Wednesday, April 27, 2005

Sko minn


Þessi mynd var að fá bara voða góða dóma í DPC myndakeppni sem lauk núna í nótt.
Nei hún lenti auðvitað ekki í neinu verðlaunasæti því það eru bara aðrir sem lenda þar. En nei. Hún varð í 5 sæti af eitthvað meira en 500 myndum þannig að ég er bara sæll og glaður. Annars er þessi myndakeppnisvefur þarna gjörsamlega óþolandi. Maður liggur yfir þessu og er alltaf að vonast til að hækka eitthvað og svona. Síðan hrökk ég upp með andfælum um miðja nótt til að komast að því að ég hefði ekki unnið neitt.

En það er samt bara gaman aððessu. En verð að fara að sofa. Fór á Almadóvar mynd á kvikmyndahátíð núna áðan. Olli ekki vonbrigðum þó ég botnaði yfirleitt ekkert í myndinni. Og þá sjaldan sem ég hélt að ég væri farinn að skilja hana þá kom upp úr dúrnum að einhver sem ég hélt að væri einhver í myndinni var búinn að vera dauður í mörg ár eða þá að hann var nýlega búinn að skipta um nafn eða þóttist vera einhver allt annar en hann var. Síðan til að rugla mig endanlega þá var í myndinni einhver smásaga sem síðan var kvikmynduð og sumir léku sjálfa sig eða einhvern annan og ég vissi aldrei hvort ég var að horfa á myndina sem ég var að horfa á eða myndina í myndinni sem ég var að horfa á. Ég held samt að ég sé nokkuð viss um að ég sé núna ekki að horfa á neina mynd heldur bara kominn heim til mín að blogga eitthvað ruggl um einhverja mynd sem var eftir einhverri smásögu um einhverja menn sem voru ástfangnir hvor af öðrum í einhverri mynd sem ég var að horfa á. Undarlegt að maður hafi ekki þurft að borga margfalt verð til að fá að horfa á þessi ósköp þar sem það voru svo margar myndir innan í myndinni.

Er líklega ekki með nóga greind til að fara í bíó. Eða að minnsta kosti ekki nóga athyglisgáfu. En hvað er það og hvað með það.

AMEN!

No comments: