Sunday, November 16, 2003

Afríka og ný tölva
Það verður líklegast að segjast alveg eins og er að yfirleitt er ég frekar gjarn á að taka dellur. Ósköpin hófust fyrir svona þremu vikum þegar einum vinnufélaganum (eða reyndar tveimur) datt í hug að reyna að gera alvöru úr því að dragnast upp á hæsta fjall Afríki. Reyndar kenni ég of miklum bjórdrukk um vitleysuna en hún hefur nálgast það örlítið að verða að alvöru.

Til að auka enn á áhugann kom Skúli Haukur Fjallavinur með stóru Effi til okkar og hélt fyrirlestur um Afríkuferð Kára. Við fyrirlesturin óx áhuginn hjá sumum en minnkaði hjá öðrum. Minn breyttist svo sem ekkert mikið enda hafði ég séð þetta allt áður. Það sem truflaði mig reyndar mest voru undarlegar hugmyndir aðalskipuleggjarans um að láta blóðskyldleika ráða því hverjir mættu fara með í ferðina. Sé ekki alveg hvað það kemur málinu við hvernig einhver er skyldur einhverjum. Ég er ekkert vanur að velja frændur og frænkur til að fara á fjöll heldur bara almennilegt fólk.

Síðan gerðist það stóralvarlega í síðustu viku að ég fór á fyrirlestur um það sem Fjallaleiðsögumenn hyggjast gera í Afríku á næstu misserum og síðan hef ég eiginlega verið sjúkur. Legið á netinu til að finna einhverjar miðlungsódýrar ferðir til Afríku. Skoðað hvað er til að túrhestabókum um ferðir til Afríku og er að fara að ganga frá feitri pöntun til Amazon. En leiðin liggur sem sagt núna til Afríku og þá helst til Norður-Afríki þar sem risamenni í miðaldakuflum flakka um eyðmerkur með úlfalda í eftirdragi.

Sýnist reyndar að forsendan fyrir því að komast klakklaust af þarna í Afríku sem mig langar að fara sé að kunna dálítið fyrir sér í Frakknesku. Sem reyndar minnir mig á það af hverju ég valdi það tungumál þegar ég fór í FB á sínum tíma. Var bara alveg búinn að gleyma því. En þannig að ef þú kannt eitthvað sæmilegt fyrir þér í frakknesku, hræðist hvorki mig, úlfalda né aðrar óvæntar uppákomur þá er hér með auglýst eftir ferðafélaga til Afríku!

Síðan er þetta reyndar tímamótablogg því það er gert með splunknýrri fartölvu. Enda kominn tími til að fá einhverja uppfærslu á gamla fýsibelginn sem ég var með og gerði yfirleitt ekkert annað en að blása lofti fram og til baka. Það væri kannski hægt að koma gmlu tölvunni í verð sem ryksugu! Ef það er síðan eitthvað af undarlegum stafsetningarvillum í þessu bloggi þá er það bara út af því að ég er ekki ennþá búinn að venjast þessu lyklaborði. Síðan er líka hægt að stilla á svo mikla upplausn á skjánum að það jaðrar við að ég verði lofthræddur við það eitt að horfa á hann!

No comments: