Tuesday, August 30, 2005

Dularfulla sokkahvarfið

Það er lýst eftir einfættum banditta. Það hefur einhver brotist inn til mín reglubunduð undanfarna 36 mánuði og tekið einn sokk ófrjálsri hendi svona á að giska einu sinni í mánuði síðustu þrjú árin.

Það er reyndar ekki alveg öruggt að viðkomandi banditti sé einfættur. Hann gæti reyndar líka verið á tveimur fótum en þá er hann auðþekktur á ósamstæðum sokkum.

Ef þú rekst á einhvern sem er t.d. í einum sokk með mynd af Mr Bean en Andrés önd á hinum þá er viðkomandi nokkuð sennilegur. Eins ef þú mætir einhverjum einfættum í köflóttum sokk með mynd af héra á hjóli þá mættir þú hafa samband við mig hið snarasta.

þar liggur kötturinn grafinn

the digger
Það kom fyrir í síðustu viku að það dó köttur. Því var ekki nema um eitt að ræða. Austur um sveitir var steðjað í líkfylgt og kisu fylgt til grafar. Það lögðu margir hönd á plóg og hér sést karl faðir minn klára hina hátíðlegu greftrun.
´
Nú svo var fengið sér eitthvað að borða og síðan fóru nú flestir bara í bæinn nokkuð fljótlega. En reyndar dútluðu tveir eitthvað í músahúsinu fram eftir kvöldi


the tiny cabin in the tiny tiny forest

Og slógu loks upp herjarinnar grillveislusvallsáti með tilheyrandi rauðvínsdrukk áður en gengið var til náða.

Já, þetta gengur svona fyrir sig.

Monday, August 22, 2005

Það gekk betur á ljósmyndakeppni.is ...

... en í hlauparakeppninni. Komst í annað sæti þar fyrir alveg geðveika mynd!


desperate reworked

Þar að segja, sjá hér.

Sunday, August 21, 2005

Allur lurkum laminn

Mikið ógissla er maður slappur. En ég fékk samt verðlaunapening þrátt fyrir að vera bara númer 774 af 1205 hlaupurum.

rmara

Ekki sérlega merkilegur árangur en það verður að færa mér það til tekna að núna æfði ég mig ekki einu sinni með því að keyra hringinn sem ég gerði fyrir nokkrum árum. En það verður bara að gera betur næst. Reyndar þá náði ég á innan við klukkutímanum ef miðað er við flöguna þannig að kannski var þetta bara í lagi hjá mér eða þannig.

Saturday, August 20, 2005

Hlaupari númer 6699 tilkynnir komu sína

Reyndist ekki vera neinn einasti hraðboði og lítur ekki út fyrir að hafa komist undir klukkutímann að þessu sinni. Jæja, það er þá bara að stefna upp á við!

Það skal verða hlaupt eftir allt saman

Sem sagt. Enginn Sauðárkrókur eða Skagafjörður í dag heldur bara hlaup og menningarvitleysa á eftir. Rakst nefnilega á hlaupaskóna þegar ég var að taka mig til á Krókinn í morgun og þeir bara sættu sig ekki við þetta og sem sagt: Hlaupari nr. 6699 hefur tilkynnt um þátttöku sína. Ég hef held ég annars aldrei verið með svona flott númer. Vona bara að ég hlaupi ekki á 66 mínútum þó númerið byrji þannig.

En núna. Búinn að borða hlauparamorgunmat sem innihélt banana og svo er bara að reima skóna á sig með flögunni og alles og æða svo af stað á eftir. Meira um það síðar en ég á ekki von á miklum afrekum að þessu sinni.


....

Friday, August 19, 2005

Éra hugsum að skrópa á menningarnótt

Þetta er grábölvað og eiginlega mér að kenna. Það á að fara einhverja ferð í vinnunni minni norður í land á morgun. Sko svona á vegum starfsmannafélagsins eða hvað það nú er. Skil ekki hvernig þessir gúbba sem ráða þar ríkjum létu þetta gerast að fara í ferð norður í land þegar það er menningarnótt í henni Reykjavík. Reyndar skil ég þetta alls ekki þar sem ég er víst formaður í þessu blessaða starfsmannafélagi. En reyndar. Ég fékk ekki að ráða þessu og var ekki nógu klókur að segja bara þvert nei. Bullið er síðan mest að þeir sem vildu endilega fara á þessum fáránlega tíma fara ekki neitt held ég. Eða a.m.k. ekki allir. Jæja en...

þetta er náttúrlega frábær afsökun fyrir að þurfa ekki að fara að hlaupa eitt né neitt í grenjandi rigningu í fyrramálið. En ég sakna þess samt. Reyndar kemur á móti að ég er ekki í nokkru einasta hlaupaformi. En reyndar er ég að hugsa um að stíga hér og nú upp á borðstofuborðið og strengja þess heit að næsta ár verður tekið með trompi. Vömp og hóglífi sagt stríð á hendur og hlaupið hvorki meira né minna en hálft maraþonþ. Segi og schrifa alveg hálft þon. Já þið skuluð gjöra svo vel og herma þetta upp á mig einhvern tíman snemmsumars á næsta ári. Takk fyrir.



a foot and  a hand
Þessi löpp mun ekkert hlaupa á morgun
en kannski fara á hestbak...
það er líka gaman!

Tuesday, August 16, 2005

Það getur verið ágætt að vinna í tölvufyrirtæki

Endurnýjun hefur staðið yfir og núna er minn kominn með skjá upp á háaloftið í hvorki meira né minna 21 tommu. Segi og skrifa tuttuguogeintomma. Og hann er stór. Fyllir næstum upp í háaloftið. Ég gat ekki lokað skottinu á bíldrússlunni þegar honum var dröslað heim í dag og það lá við bakverki eftir þessi ósköp. Verst að ég er logandi hræddur um að Ikea borðskriflið sem hann er á verði að láta í minni pokann og hlunkurinn mölbrjót á mér lappirnar á niðurleiðinni. Fari svo í gegnum hanabjálkann sem ég sit á, niður í klósett, mölvi það þannig að vatn flæði út um allt. Brjóti gat á gólfið og á gólfið þar fyrir neðan og falli svo til jarðar með svo miklum dynk að Reykjavík nötri.

Sem sagt. Ef það verður vart við jarðskjálfta nálægt Hlemmi og alvarlegur vatnsleki birtist á Laugaveginum þá vitið þið alveg hvað hefur gerst!
reykjavik Banner - 1

Monday, August 15, 2005

Ég gerði það aftur...

Já bar að fara út á svalir um miðja nótt eða næstum því, með kertaljós, rauðvín, hamborgara, beikon, fullt af kryddum (já ég nota sko ekkert bara svona sísonoll á mína hamborara), grænmeti alls konar og svona dót og kveikti í þessu öllu saman á grillinu. Nú og svo er ég líka að hlusta á einhverja Carmen mússik. Datt síðan í hug til að fullkomna þetta að taka bara labbakvikindið út á svalir líka og sit núna hér og pikka þetta...

Það er reyndar einn óboðinn gestur hér sem heitir rigning. En hvað um það. Það gerist ekkert verrara út af því nema kannski að tölvudrusslan eyðleggist og að rauðvínið þynnist í glasinu og að ég verði hundblautur. En það gerir svo sem ekkrt til því rauðvínið var ekkert sérlega merkilegt og ég á meira til ef mig langar í og svo er fartölvan gamalt gargan að verða (alveg ársgamalt eða jafnvel tveggja) og ég á það ekki. Nú og svo ef ég verð allur hundblautur sjálfur þá þurrka ég mér bara. Ég er hvort sem er berrassaður. Nei annars núna var ég að rúggla í ykkur... ég á nefnilega ekkert handklæði.


people walking away
....mynd sem reyndar...
kemur málinu ekkert við.
en mér finnst hún samt bara
dálítið flott.

Sunday, August 14, 2005

kúl eða bara hallærislegt...

Datt það svona í hug að ég gleymdi alveg að borða kvöldmat áðan.

Átti svo hamborgara til að grilla og fór út á svalir. Útiljósið hefur hvorki verið kaupt né sett upp og því átti að notast við námumannaljósið (svona höfuðljós sem maður fer með í göngutúr). En það var náttúrlega battaríislaust. Þannig að það var gripið til gammalreyndra bragða. Sat úti á svölum, grillaði hamborgara, drakk rauðvín úr glasi við kertaljós. Ekki slæmt. Reyndar varð niðurstaðan að hér hafi verið sett met í mónórómantík. Jú ég er líklega færari í svoleis en margur annar.

En þetta var einhver besti hamborgari sem ég hef fengið lengi. Jafnvel síðan í gær.

Thursday, August 11, 2005

stundum...

... gerir maður of mikið af þssu:

2005-08-10 on the computer

Hanga bara fyrir framan sjónvarpið en vera samt að brávsa einhverja vitleysu. Oftar en ekki að bíða eftir að einhver kommenti á myndirnar manns nú eða bloggið manns. Stundum þarf maður nú reyndar að bíða dáltið lengi eftir því. Skammstín og settu nú komment því þá verð ég svo hroðalega glaður.

Var svo reyndar næstum búinn að ákveða að slaufa þessari sjálfsmyndavitleysu minni en held kannski eitthvað áfram. Myndin af krumlunum mínum á lyklaborðinu er sko reyndar auðivtað partur af því... enda eru hendurnar manns partur af manni sjálfum líka. Eða a.m.k. partur af mér. En það er nú önnur saga sem kannski ekki allir leggja neina sérstaka trú á. Ekki nema þeir sem eru handatrúar. Æ - nei það heitur víst að vera andatrúar. Ætli þeir trúi þá ekki bara á brabra. Hlýtur að vera undarlegt lið.

Þessi mynd þarna fyrir ofan er annars dáltið kúl sem bakgrunnur á tölvuskjánum. Hún er svona tölvuvædd útgáfa af jakkanum á stólnum. Hvort ég sit í sætinu mínu í vinnunni eða er bara úti að borða ís og pulsu þá er ég alltaf greinilega að vinna eitthvað og alveg rosalega iðinn með hendina á fullu á músinni.

Tuesday, August 09, 2005

Mikið er ég nú ánægður með lögregluríkið okkar

Mikið er ég nú feginn að lögreglan skuli leggja sig í svona mikið fram við að tryggja öryggi okkar borgaranna og láta þessa mótmælendaseggi ekki komast upp með neitt múður. Hvað er þetta lið líka eitthvað að kvarta yfir því að vera í fylgd opinberra aðila eins og hverjir aðrir þjóðhöfðingjar. Þeir ættu nú bara að vera ánægðir með þetta!


[Lögreglan fylgist með ferðum mótmælenda]
"Þeir hafa lýst því yfir að þeir ætli að halda áfram mótmælaaðgerðum og gefur það tilefni til að fylgst sé með ferðum þeirra enda vitum við ekki hvar þá ber niður næst," sagði Þórir.

Svo er nú brotavilji þessara öfgasinna alveg dæmalaus. Þeir skiptu sér í tvo flokka og guð má vita hvað!

Annars er ég svolítið skeptískur á þessi mótmæli að einhverju leyti. Eftirför lögreglu og útkall víkingasveitarinnar upp á Kárahnúka er hins vega alveg óumdeilanlega út í hött og dæmi um það hvernig stjórnvöld líta á persónufrelsið, tjáningarfrelsið og hvað allt þetta er sem ég hélt alltaf að við hefðum í ríkari mæli en flestir aðrir. En það er kannski bara einhver vitleysa hjá mér.

En það verður að hafa gætur á þessu liði því eins og lögregluforinginn sagði ábúðamikill í sjónvarpinu núna rétt áðan að þá þarf að gæta að því að mótmælin eru ekki bara bundin við Kárahnúka og við skulum ekki gleyma atburðunum sem urðu á Hótel Nordica nú fyrr í sumar. Já eins og einhver sagði einhvern tíman:
Þeir sletta skyrinu sem eiga það!

Ætli þetta sé...

Ætli þetta [Sænskur lögregluhundur þjálfaður til að þefa uppi sæði] sé kannski klámhundur?


....

Raunir sjálfsljósmyndara

Ég fékk undarlega flugu í höfuðið fyrir nokkrum dögum. Það er að taka taka eina sjálfsmynd af mér (bull er þetta, af hverju þarf ég að segja að sjálfsmynd sé af sjálfum mér... auli!) á hverjum degi. Jamms. Og auðvitað verð ég að reyna að vera eitthvað frumlegur. Fyrr í kvöld fór ég í skyndibíltúr til að gera eitthvað sneðugt og endaði á að fara upp í grjótnámur Reykjavíkurborgar fyrir ofan Hafravatn. Þar eru alls konar hroðaleg varúðarmerki um spreningar og aðra óáran en ég hélt ótrauður áfram. Hvað gerir maður ekki fyrir listina. Verst reyndar að ég var með allt of mikla lyst, eiginlega að drepast úr hungri þegar ég var að þessu.

Ég stillti mér upp fyrir framan myndavélina í drullupyttum og uppi á grjóthrúgum og átti helst von á að fá eitthvað í hausinn. En það varð nú reyndar ekki. Reif svo af mér gleraugun því módel mega auðvitað ekki líta út fyrir að vera nærsýn. Það endaði svo með því að ég fann ekki gleraugnaskammirnar aftur og var farinn að skríða um svæðið á fjórum fótum til að finna þau án þess að stíga ofan á þau og skemmileggja. Ég er greinlega farinn að sjá eitthvað verr en mig minnti. En hvað um það. Fann gleraugnadótið og afraksturinn varð svona:
2005-08-08 nothing  but the head

Svo var ég hér reyndar að taka einhverja prufumynd og var þá greinilega að fá taugaáfall yfir grjótinu sem gæti farið í hausinn á mér:


desperate


En það er sem ég segi, hvað gerir maður ekki fyrir frægðina... nema kannski það að kma nakinn fram. Kannski samt ekkert svo vitlaus hugmynd. Nei annars, ég myndi aldrei þora að gera svoleis. Mar verður víst að gæta einhvers mannorðs eða velsæmis eða einhvers.

En annars. Myndirnar sem ég er að dunda mér við að taka í þetta eru á sérstakri Flickr síðu.

Sunday, August 07, 2005

lopapeysan í tísku

Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu. Þegar ég fékk mér göngutúr niður í bæ í gær á gaypride með myndavélina mína þá var alveg haugur af fólki í lopapeysum.
girl in icelandic sweater girl in icelandic sweater girl in icelandic sweater girl in icelandic sweater
Hún er stutt, svört, með rennilás og hugsanlega líka með hettu.


Hvurnin í óskupunum fór lopapeysan eiginlega að því að komast í tísku aftur? [eða hefur hún kannski aldrei verið í tísku - eða kannski alltaf en ég aldrei fattað það?]

Það er reyndar búið að hanna einhverja nýtískulega lopapeysu með rennilás og gott ef ekki hettu sem er greinilega það kúl að jafnvel um mitt sumar er fullt af fólki sem hitnar og svitnar í íslensku ullinni. Ég geri ráð fyrir að þegar kólnar í veðri í haust þá verði heilu flokkarnir sprangandi um bæinn í stuttri þröngri lopapeysu með rennilás og hettu þegar verst gegnir.

Það undarlegasta er að lopapeysa virðist vera orðinn nær fullkomlega kynskipgtur klæðnaður. Á gaypride voru nefnilega bara konur og stelpur í lopapeysum. Ég sá held ég bara einn karlkyns í lopapeysu fyrir utan nokkra sem voru með sýningaratriði í srkúðgöngunni og klæddu sig í lopapeysur til að verða eins luralegir og hægt var.

Það er einhvern veginn þannig að ef karlmaður fer í lopapeysu þá er hann annað hvort að fara að moka skurði eða fara á sjóinn nema hann sé kannski að fara á fjöll eða á hestbak nú eða þá að vera með atriði á gaypride. Kvenmaður og þá sérstaklega svona í yngri kantinum sem fer í lopapeysu er alls ekki að fara að grafa skurði heldur að fara í bæinn eða eitthvað þar sem hún vill sýnist mér vera bara dálítið fín eða að minnsta kosti tolla í tískunni.

Þetta er eiginlega svo skipt á milli kynja að mér sýnist eiginlega að ég gæti allt eins labbað niður í bæ í rósóttum kjól eins og að fara út úr húsi í nýrri kúl lopapeysu.

Neibb. Ég er karlmaður og ég skal ekki klæðast íslenskri lopapeysu nema ég sé að fara að grafa skurð, verka fisk eða fara á fjöll... ja nema ég sé að fara að sýna mig á gaypride, sem stendur ekki til. Og mín lopapeysa skal vera með sama sniði og var sautjánhundruð og súrkál.

Þetta er reyndar hið versta mál að því leytinu að mér finnst að lopapeysur séu svona meira og minna frekar kúl. Sérstaklega reyndar efir að ég hætti að telja sjálfum mér trú um að þær væru svona ógeðisklæðnaður sem gerði ekkert annað en að stinga mann til banana og þyrfti einungis að nota þegar það væri svo kalt úti að andardrátturinn frysi.

Ég verð nefnilega að játa að minn langar dáltið í svona nýtísku lopapeysu og ég skil eiginlega bara alls ekki af hverju nýmóðins lopapeysur með rennilás eiga bara að vera fyrir konur. Að lopapeysur fyrir karlþjóðina eigi að vera nákvæmlega eins og þær voru sautjánhundruð og súrkál og ekki brúkaðar nema von sé á óveðri eða steypuvinna standi til finnst mér dálítið undarlegt.

En sem sagt. Ef ég sést úti á götu í lopapeysu með rennilás þá lít ég ekki á mig sem klæðskipting.

girl in icelandic sweater
Svo er hún líka til hvít.

Minns kemur af fjöllum


2005-08-04  dreaming of the sky
Minn á botni langavatnsins við Langasjó...
var dálítið þurrt en samkvæmt landa-
kortinu þá lá ég þarna úti í miðju vatni

Ég kem af fjöllum í orðsins fyllstu merkingu. Fór á fjöll í vikunni og plampaði hringinn í kringum Langasjó. Það var bara ekkert leiðinlegt. Reyndar dálítil pílagrímaferð þvi það skal víst eyðileggja þetta vatn og önnur falleg svæði með jökulgormi úr Skaftá innan skamms. Já svei attan.

Það kemur kannski eitthvað meira um þessa ferð einhvern tíman ef ég hef nennu til. Og þó - ég held að það sé ólíklegt en það gætu nú samt hrunið inn einhverjar myndir.

Koma þá á Flickr síðu.

Núna var ég annars að hugsa um að fara að sofa enda er orðið framorðið. En það er ekki hægt því það er einhver að syngja úti á götu. Hann syngur ekkert sérlega vel og ég heyri ekki einu sinni hvaða lag hann er að syngja. En það er greinilega fjör á Gay Pride. Já, það er ekki bara kostur að búa með rónunum á Hlemmi. Annars er hann hættur að syngja og núna heyri ég ekkert nema vindgnauð á glugga og innan í fartölvunni minni og svo eins og einn eða tvo bíla sem eru að keyra framhjá. Á meðan þeir eru ekki með ónýta hljóðkúta eða götusóparinn (ó) vinur minn kemur þá ætti maður kannski að geta sofið eitthvað.

Wednesday, August 03, 2005

Þegar mar fer að sofa

Þá er best að bursta tönnurnar

2005-08-02  with all teeth
... þannin að þær glansi
... og dansi
... og manni verði ekki af þeim vansi ...

Vá best að fara að drússla sér í rúmið.
Ég er annars að fara á fjöll í fyrramálið. Það verður án efa gaman, sérstaklega ef ég fer einhvern tíman að sofa þannig að ég geti vaknað.

Monday, August 01, 2005

Þetta er ég

Að verða of seinn í vinnuna mína. Vaknaði upp með andfælum og rauk af stað. Áttaði mig ekki fyrr en ég komst ekki inn í bílinn að ég var með pípuhattinn á höfðinu. Rak hann harkalega utan í þannig að hann fór að skæla.


2005-07-31 a man with a hat


Fór þá aftur upp í íbúðina og áttaði mig á að það er sko frídagur verslunarmannanna í dag. Já bara svona að minna á það.

Og af hverju pípuhattur?
Jú er hann ekki ágætis náttföt?