Wednesday, July 27, 2011

Akureyri

Tjaldið og jetboil nýþveginn eftir kaffiuppáhellingu morgunsins

Kominn og búinn að vera heila nótt á Akureyri. Tókst að tjalda nýja fína útsölutjaldinu mínu án þess að þurfa að grípa til neyðarúrræðisins RTFM. Tók ekki lengri tíma en svo að það komst upp áður en allt varð blautt. Reyndar þá tjaldaði ég á góðkunnum stað undir trjánum á Akureyrartjaldstæðinu.

Fyrst hélt hún Elva fyrir mér vöku en hún þurfti endilega að tala hátt og snjallt við kærastann sinn eða einhvern frá klukkan 11 til klukkan 12. Svo þegar ég vaknaði þá þurftu líklegast einhjverjir bæjarstarfsmenn endilega að fara að slá hér allt um kring. Geta þeir á Akureyri ekki verið eins og þeir í henni Reykjavík að vera bara húðlatir og slá ekki nema einu sinni eða tvisvar yfir sumarið? ... kannski er líka bara slegiði hér einu sinni eða tvisvar en það þurfti bara endilega að vera í dat. Best að forða sér hið snarasta því þeire gætu komið aftir að slá á morgun!

Ventó er yfirfullur af drasli, ramfagnskælibox á gólfinu í framsætinu að nota rafmagnið úr sígarettukveikjaranum, myndavélin í sætinu, kortakassar og ferðabókakassar í aftursætinu og eitthvað dót. Einn bívak, tvö tjöld, einangrunardýna, loftdýna og vindsæng í skottinu. Líka tveir prímusar, panna, spaði og efni til að baka skonsur, búa til pressukönnukaffi og mokkakönnuexpressókaffi, tvær gerðir af súkklulaði ofan á brauð og skonsur og svo mætti lengi áfram telja.

Svo trjónir hjól á toppnum, sem næstum því fauk af á leiðinni upp á Öxnadalsheiðina, Skagafjörðurinn ætlaði greinilega að halda fast í mig.

Samt þá sýnist mér að eitt og annað hafi gleymst og það þurfi í smá verslunarleiðangur á Akureyrinni!

Annars þá lýsi ég yfir ánægju með tjaldið sem Katrín seldi mér og ég lýsi yfir ánægju með þennann 3G pung sem ég er að nota en ég lýsi yfir frati á vindsængina sem hélt ekki lofti fyrstu nóttina sína. Ég hlýt eiginlega að hafa klúðrað því að loka tappagatinu almennilega!

Tuesday, July 26, 2011

Einsamallur í ferðalag

jæja...


Þá fer maður að drattast af stað í ferðalag... einsamallur.

Veit ekki hvernig ég fíla það en er í það minnsta kosti með yfirdrifið nóg drasl með mér þannig að mér ætti ekki að leiðast hvað svo sem gerist í þessu ferðalagi!

En það er samt einhvern veginn held ég skemmtilegra að hafa einhvern með sér...

Að ætla að leggja af stað í ferðalag og klúðra lopapeysu gjörsamlega!

VMM_0211

Núna er víst runninn upp nýr dagur en í gær... sem telst víst vera í fyrradag þá ætlaði ég að klára bévístans peysuskömmina. Gekk ágætlega en lenti í einhverjum vitleysum en þóttist bara takast að impróvisera mér út úr þeim á einhvern snilldarlegan hátt. Var svo búinn að gera einhvern eðalis fínan kraga á peysuna þegar ég hafði rænu á að prófa að fara í hana. Og andskotanshelvítisdjöfulsins. Hún passaði þá helst á einhvern gírafara eða guð má vita hvað. Að minnsta kosti gat hún ekki passað á mig nema ég myndi toga hausinn á mér upp um hálfan metra eða svo og dfeifa öxlunum þar upp líka.

En ég var búinn að fá nóg af þessari skrambans peysu og henti henni bara ofan í einhvern kassa og fór að undirbúa ferðalag. það átti að leggja af stað í gær, þ.e. mánudaginn. Dagurinn fór í alls konar stúss að taka sig til. Það er reyndar þannig að ef maður ætlar einn í ferðalag þá er einhvern veginn voðalega auðvelt að draga undirbúninginn á langinn og það tókst ágætlega. Svo ákvað ég líka að gefa skrambans peysunni einn séns. Ég ætlaði auðvitað í ferðalag í nýrri peysu. Og eftir af hafa rakið meira upp en ég vil vita um þá tókst mér að vinna þetta einhvern veginn af fingrum fram þannig að peysan svona sleppur til. Kannski ekkert mikið meira en það. Hún er annars ágæt. Reyndar það þröng að ég má alveg fara í megrun eða a.m.k. ekki neitt sérstaklega hlaupa meira í spik en orðið er. En hún er ágætlega þægileg, svona smástingur eins og peysur eiga að gera en er bara notaleg.

Ég tók reyndr einhverjar myndir af peysuskömminni þegar hún var hálf rakin upp en þær urðu eiginlega líka misheppnaðar þannig að þær birtast ekkert hér. Það eru takmörk fyrir því hvað ég birti aulalegar myndir. Eitt er að vera auli að prjóna lopapeysur en annað er að vera auli að taka ljósmyndir. Ef ég tek aulalega mynd af aulaskap þá er þar kominn aulaskapur í öðru veldi sem ég fer ekki að dreifa of mikið!

En í fyrramálið þá skal verða lagt af stað í ferðalag og þá skal verða tekin mynd af manni í nýju peysunni sem er svo sem ekki fullkomin en samt kannski bara ágæt.

Er síðan orðinn svo vel grægjaður eftir undirbúning ferðarinnar að ég verð frekar vel nettengdur í ferðalaginu þegar ég vil svo við hafa!

Saturday, July 23, 2011

Tröllakirkja með FÍ

VMM_0272
Tröllakirkja séð frá þjóðveginum. Það er farið upp skarðið vinstra megin og síðan sveigt til hægri upp á hæsta tindinn sem er þessi í miðjunni.

Það bar til tíðinda að lati leiðsögumaðurinn mætti í mánaðarlega fjallgöngu Férðafélags Íslands. Júlí er víst sjöundi mánuður ársins og því ætti þetta að vera sjöunda gangan. Hjá mér er þetta víst bara þriðja gangan. Ég var að kenna, ég var í prófum, ég var veikur og ég var í útlandi að keppa í hjólreiðum.

En jæja. Núna var farið á Tröllakirkju sem heitir svo út af því að þar bjuggu tröll all ógurleg í árdaga. Heldur leist þeim illa á þetta búandlið sem settist að og fóru að tínast á brott eitt og eitt. Að lokum var tröllskessa ein eftir sem þraukaði lengst. Þegar innrásarliðið var orðið kristið og datt aukin heldur í hug að byggja kirkju hérumbil undir fjallinu eða á Stað þar sem Staðarskáli er núna þá var skessunni nóg boðið. Tók hún upp einn hnullung all vænan og fleigði í átt að kirkjunni. Hugðist hún murka líftóruna úr þessum vesældarsálum sem sóttu guðsþjónustu og jafna kirkjuóskapnaðinn við jörðu. En skessan kastaði grjótinu eins og einhver kerling [hún Linda benti mér á að þetta hefði líklegast verið ástæðan - skessuræfillinn hefði kastað eins og hver önnur kerling - ef tröllkarlarnir hefðu ekki verið flúnir af hólmi hefði eflaust farið öðruvísi] og dreif ekki alla leið og kom steinvalan niður í hestaréttina á Stað. Drápust heilir fjórir hestar en kirkjugesti sakaði ekki. Sá tröllskessan þá sitt óvænna og hrökklaðist á brott. Steðjaði hún út á Vestfjarðakjálkann og æddi þvert yfir Steingrímsfjarðarheiði. Fór þar um háfjöllin [sem eru reyndar ekki sérlega há og öll lægri en Tröllakirkjan góða] og fann sér loks bústað í Hrolleifsborg í Drangajökli. Hefur eflaust verið færra mannskepna norður þar og meiri friður fyrir guðlegum predikunum.

Skessusöguna kann ekki nokkur maður lengri en reyndar væri gaman að skoða hvort það sé einhver stór steinn í eða við rétt eða einhvers staðar nálægt Stað. Finnst mér ekki ósennilegt að eitthvað slíkt hafi verið kveikjan að þjóðsögunni.

En við urðum ekki vör við neinar skessur og gekk gangan vel upp og niður aftur. Reyndar ekki allir á eitt sáttir um hvaða fjall væri hvað af þeim fjöllum sem við sáum. Er nokkuð viss um að Skjaldbreiður var ranglega kennd vinstra megin við Okið þar sem hún á [skv. landakorti] að sjást yfir Þórisjökul. Líklega sást Hlöðufell á milli Þórisjökuls og Eiríksjökuls. Síðan var helst til of mikið mistur til að það komi fram á myndum og áttavitastefnur voru ekki teknar en ekki vitað með vissu hvort fjall sem við sáum var Krákur eða Mælifellshnúkur. Svona eru þá leiðsögumenn!

VMM_0307
Fjallalækir og fannir voru víða á leiðinni upp

En veðrið var gott skilst mér í fyrsta sinn í þessum ferðum. Hefur í öllum öðrum ferðum þessa hóps verið misvont og afleitt í fyrstu ferðinni sem ég til að mynda fór í.


Smá jarðfræði í lokin

Jarðlög í Tröllakirkju
Jarðlög, lárétt og hallandi í Tröllakirkju

Á leiðinni niður tók ég eftir undarlegum halla á jarðlögum ofarlega í Tröllakirkjunni. Fjallið er skv. því sem kemur fram í bókinni "101 tindur" eftir Ara Trausta og Pétur Þorleifs [Pétur skrifaði þessa lýsingu], rofinn jarðlagastafli myndaður fyrir 6-7 milljónum ára síðan. Út frá jarðfræðikortinu af öllu Íslandi frá Náttúrufræðistofnun Íslands þá er fjallið hins vegar basískt eða ísúrt gosberg og setlög frá fyrrihluta Ísaldar, þ.e. 0,8 til 3,3 milljón ára gamalt. Svæðið umhverfis er hins vegar blágrýtisstaflinn eldri en 3,3 milljónir ára. Ég hef trú á að jarðfræðikortið sé réttara.  Svarta línan sem liggur þarna í gegn táknar "þykkar samfelldar setlagamyndanir með surtarbrandi".

Jarðlögin sem ég sá koma fram á myndinni að ofan og hef ég ekki almennilega skýringu á þeim.  Hvort þau mynduðust svona hallandi eða hölluðust eftirá.  Hvort þau ná undir hraunlagastaflann sem myndar fjallið að öðru leyti eða hvort þau liggja að honum og gætu þá verið yngri en hraunlögin vinstra megin.  Myndin er annars tekin í norðlæga átt og hraunlögin hallast því niður til hægri.


Jarðfræðikort af Tröllakirkju
Jarðfræðikort af Tröllakirkju

Wednesday, July 20, 2011

Bíltúr út á Reykjanes til að vígja nýju myndavélina

Með jarðfræðilegu ívafi

Hverir fyrir sunnan Kleifarvatn
Hverir fyrir sunnan Kleifarvatn



Það var farinn bíltúr út á Reykjanes til að prófa nýju myndavélina. Hafði ætlað að fara upp í Hengil reyndar í einhvern göngutúr en þar var of mikið af síðdegisskúraskýjum og því var farið út á Reykjanes. Á báðum stöðum var hugmyndin að striplast eitthvað í heitum lækjum. Klambrabil eða Innsti-Dalur hefði það kannski orðiði í Henglinum en ég var búinn að lesa um einhverja Skátalaug við Kleifarvatn. Heldur var hún nú þurr þegar á reyndi!

Skátalaugin uppþornaða
Skátalaugin uppþornaða

Við suðurenda Kleifarvatns blasir núna við lítið hverasvæði. Það ku vera hverir sem voru á botni vatnsins þangað til fyrir skemmstu [einhver ár reyndar] en hafa sem sagt komið upp úr vatninu um leið og vatnsborð þess hefur verið að lækka.

Bólstraberg við Kleifarvatn
Bólstraberg við Kleifarvatn



Þarna við hverina við suðurenda vatnsins (við Lambatanga líklegast) rakst ég á nokkuð flott fannst mér sjálfum bólstraberg. Tók nokkrar svona jarðfræðilegar myndir, sem eru hér.


Hraunfoss í Hamradal
Hraunfoss í Stóra-Hamradal

Keyrði síðan á bakaleið veginn sem liggur fram hjá Djúpavatni. þar er ekið í útjaðri og að lokum yfir Ögmundarhraun sem rann frá 1151 til 1188. Ögmundahraun er herjarinnar flæmi en það var svo sem ekki það sem vakti mesta athygli mína heldur það að mér virtist hraunið hafa farið niður af eldra hraunlagi (misgengi get ég séð eftir á - eftir að ég last mér örlítið til) og myndaði þar hraunfossa niður af brúninni og að hluta til þakti Ögmundarhraunið hamravegginn með þunnu hraunlagi. Það sem mér fannst e.t.v. undarlegt að hraunið var frekar úfið þar sem ég kom fyrst inn í það nálægt sjónum en þarna þar sem það rann í og við Stóra-Hamradal þar virtist það hafa veirð mjög þunnfljótandi. Meiri myndir af þessu eru hér.

Nýja myndavélin og peysan heldur áfram

First shot from Nikon D7000

Ekki búinn að vera jafn duglegur og ráð var fyrir gert. Þessi prjónaskapur ætlar að endast eitthvað. Eins og vejulega þá kom stopp þegar kom að því að skrúfa ermarnar á bolinn. Það er nákvæmlega þá sem maður verður að vita hvað peysan á að vera síð og hvað ermarnar eiga að vera langar. Þurfti reyndar að taka ákvörðun um hvort önnur ermin yrði lengd eða hin stytt nema ég myndi sarga aðeins af öðrum handleggnum á mér. þar sem hnykillinn var búinn á styttri erminni og því örlítið vesen að fara að lengja hana og mér leist ekkert á persónulega skurðarðgerð þá var lengri ermin stytt örlítið. Peysan endar líklega á að verða eitthvað síðari en flestar aðrar sem ég hef gert og líklega með örlítið styttri ermar. Eða í öllu falli ekki lengri ermar.

En myndin að ofan. Þetta er víst fyrsta myndin mín á nýju Nikon D7000 myndavélina mína. Kemur bara nokkuð sterkt inn verð ég að segja!

Tuesday, July 19, 2011

Jæja... DSLR númer 3

Nei ekki þristur (Nikon D3) en þriðja digital SLR myndavélin sem ég eignast


Jæja... ég man ekki hvað kom fram um það í einhverju bloggi hjá mér en aðal myndavélin mín Nikon D200 hætti að mestu leyti að vilja stilla fókusinn þegar ég var að taka myndir þarna við Múlakvíslina. Eftir spekúlasjónir varð ekki ofan á að kaupa Nikon D300 eins og ég hafði ætlað mér heldur varð það D7000. Mér sýndist á einhverjum testum á Dpreview að D300s vélin væri ekki að skila þeim myndgæðum sem hún ætti að skila. Ákvað þess vegna að bíða eftir D400 sem kemur vonandi einhvern tíman en í millitíðinni eignaðist ég D7000 sem er kannski ekki alveg eins semi pro og D300 er en ætti að duga mér samt og er með heilan haug af megapxlum.

Núna á þriðjudagskvöldi er verið að gefa battaríinu fyrir hana dálitla orku og svo verður hún vígð á morgun. Gamla góða D200 sem er eðal fer hins vegar í viðgerð og svo jafnvel í sölu!

Monday, July 18, 2011

Fellsmerkurferð önnur

15. til 17. júlí

Á áreyrum Hafursár við einn varnargarðinn
Gunni á áreyrum Hafursár við einn varnargarðinn

Það stóð til að fara aftur og það gerðum við. Núna var veðrði í henni Fellsmörk hið allra besta. Reyndar skýjað þegar við komum á föstudagskvöldi en það var komið brjálað sólskin eldsnemma um morguninn. Líklega þegar byrjað var að hringja í Gunna út af Múlakvíslinni. Leiðnin eitthvað að aukast en svo sem ekkert til að gera of mikið veður út af.

Skoðuðum varnargarðana sem hafa verið gerðir. Veit ekki hver gerði. Vegagerð eða Haraldur í Álftagróf. Stórgrýti af skornum skammti í þeim og farvegur þröngur þar sem Lambá og Hafursá mætast og áin nú þegar búin að éta töluvert úr garðinum. Í raun alveg óstjórnlegt hvað þessi á getur unnið mikið með efnið þarna á aurunum!

Skurðurinn mikli ekki mikill að sjá þar sem áin er búin að renna yfir hann og út úr honum fram og til baka. Er núna að mestu eða öllu leyti handan skurðarins. Ein smá sitra í skurðinum. Það verður spennandi að sjá hvernig þessu vindur fram en líklega snjallast fyrir okkur bræður að drífa alla efnisflutninga af sem við viljum hafa, áður en áin kemur aftur til baka og tekur vegarslóðana sem eru svo sem ekkert til að stæra sig af.

Af trjáplöntun má annars muna að í þessari ferð fór ég að sameina klettaklifur og gróðursetningu. Fórum með um 100 birkiplöntur upp að og upp í klettana. Verður gaman að sjá hvort og hvernig það plumar sig þar. Verður reyndar varla meira en eitthvað kjarr en gaman samt. Svo er líka hugmynd að koma einhverju niður fyrir ofan klettana. Birki á að þrífast eitthvað hærra en við erum þarna. Þetta er nú ekki neitt hálendi eins og Gunni komst að orði.

Tuesday, July 12, 2011

Kötluskvetta í Múlakvísl

Við misstum af því mesta og vorum næstum búnir að missa af því öllu saman!


Klakahröngl á vegi.
Klakahröngl á vegi.
Ég held reyndar að klakinn hafi verið meira jafnt dreifður um veginn en hafði heyrt í útvarpinu um morguninn að fréttakonan hafði ekki komist út að brúarstaðnum fyrr en einhver var búinn að riðja ísnum af veginum fyrir hana þannig að hún gæti ekið á staðinn. Svona hafa fréttirnar stundum áhrif!


Þegar við bræður ókum úr Fellsmörk vorum við á báðum áttum um hvað gera skyldi. Það var reyndar hann ég sem var óttalegur aumingi og talaði hálfpartinn fyrir því að fara bara heim. Rifbeinið eitthvað að angra mig og kvef eða kannski er ðeg bara að verða að einhvejrum aulalingi. Vona að það sé ekki raunin. En það varð úr samt að vinstri beygjan var tekin. Við gerðum ekki ráð fyrir að fá að skoða eitt né neitt og jafnvel að vegurinn væri bara lokaður við vík og það yrði gert að lögreglumálu ef við ætluðum eitthvað fótgangangi. Það varð þó ekki raunin því það var enginn til að stoppa okkur af fyrr en við Kötlujökul þar sem löggan lokaði veginum. Leyfði okkur að fara fótgangandi en við mættum ekki vea nema 20 mínútur út af hinum stórhættulegu gösum.

Mælingamenn og vísindamenn spjalla á staðnum og í síma.
"Mælingamenn og vísindamenn spjalla á staðnum og í síma

Við hefðum líklega átt að biðja um að fá að keyra aðeins legnra því einhverjir fengu það og ef við hefðum ætlað að standa við þessar 20 mínútur hefðum við þurft að snúa við nokkuð fljótlega og líklega áður en við náðum til Sigurðar Reynis sem Gunni náttúrlega þekkti og var þarna að taka efnasýni til að geta sagt til um hvort eldgos hefði orðið undir jöklinum eður ei. Eftir smá spjall var haldið áfram og við þá líklega þá þegar búnir að vera gott betur en þessar 20 mínútur. Vorum núna að koma inn á flóðasvæðið af einhverri alvöru.

Farvegur flóðsins
Foss niður af veginum, smá hylur væntanlega og svo hélt vatnið bara sína leið

Eins og á myndinni að ofan þá sést hvernig vatnið hefur flætt norðarn vegarins og yfir hann og niður af honum og myndað þar foss. Malbikið í veginum er þá fossberinn og Vegagerðin eða upphækkun vegarins er fossvaldurinn. Flokkast líklegast sem einhvers konar stíflufoss eða hvað?

Við brúarstæðið
Gunni skyggnist yfir Múlakvísl þar sem brúin var daginn áður

Fljótlega nálguðumst við svo brúarstæðið eða endann á veginum þar sem brúarstöplarnir stóðu eftir.

Við vissum að brúin var farin en það sem kannski kom okkur á óvart var að brúin sjálf var frekar heilleg þar sem hún lá við bakkann að austan verðunni. Reyndar hafa sérfræðingar Vegagerðarinnar lýst því yfir að brúin sé gríðarlega mikið skemmd og e.t.v. er ekkert á henni að græða þar sem hún liggur þarna meðfram ánni.

Leifarnar af brúnni yfir Múlakvísl
Leifarnar af brúnni yfir Múlakvísl á austurbakka árinnar

Brúarstólparnir að austan stóðu eftir en undirstaðan að vestan í öllu falli farin og að sögn einhverjir stólpar líka.  Á vestasta stólpanum sem varð eftir hangir vatnshæðarmælir Vatnamælinga Veðurstofunnar.

Brúarstólparnir sem stóðu eftir
Brúarstólparnir sem stóðu eftir

Þegar brýr fara þá fara gjarnan rafmagnslínur líka og sést á myndinni að ofan hvar línan er slitin og nokkrir staurar farnir í farvegi árinnar.

Rafmagnslínan fór sundur
Rafmagnslínan í sundur


Þegar við vorum búnir að vera við brúarstæðið í rúmar 20 mínútur var mál að halda til baka. Svo sem ekki gott að vera of lengi í öllum eiturgufunum sem þarna voru og svo höfðum við víst bara þetta 20 mínútnaleyfi. Mér fannst reyndar best að túlka það þannig að við mættum vera 20 mínútur við brúarstæðið og það stóðst nokkurn veginn. Á bakaleiðinni hittum við Erik og var það eina skiptið sem einhver birtist sem ég þekkti meira en Gunninn.

Eftir pulsustopp í Víkurskála var haldið inn Kerlingardal og áleiðis til Þakkgils. Við höðfum fregnir af að leiðin væri lokuð þar sem einhver brú þar hefði skolast í burtu.

Séð yfír flóðfarveginn
Séð yfir flóðfarveginn, líklega milli Selfjalls vinstra megin og Össuhæðar hægra megin í áttina að Hörleifshöfða

Þegar við komum niður að vatnshæðarmælinum við Léreftshöfuð mætti okkur einhver útlendingur á vígalegum súzuki Fox, eldgömlum pínulitlum í Ómars-stæl. Sagði hann okkur í óspurðum fréttum að við yrðum að fara varlega út af öllu gasinu sem þarna svifi yfir vötnum. Hann sagðist hafa verið í korter og það hefði dugað til höfuðverkjar. Ég auðvitað með varann á leit á klukkuna til að vera viss um að við yrðum ekki of lengi. Það var hins vegar einhver gustur þarna ekki í áttina til upptaka árinnar og því kannski ósennilegt að okkur biði bráður bani. Í öllu falli þá vorum við þarna örugglega í meira en heilan klukkutíma.

Frá vatnshæðarmælinum við Léreftshöfuð.
Frá vatnshæðarmælinum við Léreftshöfuð

Mælirinn sést neðst til vinstri. Það var okkar mat að þegar flóðbylgjan kom niður hefði myndast lón tímabundið þarna fyrir ofan á meðan vatnið náði að renna um þrengri farveginn. það má meðal annars sjá af því að vatnsborðið virðist hafa verið nær lárétt ofan mælisins sem sést af lækkandi fjöruborði ofan þrengingarinnar.

ERS_7472Það flæddi auðvitað vel yfir mælirörið enda mældi mælirinn 5 metra flóðtopp.  Af því að við vorum hér um bil í vatnamælinaleiðangri þá var mælirinn skoðaður og var vatnsrörið til hlífðar farið í sundur.

Það voru vangaveltur hjá okkur hvort flóðtoppurinn þarna við Léreftshöfuð hefði verið meira en 5 metra og fannst mér það eiginlega en Gunni var ekki eins viss.  Með að bera saman hæð fólksins á myndinni þá fannst mér þetta vera fjórföld mannhæð sem vatnið hefði náð, sbr. næstu mynd.  En það verður samt eiginlega að játast að það er ekkert allt of gott að meta þetta svona eftir auganu úti í náttúrunni.

Spekúlerað í málunum við vatnshæðarmlinn mót Léreftshöfði
Spekúlerað í málunum við vatnshæðarmlinn mót Léreftshöfði


ERS_7464
Farvegir (niður í "lónið" ?) í setinu sem myndaðist

Okkur fannst að lárétt flóðfarið sem fór minnkandi sem ofar dró ofan Léreftshöfuðs benda til þess að lón hefði myndast tímabundið þegar flóðbylgjan kom þarna niður. Annað sem mér fannst benda til þess og einnig vera eftirtektarvert var að það voru litlir farvegir í setinu sem hafði myndast og vísuðu þeir beint niður til þessa tímabundna lóns. Þ.e. vatnið þarna fyrir ofan vatnshæðarmælinn virtist hafa stöðvast og svo runnið undna halla niður að lóninu en ekki runnið með neinu offorsi til sjávar í rennslisstefnu árinnar.

Afréttis á, brú og Múlakvísl
Afréttis á, brú og Múlakvísl

Við höfðum fregnir úr fréttatíma að brú væri farin þarna uppfrá en brúin stóð sem fastast en vegurinn að henni báðum megin var hins vegar farinn veg allrar veraldar. Áin heitir líklega Afréttisá og skv. kortum þá er vegurinn þarna ofan í eðlilegum farvegi Múlakvíslar og því varla von á góðu.

Jökulker
Jökulker við Múlakvísl... án efa mynduð í einhverju Kötluhlaupi og ekki ósennilegt að það sé úr því síðasta (1918)

það voru aðeins vangaveltur hjá okkur um landslagið þarna. Einhver spekingur hafði sett út á staðsetningu mælistöðvar vatnshæðarmælisins þar sem hann mydni fara veg allrar veraldar í alvöru Kötluflóði. Líklegt má svo sem telja að allt það sem þarna þurfi undan að láta ef til alvöru flóðs kemur. Ummerkin eru meðal annars jökulker sem eru þarna víða ef vel er að gáð. Það sem er á myndinni að ofan er einhverjum metrum fyrir ofan mælistöð vatnshæðarmælisins og verður að teljast líklegt að þangað geti Kötluhlaup náð. Reyndar miðað við lýsngarnar á Kötluhlaupunum þá myndi ég nú eiga von á að þau færu töluvert hærra. það væri kannski athugunar efni að skoða hversu hátt þarna í landinu ummerki Kötluhlaupanna er að finna.

það voru líka spekúlasjónir um hvernig þessi fjöll eða öldur þarna almennt eru myndaðar. Jökulruðningur fannst mér líklegt. Er svo sem ennþá á því en miðað við það að skv. myndinni að neðan er þetta eitthvað lagsskipt set þá er líklegt að þetta sé að einhverju leyti set úr lóni sem hefur verið þarna. Líklegast má kannski telja að þetta sé í grunninn jökulruðningur og svo hafi myndast þarna jökullón þegar jökullinn hörfaði og þá fallið til betur flokkað set.

Setlög fyrir ofan vatnshæðarmælinn við Léreftshöfuð
Setlög og/eða jökulruðningur

Af myndinni er ég síðan ekki lengur alveg eins viss og áður um að berggrunnurinn sé bara móberg.  það sem er undir malarsetinu þarna er eins og lagsskipt líka.

Á bakaleiðinni fundum við slóðann upp á Háfell.  Þar sást ágætlega yfir brúarstæðið og einnig hvar áin rennur til sjávar.


Brúarstæði Múlakvíslar
Séð ofan af Háfelli yfir brúarstæðið á Múlakvísl. Stöplarnir standa eftir flestir eða allir. Í það minnsta nokkuð margir. Brúin liggur skáhalt niður frá brúarstæðinu að austanverðu.

Var þarna komið nóg og héldum við heimleiðis eftir ís og skitustopp eitt rosalegt í Víkurskála.
Veðrið var orðið sæmilegt en það súldaði samt á okkur við Fellsmörk.  Var svo léttara yfir vestan Eyjaflalla.

Fellsmerkuferð ein

Sjöunda til níunda júlí tvöþúsundogellefu


Kokkurinn í Fellsmörkinni
Kokkurinn í Fellsmörkinni

Það var farið til Fellsmerkur, bræður báðir.

Veðrið átti að vera eitthvað með eindæmum gott en kannski einhverjar skúrir. Hver veit. það var í það minnsta lagt af stað í brakandi blíðu úr bænum. Á Selfossi vorum við búnir að kveðja sólskinið. Kominn í lopapeysu á Hvolsvelli eða var það kannski bara strax á Selfossi. Fór ekkert mikið úr lopapeysunni það sem eftir lifði ferðar nema þá helst til að skipta um lopapeysu og komast í einhverjra enn hlýrri. Enda fer einhvern vegin íslensk súld, íslensk lopapeysa, stígvél, ullarsokkar og 66°N galli alveg einstaklega vel saman. Manni líður að minnsta kosti vel í slíkri múnderíngu!

Það var reyndar ekkert svo rosalega kalt en en það var súld þegar við komum í Fellsmörk. Reyndar ekki rigning en það var komin rigning eða úði daginn eftir og var þannig allan daginn. Allt varð blautt sem gaf gott tækifærir til að gera súldarmyndaseríu. Hægt að smella á myndina að neðan til að fá seríuna upp.

Grasið í súldinni
Súldin

Svo um miðnættið hringdi síminn og friðurinn var eitthvað úti. Var það Hilmar sem vinnur með Gunna og var eitthvað að gerast með mælingar í Múlakvísl. Ég vissi nú svo sem ekki hvað þeim fór alveg á milli og fattaði ekki að stórtíðindi voru í nánd. Gunni reyndar ekki heldur því þá hefði hann ekki bara farið að sofa. Reyndar stóð til að við færum með mælingamanni sem myndi keyra austur og átttum við von á öðru símtali. En forlögin höguðu því þannig til að síminn var settur á stól og þar með úr sambndi. Ef hann hefði verið lagður upp á borð þá hefði hann verið í sambandi og við líklegast farið á staðinn og þá hugsanlega orðið vitni að því þegar brúna tók af Múlakvísinni. En meira um það í næstu færsslu.

Af Fellsmerkurferðinni er það frétt hins vegar að við vorum fram undir hádegi á laugardeginum í Fellsmörk og fórum þá burt. Vorum búnir að fá allar fréttir af því hvað hafði gerst um nóttina en gerðum svo sem ekki ráð fyrir að fá að skoða mikið. Almannavarnarbullurnar líklegast búnar að loka við Vík í Mýrdal og við að gerast brotamenn með að svo mikið sem ganga lengra. En meira um það í næstu færslu sem er væntanlega hér að ofan.

Thursday, July 07, 2011

Slappelsi sem fer frekar illa saman

ERS_7042

Ég get nagað mig í handarbökin fyrir glannaskapinn á mánudaginn og það sem verra er að minn krankleiki fer allur mjög illa saman. Var ekki orðinn alveg góður af kvefinu frá lok maí og svo helltist eitthvað nefkvef líka yfir mig. Brákaður brjóstkassi og hóstar og hvað þá hnerrar fara frekar illa saman. Óttast að þetta kvef taki sér einhverja endanlega bólfestu lungunum á mér þar em ég get ekki hóstað af neinu viti.

Og nefrennslið og hnerrinn er ekkert of glæsilegur. Það sem ég reyndar er farinn að óttast er að ég sé kominn með bévítans frjókornaofnæmi. Vissi reyndar ekki til að það væri hægt að taka upp á slíku á gamals aldri en þetta lýsir sér einhvern veginnn þannig.

Var annars samt duglegur í gær og sló megnið af garðinum. Grillaði mér á eftir og tók nokkrar lensbaby myndir sbr. þessa að ofan og hina að neðan. Hitti Ólöfu og sagði henni að ég vildi skipta garðinum í tvennt út af Guttanum. Hún tók því nú bara fagnandi. þarf þá ekki að hafa samviskubit yfir því að hann sé skítandi í garðinn hjá mér. Fellsmörk reyndar á dagskrá núna fyrst seinna í dag en ætli það verði ekki girðingarvinna í garðinum í næstu viku.

Er síðan aðeins kominn af stað með verkefnið fyrir Vottun um spurningalista ISO 27001. Gengur bara ágætlega.

Já annars. Verslaði mér nokkur jarðfræðikort í gær. Ef hins vegar einhver veit hvar hægt er að nálgast jarðfræðikortin 1:250 þúsund sem Landmælingar gáfu út á sínum tíma þá mætti gjarnan benda mér á það. Fást ekki í kortabúðinni hjá IÐNÚ sem keypti annars allan lager Landmælingakortanna og ekki heldur í Bóksölu stúdenta sem IÐNÚ benti mér á.

ERS_7040

Wednesday, July 06, 2011

Að gera sér eitthvað til dundurs

Prjónaskapur

ERS_7027

Ég var ekkert að grínast með það í færslunni hér á undan að núna tæki prjónaskapur við hjá þeim hjólaslasaða. Ég er svo sem ekkert mikið slasaður og ætlaði að drífa í einni peysu hið snarasta. Hún er í bígerð skv. myndinni hér að ofan og verður með sama munstri og þessi hér að neðan nema bara í miklu skærari litum og væntanlega verður hún höfð heil en ekki rennd.

2010-21

Ég held ég hafi ekki áður bloggað svona um minn prjónaskap en kannski ætti maður bara að fara að koma úr felum með þetta undarlega áhugamál manns. Eða kannski ekkert svo undarlegt nema út af því að maður er nefnilega maður. Ég held reyndar að margir hafi nú getað lagt saman tvo og tvo [tvær og tvær handprjónaðar lopapeysur] og fengið út að ég gerði þetta sjálfur.

Tuesday, July 05, 2011

Hjólaferð sem endaði ekki nógu vel

Frá hinum slysalega stað við Suðurgötuna. Ég kom hjólandi hjólastíginn frá vinstri og fór á ská yfir grasið og framdekkið kom að kantinum á gangstéttinni undir of litlu horni og það sprakk og allt fór í tóma klessu hjá mér.

Fór hjólandi á Rauðu eldingunni um Fossvogsdal og Nauthólsvík og alla leið út í Skerjafjörð. Fínn hraði, hélt næstum 30km/klst meðalhraða. Fór hjólandi líka meðfram norðurströnd Reykjavíkur og var á bakaleið að koma út á Suðurgötuna þegar ósköpin dundu yfir. Hafði reyndar lent í lífshættu fyrr í túrnum við Fossvoginn þegar hjólið skrikaði á hállri málningu á hjólastígnum. Sannkölluð slysagildra þar. En núna gat ég að mestu leyti sjálfum mér um kennt. Fór yfir gras til að þurfa ekki að taka vinkilbeygju sem hönnuðir hjólastíga í Reykjvaík eru annars mjög hrifnir af, fór á kant og þar stöðvaðist framdekkið, sprakk og ég hélt áfram á svona 20-30 km/klst hraða og lenti fyrir framan hjólið.

Er með mar á vinstri síðu eða brákuð rifbein / brjóstkassa. Óttalegt klúður hjá mér. Hefði átt að stytta hjólatúrinn eins og ég hafði verið að hugsa um og fara heim til að fara að prjóna mér nýja lopapeysu. Ekki ósennilegt þá að það verði einhver prjónaskapur á næstunni þar sem spriklgetan er ekki of mikil akkurat núna! :-(

Sunday, July 03, 2011

Kerlingarfjöllin að baki

... en samt hvergi af baki dottin...

ERS_7002

Skálarnir (öðrum megin ár) í Kerlingarfjöllum


Það var einhvern tíman í vetur þá sjaldan sem ég hitti Sigþór að hann sagði mér frá sjóndapri gönguferð sem var á áætlun um Kerlingarfjöll í sumar. Jobbi eitthvað forfallaður og það vantaði einhvern svona til að halda aðeins í hendina á þeim. Skemmtilegur hópur sem ég hafði einu sinni hitt úti í Bjarneyjum og Flatey fyrir hvað þremur árum á meðan við Hanna Kata vorum enn að dóla okkur saman.

Ferðin heppnaðist alveg ágætlega held ég. Gengið báða dagana en veðrið ekkert allt of gott. Yfirleitt annað hvort rok eða rigning eða hvort tveggja nema þá stundum sem sólagrlennan lét sjá sig.

Skemmtilegt að spássera þarna um vígi íss og elda. Gat spekúlerað í öskjunni semn er þarna í fjöllunum (þ.e. þeirri öskjunni sem við vorum að fara um) og einhver jarðlög sem mátti líka horfa á. Mjög flott skálög við skálann í Árskarði.

Gönguleiðirnar

IMG_5280

Á leið niður í Hveradalinn


Það var óttaleg rigningarspá og að mestu gekk hún eftir fyrri daginn þegar við gengum frá skálunum. Þá var suddi megnið af deginum og allir frekar sáttir að komast til baka.

Seinni daginn var sæmilega bjart yfir enda spáin eitthvað skárri. Það var hávaðarok á bílastæðinu við Hverdalina þar sem við hófum gönguna. Við höfðum fréttir frá Ástþóri bróður Helga henar Höllu að það væri laug þarna sem hefði einhvern tíman verið gerð. Ekki hafði ég komið þangað áður en það var líka sagt að laugin væri hálf hrunin eða hún væri lítil en það var lofað 42°C heitu vatni. Þegar að var komið var laugin ekkert svo lítil og hún var í sjálfu sér ekkert hrunin en það var ekki tappi í rörinu og því meiri drulla í henni en vatn. Síðan var reyndar verrara að vatnið sem seitlaði í laugina var ekki einu sinni snarpheitt. Eiginlega bara hálf kalt. Hvort einhver áveituframkvæmd var eftir veit ég ekki en það var betrara að við skildum hafa skilið sundfötin eftir í bílunum.

IMG_5272

Birta í lauginni


Við þurftum að finna okkur leiðir. Ég er nú ekki reyndasti leiðsögumaður í heimi og hafði ekki gengið nákvæmlega leiðina sem við vorum að fara þarna. Ég vildi vera sem mest í og við Hverasvæðin og það var hálf erfitt að vera með 25 manna hóp í eftirdragi þar sem ekki allir voru þeir sprækustu og sumir frekar sjóndaprir. Þetta var dálítið eins og að vera á rúntinum niðir í miðbæ á trailer að reyna að komast eitthvað sem ég vissi ekki alveg hvar var. En þetta blessaðist nú allt saman að lokum þó við höfum yfirleitt ekki farið þær leiðir sem ég ætlaði mér.

IMG_5310

IMG_5306

Að láta veðrið ekki á sig fá


Svo fór að rigna. Það rigndi meira en fyrri daginn og var eiginlega bara grenjandi rigning á köflum. Við gengum eitthvað svipaðan hring og rólegri hópurinn fór með JÖRFÍ þremur árum fyrr þegar þeir sprækari fóru upp á Snækoll. Núna var ekki veður til að fara þangað þannig að við urðum að láta þetta duga að sinni.

gonguleidirnar farnar

Græna leiðin fyrri daginn 10,9km en sú blágræna seinni daginn 9,6km.


Þetta var annars hin skemmtilegasta ferð. Mikið stuð á kvöldvökunni aðallega seinna kvöldið. Vorum áhorfs og -hlustunar efni fyrir ungverska fjöslkyldu og tékkneskan vinahóp.

Svo undir morgun daginn sem heim skyldi haldið rauk hann upp með hálfgerðu ofsaroki. Það byrjaði að hvessa um 6 leytið og um klukkan 8 fóri stög að rifna af búngaló tjaldinu hans Sigþórs. Var það hinn skemmtilegasti björgunarleiðangur að ná dótinu þeirra og tjaldinu saman.

Svo var bara haldið í bæinn.

---

Í þessari ferð var alltaf aðeins að rifjast upp fyrir mér skulum við segja önnur hálendisferðin mín. Það var líklega sumarið 1980 eða þá 1981. Það hafði verið Hafró ferð sem við systkinin fórum í með foreldrunum upp á Sprengisand og svo var farið yfir Kjöl á Kortínunni sem líklega gekk undir nafninu nýja Kortínan þá, þó hún væri þá orðin svona átta ára gömul. Vegurinn var þá meira bara jeppavegur og í eitt skiptið gengum við á undan bílnum á Bláfellshálsi á bakaleið til að týna grjót úr veginum þannig að það væri hægt að komast þar upp. Reyndar var það víst ári seinna.

Ég hafði þá lesið bókina "Yfir kaldan Kjöl" og kunni hana hérumbil utanað. Þekkti þess vegna leiðina vel og var með leiðsögn á köflum. Tók mynd í heiðskíru veðri af kerlingarfjöllum og skráði samviskusamlega inn nöfn allra tindanna. Fannst tvö fjöll á Kili bera af öllum öðrum. Það var annars vegar Hrútfell og hins vegar Loðmundur í Kerlingarfjöllum. Snækollur var einnig góður og mikið fannst mér reyndra líka koma til Bláfellsins.

Í þessari fyrstu ferð minni yfir Kjöl og með viðkomu í Kerlingarfjöllum gerðum við reyndar ekkert annað en að tjalda þar og vera yfir nótt. Mest þótti mér ef til vill koma til kvöldvökunnar í skíðaskólanum. Þar var alveg rosalegt fjör en eitthvað vorum við þar úti á þekju með öllu því flotta fólki sem var þarna á skíðum.

Það var annars dálítið þannig núna líka en núna vorum við með kvöldvökuna sem aðrir horfðu á í forundran og það vorum við sem fórum upp í Hveradalinu og skoðuðum og sáum eitthvað. Á tjaldstæðinu og við skálana var mikið af fólki sem margt hvert var "vel búið" með harðspjalda ferðatöskur á hjólum en fór ekki mikið frá skálanum. Í það minnsta sáum við ákaflega fáa í fjöllunum. Nokkra reyndar fyrri daginn en mjög fáa seinni daginn. Man þá og mun alltaf muna eftir einum karli sem hitti okkur þegar við vorum að koma til baka og hann vildi vita hvað væri langt í skálann leiðina sem við vorum að koma. Ég kom í orðsins fyllstu merkingu af fjöllum. Skálinn sem við gætum verið að koma úr hefði þá helst verið Setrið en það var dálítið langt í hann. Maðurinn talaði ekki neina ensku að ráði og var franskur eftir hreimnum að ræða. Hann varð loks glaður við þegar ég kom honum í skilning um að það væri bara þokkalegur vegur í boði niður í skálann. Hann hafði sjálfur farið niður einhverja snjóbrekku á leið númer 2 sem ég vissi auðvitað ekkert hvar var.

Vona ég bara að maðurinn hafi komist til einhverra byggða aftur.

IMG_5322

Birta skolar af sér hveraleirinn á meðan sá franski bíður álengdar