Fyrir þá sem eru ekki innvígðir í hlaupaheiminn [sem ég er nú reyndar varla heldur þó ég sé samt kannski eldri en tvívetur í þessum efnum] þá upplýsist það hér með að hlaupaskór eru eins og vín og bifreiðar. Það eru mismunandi árgerðir. Á útsölu í Kringlunni gat ég fengið árgerð Aisics Gel Kayano eða hvað þeir heita frá í fyrra með 30% afslætti sem eru margir margir þúsundkallar þegar horft er til þess hvað þessi ósköp kosta.
Ég gat sætt mig við að nota árgerðina frá í fyrra en hitt var verrara að þeir voru bara til upp í stærð númer 42 og hálft. Og þar sem það var ávísun á að neglurnar á tánum myndu týnast af ein og ein ef tærnar færu bara ekki í heilu lagi þá var stormaðu upp í Smáralind. Ja, reyndar var ekki beinlínis stormað því það vara bara keyrt þangað við undirleik úr Almadóvar bíómynd um einhverja öfugugga, kynskiptinga, klæðskiptinga, gleðikonur, gleðisveina, homma, lesbíur, morðingja og löggu sem var flest af þessu. En nýju grægjurnar eru sko að gera sig heldur betur.
Uppi í Smáralind rakst ég á fyrst fullt af fólki en síðan þessa fínu Intersport búð. Þar var reyndar engin útsala á skóm en nýjasta árgerðin af þeim kostaði samt alveg þúsundkalli minna en í Útilífi í Dinglunni. Þeir urðu því kauptir. Og þegar ég byrja að kaupa eitthvað þá rennur oftar en ekki á mig æði. Reyndar fann ég bara eitt annað skópar til viðbótar þarna til að kaupa en þetta varð eitthvað um kvarthundraðþúsundkall sem ég verslaði.
Þetta lítur annars út fyrir að vera frekar útgjaldamikill dagur hjá mér því það er svona á leiðinni í gegnum peningahömlur heilabúsins míns að ég þurfi að fá mér alvöru aðdrátarlinsu á myndavélina mína til að geta leikið mér eitthvað almennilega í sumarfríinu mínu. Það verður allt í allt eitthvað aðeins meira en hundraðþúsundkall sem fer í það. Já það er munur að vera sterkefnaður vesalingur!
Á leiðinni í burtu með skógóssið rakst ég svo auðvitað á fullt af fólki sem var eitthvað að þvælast þarna. Skil ekki hvað það er alltaf rekast á mig. Ekki hef ég gert því neitt.
Ég æddi sem sagt heim með hlaupaskóna, tróð mér í þá og hlaupabrókina enda ekki gott að hlaupa mikið í glabuxunum eða berrassaður... sem gæti kannski svo sem verið ágætt ef það væri nógu gott veður en ég er ekkert alveg viss um hvað aðrir myndu segja og hef dálítlar áhyggjur af nágrönnum mínum hér við Hverfisgötuna þegar ég myndi fara fram hjá þeim.
En þetta voru algjörir eðalskór. Það er hreinn unaður að hlaupa í þeim. Maður hreyfir bara fyrst aðeins aðra löppina og svo kemur seinni löppin á eftir og hreyfist, fer fram fyrir fyrri löppina sem er þá orðin á eftir og svo hreyfist hún bara líka. Ég var reyndar dálítinn tíma að finna út úr þessu öllu saman þar sem það voru engar leiðbeiningar með skónum. Þurfti meira að segja fyrst að átta mig á hvernig best væri að festa skóna við bífurnar þar sem það voru einhver dularfull snæri í þeim sem þurfti að binda einhvern veginn. Ætli það séu annars þessar reimar sem allir eru að tala um... Veit ekki baun. Er annars að velta fyrir mér hvort það sé "y" eða bara "i" í bífunum. Ja, skiptir líklega ekki máli þar sem þetta er svona frekar lítið notað orð og helmingurinn sem er að lesa þetta [þá líklega þú ef það er enginn búinn að lesa þetta nema ég og þú] hefur hvort sem er aldrei séð þetta undarlega orð á prenti.
Asics Gel Kayano - árgerð 2005
Nú þegar ég var búinn að skokka upp í Laugardal og kom fjólublár af áreynslu til baka upp á Laugarveginn þá æddi slökkviliðið fram úr mér. Það var allt að brenna hér rétt hjá á Rauðarárstígnum. Ég skil annars ekki þessa eldsvoða hér í kring. Ég veit um þrjá bruna hér í svona 200m fjarlægð síðan í vor. Og einn þeirr meira að segja hjá fólki sem ég þekki oggupínkupons, þ.e. spurningakeppnishöfundinum og Steinunni konunni hans.
Já en nú er mál að linni.
No comments:
Post a Comment