Morgunlesandi óskast
Það ótrúlega gerist. Ég á örugglega eftir að sakna DV. Get reyndar bara sjálfum mér um kennt. Hef ekki keypt blaðið í svona 15 ár. Næstum ekki síðan það hét Dagblaðið og var í samkeppni við Vísi (að dagblaði). Ég geri fastlega ráð fyrir að blaðið hafi farið á hausinn af því að ég keypti það aldrei.
Annars sakna ég kannski ekki efnisins en mér finnst bara að það eigi að koma út eitthvað síðdegisblað á Íslandi. Og rökin hjá gaukunum sem keyptu blaðið voru alveg frábær. Heyrði þetta í Kastljósi held ég.
Þetta voru tvær svona samverkandi ástæður og hvor annarri gáfulegri fannst mér. Aðalástæðan var sú að fólk væri svo mikið að flýta sér heim eftir vinnu að það kæmi yfirleitt hvergi við og gæti þess vegna ekkert verið að kaupa síðdegisblað. Hann benti á að maður fer ekki nema svona tvisvar til þrisvar sinnum í stórmarkað eða aðra verslun í hverri viku og því gengur þeim ekkert að ná til lesenda með að vera að selja síðdegisblað í lausasölu. Jájá mjög gáfulegt því þetta er alveg rétt. Ég t.d. fer ekki nema svona annan hvern dag í verslun um eftirmiðdaginn og þá oftast eftir vinnu en hins vegar verð ég að játa það að ég fer aldrei út í búð til að kaupa í matinn eða eitthvað áður en ég fer í vinnuna. Ætla mennirnir virkilega að fara að selja blaðið í lausasölu á morgnanna? Sumir lifa í eitthvað öðrum veruleika en ég. Get ekki ímyndað mér að lausasalan gangi vel milli 7 og 9 á morgnana!
Hin rökin voru miklu betri. Það vita nefnilega allir að það les enginn blöð á kvöldin heldur bara á morgnanna og það er ekki hægt að leggja á nokkurn mann að vera áskrifandi að blaði sem er dreift rétt áður en maður kemur heim úr vinnunni. Þeir sem myndu glepjast af því að gerast áskrifendur að slíkum blöðum þyrftu bara að klofa yfir fréttir dagsins áður en þeirr kæmust heim til sín og það vill auðvitað enginn. Jújú, það er kannski eitthvað misjafnt en ég held að ég hafi varla lesið dagblað snemma morguns síðan ég hætti að vinna sem blaðberi sjálfur. Og þegar ég kem heim til mín eftir vinnu þá þarf ég yfirleitt að klofa yfir alls konar gamlar fréttir frá deginum áður. Má sko bara þakka fyrir að þurfa ekki að vera að klöngrast yfir nýjar fréttir. Þær gætu komið mér gjörsamlega að óvörum og svei mér ef ég gæti þá ekki dottið á hausinn og meitt mig. Myndi líklega fara í mál við dónann sem sendi mér blaðið.
En hér með er auglýst eftir tveimur tegundum af fólki. Fólki sem vaknar svo snemma að það hefur tíma til að lesa dagblöð áður en það fer í vinnuna [ég veit reyndar að það eru einhverjir svoleiðis til]. Síðan auglýsi ég eftir hinni undarlegu manntegund sem fer út í búð eldsnemma morguns og kaupir dagblað svona í leiðinni. Og ef einhver getur sameinað báðar tegundirnar í einni persónu mun ég veita vegleg verðlaun! [blogg með mynd um viðkomandi á þessari bloggsíðu sem vonandi einhver les ennþá]
Sjálfur er ég búinn að flokka mig sem B mann. Mig langar til að fá blað sem fer ekki í prentun fyrr en eftir hádegið og er dreift heim til mín rétt áður en ég kem heim úr vinnunni, svona milli 5 og 6. Ég vil fá að upplifa það æfintýri að klofa yfir ferskar fréttir þegar ég kem heim til mín að afloknum vinnudegi. Vona að ég þurfi ekki að fá mér vaktavinnu til þess!
No comments:
Post a Comment