Þetta er langt og persónulegt blogg sem ég ráðlegg ekki nokkrum að lesa – er meira bara fyrir mig sjálfan til að eiga þetta einhvers staðar.
Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur má kannski segja um mig og mína heilsu núna - en ég er samt á smæmilegri leið með að öðlast það aftur.
Ég veit ekki alveg og mun aldrei vita hvort það tengist því þó mér finnist það bæði augljóst og líklegt en þá hófst þetta með því að ég fór í seinni AstraZenega bólusetninguna miðvikudag 30. júní. Hafði gert ráð fyrir einhverjum aukaverkunum og skráð mig úr vinnu daginn eftir vegna líklegra aukaverkana - en ég fann ekki fyrir miklu.
Svo var farið í Fellsmörk um helgina á eftir og það gekk bara ljómandi vel - en fannst samt gróðursetningin eiginlega grunsamlega erfið. Þegar ég svo kom heim þá var ég eitthvað rosalega þreyttur – fékk mér vel að borða – gott bað – en þetta var ekki í lagi. Mældi mig með hita og fór í rúmið.
Hiti áfram um morguninn og á þriðjudegi fór ég í Covid test – ekki með Covid – sem betur fer eða ekki. En mjög mikilvægt að hafa farið í þetta test sá ég daginn eftir.
Þekkt aukaverkun þessa bóluefnis er víst blóðtappamyndun og það sem getur bent til blóðtappa var að talsverðu leyti komið fram hjá mér og eftir að hafa hringt í einhver læknanúmer á miðvikudeginum var niðurstaðan að fara til heilsugæslulæknis. Þar var ég greindur með lungnabólgu og blóðrannsókn gaf til kynna að það væri einhver möguleiki á að ég væri með blóðtappa. Ég fór því á bráðamóttökuna í sneiðmyndatöku af lungum.
Bráðamóttakan stendur ekki undir nafni með það að gera eitthvað brátt. Þar sem ég var með mikinn hita þá var ákveðið að ég þyrfti að vera í einangrunarstofu og þurfti því að bíða og bíða í þessari hræðilegu biðstofu bráðamóttökunnar. Lá þar eins og hrúga í stól með líklega þá uppundir 40°C hita. Eftir líklega meira en klukkustundar bið komst ég inn og fékk þar að liggja í rúmi. Tengdur við alls konar mælitæki og myndin að ofan tekin þar. Fékk paracetamole í æð og einnig sýklalyf þar sem ég átti að vera með lungnabólgu.
Þarna eiginlega gleymdist ég og beið og beið og beið. Komst loks í þessa myndatöku og var ekki verri en það að ég gat gengið sjálfur um gangana – en það var víst talið eðlilegt að ég þyrfti að fá far í hjólastól. Beið svo eftir niðurstöðu myndatökunnar og það kom bara ekkert fram þar. Ég var blessunarlega ekki með blóðtappa en það þótti undarlegra að ég var ekki heldur með neina lungnabólgu.
Þarna voru læknarnir eiginlega alveg lens. Það voru tekin úr mér sýni til að reyna að greina hvað gæti verið að mér. Þar sem ég var eiginlega með augljós covid einkenni var tekið annað covid sýni úr mér og ég svo sendur heim með því að það yrði haft samband við mig daginn eftir.
Mér hafði fundist ég skána aðeins af sýklalyfinu – en samt kannski ekki mikið og eftir að Arna læknir hafði hringt í mig daginn eftir var ákveðið að ég héldi ekki áfram á sýklalyfinu á meðan það væri ekkert vitað hvað væri að mér. Röng ákvörðun held ég eftirá og hefði getað endað illa.
Hitinn gekk upp og niður. Fór upp undir 40°C og svo svitnaði ég all rosalega á meðan hitinn gekk niður og ég fékk nokkrar hitalausar klukkustundir. Á föstudagseftirmiðdegi var ég í skoðun hjá Örnu og Eyrúnu á Borgarspítalanum og þá var ég bara nokkuð góður – og virkaði ekki mikið veikur. Teknar úr mér alls konar blóðprufur til að sjá hvort þetta eða hitt gæti verið að mér og svo tekið stórt blóðsýni til að rækta úr bakteríur.
Á föstudagskvöldinu rauk hitinn líka aftur upp og þá fékk ég allt í einu þá hugmynd – reyndar eftir að hafa lesið um bólgna hálseitla – að kannski væri ígerð í tönn að hrella mig með þetta. Ákvað að fara á laugardeginum til að láta athuga það. Held ég hafi hringt eitthvað í 1770 símann og jú, var ráðlagt að láta athuga þetta, á bráðamóttökuna helst en ég gæti líka farið á læknavaktina. Var lagður af stað á Bráðamóttökuna en sneri við og ákvað að hringja til að fá að vita hvort það væri skynsamlegt fyrir mig að fara þangað. Hringdi á Bráðamóttökuna og var sagt að þau veittu ekki ráðgjöf í síma… en ég vildi ekki ráðgjöf í síma heldur bara hvort ég ætti að fara til þeirra… romsaði þá allri sólarsögunni upp úr mér og var orðinn miður mín áður en ég var búinn og fékk svo eitthvað kuldalegt framan í mig að ég gæti að sjálfsögðu komið… man ekki hvort það fylgdi með ef ég vildi – en ég vildi alls ekki. Sá fram á að þurfa að gera grein fyrir mér í afgreiðslunni einsog pólitískru flóttamaður. Að ætla að láta skoða hvort ég væri með ígerð í tönn… sá það ekki vera að fara að að gerast. Ég myndi líklega þurfa að bíða þarna í einhverja klukkutíma og svo yrðu tekin einhver sýni sem ekkert kæmi út úr og ég yrði bara sendur aftur heim og yrði enn veikari en áður. Eina leiðin til að komast inn á bráðamóttökuna ef maður er illa haldinn er að koma þangað í sjúkrabíl. Afgreiðslan þar er stofnun sem virkar ekki og er til skammar.
