Sunday, May 16, 2004

Alltaf eru þessi tapsárindi vegna Júróvisjon jafn fyndin


Eilíft kvart og kvein yfir því að allir hinir svindli og þetta sé ekkert að marka. Þetta séu bara einhverjar Balkanskagaþjóðir að gefa hverjum öðrum stig.

Jújú, þær gefa hverri annarri stig en samt:

Þegar íslensku stigin höfðu öll verið talin upp vorum við búin að greiða öllum efstu löndunum atkvæði, alveg eins og Balkanskagalöndin.

Það gaf okkur held ég enginn stig utan Norðurlandanna, Írlands (sem telst næstum með Norðulöndunum) og Mónakó sem líklega fann einhverja smæðarsamsvörun með okkur.

Þegar við gáfum einhverju austantjaldslandinu 12 stigin okkar í gær þá sprakk enski þulurinn sem ég var að hlusta á úr hlátri því hann sagði að núna hefðu aumingja Íslendingarnir lent í voðalegum vandræðum því við hefðum aldrei gefið neinum öðrum en dönum 12 stig hingað til.

Sem sagt. Ef við erum með frambærilegt lag þá fáum við slatta af stigum héðan og þaðan og svo 8-12 stig frá hinum Norðurlandaþjóðunum. Ef við erum með ömurlegheitalag eins og núna þá fáum við örfá stig frá frændunum og lítið ef nokkuð meira en það.

Og hinar fýluþjóðirnar eins og Bretar, Frakkar og Hollendingar verða líka að fatta þetta. Það þýðir ekkert að ætla að vinna þessa keppni með eintómum ömurlegheita leiðindalögum

Og hana nú!

Annars um íslenska lagið. Ég verð kannski að játa að það vandist aðeins. Eftir að hafa heyrt það annað slagið síðustu mánuði þá var ég svona farinn að þola það eða búinn að læra að leiða það einhvern veginn hjá mér. Ef það hefði verið spilað jafn mikið í allri Evrópu og hér á Íslandi þá hefðum við kannski náð 16. sætinu okkar!


No comments: