Nei ekki alveg hættur að blogga, bara næstum því...
Ætlaði nú eiginlega að fara í spurningakeppni Skýrr sem er alltaf hin besta skemmtun en ég smitaðist af hinni skelfilegu félagsdeyfð sem er að ganga hjá þeim sem eru að vinna þarna í kringum mig og fór hvergi.
Fór þess í stað austur um sveitir með brója mínum og sinntum við skógræktarstörfum við músahúsið okkar. Sáum reyndar enga mús í eigin persónu inni í húsinu en svona smá klór hafði bæst við síðan síðast. Auk þess bankaði eitt músartetur uppá seint um kvöld og krafðist inngöngu. Taldi það líklega algjört svindl að við sætum þarna tveir einir að kræsingum allt kvöldið úðandi í okkur bananasplitti með rjóma og herlegheitum.
En þetta var allt saman bara helvíti fínt svo ég grípi til kjarnyrtar íslensku. Reyndar var veðrið í gær ekki jafn gott og ég hafði vonað, hálfgerður þræsingur miðað við blíðuna sem við höfðum átt von á en samt svo sem ágætt.
Höfðum reynar bara ætlað að vera fram á laugardagskvöld en þegar það var komið myrkru, við farnir að grilla og hugurinn farinn að snúast um steik, rauðvín og bananasplitt þá var einhvern veginn alveg út í hött að fara að æða í bæinn.
Höfðum það þægilegt í sveitinni í staðinn og tókum skák sem að sjálfsögðu ég vann. Ja kannski ekki báðar þar sem ég klúðraði þeirri fyrri í þráskák eftir að vera búinn að drepa flesta kallana hans.
Annars bar það til tíðinda í síðustu viku að ég vann í raunvínshappdrættinu í vinnunni hjá mér. Reyndar bara aukavinning en samt, kom út með gróða!
No comments:
Post a Comment