Sunday, July 03, 2011

Kerlingarfjöllin að baki

... en samt hvergi af baki dottin...

ERS_7002

Skálarnir (öðrum megin ár) í Kerlingarfjöllum


Það var einhvern tíman í vetur þá sjaldan sem ég hitti Sigþór að hann sagði mér frá sjóndapri gönguferð sem var á áætlun um Kerlingarfjöll í sumar. Jobbi eitthvað forfallaður og það vantaði einhvern svona til að halda aðeins í hendina á þeim. Skemmtilegur hópur sem ég hafði einu sinni hitt úti í Bjarneyjum og Flatey fyrir hvað þremur árum á meðan við Hanna Kata vorum enn að dóla okkur saman.

Ferðin heppnaðist alveg ágætlega held ég. Gengið báða dagana en veðrið ekkert allt of gott. Yfirleitt annað hvort rok eða rigning eða hvort tveggja nema þá stundum sem sólagrlennan lét sjá sig.

Skemmtilegt að spássera þarna um vígi íss og elda. Gat spekúlerað í öskjunni semn er þarna í fjöllunum (þ.e. þeirri öskjunni sem við vorum að fara um) og einhver jarðlög sem mátti líka horfa á. Mjög flott skálög við skálann í Árskarði.

Gönguleiðirnar

IMG_5280

Á leið niður í Hveradalinn


Það var óttaleg rigningarspá og að mestu gekk hún eftir fyrri daginn þegar við gengum frá skálunum. Þá var suddi megnið af deginum og allir frekar sáttir að komast til baka.

Seinni daginn var sæmilega bjart yfir enda spáin eitthvað skárri. Það var hávaðarok á bílastæðinu við Hverdalina þar sem við hófum gönguna. Við höfðum fréttir frá Ástþóri bróður Helga henar Höllu að það væri laug þarna sem hefði einhvern tíman verið gerð. Ekki hafði ég komið þangað áður en það var líka sagt að laugin væri hálf hrunin eða hún væri lítil en það var lofað 42°C heitu vatni. Þegar að var komið var laugin ekkert svo lítil og hún var í sjálfu sér ekkert hrunin en það var ekki tappi í rörinu og því meiri drulla í henni en vatn. Síðan var reyndar verrara að vatnið sem seitlaði í laugina var ekki einu sinni snarpheitt. Eiginlega bara hálf kalt. Hvort einhver áveituframkvæmd var eftir veit ég ekki en það var betrara að við skildum hafa skilið sundfötin eftir í bílunum.

IMG_5272

Birta í lauginni


Við þurftum að finna okkur leiðir. Ég er nú ekki reyndasti leiðsögumaður í heimi og hafði ekki gengið nákvæmlega leiðina sem við vorum að fara þarna. Ég vildi vera sem mest í og við Hverasvæðin og það var hálf erfitt að vera með 25 manna hóp í eftirdragi þar sem ekki allir voru þeir sprækustu og sumir frekar sjóndaprir. Þetta var dálítið eins og að vera á rúntinum niðir í miðbæ á trailer að reyna að komast eitthvað sem ég vissi ekki alveg hvar var. En þetta blessaðist nú allt saman að lokum þó við höfum yfirleitt ekki farið þær leiðir sem ég ætlaði mér.

IMG_5310

IMG_5306

Að láta veðrið ekki á sig fá


Svo fór að rigna. Það rigndi meira en fyrri daginn og var eiginlega bara grenjandi rigning á köflum. Við gengum eitthvað svipaðan hring og rólegri hópurinn fór með JÖRFÍ þremur árum fyrr þegar þeir sprækari fóru upp á Snækoll. Núna var ekki veður til að fara þangað þannig að við urðum að láta þetta duga að sinni.

gonguleidirnar farnar

Græna leiðin fyrri daginn 10,9km en sú blágræna seinni daginn 9,6km.


Þetta var annars hin skemmtilegasta ferð. Mikið stuð á kvöldvökunni aðallega seinna kvöldið. Vorum áhorfs og -hlustunar efni fyrir ungverska fjöslkyldu og tékkneskan vinahóp.

Svo undir morgun daginn sem heim skyldi haldið rauk hann upp með hálfgerðu ofsaroki. Það byrjaði að hvessa um 6 leytið og um klukkan 8 fóri stög að rifna af búngaló tjaldinu hans Sigþórs. Var það hinn skemmtilegasti björgunarleiðangur að ná dótinu þeirra og tjaldinu saman.

Svo var bara haldið í bæinn.

---

Í þessari ferð var alltaf aðeins að rifjast upp fyrir mér skulum við segja önnur hálendisferðin mín. Það var líklega sumarið 1980 eða þá 1981. Það hafði verið Hafró ferð sem við systkinin fórum í með foreldrunum upp á Sprengisand og svo var farið yfir Kjöl á Kortínunni sem líklega gekk undir nafninu nýja Kortínan þá, þó hún væri þá orðin svona átta ára gömul. Vegurinn var þá meira bara jeppavegur og í eitt skiptið gengum við á undan bílnum á Bláfellshálsi á bakaleið til að týna grjót úr veginum þannig að það væri hægt að komast þar upp. Reyndar var það víst ári seinna.

Ég hafði þá lesið bókina "Yfir kaldan Kjöl" og kunni hana hérumbil utanað. Þekkti þess vegna leiðina vel og var með leiðsögn á köflum. Tók mynd í heiðskíru veðri af kerlingarfjöllum og skráði samviskusamlega inn nöfn allra tindanna. Fannst tvö fjöll á Kili bera af öllum öðrum. Það var annars vegar Hrútfell og hins vegar Loðmundur í Kerlingarfjöllum. Snækollur var einnig góður og mikið fannst mér reyndra líka koma til Bláfellsins.

Í þessari fyrstu ferð minni yfir Kjöl og með viðkomu í Kerlingarfjöllum gerðum við reyndar ekkert annað en að tjalda þar og vera yfir nótt. Mest þótti mér ef til vill koma til kvöldvökunnar í skíðaskólanum. Þar var alveg rosalegt fjör en eitthvað vorum við þar úti á þekju með öllu því flotta fólki sem var þarna á skíðum.

Það var annars dálítið þannig núna líka en núna vorum við með kvöldvökuna sem aðrir horfðu á í forundran og það vorum við sem fórum upp í Hveradalinu og skoðuðum og sáum eitthvað. Á tjaldstæðinu og við skálana var mikið af fólki sem margt hvert var "vel búið" með harðspjalda ferðatöskur á hjólum en fór ekki mikið frá skálanum. Í það minnsta sáum við ákaflega fáa í fjöllunum. Nokkra reyndar fyrri daginn en mjög fáa seinni daginn. Man þá og mun alltaf muna eftir einum karli sem hitti okkur þegar við vorum að koma til baka og hann vildi vita hvað væri langt í skálann leiðina sem við vorum að koma. Ég kom í orðsins fyllstu merkingu af fjöllum. Skálinn sem við gætum verið að koma úr hefði þá helst verið Setrið en það var dálítið langt í hann. Maðurinn talaði ekki neina ensku að ráði og var franskur eftir hreimnum að ræða. Hann varð loks glaður við þegar ég kom honum í skilning um að það væri bara þokkalegur vegur í boði niður í skálann. Hann hafði sjálfur farið niður einhverja snjóbrekku á leið númer 2 sem ég vissi auðvitað ekkert hvar var.

Vona ég bara að maðurinn hafi komist til einhverra byggða aftur.

IMG_5322

Birta skolar af sér hveraleirinn á meðan sá franski bíður álengdar

2 comments:

þórný Baldursd. said...

Flottar myndir og skemmtilegt blogg, enda skemmtileg ferð.

ers said...

Takk fyrir það sömuleiðis. Þessi ferð var tær snilld enda hópurinn í ferðinni eðal góður!