Saturday, July 23, 2011
Tröllakirkja með FÍ
Tröllakirkja séð frá þjóðveginum. Það er farið upp skarðið vinstra megin og síðan sveigt til hægri upp á hæsta tindinn sem er þessi í miðjunni.
Það bar til tíðinda að lati leiðsögumaðurinn mætti í mánaðarlega fjallgöngu Férðafélags Íslands. Júlí er víst sjöundi mánuður ársins og því ætti þetta að vera sjöunda gangan. Hjá mér er þetta víst bara þriðja gangan. Ég var að kenna, ég var í prófum, ég var veikur og ég var í útlandi að keppa í hjólreiðum.
En jæja. Núna var farið á Tröllakirkju sem heitir svo út af því að þar bjuggu tröll all ógurleg í árdaga. Heldur leist þeim illa á þetta búandlið sem settist að og fóru að tínast á brott eitt og eitt. Að lokum var tröllskessa ein eftir sem þraukaði lengst. Þegar innrásarliðið var orðið kristið og datt aukin heldur í hug að byggja kirkju hérumbil undir fjallinu eða á Stað þar sem Staðarskáli er núna þá var skessunni nóg boðið. Tók hún upp einn hnullung all vænan og fleigði í átt að kirkjunni. Hugðist hún murka líftóruna úr þessum vesældarsálum sem sóttu guðsþjónustu og jafna kirkjuóskapnaðinn við jörðu. En skessan kastaði grjótinu eins og einhver kerling [hún Linda benti mér á að þetta hefði líklegast verið ástæðan - skessuræfillinn hefði kastað eins og hver önnur kerling - ef tröllkarlarnir hefðu ekki verið flúnir af hólmi hefði eflaust farið öðruvísi] og dreif ekki alla leið og kom steinvalan niður í hestaréttina á Stað. Drápust heilir fjórir hestar en kirkjugesti sakaði ekki. Sá tröllskessan þá sitt óvænna og hrökklaðist á brott. Steðjaði hún út á Vestfjarðakjálkann og æddi þvert yfir Steingrímsfjarðarheiði. Fór þar um háfjöllin [sem eru reyndar ekki sérlega há og öll lægri en Tröllakirkjan góða] og fann sér loks bústað í Hrolleifsborg í Drangajökli. Hefur eflaust verið færra mannskepna norður þar og meiri friður fyrir guðlegum predikunum.
Skessusöguna kann ekki nokkur maður lengri en reyndar væri gaman að skoða hvort það sé einhver stór steinn í eða við rétt eða einhvers staðar nálægt Stað. Finnst mér ekki ósennilegt að eitthvað slíkt hafi verið kveikjan að þjóðsögunni.
En við urðum ekki vör við neinar skessur og gekk gangan vel upp og niður aftur. Reyndar ekki allir á eitt sáttir um hvaða fjall væri hvað af þeim fjöllum sem við sáum. Er nokkuð viss um að Skjaldbreiður var ranglega kennd vinstra megin við Okið þar sem hún á [skv. landakorti] að sjást yfir Þórisjökul. Líklega sást Hlöðufell á milli Þórisjökuls og Eiríksjökuls. Síðan var helst til of mikið mistur til að það komi fram á myndum og áttavitastefnur voru ekki teknar en ekki vitað með vissu hvort fjall sem við sáum var Krákur eða Mælifellshnúkur. Svona eru þá leiðsögumenn!
En veðrið var gott skilst mér í fyrsta sinn í þessum ferðum. Hefur í öllum öðrum ferðum þessa hóps verið misvont og afleitt í fyrstu ferðinni sem ég til að mynda fór í.
Smá jarðfræði í lokin
Jarðlög, lárétt og hallandi í Tröllakirkju
Á leiðinni niður tók ég eftir undarlegum halla á jarðlögum ofarlega í Tröllakirkjunni. Fjallið er skv. því sem kemur fram í bókinni "101 tindur" eftir Ara Trausta og Pétur Þorleifs [Pétur skrifaði þessa lýsingu], rofinn jarðlagastafli myndaður fyrir 6-7 milljónum ára síðan. Út frá jarðfræðikortinu af öllu Íslandi frá Náttúrufræðistofnun Íslands þá er fjallið hins vegar basískt eða ísúrt gosberg og setlög frá fyrrihluta Ísaldar, þ.e. 0,8 til 3,3 milljón ára gamalt. Svæðið umhverfis er hins vegar blágrýtisstaflinn eldri en 3,3 milljónir ára. Ég hef trú á að jarðfræðikortið sé réttara. Svarta línan sem liggur þarna í gegn táknar "þykkar samfelldar setlagamyndanir með surtarbrandi".
Jarðlögin sem ég sá koma fram á myndinni að ofan og hef ég ekki almennilega skýringu á þeim. Hvort þau mynduðust svona hallandi eða hölluðust eftirá. Hvort þau ná undir hraunlagastaflann sem myndar fjallið að öðru leyti eða hvort þau liggja að honum og gætu þá verið yngri en hraunlögin vinstra megin. Myndin er annars tekin í norðlæga átt og hraunlögin hallast því niður til hægri.
Jarðfræðikort af Tröllakirkju
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Það er ágætt að maður lærir eitthvað í jarðfræði hægt og rólega!
Skýringin á þessum mun á jarðlagahalla ætti að vera nokkuð augljóslega sú að hallandi hraunlögin eru tertíerlögin sem eru merkt blá á kortinu og hafa runnið fyrir meira en 3,3 milljónum ára þegar virka gosbeltið hefur verið líklega vestan við Tröllakirkjuna og halar þeim niður að samhverfu þar vestar. Lögunum hallar því upphleðsla gosefna hefur þá verið meiri þar vestar og því meira farg gosefna sem hefur þrýst jarðskorpunni niður. Það hefur svo ekki verið teljandi snörun á jarðlögum eftir að kvarter hraunlögin runnu og eru þau því að mestu leyti lárétt.
Post a Comment