Tuesday, October 28, 2003

Ísland og utanríkisstefnan og Færeyjar
Stundum fyrirverð ég mig fyrir að vera þegn hins íslenska ríkis. Þegar vinir okkar færeysku vilja fá að vera alvöru á meðal Norðurlandanna og nýlenduherrarnir dönsku taka það auðvitað ekki í mál, þá birtist framsækin íslensk utanríkisstefna okkar Íslendinga í því að ráðamenn okkar lýsa yfir að þetta sé bara mál Dana og Færeyinga. Við eigum ekkert að vera að blanda okkur í sjálfstæðismál annarra þjóða.

Ég verð eiginleg að játa að ég er ekki alveg að skilja þetta. Til hvers erum við með utanríkisstefnu, ráðherra og hvað þetta allt saman er ef ekki til að hjálpa okkar næstu nágrönnum í sinni sjálfstæðisbaráttu. Er það gæfulegra að við séum að skipta okkur af stríði óðra manna í Írak frekar en að rétta Færeyingum hjálparhönd? Mér er spurn.

Ég held að ég muni ekki nema eftir tveimur tilvikum að íslenska lýðveldið hafi tekið ábyrga framsækna afstöðu í utanríkismálum. Annars vegar í þorskastrínum og svo hins vegar þegar við vorum að hjálpa Eystrasaltsríkjunum við að fá sjálfstæði. Fyrir hvort tveggja held ég að hróður okkar hafi aukist verulega þó það hafi gusta dálítið á meðan á því stóð. Ég held að afstaða okkar núna í þessu máli muni ekki auka hróður okkar mikið. Reyndar ekki frekar en afstaða okkar gagnvart Írak en það er reyndar allt önnur Ella.

En þar sem ég er farinn að blogga um utanríkismál þá stenst ég ekki mátið. þegar Kaninn á vellinum var að seja upp einhverjum hálfum öðrum hellingi af íslendingum í vinnu hjá sér þá heyrði ég útundan mér í fréttunum að einhver framámaður íslenskur þarna suður frá var spurður hvort við íslendingar þyrftum ekki að fara að byggja bara upp einhverja atvinnu þarna sjálfir frekar en að treysta bara á Kanann og jú, framámaðurinn játti því og játaði þar með (að mínu mati) að hann sem framámaður hefði hingað til eingöngu gengið fram í því að við gætum haft sem allra mest út úr Kanagreyjunum sem eru búin að vera þarna í meira en hálfa öld til að verja lýðræðið!

No comments: