sjá á teljaranum mínum að það væri einhver að skoða hvort það ætti ekki að koma neitt þarna inn. Það les þetta sem sagt einhver mér til mikillar undrunar og gleði!



Thursday, January 22, 2004

Snilld dagsins er tonlist.is


Þetta er náttúrlega hreinasta snilld að geta bara hlustað á alla CD útgefna íslenska tónlist sem fyrirfinnst. Get fundið alls konar sktrýtna og skemmtilega mússik þarna inni. Er núna t.d. að hlusta á diskinn "Í kjól úr vatni" sem Klakki flytur! Nei á ekki von á að margir kannist við hann enda hef ég alltaf haft frekar undarlegan tónlistarsmekk.

Reydnar finnst mér frekar dýrt að ætla að kaupa sér tónlist til eignar þarna. Hver lag á hundrað kall og ekki í fullkomnum hljómgæðum, a.m.k. ekki ISO9000! En þetta er snjallt samt verð ég að segja.

Wednesday, January 21, 2004

Hreystimannabrautin í WC rokkar


Ég aumur er búinn að finna öflugasta líkamsræktartækið í gjörvallri líkamsræktarflórunni í henni Reykjavík og það er hreystimannabrautin í Laugum í Laugardal á vegum Reykjavíkurborgar og WorldClass.

Það jafnast nefnilega ekkert á það að hlaupa þarna í WorldClass í vernduðu umherfi umvafinn ofvöxnum sjónvörpum og íturvöxnum snótum hvert sem litið er, lyfta síðan pínulítið þangað til maður áttar sig á því að maður er ennþá jafn aumur og maður hefur alltaf verið, teygja smá en skellla sér svo í sund.

Þá nefnilega alveg að óvörum tekur við hreystimannabrautin. Hún er hin glæsilegasta á að líta. Fyrst gengur maður upp stiga til að komast upp úr jörðinni eins og hinar moldvörpurnar. Þegar upp er komið áttar maður sig á því að það er frost úti og einhver ótrúlegr vindur sem maður vissi ekkert af. Síðan er þeta hvíta mjúka allsráðandi og það breytist jafnvel í þetta glæra harða. Hvort tveggja alveg dásamlega kalt. Síðan er arkað af stað á hreystimannabrautinni ísilagðri. Þegar maður heldur að hún sé að vera búin kemur maður að umferðargötu þar sem stundum aka um vörbílar (a.m.k. þá reikna ég með því að það sé tilgangur umferðargötunnar). Umferðargatan er að sjálfsögðu malborin til að auka á hreystitilfinninguna sem umlykur mann þegar maður arkar þetta. Síðan þegar seinni hlutanum er lokið kemur maður að grunnu lauginni. Þeir sem ráða ekki fyllilega við verkefnið þurfa að ylja sér aðeins í henni en þeir sem eru hraustir og ráða við verkefnið þeir arka áfram eins og ekkert hafi í skorist og komast loks ofan í heitapottinn. Þeir sem hafa náð fullum tökum á verkefninu og öðlast hina fullkomnu hreysti þeir halda hins vegar áfram skella sér út í laugina og synda þar eins og einn kílómeter áður en farið er að huga að hnum heitu pottum. Síðan er bakaleiðin jafn unaðsleg og hreystimannagangan í laugina.

Um daginn þá gleymdi ég handklæðinu mínu þegar ég fór þarna en það kom síðan ekkert að sök því ég var eiginlega orðinn skraufþurr þegar ég kom til baka frá lauginni. Hreystimannabrautin sá fyrir því.

Loks er vert að geta þess að hann Björn vinur allra góðra manna í WorldClass er búin að setja upp próf við enda hreystimannabrautarinnar. Það er augnskanni. Þeir sem geta ekki horft í þar til gert tæki með sínu eðlilega augnatilliti þeir þurfa bara að halda áfram að éta það sem úti frýs þarna á hreystimannabrautinni.

Loks loks má líka geta þess að það getur verið alveg einstakt skemmtiatriði að vera í verndaða umhverfinu inni í WorlcClass og horfa út um gluggann á þá sem eru á hreystimannabrautinni. Sérstaklega þá sem ráð alls ekki við þetta og skæklast áfram píndir af kulda og grjótskurðarsársauka.

Nei ég held að eftir að hafa vanið komur mínar þarna á hreystimannabrautina þá geti ég í næstu fjallaferðum bara skilið allar neopren vaðgrægjur eftir heima og vaðið bara berfættur eins og sönnum hreystimennum sæmir!!!

Annars það eina sem ég verð að lýsa algjöru frati á þarna í WC er fjárans vogin. Hún sýnir bara einfaldlega of mikið!



Tuesday, January 20, 2004

Ammimæli


Hún á ammæl'í dag,
hún á ammæl'í dag,
hún á ammæl'ún mamman,
hún á ammæl'í dag.

Jibbí, jibbí !! - Bravó, brávó !! - Gaman, gaman !!!

Ælti það verði kaka?

Monday, January 19, 2004

Auli sem kann ekki að leggja


Mikið svaðalega geta sumir farið í mínar fínu taugar. Það er einhver auli sem venur komur sínar í WorldClass í hádeginu þegar ég fer þangað og kann ekki meiri mannasiði en svo að hann þarf alltaf leggja þversum yfir göngustíginn sem ég og aðrir svalir nota til að skokka um Dalinn okkur til heilsubótar.



Þessi drússla er búin að var þarna í dag og líka a.m.k. einu sinni í síðustu viku. Sumir kunna sig einfaldlega ekki.

Sunday, January 18, 2004

Var að lesa ... einhvern tíman í janúar

Einhvers konar ég, eftir Þráinn Bertelsson


Miklu skemmtilegri aflestrar en Höfuðskepnurnar hennar Þórunnar sem ég reyndar gafst bara upp á að lesa. Það gerðist ekkert í henni!
Enda var ég ekki nema einn dag að klára Þráinn þegar ég tók mig til, með kvef og vesöld einn laugardag.
Það sem mér fannst annars undarlegast við þessa lífsreynslubók Þráins er að hann hafi ekki séð lík fyrr en 1994 þegar mamma hans dó og hann orðinn fimmtugur. Eftirminnilegasta líkið sem ég hef séð var einnig það fyrsta en það var einhver eldri maður sem varð bráðkvaddur í Máli og menningu þegar ég var að versla afmælisgjöf handa Hlyni vini mínum úr FB.

Friday, January 16, 2004

Heilabrot helgarinnar eru hér


Sá þetta á slembibloggi Grönquist.

Þú færð tíu kassa og í hverjum þeirra eru níu kúlur. Kúlurnar í einum kassanum vega 0,9 kg hver en hinar vega 1,0 kg. Þú mátt vigta einu sinni á nákvæmri vog til að finna út hvaða kassi inniheldur léttu kúlurnar. Hvernig gerirðu það?

Og svarið er hér (ég er ekki enn búinn að lesa það en fatta ennþá alls ekki hvuddnin þetta er hægt).

Thursday, January 15, 2004

Er orðinn staðfest B týpa


Ég held að ég verði að fara að játa mig syfjaðan æ ég meina sigraðan.

Ég bara kann ekki að fara snemma að sofa lengur. Skil ekki hvað er að manni að vera grútsyfjaður í vinnunni, ná ekki meðvitund fyrr en eftir svona fimm bolla af sterkasta kaffinu á þriðju hæðinni. Vera áfram syfjaður fram eftir degi og hugsa um það eitt að núna ætli maður sko að fara snemma að sofa. Vera samt svona nokkurn veginn orðinn ágætur þegar maður kemu heim. Ef ekki þá dottar maður aðeins yfir fréttunum í sjónvarpinu en síðan.... þá loksins vaknar maður.

Náði annars því afreki að koma jólatrénu úr stofunni og út í tunnu, held að þetta sé þjóðsaga að maður þurfi að vökva þessar trjálufsur svo mikið. Það var fullt af barri eftir þó tréð (valið af kostgæfni rauðgreni sem er eitthvert barróheldnasta jólatré sem hægt er að hugsa sér). Reyndar skal ég játa að töluvert af barrinu var komið á gólfið. Tókst svo að taka niður megnið af mínum mörg hundruð jólaljósum þannig að þetta er allt að koma hjá mér.

En fylgifiskurinn varð sá að ég komst ekki inn í the matrix fyrr en klukkan var að verða tvö eftir miðnætti.

Og til að kóróna þetta þá dreymdi mig tómar matraðir hálfa nóttina. Reyndar ekkert alvarlegt en samt einhverjir undarlegir draumar um flóð, jarðskjálfta, skriðuföl og eitthvað enn verra sem mér hefur tekist að gleyma. Annars undarlegur andskoti með mann að líklega man maður aðallega martraðirnar sem mann dreymir því einhvern tíman las ég eða heyrði að maður man mest lítið eftir draumunum nema maður vakni áður en draumurinn er búinn. Og það eru helst martraðir sem maður vaknar uppúr með andfælum.
Góðu draumarnir láta mann bara sofa vært áfram.

Útópískur draumur minn um að fara í world class fyrir vinnu var að sjálf sögðu löngu farinn fyrir bý og markmiðið einungis sett á það að komast í vinnuna á skikkanlegum tíma!

Ég held að þetta staðfesti það að ég sé orðinn A týpa... æ ég meina auðvitað svona B týpa (þetta var til marks um ástand mitt)

PS
Ef einhver veit um námskeið sem kennir manni hvernig á að fara að því að sofna snemma, vinsamlegast hafið samband strax

Wednesday, January 14, 2004

Bloggtungumálin


Hvað ætli það sé bloggað á mörgum tungumálum?
Eftir að hafa séð Eyvöru Pálsdóttur valta yfir okkur í þessari tónlistarmannakeppni þá datt mér í hug að finna blogg á Færeysku. Fann ekkert almennilegt alfæreyskt heiðarlegt blogg. Fann reyndar eitt almennilegt en það var bara hálf-færeyskt en þessi alfæreysku voru a.m.k. ekki svona einstaklingsblogg heldur einhver félög eða fréttasíður.
http://www.draumur.blogspot.com/
http://ungasamband.blogspot.com/

Tuesday, January 13, 2004

Mannbroddahlaup


Er bara nokkuð stoltur af sjálfum mér. Fór á föstudaginn og kaupti hlauparabrodda hjá skósmiðnum í H68. Búinn að fara núna tvisvar í hádeginu að hlaupa niðri í Laugardal. Þetta er megafínt að skruna um dalinn ísilagðann þokkalega öruggur á gaddanælontúttunum. Held að ég taki mig bara vel út. Verst að þeir eru ekki alveg heilir yfir hlaupaskónum því þá liti ég út fyrir að vera á klassískum gúmmískóm eða því sem mín ástkæra systir kallar alltaf túttur án frekari útskýringa. Myndi svo fullkomna það meistaraverk með gráyrjóttum úllarsokkum og lopipeysu. Túttur eða gúmmískór, það hefur reyndar lengi verið þrætuepli a.m.k. alveg síðan systirin kaupti sér gúmmískó í einhverri reisunni fyrir margtlöngu út á landsbyggðina. Sjálfur hélt ég nú reyndar að túttur væri annað hvort dekk á stórum jeppum eða eitthvað annars á henni sjálfri elskunni.

En ég er bara sáttur við hlaupaafrekin enn sem komið er en meira má ef duga skal ef ég ætla að vera kominn í almennilegt form fyrir fjallaþrekraunir vetrarsins sem voru skipulagðar á Hlemmi.is á laugardaginn var. Reyndar ef ég bregð mér inn í hið víðáttuflotta WorldClass í Laugardal þá verð ég undir eins yfir mig sáttur með allan minn árangur því það er sama hvern maður horfir á útþaninn á vædskrín sjónvörpunum þar, sjálfur verður maður alltaf mjór eins og strá við hliðina á þeim ósköpum.

Jæja en líklega best að fara að sofa. Búinn loksins að fara yfir prófið sem ég er búinn að hafa á heilanum síðan í desember og ekki seinna vænna en að skila þessu af sér á morgun, annars fer ég að fá skömm í hattinn Til hamingju með það, ég sjálfur og nemendurnir ekki síst.

Já og btw Ralldiggnur, til hamingju!!!

Monday, January 12, 2004

Danskir dátar með íslenska þróunarhjálp


Ég verð að draga þetta allt saman aftur með tilgangsleysi dönsku dátanna því eftir að þeir fengu óvænt aðstoð íslenskra dundurdufladaðrara þá voru það auðvitað þeir sem gátu loksins látið tilganginn helga meðalið.

Nú þarf enginn að velkjast lengur í vafa um það að Saddam var langalavarlegasta ógnin við allan heimsfriðinn [æji, hvað er það aftur þetta "heimsfriður"] þar sem hann var náttúrlega búinn að koma öllum stórhættulegu gjöreyðingarvopnunum fyrir undir einhverri brú eða einhvers staðar í einhverjum ótilgreindum vegarkanti. Brotavilji mannsins er augljós og það að hann ætlaði sér að sprengja þessar gömlu ryðguðu sinnepsgassprengjur yfir öllum helstu ríkjum jarðar skín alls staðar í gegn.

Ég skil generál Halldór vel þegar rætt var við hann eftir þennan stórmerka fund. Hann var eiginlega hrærður yfir eigin frammistöðu að hafa fundið hin ógurlegu vopn. Enda skildi ég hann ekki öðru vísi en núna væri búið að réttlæta stríðið þar sem vopnin sem hann vissi alltaf að væru þarna værui komin í leitirnar. Ég vona bara að þeir fari að hætta þessari tilgngslausu leit sinni.

En PS
Auðvitað er Saddam hinn hroðalegasti og eiturefnavopn líka en gamlar ryðgaðar sinnepsgassprengjur geta varla verið ógnun við heimsfriðinn!

Sunday, January 11, 2004

Allt að gerast


Sem ég var á leiðinni heim úr búðinni á laugardaginn með einhverjar súrar skonsur í plastpoka sá ég þá ekki að það var verið að opna nýja sýningu á gallerí hlemmi. En það var sko ekki einhver sýning heldur Rósu sýning með hennar stórbrotna eyrnapinnalistaverk!

Skoðaði helling og blaðraði reyndar við Pá og Rósmund mun meira og sötraði hvítvín með. Fín sýning og seinasti séns að skoða gallerí Hlemm í bili sá ég einhver staðar.

Annars skammt stórra högga á milli þar sem það var árlegt nýársvinnudjamm á föstudeginum og svo gamlaskólagengispartý á laugardeginum. Þar sem ég uppgötvaði það að Kristín Aldís er ekkert annað en listamaður. Já þið skuluð sko muna nafnið, það á örugglega eftir að heyrast einhvern tíman aftur!

Saturday, January 10, 2004

Var að lesa ... einhvern tíman í janúar

Höfuðskepnur, eftur Þórunni Valdimarsdóttur


Ljóðræn ástarbréf! Ég veit um fullt af fólki sem myndi líklega deyja við að lesa þessa bók en ég held samt að mér finnist hún ágæt! ... Enda hef ég alltaf þótt dálítið undarlegur.

Hmmm já ágæt sagði ég.... Einhvern veginn þá verð ég að segja að ég mun eingöngu klára þessa bók út af því að mér leiðast óstjórnlega hálflesnar bækur.

Og nei, ég held að hún hafi verið of leiðinleg til að ég næði að klára hana. Datt í aðrar skemmtilegri bækur áður. Var ég kannski eitthvað að misskilja þessa bók? Hún náði a.m.k. einhvern veginn aldrei inn í mitt sálartetur.

Wednesday, January 07, 2004

Skaup um danska tindáta


Það vakti óneitanlega mikla aðdáun mína þegar Danir brugðust skjótt við og sendu öflugt herlið til styrjaldarinnar í Írak, já alveg heilan kafbát. Háðu danir þar stórkostlegt kafbátastríð, við sjálfa sig aðallega geri ég ráð fyrír því að öðru leyti fór stríði fram í einhverjum eyðimörkum og í skársta falli (þ.e. hvað við kemur kafbátum) einhverjum 50 manna hafnarborgum.

Núna hafa einhverjar gagnrýnisraddir vaknað hjá Dönunum um það að þeir séu ekkert að taka þátt í neinum alvöru bardögum þarna (enda kannski ekki furða þar sem stríðinu lauk á fyrri hluta síðasta árs minnir mig) en nú eru danirnir sagðir komnir útúr kafbátnum sínum en lifi praktulega einhvers staðar í einhverum Edensgarði. Danski generállinn Niels-Jörgen Quist, hafnar þessum ásökunum með öllu, sem staðleysu. "Dönsku hermennirnir, sem sendir voru til Íraks 12. október sl. hafa ferðast um 160.000 kílómetra, gert 314 vopn upptæk og handtekið sextíu og fimm manns," segir generállinn.

Það getur varla verið erfitt að gera skaup í Danmörku um þennan óláns her sem barðist í eyðimörkinni með kafbáti og tók svo virkan þátt í sríðinu (les leit að Saddam og gereyðingarvopnum) með því að marsera heila 160.000 kólómetra og fann einhverja arma þrjóta til að taka fasta á nær 2.500 kílómetra fresti (það er ekkert mikið lengra frá Íslandi til Danmerkur) en takið eftir því fann byssur á stangli mun oftar. Hver er svo að halda því fram að þetta sé ekki vel heppnað stríð þetta er náttúrlega ótvírætt merki um gereyðingarvopn, þessir 314 hólkar sem þeir dönsku hafa náð.

Nánar má lesa um þessa skemmtisögu í Mogganum sem lýgur ekki nú frekar en fyrri dagin!

Tuesday, January 06, 2004

Víðáttuflott í World Class


Skildi loksins orðið víðáttuflott þýðir í raun og veru þegar ég kom í víðáttuna í World Class. Ég verð eiginlega að játa að ég vissi ekki að það væru til svona mörg hlaupabretti í öllum heiminum. Fór í nýju fínu hlaupaskónum mínum og fannst ég vera alveg rosalega kúl. Sem ég er þarna sæll og glaður þá fór ég að furða mig á því hvað svitalyktin af mér var eitthvað orðin skrýtin. Einhver aukaþefur af henni einhver ferlegur fnykur. Hafði og fór að furða mig á þessu undarlega ískri..... o-ó var ekki sólinn á ´nýju fínu hlaupaskónum mínum að bráðna af núningi við reimina sem snérist án afláts á meðan ég þóttist standa við hliðina á reiminni og vera að laga heyrnatólin mín. Þetta kennir mér kannski að maður á að hlaupa á þessum brettum en ekki standa þar bara eins og auli. Í kaupbæti fékk ég síðan nýtt svakaflott far á nýju fínu hlaupaskóna mína. Ekki slæmt að þeir séu strax orðnir vanir!

En víðáttan var mikil og allt svo stórt eins og í Texas. Hlaupabrettin óteljandi, önnur æfingatæki næstum því jafn mörg, búningsklefarnir heilt völundarhús. Meira að segja vatnið í sturtunni var meira en í öðrum sturtum sem ég hef farið í. Fegnastur er ég samt að hafa ekki fundið vigtina. Reikna með að hún hefði í stíl við annað sýnt allt of mörg kíló helvítið á henni.

En ég kem einhvern tíman aftur!

Nú skal sko tekið á því


Brá fyrir mig betri fætinum í dag eða eiginlega báðum fótunum og lét gera gæðaúttekt á bífunum á mér (eða eru það býfur?).

Fór í svona hátæknilega göngugreiningu þar sem niðurstaðan var sú að ég væri bara með svona venjulegar lappir og alveg ágætar. Þar fór sem sagt ein af afsökununum mínum fyrir að vera lélegur hlaupari. Fyrir þessar niðurstöður átti ég svo að borga heilar 15 hundruð krónur (sem ég reyndar steingleymdi að borga og enginn mundi eftir að rukka mig um - ætti kannski að fara á eftir og borga þetta) en það sem dýrkeyptara er að skórnir sem ku vera sérhannaðir fyrir mína skanka heita Asics eitthvað Keyano eða eitthvað þaðan af verra og kosta heila 16 þúsundkalla í Útilífi. Fór beit þangað og var næstum búinn að kaupa skó hálfu númeri of lilta en sá að mér sem betur fer. Held að ég muni nota jólagjafapeningana mína í þetta að einhverju leyti - enda komst ég að því að Útilíf selur ekki alvöru skíði eins og mig langar í heldur bara eitthvað Rossignlol dót.

Síðan verður sko tekið á því á næstu vikum og mánuðum í Laugardalnum!

Fullt af götum alveg út um allt


Grín dagsins er augljóslega lokagrín hádegisins sem er upprunnið hjá þriggja ára frænku hans Gunnsa:

Það var einu sinni maður sem fór út að ganga. Hann villtist alveg voðalega út af því að það var alveg fullt fullt af götum útum allt.
.....
Eftir að hann hafði gengið lengi lengi þá bara datt hann oní eitt gatið og síðan hefur enginn séð hann.

Thursday, January 01, 2004

Komið nýtt ár



GLEÐILEGT ÁR ALLIR BLOGGLESARAR, VINIR OG VANDAMENN!
TAKK FYRIR GAMLA ÁRIÐ!

Átti bara fín áramót fannst mér og óska sjálfum mér og öðrum gæfu og gengis á þessu ári sem er að byrja!