Æfintýralandið uppi í Heiðmörk - Norðurljósabíó og allt
Lufsaðist loksins á skíði upp í Heiðmörk og ég sver það að Heiðmörkin hefur engu gleymt frá í fyrra. Ég er reyndar ekki frá því að trén hafi bætt við sig svona eins og 20 sentimetrum hvert fyrir sig. Það var snjór út um allt og búið að kveikja á tunglinu sem lýsti útum allt. Það var verið að sýna spennumynd í norðurljósabíóinu með alveg svaka flottum bardagatriðum sem náðu yfir allan himininn. Matrix má sko fara að vara sig! Og þarna var hver stórstjarnan á eftir annarri. Sumar voru í Kassíópeu en aðrar óku um í Karlsvagninum. Pólstjarnar var auðvitað á toppnum á þessu öllu saman!
Fyrir þá sem hafa aldrei farið upp í Heiðmörk yfir höfuð þá er um að gera að drífa sig. Og ekki síður fyrir þá sem hafa bara komið þangað við svona venjulegar grænar sumaraðstæður. Vetur í Heiðmörk er eitthvað það flottasta sem hefur sést! Það er ekkert skilyrði að vera á skíðum en það hjálpar samt aðeins. Af öðrum búnaði er mælt með námumannaljósi á hausinn á sér en það er ekkert skilyrði sérstaklega ekki ef maður er bara að labba!
No comments:
Post a Comment