Ég ákvað plan B sem var ein besta ákvörðun mín alla þessa veikindatörn. Fór á læknavaktina á Háaleitisbraut. Þar sögðust þau eitthvað geta greint þetta en það væri tveggja tíma bið. En ég þurfti ekkert að bíða á staðnum og fór því bara heim og lagði mig. Frábær þjónusta og svo hitti ég frábæran lækni þar.
Læknirinn á Læknavaktinni var mjög hissa á að ég væri ekki löngu kominn á sýklalyf. Sagði að ef þetta héldi áfram myndi ég enda á gjörgæsludeildinni. Eitthvað mæligildi í blóðinu sem mælir stig bakteríusýkingar væri ennþá sigvaxandi og væri orðið hættulega hátt. Ég fékk ávísað breiðvirkasta sýklalyfið sem var í boði með það sama, það sem hún sagði að væri notað í óþekktum sýkingum sem þyrfti að bregðast við strax og jú… mér byrjaði að batna seinna um kvöldið.
Framhaldið er svo eins og í sögubók. Það voru fleiri blóðprufur á mánudeginum sem sýndu að sýkingin var að ganga niður. Það var heilsneiðmyndataka í stóru græjunni á Borgarspítalanum, leiddi ekkert í ljós. Engin ummerki þar um að ég væri með sýkingu í tönn. Fékk svo tíma hjá tannlækni daginn eftir - en hafði verið á milli tannlækna. Gamli tannlæknirinn minn var hættur og sá sem átti að taka við mér fannst mér ekki sérlega trúverðugur. Endaði eftir ábendingar Facebook vina hjá tannlækni aftur í Valhöll þar sem sá gamli hafði verið. Sá sem tók við mér tók andköf þegar hann skoðaði upp í mig. Var með eina illa brotna tönn og aðra lítið brotna. Sú sem ég hafði haldið að væri ígerð í reyndst vera í þokkalegu lagi. Alls þrjár tennur samt nær ónýtar skildist mér. Fór svo aftur til hans seinna um kvöldið og hann gerði við þessa illa brotnu sem var einnig mjög illa skemmd - og auðvitað þess vegna svona illa brotin. Held ég hafi verið heppinn að hafa endað hjá þessum tannlækni sem ég hef núna alla trú á. Verst er að hann er yfirleitt á stofu á Selfossi og ég fæ ekki framhald minna viðgerð fyrr en í október - nema eitthvað losni fyrr.
Mér hélt svo áfram að banta fram eftir vikunni. Garmin úrið mitt fór að merkja það að líkamninn færi að slaka aðeins á og ég var í garðbrúðlaupi Helgu og Louis á laugardeginum. Reynid mig eitthvað við Esjustein en fór bara um þriðjung í fyrsu ferð og stefndi líklega í að verða um klukkutíma upp. Fór í Fellsmörk eiginlega af því að Gunni fór og Mamma vildi svo fara líka. Úrið greindi bakslag sem svo gekk eitthvað aftur. Kominn heim og aftur áleiðis að Steini og gekk betur en bara farið upp að vaði á læk á eystri leiðinni. Svo í gær alla leið með útúrdúrum upp að Steini og útreiknaður bútatími rétt innan við 50 mínútur. Meira en 10 mínútum lakara en ég á að vera en samt eitthvað sem líklega margir væru ekkert mjög ósáttir við. Þegar ég steig á vigtina krossbrá mér. Sýnist ég hafa lést um 3-4 kg á þessari viku sem ég lá. Er núna ennþá í rúmlega léttara lagi, viku eftir að ég hætti á sýklalyfinu.
Kannski það sem þetta hefur sagt mér að svona almennt er ég í frekar góðu formi en það er ekki sjálfgefið að það verði alltaf þannig.
Það kom aldrei almennilega í ljós hvað þetta var. Ég á að panta mér tíma hjá heimilislækni í lok ágúst og þá fá fram hvort þetta sé ekki alveg afstaðið - eitthvað til að mæla sem Arna læknir lét í minnisblað til heimilislæknis skilst mér. Hvort þetta á að flokkast sem afleiðing bólusetningar veit ég ekki en ég teldi samt eðlilegt að hafa þetta skráð þannig. Hvort þetta skráðist þannig í kerfi læknanna veit ég ekkert um. Ég tilkynnti þetta ekkert sérstaklega sem slíkt enda hafði ég ekki neina heilsu til að skipta mér af slíku á meðan á stóð.
Ein lokasniðurstaða að auki. Afgreiðsla Bráðamóttökunnar á Borgarspítalanum er það versta við íslenska heilbrigðiskerfið sem ég hef lent í. Að láta fársjúkt fólk bíða þar í klukkutíma eða meira er ekki boðlegt. Framkoma fólks sem svarar þar í síma er fyrir neðan allar hellur og kæmi mér ekki á óvart þó hún hafi gert út af við einhvern endanlega sem gafst upp á að fara þangað - eða fór of seint. Ég slapp hins vegar held ég.