Tuesday, July 26, 2011
Að ætla að leggja af stað í ferðalag og klúðra lopapeysu gjörsamlega!
Núna er víst runninn upp nýr dagur en í gær... sem telst víst vera í fyrradag þá ætlaði ég að klára bévístans peysuskömmina. Gekk ágætlega en lenti í einhverjum vitleysum en þóttist bara takast að impróvisera mér út úr þeim á einhvern snilldarlegan hátt. Var svo búinn að gera einhvern eðalis fínan kraga á peysuna þegar ég hafði rænu á að prófa að fara í hana. Og andskotanshelvítisdjöfulsins. Hún passaði þá helst á einhvern gírafara eða guð má vita hvað. Að minnsta kosti gat hún ekki passað á mig nema ég myndi toga hausinn á mér upp um hálfan metra eða svo og dfeifa öxlunum þar upp líka.
En ég var búinn að fá nóg af þessari skrambans peysu og henti henni bara ofan í einhvern kassa og fór að undirbúa ferðalag. það átti að leggja af stað í gær, þ.e. mánudaginn. Dagurinn fór í alls konar stúss að taka sig til. Það er reyndar þannig að ef maður ætlar einn í ferðalag þá er einhvern veginn voðalega auðvelt að draga undirbúninginn á langinn og það tókst ágætlega. Svo ákvað ég líka að gefa skrambans peysunni einn séns. Ég ætlaði auðvitað í ferðalag í nýrri peysu. Og eftir af hafa rakið meira upp en ég vil vita um þá tókst mér að vinna þetta einhvern veginn af fingrum fram þannig að peysan svona sleppur til. Kannski ekkert mikið meira en það. Hún er annars ágæt. Reyndar það þröng að ég má alveg fara í megrun eða a.m.k. ekki neitt sérstaklega hlaupa meira í spik en orðið er. En hún er ágætlega þægileg, svona smástingur eins og peysur eiga að gera en er bara notaleg.
Ég tók reyndr einhverjar myndir af peysuskömminni þegar hún var hálf rakin upp en þær urðu eiginlega líka misheppnaðar þannig að þær birtast ekkert hér. Það eru takmörk fyrir því hvað ég birti aulalegar myndir. Eitt er að vera auli að prjóna lopapeysur en annað er að vera auli að taka ljósmyndir. Ef ég tek aulalega mynd af aulaskap þá er þar kominn aulaskapur í öðru veldi sem ég fer ekki að dreifa of mikið!
En í fyrramálið þá skal verða lagt af stað í ferðalag og þá skal verða tekin mynd af manni í nýju peysunni sem er svo sem ekki fullkomin en samt kannski bara ágæt.
Er síðan orðinn svo vel grægjaður eftir undirbúning ferðarinnar að ég verð frekar vel nettengdur í ferðalaginu þegar ég vil svo við hafa!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment