Friday, November 21, 2003

Tökum öll ofan fyrir Dabba digra, ríka vini litlamannsins
Ég veit nú ekki alveg hvað mér finnst. Auðvitað er út í hött að einhverjir menn sem hafa atvinnu af því að passa peningana okkar fái einhverjar skrilljónir í bónus fyrir það að græða á okkur.

En mér finnst líka dálítið út í hött að sá sem flestu ræður og flestir kjósa sleppi sér algjörlega þegar hann áttar sig á því að einkavæðingin hans þýðir það að hann ráði ekki lengur yfir öllu. Og ég er ekkert rosalega glaður ef það hefur þær afleiðingar í för með sér öll hlutabréfin mín í þessum glæpóbanka þarna fari að snarlækka í verði. Ég á nefnilega alveg stóra summu þarna af hlutabréfum síðan ég skráði mig á einhverri vefsíðu fyrir lagngalöngu um að ég vildi fá að kaupa einhvern slatta af Búnaðarbankanum þegar hann var einkavæddur upphaflega. Var reyndar eiginlega búinn að steingleyma þessum hlutabréfum alveg þangað til ég sá mér til mikillar ánægju í einkabankanum mínum að ég á heilar 150 þúsund krónur eða svo af hlutabréfum í einhverju sem heitir því undarlega nafni "Kaupþing-Banki". Ég held að minnsta kosti að það sé þessi banki sem stórgrósserarnir eru að stjórna og ég eignaðist örsmæðarögn í þarna um árið þegar almenningur gat keypt banka á netinu.

En það sem er hallærislegast af öllu er þegar stórgróssérarnir sem stjórna glæpóbankanum koma og segja að þetta sé allt einhver misskilningur. Þeir eigi ekkert eftir að fá þessa peninga. Þetta sé bara það sem væri hægt að selja hlutabréfin á nákvæmlega núna. Eftir fimm ár þegar þeir mega selja verði staðan allt önnur og eiginlega gaf blessaður maðurinn það í skyn að þetta yrði hálf verðlaust þá. Einfaldari skilaboð hef ég ekki fengið lengi [amk. voru SMS skilaboðin sem ég var rétt í þessu að fá ekki einfaldari]: Ég á að selja þessa hlutabréfaræla mína strax á mánudaginn þannig að þeir verði ekki verðlausir með þessum 700 millum sem grósserarnir eru með!

En ég verð samt að segja að þetta er nú samt með því flottara sem forsætisráðherrann okkar hefur gert nokkuð lengi. Sýnir að minnsta kosti að hann er ekki dauður úr öllum æðum.

SMS skilaboðin sem ég fékk annars voru: LEO. KVEIKTI UTI.LJ EN SLÖKKTI I STOFU. ÉG KVEIKTI AFTUR. EKKI BORÐA YFIR TIG? EG GET EKKI VIDRAD TIGMEIRA! KV. TIN VINK.

Torkennilegri skilaboð hef ég aldrei fengið. Þar sem ég er með númerabirti á SMS eins og líklega allir aðrir þá sá ég að þetta var einhver kona frá Hveragerði sem ég þekki hvorki haus né sporð á. Það sem mér líst samt eiginlega verst á er þetta með að fara út að viðra einhvern og einhver sem heitir Leó. Ætli það séu einhver ljón á vappi í Hveragerði eða hvað??? Og ekki skánar þetta nú þegar maður hugsar um hvað ljónið sé hugsanlega að borða yfir sig af!

No comments: