Klakahröng á Þjórsá fyrir neðan Urriðafoss
Ístruflanir er skemmtilegt orð. Það má segja það eins og á að segja það, þannig að það skiptist í atkvæði sem ís-trufl-an-ir en svo má líka segja það alveg kolrangt sem ístru-flanir eins og eitthvað semn er að flana að ístrum. Eftir langan frostakafla er ekki við öðru að búast en að það sé komin einhver klakamyndun í öllu vatni, hvort sem það rennur eða ekki.
Þegar maður er að þvælast með vatnamælingasérfræðingum þá verður auðvitað að nota hvert tækifæri til að vakta vöktunarbúnaðinn. Í Þjórsá rétt fyrir neðan þjóðveginn er foss sem er núna helst frægur fyrir það að hann á hugsanlega að virkja en þar er einnig eitthvert umfangsmesta ísmyndunarsvæði í íslenskum straumvötnum. Skv. því sem vatnamælingasérfræðingurinn sagði mér þá byrjar áin að krapa fyrst og svo frýs hún á meðan rennsli er enn í yfirborðinu og það veldur því að klakastykkin hrannast upp eins og sést á myndinni að ofan. Meðfram bakka árinnar að vestan verðu var örmjótt íslaust eða hálf íslaust belti, einungist örfáir metrar ef það þá náði því allst staðar. Þar utar hafði ísinn hrannast upp. Þetta þykir skoðunarvert og hefur myndavél verið komið upp til að skrá upplýsingar um fyrirbærið. Eitthvað stóð símasambandið við myndaélina á sér og var reynt að skoða hvað olli því. Orsök ekki ljós og komst ekki í lag en myndavélin tók mynd fyrir okkur á meðan við vorum þarna. Jafnvel spurning hvort maður hafi verið á myndinni!
Urriðafoss í klakaböndum
Á bakaleiðinni litum við á Urriðafoss. Hann er ekki allur í klakaböndum en sérkennilegt var að sjá allt vatnið í ánni fara undir ís rétt fyrir neðan fossinn. Eins og sést á myndinni að ofan þá nær vatnstunga að ísnum og þar hverfur öll áin undir ísinn. Ágætt er að hafa í huga að þetta er ekkert smáræðisrennsli því rennslinu í ánni er stýrt til að tryggja jafna rafmagnsframleiðslu og því er ekki þarna um neitt takmarkað rafmagnsrennsli að ræða heldur umtalsvert vatnsmagn, þó ég kunni ekki að segja til um rúmmetrafjölda á sekúndu.
No comments:
Post a Comment