Sunday, February 27, 2005

Rífum Laugaveginn...

Af því að mér leiðist að vera á móti án þess að vita hvað ég er að tala um þá fékk ég mér göngutúr niður Laugaveginn eftir hádegið í gær og skoðaði þessa húskofa sem er búið að gefa tortímingarleyfi fyrir. Var með myndavélina með mér og má sjá hér.

Og vissulega er það rétt. Við Laugaveginn er fullt af ljótum skúrbyggingum sem var hróflað upp af vanefnum á síðustu öld og eru kannski ekki eitthvað sem maður á von á að sjá í miðbæjum höfuðborga forríkra þjóða. Og það er kannski eðlilegt að rífa slíkt.

En það er hins vegar fullt af húsum þarna sem á að rífa sem eru alls engar skúrbyggingar og það er líka eitthvað af húsum þarna sem á ekki að rífa en eru óttalegir skúrar. Það er það sem ég eiginlega skil ekki. Og almennt þegar ég skoðaði hvað átti að rífa og hvað ekki þá gat ég ekki séð nein skynsamleg rök fyrir því. Almennt á samt að rífa miklu meira fyrir norðan Laugaveg en fyrir sunnan Laugaveg. Hentistefnustjórnun datt mér reyndar í hug.

Síðan eru ein aðal rökin fyrir því að rífa húsin að það sé gert til að efla verslun á Laugaveginum því eins og allir vita þá kemur enginn á Laugaveginn eins og hann er núna. Samt var það þó einhvern veginn þannig að fyrr um daginn hafði ég ætlað að keyra niður þennan sama Laugaveg en gafst upp á því vegna þess að hann var sneisafullur af bílum. Endaði á að rölta með myndavélina enda miklu meira gaman að labba innan um allt fólkið.

Það er nefnilega yfirleit þannig að maður kemst hvorki lönd né strönd á bíl niður Laugaveginn (a.m.k. um helgar og í lok dags) og ef maður fær sér göngutúr þar niður þá mætir maður einhverjum hundruðum held ég, þó ég hafi svo sem aldrei talið.

Ég efast verulega um að nýbyggingar hjálpi kaupmönnunum þarna sem sjá aldrei neitt fólk á Laugaveginum. Einhvers staðar er til orðatiltækið að árinni kenni illur ræðari. Ætli það gæti átt við þarna?

En nokkrar myndir úr þessari myndasýningu minni:

Þessi á að rífa:
73 Kaffi Vin og Midbarinn X
45 X

29 X


Þessi á ekki að rífa:
48 NEI
32-daman NEI
Ég get ekki að því gert að ég get ekki kallað þetta annað en skúra (það er þetta efra) en mér skilst að þá eigi að "vernda" eða að minnsta kosti ekki rífa. Átti ekki að vernda það sem átti ekki að rífa annars.
66 NEI
Þetta hús lýsir því síðan ákaflega vel hvað ég óttast. Sá sem telur að þetta hús sé mjög smekklegt er ekki sérlega smekklegur að mínu mati.

Eða þetta hér:
18-2 NEI

Síðan skal það alveg játast að margt af því sem hefur verið gert síðustu ár er bara nokkuð smekklegt:
22 NEI

Og mér skilst að það eigi ekki að rífa Laugaveg 22.



Niðurstaðan er eiginlega sú að ég skil engan vegin af hverju eitt er rifið en ekki annað. Sumt sem á að rífa finnst mér að sé ekki bein þörf á að rífa og sumt sem á ekki að rífa finnst mér að ætti að rífa sem fyrst. Ég er sem sagt ekkert alfarið á móti þessu eftir að hafa fengið mér göngutúrinn en ég held að það sé ekki rétt að þessu staðið og þetta er allt of mikið og líklega tilviljanakennt hvað er rifið og hvað ekki.

Það sem ég óttast síðan mest er að þetta verði tómt klúður. Öll nýju húsin muni þykja forljót skipulagsmistök eftir 30 ár eða svo og einnig óttast ég að framkvæmdirnar sjálfar gangi af Laugaveginum dauðum. Það er nógu slæmt ástandið núna þó það sé bara ein hola þarna þ.e. þar sem Stjörnubíó er. Og þar er samt bara búið að gera eina fjárans holu. Það er ekki búið að byggja neitt.

Heimildirnar um hvað á að rífa fann ég á mbl.is. Leitaði fyrst á borgarvefnum en fann ekkert um þetta þar þó borgarstjórinn hafi sagt í útvarpinu að þar væru myndir af öllum húsunum.

En skv. Moggafréttinni þá á að rífa:
Fram kemur í svari Skipulagssviðs, að húsin, sem heimilað hefur verið að rífa eru númer 4, 5, 6, 11, 12B, 17, 19, 20, 20A, 21, 22A, 23, 27, 28B, 29, 33, 35, 38, 41, 45, 55, 65, 67, 69 og 73 við Laugaveg.

No comments: