Með jarðfræðilegu ívafi
Hverir fyrir sunnan Kleifarvatn
Það var farinn bíltúr út á Reykjanes til að prófa nýju myndavélina. Hafði ætlað að fara upp í Hengil reyndar í einhvern göngutúr en þar var of mikið af síðdegisskúraskýjum og því var farið út á Reykjanes. Á báðum stöðum var hugmyndin að striplast eitthvað í heitum lækjum. Klambrabil eða Innsti-Dalur hefði það kannski orðiði í Henglinum en ég var búinn að lesa um einhverja Skátalaug við Kleifarvatn. Heldur var hún nú þurr þegar á reyndi!
Skátalaugin uppþornaða
Við suðurenda Kleifarvatns blasir núna við lítið hverasvæði. Það ku vera hverir sem voru á botni vatnsins þangað til fyrir skemmstu [einhver ár reyndar] en hafa sem sagt komið upp úr vatninu um leið og vatnsborð þess hefur verið að lækka.
Bólstraberg við Kleifarvatn
Þarna við hverina við suðurenda vatnsins (við Lambatanga líklegast) rakst ég á nokkuð flott fannst mér sjálfum bólstraberg. Tók nokkrar svona jarðfræðilegar myndir, sem eru hér.
Hraunfoss í Stóra-Hamradal
Keyrði síðan á bakaleið veginn sem liggur fram hjá Djúpavatni. þar er ekið í útjaðri og að lokum yfir Ögmundarhraun sem rann frá 1151 til 1188. Ögmundahraun er herjarinnar flæmi en það var svo sem ekki það sem vakti mesta athygli mína heldur það að mér virtist hraunið hafa farið niður af eldra hraunlagi (misgengi get ég séð eftir á - eftir að ég last mér örlítið til) og myndaði þar hraunfossa niður af brúninni og að hluta til þakti Ögmundarhraunið hamravegginn með þunnu hraunlagi. Það sem mér fannst e.t.v. undarlegt að hraunið var frekar úfið þar sem ég kom fyrst inn í það nálægt sjónum en þarna þar sem það rann í og við Stóra-Hamradal þar virtist það hafa veirð mjög þunnfljótandi. Meiri myndir af þessu eru hér.
No comments:
Post a Comment