Á "gosgerðum útsýnispalli". Líklegast myndað eftir að snjórinn nær gígnum hafði bráðnað og þessi þá fallið fram. Myndað sprungu sem var síðan fallin niður. Á mörkum þessara "snjófalla" voru síðan sprungur sem þurfti að klofa yfir. Gufan sem sést til vinstri er beint úr gosgígnum sem lét ekki mjög ófriðlega að þessu sinni.
Það var hringt í mig að kvöldi þriðjudags og var þar Villi sem vinnur með bróðurnum manns að bjóða í gosbíltúr. Komst ekki að því fyrr en eftirá að það sem hékk á spýtunni var að gera nokkuð vel heppnaða tilraun til að borga fyrir myndatökurnar sem hann og hans fjölskylda kom í til mín þar síðasta haust. Ég vildi ekki þá fá borgun ekki frekar en Villi þegar ég ætlaði að fá að borga minn part af olíunni á vélfákinn.
Ég var mættur til þeirra upp úr kl 6 um morguninn og það var haldið af stað hefðbundna leið eftir að hafa þurft að snúa við í úlpuerindagjörðum og bílskúrsþrifsmálum. Fanney dóttir þeirra Villa og Maríu hafði gleymt úlpunni sinni sem uppgötvaðist við Rauðavatn og svo var einhver hroðalegur útblástursblettur á bílskúrshurðinni sem þurfti að hreinsa... en þetta er nú útúrdúr.
Þetta voru alls 6 jeppar með í hópnum sem mér skildist að Villi hefði smalað saman til að fara í ferðina og var safnast saman í Hrauneyjum. Þekkti ekki marga en samt Alla úr JÖRFÍ ferðum og svo var einn gamalla góður Stefán þarna sem ég hafði keyrt í Jökulheima 2007 til að taka þátt í 50 ára fagni JÖRFÍ skála á Grímsfjalli. Svo var reyndar einn jeppinn farinn eitthvað lengra og fór einbíla á undan okkur á jökulinn. Var þar Gunni Hjartar sem stúdentaðist með mér hér í dentíð.
Leiðangursmenn almennt samt eitthvað missjóðaðir í jöklaferðum og þá reyndar aðallega farþegasætisferðafélagarnir sumir hverjir að fara á jökul í fyrsta sinni sýndist mér. Ég hins vegar nokkuð góður með mig hafandi verið nokkrumn dögum fyrr á Grímsfjalli.
Í Jökulheimum var töluverð aska inni í skálanum. Stoppuðum svona til að kíkja inn og fá okkur nestisbita. Enda Villi með umsjón með skálunum eða í öllu falli með lyklavöldin. Öskuryk var yfir öllu inni í skálanum en samt ekki meira en ryk.
Alli öslar sanddrulluna í Tungnaá
Tungnaá var ekki mikill farartálmi. Einhver sanddrulla en eiginlega ekkert vatn. Alli valdi leiðina yfir ána sem var nokkuð hefðbundin og mjög þægileg.
Þunnt öskulag á jöklinum neðanverðum
Rifskaflar (snjó) huldir öskulagi
Neðst á Tungnaárjökli var þunnt öskulag yfir öllu en náði ekki að þekja snjóinn alveg. Í stað þess að allt væri í hvítum jöklalegum tóni var hér allt grátt yfir að líta. Fljótlega komum við að "öskusköflum" sem minntu mjög mikið á rifskafla á jökli, sbr. mynd að ofan. Við nánari athugun kom enda i ljós að þetta voru bara venjulegir rifskaflar á jökli en hins vegar huldir ösku. Askan virtist safnast aðeins í þá þannig að þar sem almennt var einungis einhverra millimetra öskulag var kannski 1-2 cm yfir þessum rifsköflum. Askan sjálf þegar hún myndaði skafla var meira bara í nokkuð sléttum flekkjum.
Við veðurstöð T06N-8
Stefán ekki alveg vanur jöklinum svona á litinn!
Á öskujökli
Uppgufun úr öskunni
Eftir því sem ofar dró var komið í nokkuð samfellda ösku sem varð þykkari og þykkari en jafnframt grófari og grófari sem nær dró eldstöðinni. Tók þrjú öskusýni á leiðinni. Var reyndar ekki nógu vel útbúinn til sýnatöku. Fyrsta öskusýnið fór í kókflösku og tvö þau næstu í nestispokana.
Þó ekki væri mikil sól þá hitnaði askan og rauk úr henni gufan eftir líklega bleyti, rigningu eða áfall liðinnar nætur. Voru umræður um hvernig jöklinum myndi reiða af og taldar mestar líkur á að eiginlega alls staðar yrði bráðnun minni út af öskulaginu. Veit raunar ekki alveg við hvaða þykkt öskulagið fer að einangra í staðinn fyrir að valda aukinni bráðnun. Hef bæði heyrt 3mm og 3cm. En ef miða má við Odd Sigurðsson (2011) þá má miða við hálfan cm, þ.e. að fárra mm öskulag auki bráðnun en að vitað sé að hálfs cm öskulag Mýrdalsjökuls á vatnasviði Markarfljóts eftir eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 hafi minnkað bráðnun sumarið 2010.
En síðan er væntanlega ljóst að á þeim stöðum sem askan er ekki mjög mikil þá mun hún renna til í einhverja hauga og valda mjög mikilli misbráðnun á næstu árum. Þar sem hins vegar öskulagið er 10cm eða meira má væntanlega gera ráð fyrir að bráðnun verði lítil sem engin og að öskulagið nái ekki að renna til þannig að snjólagið undir öskunni fái bara að liggja þarna og skríða síðan hægt og rólega til láglendis.
Síðan var ekið inn í Grímsvötn.
Ljósmyndari á "útsýnispallinum". Með í för var þessi sem ég held að sé einhver sænskur ljósmyndari.
Grjót sem lá hér og þar.
Sundursprunginn jökullinn nærri gosstöðvunum. Þessi gjá er í framhaldi af þessu "snjófalli" sem sést á fyrri myndunum.
Ætli myndirnar tali ekki bara sínu máli. Við keyrðum fyrst inn í grímsvötn að vestan. Stoppuðum líklega í rúmlega 2km fjarlægð frá gígnum. Út af snjóbráðnun líklega var nokkuð mjög sprungið í kringum gíginn og svæðið afskaplega langt frá því að vera öruggt. Ekki mikill jöklabúnaður með og eiginlega ekki heldur verið að nota það sem við þó vorum með. Hefði verið gaman að vera með meir jöklagönguliði og komast nær en það hefði svo sem líka verið hættulegt út af eldvirkni. Þetta var raunar alveg nógu varasamt út af sprungum. Þurftum bara að stíga yfir sprungurnar sem voru þarna og passa okkur sem mest við máttum. Allt fór þetta vel.
Ofan á snjónum var öskulag þarna. Mældi ekki þykktina þarna en hún var talsverð. Reyndar mesta þykkt sem við fengum var í átt að Háubungu skildist mér eitthvað á annan metra en Björn Oddsson hafði beðið Alla um að mæla öskuþykktina hér og þar.
Á kortinu að neðan má sjá hvar við fórum. Fyrst (myndir að ofan) stoppuðum við norðvestan við eldstöðina. Rauði hringurinn á myndinni er eldstöðin frá 2004 (staðsetning sbr. Magnús Tumi, 2004)
Akstursleiðin. Við stoppuðum á öllum endum þarna. Lengst til hægri var farið að JÖRFÍ skálanum á Grímsfjalli. Rauði hringurinn er staðsetning gosstöðvanna frá 2004 skv. Magnúsi Tuma.
Panorama myndin að neðan er frá þessu stoppi Norðvestan við eldstöðina. Sýnir gíginn og Grímsfjall fyrir aftan. Ég er reyndar alls ekki alveg sáttur við staðsetninguna á þessu þar sem mér fannst einhvern veginn að gígurinn frá 2004 hefði verið austar og þá svona á að giska fyrir ofan "eirasi.net" merkið á myndinni sem er næst lengst til vinstri á myndinni. En það er víst einhvers konar sambland af misminni og misskilningi og misathugunarleysi hjá mér.
Panorama mynd frá fyrri stoppistaðnum (þeim vestari). Séð til gígsins og Grímsfjall í baksýn.
Svo var ekið upp á Grímsfjall og stoppað á brún vestan við Vestari-Svíahnúk. Sáum þá örlítið ofan í gíginn, sbr. myndirnar að neðan.
Séð ofan í gíginn frá seinni stoppistaðnum (þeim austari).
Svo fórum við á Grímsfjall. Skálarnir frekar mjög skítugir að innan en aðallega sá nýrri. Þykkt öskulag, blautt og klesst alls staðar. Nokkuð ljóst að það þarf að þrífa eitthvað almennilega þar.
Nú, svo ókum við bara til baka og gekk heimferðin eins og í sögu fyrir utan að dekk á einum bílnum rifnaði og sprakk með látum. Varð ekki slys af en munaði líklegast ekki miklu.
Fararskjótinn frábæri.
No comments:
Post a Comment