Sunday, August 07, 2005

lopapeysan í tísku

Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu. Þegar ég fékk mér göngutúr niður í bæ í gær á gaypride með myndavélina mína þá var alveg haugur af fólki í lopapeysum.
girl in icelandic sweater girl in icelandic sweater girl in icelandic sweater girl in icelandic sweater
Hún er stutt, svört, með rennilás og hugsanlega líka með hettu.


Hvurnin í óskupunum fór lopapeysan eiginlega að því að komast í tísku aftur? [eða hefur hún kannski aldrei verið í tísku - eða kannski alltaf en ég aldrei fattað það?]

Það er reyndar búið að hanna einhverja nýtískulega lopapeysu með rennilás og gott ef ekki hettu sem er greinilega það kúl að jafnvel um mitt sumar er fullt af fólki sem hitnar og svitnar í íslensku ullinni. Ég geri ráð fyrir að þegar kólnar í veðri í haust þá verði heilu flokkarnir sprangandi um bæinn í stuttri þröngri lopapeysu með rennilás og hettu þegar verst gegnir.

Það undarlegasta er að lopapeysa virðist vera orðinn nær fullkomlega kynskipgtur klæðnaður. Á gaypride voru nefnilega bara konur og stelpur í lopapeysum. Ég sá held ég bara einn karlkyns í lopapeysu fyrir utan nokkra sem voru með sýningaratriði í srkúðgöngunni og klæddu sig í lopapeysur til að verða eins luralegir og hægt var.

Það er einhvern veginn þannig að ef karlmaður fer í lopapeysu þá er hann annað hvort að fara að moka skurði eða fara á sjóinn nema hann sé kannski að fara á fjöll eða á hestbak nú eða þá að vera með atriði á gaypride. Kvenmaður og þá sérstaklega svona í yngri kantinum sem fer í lopapeysu er alls ekki að fara að grafa skurði heldur að fara í bæinn eða eitthvað þar sem hún vill sýnist mér vera bara dálítið fín eða að minnsta kosti tolla í tískunni.

Þetta er eiginlega svo skipt á milli kynja að mér sýnist eiginlega að ég gæti allt eins labbað niður í bæ í rósóttum kjól eins og að fara út úr húsi í nýrri kúl lopapeysu.

Neibb. Ég er karlmaður og ég skal ekki klæðast íslenskri lopapeysu nema ég sé að fara að grafa skurð, verka fisk eða fara á fjöll... ja nema ég sé að fara að sýna mig á gaypride, sem stendur ekki til. Og mín lopapeysa skal vera með sama sniði og var sautjánhundruð og súrkál.

Þetta er reyndar hið versta mál að því leytinu að mér finnst að lopapeysur séu svona meira og minna frekar kúl. Sérstaklega reyndar efir að ég hætti að telja sjálfum mér trú um að þær væru svona ógeðisklæðnaður sem gerði ekkert annað en að stinga mann til banana og þyrfti einungis að nota þegar það væri svo kalt úti að andardrátturinn frysi.

Ég verð nefnilega að játa að minn langar dáltið í svona nýtísku lopapeysu og ég skil eiginlega bara alls ekki af hverju nýmóðins lopapeysur með rennilás eiga bara að vera fyrir konur. Að lopapeysur fyrir karlþjóðina eigi að vera nákvæmlega eins og þær voru sautjánhundruð og súrkál og ekki brúkaðar nema von sé á óveðri eða steypuvinna standi til finnst mér dálítið undarlegt.

En sem sagt. Ef ég sést úti á götu í lopapeysu með rennilás þá lít ég ekki á mig sem klæðskipting.

girl in icelandic sweater
Svo er hún líka til hvít.

No comments: