Tuesday, May 04, 2004

Þetta er flest sosum ágætt!


Norðlendingar eru alltaf svo ánægðir með veðrið hjá sér. Mér finns veðrið í henni Reykjavík núna þessa vikuna vera hneisa fyrir maímánuð. Minnir mig reyndar á það þegar ég var að vinna með Hraðfrystistöðinni á Þórshöfn fyrir nokkrum árum. Það var í maí og það var eiginlega komið sumar í Reykjavík. Hafði líklega ringt um nóttina. Svona rúmlega 10 stiga hiti og lyngt. Fuglasöngur út um allt, flest tré orðin allaufguð og allt orðið grænt á að líta. Svona einn af þessum dögum þegar maður getur fundið lyktina af vorinu.

Síðan flaug ég norður. Millilenti á Akureyri og þurfti sem betur fer ekki að hýrast lengi í hinni miður skemmtilegu flugstöð höfðustaðar Norðurlands. Síðan þegar ég kom á Þórshöfn, þá var þar vindgarri af einhverri ókennilegri átt. Himininn var ofboðslega blár sem og sjórinn. Snjóskaflarnir í bænum voru baðaðir hálfgerðri frostsól. Ég man reyndar að einhverjar stelpur voru að striplast á stuttbuxum á einhverri götunni og var það eina merkið um að það væri maí en ekki janúar. Spurði þá ekki sá sem tók á móti mér heldur rogginn hvort ég væri ekki feginn að vera kominn úr rigningunni í henni Reykjavík og í góðaveðrið á henni Þórshöfn. Mér var heldur svarafátt enda hafði ég aldrei heyrt neinn klæmast áður svona voðalega á góðu veðri. Mér finnst veðrið í Reykjavík vera einhvern veginn eins og það var á Þórshöfn þarna um árið.´ Og nei, ef einhver var að velta því fyrir sér, þá hef ég aldreigi fengið að vinna í fiski. Þarna á Þórshöfn var ég svona frekar slakur SAS-ari. Nýkominn af einhverjum jakkafatafundi í Reykjavík og tók það mig dálítinn tíma að fara að passa inn í þarna á Þórshöfn.

Fór annars í fjallgöngu í góðaveðrinu í dag. Gekk upp á Stóra-Meitil og einhvern minni líka. Það var sól og það var hvasst. Umræðuefnið var kalsár og aðrir hrakningar sem við óttuðumst að lenda í. Einhver óttaðist rigningu. Sá ótti var ástæðulaus. Það kom él!

No comments: