Háskæld lokapróf eru sko ekkert til að gera grín að
Reyndar ekki lengur á röngunni en jafn röndóttir eftir sem áður
Það er alveg með ólíkindum hvað maður getur stressast fyrir svona próf. Jafnvel þó einkunnin skipti varla nokkru máli - nema þá kannski fyrir sjálfan mann - en það er þá kannski einmitt þess vegna sem það verður svona mikilvægt að standa sig vel. Held líka að Hreggviður hefði orðið alveg miður sín ef ég hefði klúðrað prófinu eitthvað illilega, sem gerðist held ég ekki enda ekki miklar líkur til.
Mér gekk annars ágætlega þó svo ég hafi nú ekki alveg vitað allt. Hver kann að nefna til dæmis nöfn á einverjum námum erlendis? Og til hvers? Var ágætur því því þarna sem máli skipti og bara þokkalega sáttur við mig sjálfan í þessu.
Síðan margt fyndið hvernig hlutirnir eru í undarlegri röð. Hitti þarna fyrir utan prófstofuna hana Hönnu Þóru sem ég réði til að vinna með mér í Stjórnvísi hér í dentíð. Þarf svo núna að klára að fara yfir og gefa einkunnir í gæðastjórnunarnáminu í Endumenntun þar sem einn nemandinn er mamma eins nemandans sem tók próf með mér í morgun. Þetta er stundum allt einhvern veginn á haus!
Síðan mætti ég í prófið, eins og við mátti búast á röndóttum sokkum en svona til hátíðarbrigða (reyndar alveg óvart) hafði ég annan sokkinn á röngunni. Vonast ég til að það sé gæfumerki og verði talið mér til tekna.
Núna þegar ég klára einkunnagjöfina hjá Endurmenntun (hvar skiladagur einkunna er víst í dag - hvað ég myndi ekki þola sjálfan mig sem kennara) þá taka við veðurfræðileg verkefni og loks próf í þeim fræðum eftir viku. Svo kennsla á úttektarnámskeiði og einhver gæðaleg vinna. Það er víst eitthvað í að jarðfræði verði í askana látin - hvað sem verður einhvern tíman. Gefum öllu sinn tíma.
Í gærkvöldi var svo aðalfundur Fellsmerkur þar sem Kjartan að sér og mér fjarstöddum var kosinn formaður.
No comments:
Post a Comment