Thursday, January 27, 2005

Var gaman í dag?

Veitki enn

Það var blótarður þorri í hádeginu. Þar sem þorrinn er minn árstími þá var ég auðvitað með í því. Það er hægt að gera svo mikið úr svona áti. T.d. með því að allir mæti í vinnuna í þjóðlegum búningum. T.d. allir í lopapeysum eða kannski eitthvað fínni s.s. peysufötum og öðrum þjóðbúningum. Ég myndi t.d. örugglega taka mig vel út í skautbúningi. Hatturinn skautbúningnum myndi líklega rekast uppundir þegar hann væri kominn á hausinn á mér [eða er annars ekki einhver herjarins hattur á skautbúningi?] þannig að ég ætti líklega að halda mig við peysufötin og einhverja dúskhúfu sem lafir niður á aðra öxlina. Væri örugglega svakalega sætt.

Síðan gætum við haft rímnakeppni undir borðum og sá sem myndi vinna fengi í verðlaun nýja stórt hundrað vaðmáls. Og með súrsuðum hrútspungum og lundaböggum myndum við kneyfa öl og taka kýla vömbina hraustlega. Með hákallinum myndum við svo sturta í okkur íslensku brennivíni.

Á eftir gætum við svo legið á meltunni fram á kvöld og þeir sem kæmust á fætur aftur fyrir eðlilegan kvöldmatartíma gætu þá fengið sér meira.

Nei dagurinn var ágætur en það gerðist eiginlega ekkert af þessu. Allir voru svona frekar venjulega klæddir, það var ekkert brennivín en mér tókst að troða í mig bæði hákalli og hrútspungum.

Var annars að lognast út af í allan dag, var enda í bíóhúsi langt fram yfir miðnætti í gærkvöldi. Er fyrst núna að vakna sæmilega. Fór áðan í hina mestu hættuför út að taka myndir og náði alls kyns draugum á filmu (hvað á annars að kalla þetta digitaldrasl) eins og til dæmis þessa hér:

cemetary in reykjavik

Ég verð að játa að mér leið ekkert allt of vel einum þarna í kirkjugarðinum. Annars á meðan ég hafði á tilfinningunni að ég væri einn þá var það reyndar í lagi og það var svo sem enginn annar þarna. Og ég var ekkert sérstaklega óttasleginn út af þeim framliðnu enda flestir sem hvíla í kirkjugarðinum við Suðurgötu löngu hættir að ganga aftur en það gæti kannski frekar verið einhver dópistalýður þarna. En hvað leggur maður ekki á sig fyrir listina?

En nú skal farið að sofa fyrir miðnætti!

No comments: