Thursday, January 27, 2005

Var gaman í dag?

Veitki enn

Það var blótarður þorri í hádeginu. Þar sem þorrinn er minn árstími þá var ég auðvitað með í því. Það er hægt að gera svo mikið úr svona áti. T.d. með því að allir mæti í vinnuna í þjóðlegum búningum. T.d. allir í lopapeysum eða kannski eitthvað fínni s.s. peysufötum og öðrum þjóðbúningum. Ég myndi t.d. örugglega taka mig vel út í skautbúningi. Hatturinn skautbúningnum myndi líklega rekast uppundir þegar hann væri kominn á hausinn á mér [eða er annars ekki einhver herjarins hattur á skautbúningi?] þannig að ég ætti líklega að halda mig við peysufötin og einhverja dúskhúfu sem lafir niður á aðra öxlina. Væri örugglega svakalega sætt.

Síðan gætum við haft rímnakeppni undir borðum og sá sem myndi vinna fengi í verðlaun nýja stórt hundrað vaðmáls. Og með súrsuðum hrútspungum og lundaböggum myndum við kneyfa öl og taka kýla vömbina hraustlega. Með hákallinum myndum við svo sturta í okkur íslensku brennivíni.

Á eftir gætum við svo legið á meltunni fram á kvöld og þeir sem kæmust á fætur aftur fyrir eðlilegan kvöldmatartíma gætu þá fengið sér meira.

Nei dagurinn var ágætur en það gerðist eiginlega ekkert af þessu. Allir voru svona frekar venjulega klæddir, það var ekkert brennivín en mér tókst að troða í mig bæði hákalli og hrútspungum.

Var annars að lognast út af í allan dag, var enda í bíóhúsi langt fram yfir miðnætti í gærkvöldi. Er fyrst núna að vakna sæmilega. Fór áðan í hina mestu hættuför út að taka myndir og náði alls kyns draugum á filmu (hvað á annars að kalla þetta digitaldrasl) eins og til dæmis þessa hér:

cemetary in reykjavik

Ég verð að játa að mér leið ekkert allt of vel einum þarna í kirkjugarðinum. Annars á meðan ég hafði á tilfinningunni að ég væri einn þá var það reyndar í lagi og það var svo sem enginn annar þarna. Og ég var ekkert sérstaklega óttasleginn út af þeim framliðnu enda flestir sem hvíla í kirkjugarðinum við Suðurgötu löngu hættir að ganga aftur en það gæti kannski frekar verið einhver dópistalýður þarna. En hvað leggur maður ekki á sig fyrir listina?

En nú skal farið að sofa fyrir miðnætti!

Monday, January 24, 2005

Helvítis World Class útvarps sjónvarps drasl

Afsakið orðbragðið en hvað er eiginlega að Birni bónda í World Class??

Maður er látinn borga lágmark 40 þúsund kall á ári fyrir aðgang að "flottustu" líkamsræktarstöð á Íslandi og hvernig er hún? Jú það eru svo sem flott tæki þarna og alveg ofboðslega mikið af þeim og það er þarna flottasta sundlaug á landinu en.... þegar ég fer í líkamsrækt þá fer ég á hlaupabretti og þá vil ég hlusta á útvarp eða eitthvað sjónvarp.

Næstum því helmingurinn af útvarpstækjunum er ónýtur eða að minnsta kosti ekki í sambandi.

Nokkrar útvarpsstöðvanna sem er enn stillt inná hættu útsendingum fyrir nokkrum vikum.

Á einni útvarpsstöðinni heyrir maður Illuga Jökulsson hóta einhverri skelfilegri talmálsrás einhvern tímann í ókominni framtíð.

Björn er líklega í einhverju einastríði við RUV sem sýnir sig í því að það er ekki boðið upp á Rás 2 hjá honum.

Og áðan þá var ekki hægt að hlusta á Ríkissjónvarpið af því að það datt alltaf út reglulega.

Meira að segja Bart Simpson á Stöð2 var gaddfreðinn á skjánum í hálfa mínútu.

Já ég segi bara:
Helvítis World Class útvarps sjónvarps drasl

Þetta er reyndar ekki orðið jafn slæmt hjá honum Birni og þegar ég heyrði einu sinni í honum í útvarpinu vera að tala um líkamsræktarstöðvar sem höfðu farið á hausinn. Þá sagði hann að það yrði að gera þetta almennilega. Litlar stöðvar í kjallarakompum með gömul úr sér gengin tæki gætu ekki gengið. Fólk vildi hafa þetta almennlegt. Á sama tíma var stöðin hans reyndar ekki lítil og ekki niðri í kjallara en hún var í mígleku iðnaðarhúsnæði, grútskítug og hálf ógeðsleg og flest hlaupabrettin næstum orðin stórvarasöm af sliti.

En það sem bjargar þessu núna er að rifbeinið mitt eða hvað það sem kom nú fyrir mig um daginn er allt að gróa og er ég farinn að geta hlaupið á helvítis reiminni með ónýta útvarpinu.

Sunday, January 23, 2005

Partýstand

Eitthvað var verið að partýjast.

Það er eitt fjall dálítið fyrir utan bæinn sem Grafarholt kallast. Þar hafa Maggi og Erna Björk komið sér og sýni búandliði fyrir í helli einum í Jónsgeisla. Er minnst á það hér út af því að þangað var stefnt fjölda fólks í gærkveldi til að berjast til þrautar í popppunkti

Popppunktur

Var fyrst étið gúllas að úngverskum hætti og þambað fjölþjóða rauðvín með þangað til allir stóðu á blístri og voru farnir að finna ágætlega á sér að minnsta kost þeir sem brúkuðu slíkan drukk. Var þá skipt liði og hófust popppunktsleikar hinir mestu.

partý

Ólukkans skífunni var snúið margsinnis og lentu sumir oftar ein einu sinni í meðferð fyrir vikið. Var það reyndar þeirra mesta lán í spilinu þó ekki minnkaði drykkjuskapurinn fyrir það.

lukkuhjólið

Síðan áttaði Snorri sig á því að hann var alveg við það renna út á tíma og æstist all verulega upp við það.

Snorri desperat

Og gerðist svo enn æstari þegar hann áttaði sig á hvernig staðan var orðin!

Snorri lögga

En aðrir tóku þessu svona meira með stóískri ró!

raggi ekki desperat

En í öllu falli. Þeta var fínt kvöld og svaka stuð. Þarf að endurtakast einhvern tíman. Jám og svo áttaði maður sig líka á því að eftir ekki margar vikur gefst ágætt tækifæri til að hafa afmælispartý. Hvur veit hvað gerist þá!

í dag síðan
Var ammælisveisla hjá mömmunni eða svona ammælishangikjet, harðfiskur, hrútspungar og annað gúrme góðgæti. Var japlað á því fram á kvöld líka.

Friday, January 21, 2005

Er fólk orðið klikkað?

Rainbow ryksugusalan gengur víst aftur núna.

Í hádeginu í gær var aðal umræðuefnið pottasölufólk sem gengur sest upp hjá manni og selur pottasett fyrir litlar 270 þúsund krónur. Já ég endurtek: Pottasett fyrir 270 þúsund krónur.

Kynningin gengur víst út á það að þeir pottar sem maður hefur eldað í hingað til séu fullir af fúlum matarleifum og þungmálmum sem leysast upp og eitra manns eðal kropp. Pottarnir rínu eru hins vegar úr títaníum sem er svo dýrmætt að það mengar ekki neitt og rekur allar matarleifar á brott jafnóðum.

Þeir sem fá svona kynningar heim til sín ku fá yfirleitt ógeð á öllum öðrum pottum og verða að kaupa sér fjölskyldusett af títaníum pottunum á þessar 270 þúsund krónum. Reyndar er hægt að kaupa pottana í stykkjatali en það ku vera dýrt og flestir kaupa þess vegna heilt sett. Enda fylgir líka rifjárn með.

Er fólk orðið klikkað spyr ég nú bara!

Annars en nú sumt enn klikkaðara:
Lítil virkni töfrasprota

Wednesday, January 19, 2005

Siv alltaf jafn fyndin

Þetta er dálítið kúnstugt allt saman.

Einhvern tíman fyrir ekki mörgum árum úrskurðaði Siv að álver austur á Fjörðum þyrfti ekki að fara í umhverfismat enda áður búið að meta umhverfisáhrif af öðru álveri á sama stað sem var miklu stærra. Reyndar byggði stærra álverið á eitthvað annarri umhverfistækni en það breytti ekki miklu þar sem bættust bara við einhverjar tvær lofttegundir.

Frú verðandi jarðfræðidoktor Herdís segir reyndar að þessar lofttegundir séu annars vegar flúoríð og hins vegar brennisteinstvíoxíð.

Svo er það þannig að brennisteinstvíoxíðið verður að brennisteinstríoxíði þegar það hvarfast við súrefni og það hvarfast svo við raka í andrúmsloftinu og myndar brennisteinssýra sem leysist upp einhvers staðar uppi í himninum og verður svo einhvern tíman að súru regni. Úff þetta var allt of langt og getur varla skipt miklu máli enda er súrt regn löngu komið úr tísku.

Flúoríð getur heldur varla verið par merkilegt, líklega eitthvað sem er í tannkremi. Ég sjáfur geld reyndar að þetta flúoríð sé það sem hefur drepið menn og dýr um víðan völl út um allt land í eldgosum í gegnum tíðina. En ekki fara eldgog í umhverfismat svo það er varla hægt að ætlast til að álver sem dreifi sama gasinu fari í eitthvað sérstakt mat út af því.

Síðan voru einhnverjir bændur á Suðurlandi með þá hugmynd að byggja sér nýtt svínabú en eins og allir menn vita þá er óttalegur ódaunn af svínabúum og örugglega alls kyns lofttegundir sem fara þar út um allar grundir. Svínabú er eiginlega engu skárra en risastór kamar. Það var því eðlilegt að Sivjardómurinn um svínabúið væri að það skyldi fara í umhverfismat enda all veruleg skítafýla af því máli svo ekki væri fastar að orði kveðið.

Það er síðan svo undarlegt að það eru einhverjir illa upplýsir dómstólar sem felldu báða þessa úrskurði úr gildi. Að það þurfi sérstakt umhverfismat fyrir álver austur á Fjörðum sem dreifir tveimur sakleysislegum lofftegundum út úm stromp sem er auk þess svo hár að hann nær næstum upp til guðs. En síðan þurfi ekki umhverfismat fyrir illa lyktandi svínabú á Suðurlandi sem dreifir óteljandi skítaflýlulofttegundum út um allt. Þetta nær ekki nokkurri átt enda standa menn rasandi yfir þessu.

Mér datt þetta bara svona í hug þegar ég heyrði um alla milljónatugina sem svínabændurnir ætla að fá í skaðabætur frá ríkinu vegna Sivjardómsins um svínabúið.

Já það er lán í óláni að náttúran getur ekki farið í skaðabótamál. Þá yrðum við líklega gjaldþrota.

Tuesday, January 18, 2005

Af því að ég þóttist vera að drepast um daginn ...

... eða því sem næst - þá upplýsist að ég er allur að ná mér. Er búinn að komast í sprikl þrisvar á þremur dögum sem reyndar gengur ekki lengra en að labba á hlaupabretti (eitthvað sem ég hef alltaf litið hornauga og talið hinn mesta aumingjaskap en ég er víst orðinn svoleis aumingi en ég hef brettið reyndar á góðum halla) rembast aðeins í einhverju skíðatæki og láta þá hendurnar bara svona fylgja. En þetta er sem sagt allt í áttina.

Frétti svo af skíðaferð um helgina sem ég held að ég verði samt að afþakka. Er ekki alveg orðinn svo sprækur. En kannski um þarnæstu helgi.

Svo var ég að átta mig á því að í dag eru ekki nema tveir mánuðir í Afríku!

Sunday, January 16, 2005

Gott veður í gær...

Það var frábært veður í gær og til að sanna fyrir sjálfum mér að ég væri ekki dauður úr öllum æðum þá fékk ég mér bíltúr og göngutúr til að taka ódauðleg ljósmyndalistaverk. Reyndar eins og oft þegar ég ætla mér að taka ódauðleg ljósmyndalistaverk þá finn ég ekki neitt til að festa á filmu eða núna kannski frekar festa á flögu.

Ég sá hins vegar einhverja veiðimenn úti á Hafravatni speglast í ísnum og sýndist þetta vera hið besta mynefni. Fékk mér þess vegna göngutúr úr á ísinn og myndaði veiðimennina. Þeir reyndust vera rússneskir og töluðu álíka mikla íslensku og ég taka rússnesku. Enskan gekk aðeins betur og þeir töluðu líklega svona álíka mikið í ensku og í frönsku. Samskiptin voru því svona frekar frumstæð þannig að ég tók bara fleiri myndir af þeim í staðinn.
Hafravatn
Fishing on Hafravatn

Síðan var eitthvert fis flögrandi þarna yfir sem ég tók líka mynd af. Jamm, þetta var allt ágætt en svo sem ekki nein meistarastykki á ljósmyndasviðinu.
I also saw that guy flying over the lake. I think I would like to do that!
flying


Thursday, January 13, 2005

blesss moggi

Fyrir einhverjum vikum fór Moggaskrattinn að koma heim til mín með álímdum auglýsingum. Mér fannst þetta undarlegt og blaðið rifnaði!

Einhvern tíman kom ég heim í hádeginu og varð pisst á þessu svo ég noti eðaltungur. Pakkaði forsíðunni í umslag, skrifaði á miða með að ég vildi fá forsíðuna órifna og setti herlegheitin í póst til Moggans. Ekki sá nú Mogginn ástæðu til að svara mér.

Einhverjum dögum seinna var ég búinn að fá nóg og sendi þeim tölvupóst með myndinni að ofan. Og viti menn. Þei svöruðu! Svona var það:


Sæll Einar og takk fyrir tölvupóstinn.

Álímd auglýsing á forsíðu Morgunblaðsins er nýjung sem er í boði til
auglýsenda. Þær eiga að virka þannig að auðvelt sé að taka þær af blaðinu,
án þess að skemma forsíðuna. Gaumgæfilega verður fylgst með því að svo sé
og að miðinn virki eins og framleiðendur segja að hann geri. Það er vel
mögulegt að í fyrstu skiptin hafi ekki verið svo en við vonum að
byrjunarörðugleikar séu að baki. Útgáfa Morgunblaðsins er grundvölluð á
áskrifar- og auglýsingatekjum sem eru forsendur þess að hægt sé halda uppi
metnaðarfullum fjölmiðli.

Mál einsog þetta framkalla eðlilega viðbrögð hjá lesendum. Við áskiljum
okkur ákveðinn tíma til að meta af þeim og öðrum frá auglýsendum hvort
haldið verði áfram með slíkar auglýsingar. Vil ég þakka þér þolinmæðina.

Kær kveðja,

Örn Þórisson
áskriftarstjóri
=======================
Morgunblaðið
Kringlan 1, 103 Reykjavík
Sími 569 1100 / Beinn sími: 569 1356


Sem sagt. Þeir voru að gera tilraun fyrir auglýsendurna sína og létu mig áskrifandann borga fyrir að fá að vera tilraunadýr. Þar sem ég er ekki vanur slíku þá mislíkaði mér meira en orð fá lýst og ákvað að segja blaðinu upp um leið og næsta auglýsing kæmi. En viti menn. Það kom enginn auglýsing í marga daga og enhverjar vikur. Ég var ekki viss um hvort þeir væru búnir að merkja mína áskrift sem auglýsingalausan fýlupoka sem nennir ekki að taka þátt í auglýsingatilraunum fyrir fyrirtæki úti í bæ eða hvort þeir væru bara hættir þessu rugli.

Ekki fyrr en ég kom heim úr vinnunni núna í dag.

Ég fæ líklega hvorki Mogga á morgun né álímda auglýsingu. Get sem sagt bara tekið gleði mína á ný.

Það var annars einhver auglýsing frá Hróa Hetti pizzufyrirtæki á blaðinu í dag. Ég ætla heldur ekki að kaupa svoleis.

Þetta er eiginlega allt út í hött hjá þessum auglýsendum!

Wednesday, January 12, 2005

Umhverfisráðuneytið og Alcoa

Sumt er bara ofvaxið mínum takmarkaða skilning.
Innlent mbl.is 12.1.2005 16:29
Umhverfisráðuneytið ætlar að áfrýja til Hæstaréttar
Umhverfisráðuneytið hefur ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar dómi
sem Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp í dag um fyrirhugað álver
á Reyðarfirði, að sögn Magnúsar Jóhannessonar . . .
Á ekki Umhverfisráðuneytið að passa umhverfið?

Einhvern veginn þá hélt ég að Alcoa væri fyrirtæki sem ætlaði að byggja Álver og nota til þess rafmagn úr virkjun sem Landsvirkjun er að láta Impregilo byggja fyrir sig uppi á hálendinu
og þetta væri allt gert af því að iðnaðarráðuneytið vildi það.

Síðan til að við gengjum ekki alveg fram af umhverfinu okkar þá væri til umhverfisráðuneyti og það hefði sett einhverjar reglugerðir og komið til leiðar lögum frá Alþingi um umhverfismat og starfsleyfi fyrir svona starfsemi sem getur farið með umhverfið til andskotans [fyrirgefið orðbragðið en maður segir stundum svona þegar manni er mikið niðri fyrir].

Hvernig getur þá staðið á því að umhverfisráðuneytið ætli að áfrýja úrskurði sem miðar að því að bjarga umhverfinu? Ég bara get ekki skilið þetta.
Mér finnst þetta dálítið mikið vera
eins og maður ákærður fyrir morð
áfrýi síknudómi.
Reyndar verð ég að játa að ég skil ekki alveg út af hverju þetta var dæmt svona. Út af hverju endurtaka þarf umhverfismat ef það á að minnka verksmiðuna. En það er allt annað mál og kemur því ekki við að ég skil ekki hvernig þetta umhverfisráðuneyti virkar eða til hvers það er.






að panta sér flókna pulsu

Ef þú hefur ekki áhuga á að lesa um pulsur þá skaltu ekki lesa þessa færslu.

Ég hef lengi haft fatlaðan smekk. Eða kannski frekar, ég hafði lengi fatlaðan smekk. Ég borðaði ekki lauk. Ég held að í nokkuð mörg ár hafi ég borðað allan almennilegan mat en ekki lauk nema í tiltölulega fá ár. Reynar eru þau orðin all nokkur en miðað við hversu æfaforn ég er orðinn eru laukárin mín hlutfallslega fá. Síðasta laukvígið er núna að falla. Það er "Eina með öllu nema hráum" syndromið. Reyndar var það fyrir martlöngu "eina með öllu nema hráum og mikið remúlaði" en þá var ég nýbúinn að átta mig á því að það væri til einhver gómsæt skærgul froða sem héti remúlaði. Síðan komst ég reyndar að því að þessi froða væri ekkert sérlega holl, gerði mann feitan og mér fór að finnast hún ógðeðsleg svo pulsan varð "ein með öllu nema hráum og lítið remúlaði" sem þróaðist úr í "rosalega lítið remúlaði". Reyndar hef ég ekki tölu á þeim pulsum sem ég hef skilað vegna remúlaðisofgnóttarinnar.

En aldrei fékk blessaður hrái laukurinn að vera þarna (nema fyrir mistök - og slíkum laukógeðispulsum var umsvifalaust skilað með skömmum) fyrr en fyrir skemmstu. Og núna er pulsan mín á nokkrum vikum búin að breytast úr "eina með öllu nema hráum og rosalega lítið remúlaði" yfir í "eina með öllu en lítið af steiktum og lítið remúlaði" Reyndar langar mig líka stundum til að biðja um mikið sinnep en ég veit að ef ég er kominn með þrjár sérþarfir í pulsuna mína þá er það dæmt til að mistakast.

Þetta mistekst reyndar yfirleitt alltaf hjá mér. Núna áðan þá var t.d. allt of mikið af þessu steikta ógeði á pulsunni minni. Endaði það með því að ég fór að skafa það í burtu. Það tókst ekki betur en svo að ég juðaði sinnepi í buxurnar mínar sem var slæmt því ég var í einum af fínubuxunum mínum sem þurfa að fara í hreinsun ef þær verða skítugar. Sem var enn verra af því að á morgun og líka hinn þarf ég að fara á einhverja fínufatafundi báða dagana og þá dugar ekki baun að vera bara í glabuxunum. Kannski ég mæti bara berrassaður. Þá þarf líka ekkert að þvo eða setja í hreinsun neitt sérstaklega. Bara nóg að fara í eina stutta sturtu.

Já hmmm, kannski ekki svo afleit hugmynd. Jú annars, hún er slæm. Það er vetur og það er kalt. Ég prófa þetta kannski í sumar.

Hmmm....

Annars best að hætta þessu bulli. Það var verið að trufla mig. Einhver að hringja til að betla pening og síðan póstkona frá Asíu með svahilíska orðabók. Ég er nefnilega á leið til Afríku eftir nokkrar vikur ef einhver skyldi ekki vita það!

Ef einhver er forvitinn hvað er að frétta af skrokkun á mér eftir áföll síðasta föstudags þá er það reyndar allt gott eða fer að minnsta kosti óðum batnandi.

Sunday, January 09, 2005

Það skánar

Það skánar frekar frá í gær...

Jólatréð komið út í tunnu (PSSST... ekki segja
neinum þar sem það er víst bannað að setja fólitlé út í öskurtunni!)

Bíldrússlan fór í gang á jafn undarlegan hátt og hún fór ekki í gang í gær og keyrði hún mig alla leið heim.

Mér tókst að betla DVD spilara hjá Ralldiggni (enda vita þau Kristján ekki grægju sinna tal) og er meirasegja búinn að horfa á hálfa LOTR mynd.

Jólastjarnan tórir enn, en ég er ennþá hálf slappur í rifjasteikinni minni þó ástandið hafi nú eitthvað skánað finnst mér!

Saturday, January 08, 2005

Þegar maður segir ekki allt nógu gott af sjálfum sér

Það er allt í veseni.

DVD spilarinn minn virkar ekki
Jólin eru búin
Ég á samt eftir að taka jólatréð niður
Bíllinn minn er bilaður
En það eina sem er reyndar slæmt er að ég er með eitthvað hálfbrákað rifbein.
Síðan er ég kannski líka stoltur af því að jólastjarnan mín er ekki dauð ennþá... en það hlýtur nú samt að fara að koma að því.

Mjá !

En ég tók sem sagt upp á því í gærkvöldi að fljúga hálfhring og enda á því að slá síðunni utan í grindverk. Það á að banna grindverk. Maður á kannski líka að hafa vit á að vera ekki að álpast úti á blankskóm í fljúgandi hálku eftir að hafa sötrað guðaveigar hálft kvöldið. Já það ér hált svellið. Nýársgleðir geta verið erfiðar.

Aðal vandamálið er samt það að ég verð að læknast hratt því ég má eiginlega alls ekki við þessu að leggjast í kör. Þarf út að sprikla til að komast örugglega á fyrirheitna fjallið í Mars. Þetta er sem sagt hið versta mál.

Síðan til að hraða batanum er grasalæknirinn móðir mín búin að troða inn á mig hinu undarlegasta grasaseyði sem er svo hrikalegt á bragðið að öll sár hljóta að gróa samstundis.

Thursday, January 06, 2005

Æ þetta líf

Þar sem ég veit að að minnsta kosti einhverjir þeirra sem álpast til að lesa bloggið mitt hafa dáltinn áhuga á fjallabrölti þá er allt í lagi að upplýsa að það er komið fullt af efni inn á Kilimanjaró síðuna og hún er aukin heldur komin á enn nýjan stað á vefnum, þ.e. kilimanjaro.heima.is. Þar er t.d. komin lýsing á leiðinni sem við farin verður en ég hef eiginlega komist að því að þetta er e.t.v. fáfarnasta leiðin á fjallið og því að einhverju leyti sú mest spennandi. En hún er fáfarin einkum út af því að hún er nýrri en aðrar leiðir og var ekki farin að neinu ráði fyrr en uppúr 1990 vegna stöðugra erja á landamærum Keníu og Tanzaníu. Þar er víst orðið friðsamlegra núna og leiðin greið.

Það er búið að ganga frá flugi út með Iceland Express en gist verður á hóteli í London eina nótt áður en haldið verður á vit æfintýranna í Afríku.

Sunday, January 02, 2005

Það er víst komið nýtt ár

Til hamingju með það öll sömul.


Það datt í mig að far að taka til í blogginu mínu og þá sérstaklega þessu úkklenska sem enginn les. Kannski af því að ég hef ekki sagt neinum frá því. Svo sem ekkert merkilegt og ekki einu sinni merkilegra en þetta.

En ég var sem sagt að færa dót af eiraggi.blogspot.com yfir á eirasi.blogspot.com. Rakst á ýmsa gamla brandara og dót. Til dæmis þennan hér: