Sunday, April 24, 2005

Helgi lítilla afreka

Fyrir svona hálfum mánuði áttaði ég mig á því að það var eitthvað dýr búið að hreiðra um sig í ísskápnum. Síðan er ég búinn að vera að mana mig upp (eða manna mig til) að gera atlögu að þessu skrímslí.
Er ég enda búinn að vígbúast af kappi með gúmmíhönskum og alls kyns vafasömum sápum. Til varúðar er ég með Afríkuspjótið mitt tilbúið líka ef skrímslið gerir sig líklegt til að ráðast á mig.

Helgin hefur síðan farið í þennan skrímslabardaga og svona einhverja alls herjar tiltekt og frágang á alls konar drasli. Afgreiðslustrákurinn í Húsasmiðjunni sem af miskilinni þjónustulund fór eitthvað að aðstoða mig heldur líklega ennþá að ég sé klikkaður. Eða hver fer í Húsasmiðjuna og biður um festingar fyrir spjót. Hann byrjaði reyndar á að sýna mér festingar fyrir kústsköft. Hefur kannski haldið að ég væri spjótkastari að koma upp geymsluaðstöðu fyrir æfingatækin. Nei mig vantaði festingar fyrir alvöru bardagaspjót frá Afríku. Það tókst nú reyndar og núna eru spjót, sverð, kilfur og önnur bardagavpopn ættuð frá Afríku hangandi uppi á vegg hjá mér.

Annars er eftirtektarverðasti árangur tiltektar helgarinnar sá að mér tókst að týna fjarstýringunni að hávaða heimilisins. Ófremdarástand!

Jú annars. Ég hef verið mjög upptekinn af því að fylgjast með árangir myndar sem ég sendi í myndakeppni á DPC og skorar hún bara nokkuð vel. Verður fyrir ofan 7 held ég sem getur jafnvel gefið verðlaun. En meira um það á þriðjudaginn.

PS
Þar sem ég er núna bara að glápa á sjónvarpið þá verð ég að lýsa mikilli ánægju með íþróttaþáttinn sem er núna. Án hans hefði ég aldrei gefið mér tíma í að hamra þetta inn! Lifi íþróttadeildir fjölmiðlanna. Þær gefa mér frí.

PSS
Jú annars.
Það var merkilegur atburður í mínu lífi í kvöld. Ég grillaði. Það gerist þannig að fyrst skrúfa ég frá gasinu. Síðan kveiki ég á eldspýtu og kem mér svo fyrir í varnarstöðu við hliðina á grillinu (NB aðeins fyrir neðan grillið sjálft helst) og hendi eldspýtunni síðan á grillið. Þá heyrist svona "VÚFF" og upp gýs rosalegur eldur. En samt ekki nema í svona eina sekúndu. Ég veit hins vegar af eigin raun að svona eldur getur brennt augabrúnirnar á mér.

Síðan er hent einhverju kjöti á þetta, kartöfflum og einhverju góðgæti. Sem síðan brennur þar næstu mínúturnar og endar á að verða óætt. Allt reyndar nema sveppirnir með flotta ostinum sem ég átti alveg óvart í ískápnum. Kjötið varð reyndar ætt en ekkert meira en það.

Ég held að ég sé ekkert sérlega góður grillkokkur. En það kemur kannski bara...

PSSS
Verð að hætta núna. Íþróttafréttinar voru ekki nógu langar. Skamm skamm!


....

No comments: