Tuesday, December 06, 2011

Að skilja eða að læra utan að

Kristallar í Þjórsárhrauni - dílabasalt Frostrósir á glugga Ventó

Ólivín í plagíóklasi vinstra megin en falleg "ís-steind" hægra megin

Ætlar steindafræði að drepa mig?

Hann Snæbjörn sem kennir steindafræði leggur mikla áherslu á það að það á ekki að leggja áherslu á að læra hluti utanað. Samt kemur hann með lista yfir meira en 50 steindir sem á að kunna skil á og þar af yfir 30 sem á að kunna efnaformúlur fyrir. Ég veit ekki alveg hvað á að kalla utanbókarlærdóm og hvað ekki. Mér gengur yfirleitt ekki mikið að kunna hluti almennilega utanað eins og páfagaukur en ef ég get sett þá í samhenig við eitthvað annað þá gengur það eitthvað skár.

Mér gengur svo sem ágætlega að muna það sem máli skiptir á þessu stigi fræðanna einmitt fyrir eitthvað eins og Ólivín og Plagíóklas sem myndast í blandröðum og ekki blandröðum, silikat sem er svona eða hinsegin og þróast á ákveðinn hátt. Hins vegar að muna einhverjar 5 gerðir af oxíði og aðrar 5 gerðir af súlfíði ásamt einhverjum haug af veðrunarsteindu, það er eiginlega ekki tebollinn fyrir minn heila. Þó ég kannski geti þulið það upp á prófinu þá mun ég flýta mér að eyða þeirri þekkingu út úr heilanum eins fljótt og hægt er því þannig þekking hefur ekki tilverurétt í mínum heila.

Það er annars undarlegt að alltaf skal maður á einhverjum tímapunkti próflestrar gjörsamlega vera hættur að læra fyrir sjálfan sig og þekkingarinnar vegna heldur eingöngu til að fá einhverja almennilega einkunn. Og þar sem einkunnirnar mínar síðasta vor fóru fram úr flestum upphaflegum væntingum, þá hafa væntingarnar verið uppfærðar miðað við það. Það er því best að standa sig!

Ólivín-plagioklas myndin er úr Þjórsárhrauni frá því síðasta vor en ískristallinn var í gær innan á aftur-hliðarrúðu í honum Ventó. Það er nefnilega ennþá frost úti.

No comments: