Þetta er dálítið kúnstugt allt saman.
Einhvern tíman fyrir ekki mörgum árum úrskurðaði Siv að álver austur á Fjörðum þyrfti ekki að fara í umhverfismat enda áður búið að meta umhverfisáhrif af öðru álveri á sama stað sem var miklu stærra. Reyndar byggði stærra álverið á eitthvað annarri umhverfistækni en það breytti ekki miklu þar sem bættust bara við einhverjar tvær lofttegundir.
Frú verðandi jarðfræðidoktor Herdís segir reyndar að þessar lofttegundir séu annars vegar flúoríð og hins vegar brennisteinstvíoxíð.
Svo er það þannig að brennisteinstvíoxíðið verður að brennisteinstríoxíði þegar það hvarfast við súrefni og það hvarfast svo við raka í andrúmsloftinu og myndar brennisteinssýra sem leysist upp einhvers staðar uppi í himninum og verður svo einhvern tíman að súru regni. Úff þetta var allt of langt og getur varla skipt miklu máli enda er súrt regn löngu komið úr tísku.
Flúoríð getur heldur varla verið par merkilegt, líklega eitthvað sem er í tannkremi. Ég sjáfur geld reyndar að þetta flúoríð sé það sem hefur drepið menn og dýr um víðan völl út um allt land í eldgosum í gegnum tíðina. En ekki fara eldgog í umhverfismat svo það er varla hægt að ætlast til að álver sem dreifi sama gasinu fari í eitthvað sérstakt mat út af því.
Síðan voru einhnverjir bændur á Suðurlandi með þá hugmynd að byggja sér nýtt svínabú en eins og allir menn vita þá er óttalegur ódaunn af svínabúum og örugglega alls kyns lofttegundir sem fara þar út um allar grundir. Svínabú er eiginlega engu skárra en risastór kamar. Það var því eðlilegt að Sivjardómurinn um svínabúið væri að það skyldi fara í umhverfismat enda all veruleg skítafýla af því máli svo ekki væri fastar að orði kveðið.
Það er síðan svo undarlegt að það eru einhverjir illa upplýsir dómstólar sem felldu báða þessa úrskurði úr gildi. Að það þurfi sérstakt umhverfismat fyrir álver austur á Fjörðum sem dreifir tveimur sakleysislegum lofftegundum út úm stromp sem er auk þess svo hár að hann nær næstum upp til guðs. En síðan þurfi ekki umhverfismat fyrir illa lyktandi svínabú á Suðurlandi sem dreifir óteljandi skítaflýlulofttegundum út um allt. Þetta nær ekki nokkurri átt enda standa menn rasandi yfir þessu.
Mér datt þetta bara svona í hug þegar ég heyrði um alla milljónatugina sem svínabændurnir ætla að fá í skaðabætur frá ríkinu vegna Sivjardómsins um svínabúið.
Já það er lán í óláni að náttúran getur ekki farið í skaðabótamál. Þá yrðum við líklega gjaldþrota.
No comments:
Post a Comment