Hinn íslenski óákveðni vindur
Stundum þegar veðrið er eins og núna þá verð ég dálítið undrandi á þessu fyrirbæri sem íslenskur vindur er. Skítkaldur náttúrlega enda náttúran söm við sig þegar það er kominn nóvember.
En ég læt það vera þó hann blási á móti mér þegar ég geng niður Laugaveginn ef hann myndi ekki alltaf blása líka á móti mér þegar ég geng aftur upp Laugaveginn.
Þetta getur varla verið eðlilegt háttalag hjá vindinum að ráðast alltaf á móti manni. Það sem er alundarlegast að fólk sem ég var að mæta það var að velta þessu sama fyrir sér, hvernig vindurinn færi að því að vera alltaf á móti manni. Þessi séríslenski vindur nær nefnilega að blása bæði upp og niður Laugaveginn á sama tíma.
Reyndar þá sá ég við blessuðum margátta vindinum neðarlega á Laugaveginum með því að bregða mér inn í verslun og kaupa mér bara húfu og trefil. Núna má vindurinn blása eins og honum sjálfum sýnist. Ég vef bara mínum trefli betur og meira um minn langa háls og hlæ upp í opið geðið á honum.
Þeir sem venja síðan komur sínar bara í Kringluna missa auðvitað af þessu stórmerkilega náttúrufyrirbæri sem tvíátta vinurinn á Laugaveginum er en kannski er þessi skeinuhætti vindur ástæðan fyrir því að allt er að drabbast niður í miðbænum og þá sérstaklega á Laugaveginum. Þeir sem hafa kynnt sér málið mest vita um ónotað verslunarhúsnæði við Laugaveginn í röðum. Þeir vita líka að verslun er þar orðin hverfandi, væntanlega út af því að þangað kemur ekki nokkur hræða lengur.
Sem ég síðan skil ekki almennilega því að núna þennan Laugardagseftirmiðdag þá var bíll við bíl allan Laugaveginn og gekk bílaumferðin hægar en hjá þeim gangandi, enda eins gott því það voru svo margir gangandi á Laugaveginum að gangstéttirnar dugðu varla til á köflum. Þeir sem voru stopp í bílunum sínum gátu síðan sér til dægrastyttingar fylgst með hundaskrúðgöngu sem marseraði upp og niður verslunargötuna og svo skrúfað niður rúðuna til að hlýða á lifandi tónlistarflutning sem var þarna að minnsta kosti á tveimur stöðum.
Nei eins og einhvern rennir í grun þá skil ég eiginlega ekki þessa umræðu um það að miðbærinn sé ömurlegur, ógeðslegur, hættulegur, leyðinlegur, ónýtur og svo framvegis. Mér finnst hann yfirleitt vera troðfullur af fólki sem kemur þangað til að sýna sig, sjá aðra og kaupa sér eitthvað lítilræði.
No comments:
Post a Comment