Í skóginum stóð kofi einn
Það fóru bræður í Fellsmerkurferð á aðventu eins og oft áður. Gunninn hafði kíkt inn í Fellsmörk fyrr í vikunni í einni af sínum yfirreiðum og þá séð sér til mikillar undrunar að framkvæmdir voru komnar á fullt. Meistarinn í Álftagróf ekki að baki dottinn. Búinn að semja við Suðurverk um að gera herjarinnar varnargarða og litur út sem þar fari saman bæði stór framkvæmd og mikið af skynsemi og má því hugsanlega vonast til þess að þarna sé verið að leysa vandamál til frambúðar.
Þegar við komum var myrkur að skella á en það aftraði ekki ýtukörlunum við að hamast í sinni jarðvinnu. Var ein risajarðýt að ýta upp efni varnargarðinn og önnur bara stór að slétta úr uppi á garðinum. Svo voru trukkar á fleygiferð og skurðgrafa að setja út grjótvörn.
Framkvæmdir í skjóli myrkurs
Daginn eftir gátum við skoðað betur og séð yfir framkvæmdasvæðið eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Þetta er herjarinnar garður sem búið er að gera þarna en reyndar með takmarkaðri grjótvörn. Gunni sem talaði meira við karlana skildi þá þannig að það ætti svo að gera annan garð sem myndi ná ofar og hann yrði grjótvarinn mun betur og ætti þá að standa áhlaup ánna af sér. Er óskandi að þetta gangi eftir þannig að vegavandræð Fellsmerkur séu þá þannig séð úr sögunni.
Séð yfir framkvæmdasvæðið. Hægt að smella á myndina til að fá hana stóra
Í skóginum okkar var hins vegar allt á kafi í snjó. Þurfti að moka upp bæði grillstæði og arinstæði. Ágætlega gekk að kveikja upp í grillinu og hellusteinarnir sem voru settir þarna í haust virkuðu bara mjög vel. En það var annars alveg ljóst að ef grillstæðið hefði ekki verið merkt með einhverju priki hefði verið erfitt að finna það. Var rekið niður steipujárn eitt og stóð bara lítið af því uppúr snjónum. Ef snjór hefði verið svona þriðjungi meiri þá hefði járnið verið horfið!
Logar glatt í grillinu
No comments:
Post a Comment