Það haustaði óvenju snemma það vor... ég meina þann vetur haustaði óvenju snemma.
Tíðarfarið er frekar undarlegt verður að segjast. Einhvern tíman í febrúar kom langþráður snjór sem fljótlega bráðnaði og svo varð bara hlýtt. Ég afskrifaði veturinn. Núna er að byrja maímánuður. Þá á að vera komið vor en úti er snjór. Það er svo sem enginn alvöru vetur og reyndar var hitastig í apríl víst ekkert undir meðallagi. A.m.k. ekkert mikið. Ég á nú samt eftir að skoða það eitthvað. Held að það hafi verið hins vegar hvassviðrasamara og blautara og kannski þannig að úrkoma og vindur hefur farið saman.
Annars hefur veðrið í dag verið bara voðalega gott eða þannig. Það sem ég hef helst haft út á veðrið að setja er að það hefur verið meira og minna endalaust rok að undanförnu. Ég var búinn að sjá í veðurspánni að það myndi verða logn í dag og hugði mér gott til glóðarinnar að geta racer hjólað aðeins í logni svona til tilbreytingar. En ekki var hægt að súpa á þó í ausuna væri komið a.m.k. ekki á racer. Logninu fylgti kuldapollur sagði veðurfræðingurinn og það varð sami hiti í Reykjavík og uppi á Holtavörðuheiði. Svo eru fréttir af 15°C hita á Raufarhöfn. Þetta er náttúrlega ekki alveg í lagi!
En það er snjór í Hæðargarðinum. Myndin fyrir ofan er úr almenningsgarðinum í Hæðargarðinum og þessifyrir neðan sýnir H34 með Ventó í forgrunni. Hann fer nú kannski bráðum að verða til sölu ef ég fer eitthvað að heppast. Hver veit... jú, ég þykist vita.
Svo á ég nú reyndar að vera að lesa veðurfræði en hvernig er það hægt þegar veðrið er svona handónýtt!
No comments:
Post a Comment