Thursday, November 06, 2003

Fólk í vanda

Þann 30. ágúst sl. lést á líknardeild Landspítalans Vesna Hofmann, 45 ára gömul, eftir 10 mánaða baráttu við krabbamein. Hún var einstæð móðir og lætur eftir sig tvö börn hér á landi, 12 ára dóttur og 21 árs son. Börnin eiga enga ættingja hér á landi, hafa að engu að hverfa í heimalandi sínu Króatíu og engan stuðning af sárafáum ættingjum sínum þar. Móðurforeldrar þeirra eru látnir og þau hafa hvorki samband við föðurforeldra sína né feður.

Systkinin eiga þá ósk heitasta að fá að vera saman og búa áfram á Íslandi. Í ráði er að drengurinn fái forræði yfir systur sinni og er það mál í vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum. Stofnaður hefur verið stuðningshópur systkinanna sem m.a. er ætlað að aðstoða þau við að halda heimili sínu, lítilli íbúð sem móðir þeirra hafði fest kaup á. Til þess að svo megi verða þarf að grynnka á skuldum sem óhjákvæmilega hlóðust upp meðan á veikindum og sjúkrahússvist móður þeirra stóð og létta þannig greiðslubyrðina.

Forsvarsmenn hópsins eru Þórður Geir Þorsteinsson rannsóknalögreglumaður, Hulda Lilliendahl starfsmaður í sjávarútvegsráðuneytinu og Tatjana Latinovic löggiltur skjalaþýðandi og starfsmaður Össurar hf.

Það væri systkinunum afar sárt að missa heimili sitt í ofanálag við þann óbætanlega missi sem þau þegar hafa orðið fyrir. Auk þess væri mikið tjón fyrir þau að þurfa að flytja úr íbúðinni þar sem þau myndu þá missa ómetanlegan stuðning sem þau hafa af fjölskyldu sem býr í sama húsi.

Til þess að aðstoða systkinin í þessum erfiðu aðstæðum hefur verið hafin fjársöfnun. Opnaður hefur verið reikningur í Búnaðarbankanum nr. 0301-13-250975, kt. 030458-5089. Ábyrgðarmaður sjóðsins er Hulda Lilliendahl.

Það er von stuðningshópsins að með söfnuninni takist að treysta öryggi systkinanna og undirstöður tilveru þeirra sem þau berjast nú svo mjög fyrir.

No comments: