Monday, November 24, 2003

Afskaplega er pólitískt þras pínlega leiðinlegt
Hroðalegt grín er þetta að heyra í Kastljósinu Lúðvík og Jón Steinar þrátta um það sem Davíð sagði og gerði. Ég held að það sé sama hvað Davíð gerir vonda eða kjánalega hluti, Jón Steinar getur varið þá endalaust og út í eitt og haldið hverja ræðuna á fætur annarri um hvað Davíð gangi gott eitt til. Alveg á sama hátt og Lúðvík og aðrir munu alltaf gagnrýna allt sem sami Davíð gerir alveg sama hvað það er gott. Þetta er svona kjánaleg svart og hvítt umræða sem gerir eiginlega alla sem að henni koma að óttalegum kjánum. Að minnsa kosti er ekki nokkur leið að taka nokkurt einasta mark á þeim.

Heyrði annars fyndnustu frétt sem ég hef heyrt lengi. Það var verið að segja frá fundi Olís með samkeppnisráði sem kallaðist svona "not meeting" sem átti að fela það í sér að ekkert mátti skrifa niður um fundinn. Nú þessi óskjalfesti fundur var haldinn fyrir hálfu ári eða fyrir eitthvað enn lengri tíma. Og í fréttinni var eiginlega fundargerðin óskjalfesta lesin upp lið fyrir lið. Að minnsta kosti gat sá sem las fréttina lesið af einhverjum blöðum allt sem þarna hafði gerst á fundinum sem var svo leynilegur að hann fór aldrei fram á Grand Hótel minnir mig að það hafi verið.

No comments: