Sunday, April 10, 2005

Það var bara að rifjast upp fyrir mér

Að það er stórhættulegt að elda mat. Núna er ég með heila tvo brunna putta. Nei ekkert alvarlegt. Það vantar bara svona eins og einn sentimeter framan á tvo putta á vinstri hendi. Já, getur varla skipt miklu máli þar sem ég er hvort sem er ekki örfhentur. En kannski er bara betra að treysta á Devitos og halda sínum puttum... Nei annars, þeir kunna ekki að gera ammilegan kjúkling eins og ég er að gera núna. Já auðvitað, ég get þá bara farið á Ben Tai. Það er ekki amalegt að hafa alla þessa veitingastaði hér við hendina... þessa bruntu sko.

Reyndar alveg hreint ótrúlegt hvað kokkurinn hér á heimilinu er seinn að elda. Núna er að koma miðnætti og ég er rétt nýfarinn að borða. En þetta er ágætt á bragðið hjá honum svo sem, það vantar ekki. En hann mætti taka þessar tímasetningar eitthvað til endurskoðunar. Síðan er hann meira og minna úti að aka í því að átta sig á hvað einn maður getur borðað mikið. Það eru nefnilega takmörk fyrir hvað einn maður getur látið ofan í sig.

Annars var reynt í fermingarveislunni að binda endi á einstæðingsskapinn á manni með að breyta veislunni í deitþjónustu. Virkaði reyndar ekkert sérlega vel þar sem hitt fórnarlambið var farið þegar tilburðirnir hófust. Hitti þá konu annars síðast þegar foreldrar fermingarbarnsins urðu þrítugir held ég og það eru næstum því átta ár síðan. Þau ættu að halda oftar upp á afmælið sitt segi ég bara. Annars voru þau þá þarna fyrir átta árum að halda upp á þrítugsafmæli hvors annars, brúðkaupið sitt, nýju íbúðina og jafnvel skírn einhvers barnsins. Annars furðulegt að það hafi verið hægt að halda heila veislu bara út af fermingu. Mikil eru áhrif gjafanna!

Svo var þessi fermingarveisla dálítið kúnstug. Yfirleitt svona í fermingarveislum þá þekkir maður helminginn af gestunum alveg sæmilega þ.e. skyldulið þess foreldrisins sem maður er skyldur sjálfur. En þar sem almennt allir í mínum ættum eru löngu búnir að gefast upp á að bjóða mér í fermingarveislur [ekki skil ég nú af hverju, hefur örugglega eitthvað með grænu skóna mína að gera] þá eru þetta bara mínir undarlegu vinir sem enn kunna ekki við annað en að bjóða mér. En það er þá yfirleitt þannig að ég þekki ekkert þá sem eru í veislunni nema kannski eitthvað annað svona vinalið. Ja fyrir utan fermingarbarnið sjálft og foreldrana. Foreldrarnir eru hins vegar meira og minna auðvitað eitthvað uppteknir en fermingarbarnið er löngu búið að skilgreina mig sem gamlan kaddl sem þýði ekki mikið að púkka uppá [þrátt fyrir grænu skóna sko]

Ég mætti því svona klukkutíma of seint þannig að það yrði einhver kominn sem ég þekkti. En það dugði ekki til. Ég var þarna eins og illa gerður hlutur og ég með mína félagsfælni á hástigi þorði auðvitað ekki að tala við nokkurn mann. Líklega héldu einhverjir ættingarjarnir að ég hefði svindlað mér inn til að fá einhverjar kökur, sem voru auðvitað ekki skornar við nögl.


Svo kom nú einhver sem ég þekki og meira að segja bloggheimafólk og þetta varð stórfínt.





....

No comments: