Tuesday, July 12, 2011

Kötluskvetta í Múlakvísl

Við misstum af því mesta og vorum næstum búnir að missa af því öllu saman!


Klakahröngl á vegi.
Klakahröngl á vegi.
Ég held reyndar að klakinn hafi verið meira jafnt dreifður um veginn en hafði heyrt í útvarpinu um morguninn að fréttakonan hafði ekki komist út að brúarstaðnum fyrr en einhver var búinn að riðja ísnum af veginum fyrir hana þannig að hún gæti ekið á staðinn. Svona hafa fréttirnar stundum áhrif!


Þegar við bræður ókum úr Fellsmörk vorum við á báðum áttum um hvað gera skyldi. Það var reyndar hann ég sem var óttalegur aumingi og talaði hálfpartinn fyrir því að fara bara heim. Rifbeinið eitthvað að angra mig og kvef eða kannski er ðeg bara að verða að einhvejrum aulalingi. Vona að það sé ekki raunin. En það varð úr samt að vinstri beygjan var tekin. Við gerðum ekki ráð fyrir að fá að skoða eitt né neitt og jafnvel að vegurinn væri bara lokaður við vík og það yrði gert að lögreglumálu ef við ætluðum eitthvað fótgangangi. Það varð þó ekki raunin því það var enginn til að stoppa okkur af fyrr en við Kötlujökul þar sem löggan lokaði veginum. Leyfði okkur að fara fótgangandi en við mættum ekki vea nema 20 mínútur út af hinum stórhættulegu gösum.

Mælingamenn og vísindamenn spjalla á staðnum og í síma.
"Mælingamenn og vísindamenn spjalla á staðnum og í síma

Við hefðum líklega átt að biðja um að fá að keyra aðeins legnra því einhverjir fengu það og ef við hefðum ætlað að standa við þessar 20 mínútur hefðum við þurft að snúa við nokkuð fljótlega og líklega áður en við náðum til Sigurðar Reynis sem Gunni náttúrlega þekkti og var þarna að taka efnasýni til að geta sagt til um hvort eldgos hefði orðið undir jöklinum eður ei. Eftir smá spjall var haldið áfram og við þá líklega þá þegar búnir að vera gott betur en þessar 20 mínútur. Vorum núna að koma inn á flóðasvæðið af einhverri alvöru.

Farvegur flóðsins
Foss niður af veginum, smá hylur væntanlega og svo hélt vatnið bara sína leið

Eins og á myndinni að ofan þá sést hvernig vatnið hefur flætt norðarn vegarins og yfir hann og niður af honum og myndað þar foss. Malbikið í veginum er þá fossberinn og Vegagerðin eða upphækkun vegarins er fossvaldurinn. Flokkast líklegast sem einhvers konar stíflufoss eða hvað?

Við brúarstæðið
Gunni skyggnist yfir Múlakvísl þar sem brúin var daginn áður

Fljótlega nálguðumst við svo brúarstæðið eða endann á veginum þar sem brúarstöplarnir stóðu eftir.

Við vissum að brúin var farin en það sem kannski kom okkur á óvart var að brúin sjálf var frekar heilleg þar sem hún lá við bakkann að austan verðunni. Reyndar hafa sérfræðingar Vegagerðarinnar lýst því yfir að brúin sé gríðarlega mikið skemmd og e.t.v. er ekkert á henni að græða þar sem hún liggur þarna meðfram ánni.

Leifarnar af brúnni yfir Múlakvísl
Leifarnar af brúnni yfir Múlakvísl á austurbakka árinnar

Brúarstólparnir að austan stóðu eftir en undirstaðan að vestan í öllu falli farin og að sögn einhverjir stólpar líka.  Á vestasta stólpanum sem varð eftir hangir vatnshæðarmælir Vatnamælinga Veðurstofunnar.

Brúarstólparnir sem stóðu eftir
Brúarstólparnir sem stóðu eftir

Þegar brýr fara þá fara gjarnan rafmagnslínur líka og sést á myndinni að ofan hvar línan er slitin og nokkrir staurar farnir í farvegi árinnar.

Rafmagnslínan fór sundur
Rafmagnslínan í sundur


Þegar við vorum búnir að vera við brúarstæðið í rúmar 20 mínútur var mál að halda til baka. Svo sem ekki gott að vera of lengi í öllum eiturgufunum sem þarna voru og svo höfðum við víst bara þetta 20 mínútnaleyfi. Mér fannst reyndar best að túlka það þannig að við mættum vera 20 mínútur við brúarstæðið og það stóðst nokkurn veginn. Á bakaleiðinni hittum við Erik og var það eina skiptið sem einhver birtist sem ég þekkti meira en Gunninn.

Eftir pulsustopp í Víkurskála var haldið inn Kerlingardal og áleiðis til Þakkgils. Við höðfum fregnir af að leiðin væri lokuð þar sem einhver brú þar hefði skolast í burtu.

Séð yfír flóðfarveginn
Séð yfir flóðfarveginn, líklega milli Selfjalls vinstra megin og Össuhæðar hægra megin í áttina að Hörleifshöfða

Þegar við komum niður að vatnshæðarmælinum við Léreftshöfuð mætti okkur einhver útlendingur á vígalegum súzuki Fox, eldgömlum pínulitlum í Ómars-stæl. Sagði hann okkur í óspurðum fréttum að við yrðum að fara varlega út af öllu gasinu sem þarna svifi yfir vötnum. Hann sagðist hafa verið í korter og það hefði dugað til höfuðverkjar. Ég auðvitað með varann á leit á klukkuna til að vera viss um að við yrðum ekki of lengi. Það var hins vegar einhver gustur þarna ekki í áttina til upptaka árinnar og því kannski ósennilegt að okkur biði bráður bani. Í öllu falli þá vorum við þarna örugglega í meira en heilan klukkutíma.

Frá vatnshæðarmælinum við Léreftshöfuð.
Frá vatnshæðarmælinum við Léreftshöfuð

Mælirinn sést neðst til vinstri. Það var okkar mat að þegar flóðbylgjan kom niður hefði myndast lón tímabundið þarna fyrir ofan á meðan vatnið náði að renna um þrengri farveginn. það má meðal annars sjá af því að vatnsborðið virðist hafa verið nær lárétt ofan mælisins sem sést af lækkandi fjöruborði ofan þrengingarinnar.

ERS_7472Það flæddi auðvitað vel yfir mælirörið enda mældi mælirinn 5 metra flóðtopp.  Af því að við vorum hér um bil í vatnamælinaleiðangri þá var mælirinn skoðaður og var vatnsrörið til hlífðar farið í sundur.

Það voru vangaveltur hjá okkur hvort flóðtoppurinn þarna við Léreftshöfuð hefði verið meira en 5 metra og fannst mér það eiginlega en Gunni var ekki eins viss.  Með að bera saman hæð fólksins á myndinni þá fannst mér þetta vera fjórföld mannhæð sem vatnið hefði náð, sbr. næstu mynd.  En það verður samt eiginlega að játast að það er ekkert allt of gott að meta þetta svona eftir auganu úti í náttúrunni.

Spekúlerað í málunum við vatnshæðarmlinn mót Léreftshöfði
Spekúlerað í málunum við vatnshæðarmlinn mót Léreftshöfði


ERS_7464
Farvegir (niður í "lónið" ?) í setinu sem myndaðist

Okkur fannst að lárétt flóðfarið sem fór minnkandi sem ofar dró ofan Léreftshöfuðs benda til þess að lón hefði myndast tímabundið þegar flóðbylgjan kom þarna niður. Annað sem mér fannst benda til þess og einnig vera eftirtektarvert var að það voru litlir farvegir í setinu sem hafði myndast og vísuðu þeir beint niður til þessa tímabundna lóns. Þ.e. vatnið þarna fyrir ofan vatnshæðarmælinn virtist hafa stöðvast og svo runnið undna halla niður að lóninu en ekki runnið með neinu offorsi til sjávar í rennslisstefnu árinnar.

Afréttis á, brú og Múlakvísl
Afréttis á, brú og Múlakvísl

Við höfðum fregnir úr fréttatíma að brú væri farin þarna uppfrá en brúin stóð sem fastast en vegurinn að henni báðum megin var hins vegar farinn veg allrar veraldar. Áin heitir líklega Afréttisá og skv. kortum þá er vegurinn þarna ofan í eðlilegum farvegi Múlakvíslar og því varla von á góðu.

Jökulker
Jökulker við Múlakvísl... án efa mynduð í einhverju Kötluhlaupi og ekki ósennilegt að það sé úr því síðasta (1918)

það voru aðeins vangaveltur hjá okkur um landslagið þarna. Einhver spekingur hafði sett út á staðsetningu mælistöðvar vatnshæðarmælisins þar sem hann mydni fara veg allrar veraldar í alvöru Kötluflóði. Líklegt má svo sem telja að allt það sem þarna þurfi undan að láta ef til alvöru flóðs kemur. Ummerkin eru meðal annars jökulker sem eru þarna víða ef vel er að gáð. Það sem er á myndinni að ofan er einhverjum metrum fyrir ofan mælistöð vatnshæðarmælisins og verður að teljast líklegt að þangað geti Kötluhlaup náð. Reyndar miðað við lýsngarnar á Kötluhlaupunum þá myndi ég nú eiga von á að þau færu töluvert hærra. það væri kannski athugunar efni að skoða hversu hátt þarna í landinu ummerki Kötluhlaupanna er að finna.

það voru líka spekúlasjónir um hvernig þessi fjöll eða öldur þarna almennt eru myndaðar. Jökulruðningur fannst mér líklegt. Er svo sem ennþá á því en miðað við það að skv. myndinni að neðan er þetta eitthvað lagsskipt set þá er líklegt að þetta sé að einhverju leyti set úr lóni sem hefur verið þarna. Líklegast má kannski telja að þetta sé í grunninn jökulruðningur og svo hafi myndast þarna jökullón þegar jökullinn hörfaði og þá fallið til betur flokkað set.

Setlög fyrir ofan vatnshæðarmælinn við Léreftshöfuð
Setlög og/eða jökulruðningur

Af myndinni er ég síðan ekki lengur alveg eins viss og áður um að berggrunnurinn sé bara móberg.  það sem er undir malarsetinu þarna er eins og lagsskipt líka.

Á bakaleiðinni fundum við slóðann upp á Háfell.  Þar sást ágætlega yfir brúarstæðið og einnig hvar áin rennur til sjávar.


Brúarstæði Múlakvíslar
Séð ofan af Háfelli yfir brúarstæðið á Múlakvísl. Stöplarnir standa eftir flestir eða allir. Í það minnsta nokkuð margir. Brúin liggur skáhalt niður frá brúarstæðinu að austanverðu.

Var þarna komið nóg og héldum við heimleiðis eftir ís og skitustopp eitt rosalegt í Víkurskála.
Veðrið var orðið sæmilegt en það súldaði samt á okkur við Fellsmörk.  Var svo léttara yfir vestan Eyjaflalla.

No comments: