Sunday, October 10, 2021

Sporðamælingin 2021

Á leiðinni

Það gekk eitthvað frekar illa að komast af stað og GS taldi alveg nóg að leggja af stað seint og um síðir. Hann nennti líklega ekki að hlusta þegar ég var að reyna að útskýra að það væri betra að hafa daginn fyrir sér þar sem ég hefði einnig erindi að skoða aðstæður við Hrafnabjörg vegna áætlaðrar gönguferðar þangað. Aðalmálið þar var að skoða veginn. Eftir á segir GS að ég hafi keyrt eins og vitleysingur - sem er ekkert alveg rétt - en það þurfti að halda vel á spöðunum því við vorum allt of seint á ferðinni. Reyndar er það að einhverju leyti ástæðan fyrir að mér finnst oft eða jafnvel bara oftast best að vera einn á ferð því a.m.k. þegar hann á í hlut þá er endalaust vesen að komast af stað á einverjum skikkanlegum tíma þannig að hægt sé að gera hlutina í rólegheitum - eða einhverjar undarlegar samningaviðræður um hvað við ætlum að vera lengi.

Ég get nú samt ekki neinum um kennt nema sjálfum mér að hafa ákveðið að treysta því að það væri alveg hátt undir Dusterinn sem fékk eftir þessa ferð nafnið Drasler hjá mér. Hann rakst niður á einn lausan stein og þá tjónaðist skynjaradót í honum sem er svo haganlega fyrir komið að það er líklega lægsti punktur undir bílnum... heildar viðgerðarkostnaður uppundir 300 þúsund!

En myndir úr dróna af Hrafnabjargasvæðinu komu hins vegar afar vel út.

Mælingin sjálf

Ef ég man rétt svona ársfjórðungi seinna, að þá gekk þessi mæling ágætlega þannig séð. Við vorum seinir fyrir og því var ekki mikill tími til bollalegginga. Ég var að fljúga drónanum yfir jökuljaðarinn og Gunni þá stikaði eitthvað eftir honum. Ekki mikill tími til neins því miður.

Svo ég taki af Facebbok síðunni minni: Frá síðustu helgi (10. október) þegar við bræður fórum og mældum hop Hagafellsjökuls Eystri. Okkar árlega sporðamæling. Mér sýnist að endanleg niðurstaða á mældu hopi jökulsins frá í fyrra verði 38 m. Ég hafði reyndar gert ráð fyrir talsvert miklu meira hopi en það vill þannig til að núna er einhver herjarinnar tunga niður úr skriðjöklinum þar sem mælilínan er. Þannig að við séum ekki bara að mæla "eitthvað" þá höldum við okkur við mælilínuna.
Facebook færsla úr ferðinni er annars hér: https://www.facebook.com/eirasi/posts/10226334827458083

Það bar annars helst til að í þessari ferð þá endurheimtust vettlingar!

Skráð inn löngu eftirá, í janúar 2022... en set þessa færslu bara á 10. október 2021 en þá var farið í þessa jöklasporðamælingu :-)

Monday, July 26, 2021

Af þessum veikindum

Bara svo því sé haldið til haga hér í framhaldi af þessari ægilegu veikindafærslu minni þá hélt mér áfram að batna hægt og rólega og náði mé þannig að ég komst a.m.k. í frábæra Hornstrandaferð sem leiðsögumaður með Þóru og ætli ég setji ekki eitthvað um það í næstu færslu.

Fór svo til heimilislæknisins og í blóðprufu um haustið og þá var allt komið í lag. Veit ekki almennilega ennþá hvað var að mér en það höfðu mælst gildi í blóðinu sem gátu bent til þess að eitthvað alvarlegt væri að gerast en það voru ekki nein slík merki lengur tveimur mánuðum seinna. Ég telst því vera í sæmilegu lagi vonandi.

Skráð inn löngu eftirá, 22. janúar 2022... en set þessa færslu bara eitthvað á 26. júlí en þá var ég eiginlega á leið á Hornstrandir fáum dögum seinna :-)

Sunday, July 25, 2021

Heilsan

Þetta er langt og persónulegt blogg sem ég ráðlegg ekki nokkrum að lesa – er meira bara fyrir mig sjálfan til að eiga þetta einhvers staðar.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur má kannski segja um mig og mína heilsu núna - en ég er samt á smæmilegri leið með að öðlast það aftur.

Ég veit ekki alveg og mun aldrei vita hvort það tengist því þó mér finnist það bæði augljóst og líklegt en þá hófst þetta með því að ég fór í seinni AstraZenega bólusetninguna miðvikudag 30. júní. Hafði gert ráð fyrir einhverjum aukaverkunum og skráð mig úr vinnu daginn eftir vegna líklegra aukaverkana - en ég fann ekki fyrir miklu.

Svo var farið í Fellsmörk um helgina á eftir og það gekk bara ljómandi vel - en fannst samt gróðursetningin eiginlega grunsamlega erfið. Þegar ég svo kom heim þá var ég eitthvað rosalega þreyttur – fékk mér vel að borða – gott bað – en þetta var ekki í lagi. Mældi mig með hita og fór í rúmið.

Hiti áfram um morguninn og á þriðjudegi fór ég í Covid test – ekki með Covid – sem betur fer eða ekki. En mjög mikilvægt að hafa farið í þetta test sá ég daginn eftir.

Þekkt aukaverkun þessa bóluefnis er víst blóðtappamyndun og það sem getur bent til blóðtappa var að talsverðu leyti komið fram hjá mér og eftir að hafa hringt í einhver læknanúmer á miðvikudeginum var niðurstaðan að fara til heilsugæslulæknis. Þar var ég greindur með lungnabólgu og blóðrannsókn gaf til kynna að það væri einhver möguleiki á að ég væri með blóðtappa. Ég fór því á bráðamóttökuna í sneiðmyndatöku af lungum.

Bráðamóttakan stendur ekki undir nafni með það að gera eitthvað brátt. Þar sem ég var með mikinn hita þá var ákveðið að ég þyrfti að vera í einangrunarstofu og þurfti því að bíða og bíða í þessari hræðilegu biðstofu bráðamóttökunnar. Lá þar eins og hrúga í stól með líklega þá uppundir 40°C hita. Eftir líklega meira en klukkustundar bið komst ég inn og fékk þar að liggja í rúmi. Tengdur við alls konar mælitæki og myndin að ofan tekin þar. Fékk paracetamole í æð og einnig sýklalyf þar sem ég átti að vera með lungnabólgu.

Þarna eiginlega gleymdist ég og beið og beið og beið. Komst loks í þessa myndatöku og var ekki verri en það að ég gat gengið sjálfur um gangana – en það var víst talið eðlilegt að ég þyrfti að fá far í hjólastól. Beið svo eftir niðurstöðu myndatökunnar og það kom bara ekkert fram þar. Ég var blessunarlega ekki með blóðtappa en það þótti undarlegra að ég var ekki heldur með neina lungnabólgu.

Þarna voru læknarnir eiginlega alveg lens. Það voru tekin úr mér sýni til að reyna að greina hvað gæti verið að mér. Þar sem ég var eiginlega með augljós covid einkenni var tekið annað covid sýni úr mér og ég svo sendur heim með því að það yrði haft samband við mig daginn eftir.

Mér hafði fundist ég skána aðeins af sýklalyfinu – en samt kannski ekki mikið og eftir að Arna læknir hafði hringt í mig daginn eftir var ákveðið að ég héldi ekki áfram á sýklalyfinu á meðan það væri ekkert vitað hvað væri að mér. Röng ákvörðun held ég eftirá og hefði getað endað illa.

Hitinn gekk upp og niður. Fór upp undir 40°C og svo svitnaði ég all rosalega á meðan hitinn gekk niður og ég fékk nokkrar hitalausar klukkustundir. Á föstudagseftirmiðdegi var ég í skoðun hjá Örnu og Eyrúnu á Borgarspítalanum og þá var ég bara nokkuð góður – og virkaði ekki mikið veikur. Teknar úr mér alls konar blóðprufur til að sjá hvort þetta eða hitt gæti verið að mér og svo tekið stórt blóðsýni til að rækta úr bakteríur.

Á föstudagskvöldinu rauk hitinn líka aftur upp og þá fékk ég allt í einu þá hugmynd – reyndar eftir að hafa lesið um bólgna hálseitla – að kannski væri ígerð í tönn að hrella mig með þetta. Ákvað að fara á laugardeginum til að láta athuga það. Held ég hafi hringt eitthvað í 1770 símann og jú, var ráðlagt að láta athuga þetta, á bráðamóttökuna helst en ég gæti líka farið á læknavaktina. Var lagður af stað á Bráðamóttökuna en sneri við og ákvað að hringja til að fá að vita hvort það væri skynsamlegt fyrir mig að fara þangað. Hringdi á Bráðamóttökuna og var sagt að þau veittu ekki ráðgjöf í síma… en ég vildi ekki ráðgjöf í síma heldur bara hvort ég ætti að fara til þeirra… romsaði þá allri sólarsögunni upp úr mér og var orðinn miður mín áður en ég var búinn og fékk svo eitthvað kuldalegt framan í mig að ég gæti að sjálfsögðu komið… man ekki hvort það fylgdi með ef ég vildi – en ég vildi alls ekki. Sá fram á að þurfa að gera grein fyrir mér í afgreiðslunni einsog pólitískru flóttamaður. Að ætla að láta skoða hvort ég væri með ígerð í tönn… sá það ekki vera að fara að að gerast. Ég myndi líklega þurfa að bíða þarna í einhverja klukkutíma og svo yrðu tekin einhver sýni sem ekkert kæmi út úr og ég yrði bara sendur aftur heim og yrði enn veikari en áður. Eina leiðin til að komast inn á bráðamóttökuna ef maður er illa haldinn er að koma þangað í sjúkrabíl. Afgreiðslan þar er stofnun sem virkar ekki og er til skammar.

Ég ákvað plan B sem var ein besta ákvörðun mín alla þessa veikindatörn. Fór á læknavaktina á Háaleitisbraut. Þar sögðust þau eitthvað geta greint þetta en það væri tveggja tíma bið. En ég þurfti ekkert að bíða á staðnum og fór því bara heim og lagði mig. Frábær þjónusta og svo hitti ég frábæran lækni þar.

Læknirinn á Læknavaktinni var mjög hissa á að ég væri ekki löngu kominn á sýklalyf. Sagði að ef þetta héldi áfram myndi ég enda á gjörgæsludeildinni. Eitthvað mæligildi í blóðinu sem mælir stig bakteríusýkingar væri ennþá sigvaxandi og væri orðið hættulega hátt. Ég fékk ávísað breiðvirkasta sýklalyfið sem var í boði með það sama, það sem hún sagði að væri notað í óþekktum sýkingum sem þyrfti að bregðast við strax og jú… mér byrjaði að batna seinna um kvöldið.

Framhaldið er svo eins og í sögubók. Það voru fleiri blóðprufur á mánudeginum sem sýndu að sýkingin var að ganga niður. Það var heilsneiðmyndataka í stóru græjunni á Borgarspítalanum, leiddi ekkert í ljós. Engin ummerki þar um að ég væri með sýkingu í tönn. Fékk svo tíma hjá tannlækni daginn eftir - en hafði verið á milli tannlækna. Gamli tannlæknirinn minn var hættur og sá sem átti að taka við mér fannst mér ekki sérlega trúverðugur. Endaði eftir ábendingar Facebook vina hjá tannlækni aftur í Valhöll þar sem sá gamli hafði verið. Sá sem tók við mér tók andköf þegar hann skoðaði upp í mig. Var með eina illa brotna tönn og aðra lítið brotna. Sú sem ég hafði haldið að væri ígerð í reyndst vera í þokkalegu lagi. Alls þrjár tennur samt nær ónýtar skildist mér. Fór svo aftur til hans seinna um kvöldið og hann gerði við þessa illa brotnu sem var einnig mjög illa skemmd - og auðvitað þess vegna svona illa brotin. Held ég hafi verið heppinn að hafa endað hjá þessum tannlækni sem ég hef núna alla trú á. Verst er að hann er yfirleitt á stofu á Selfossi og ég fæ ekki framhald minna viðgerð fyrr en í október - nema eitthvað losni fyrr.

Mér hélt svo áfram að banta fram eftir vikunni. Garmin úrið mitt fór að merkja það að líkamninn færi að slaka aðeins á og ég var í garðbrúðlaupi Helgu og Louis á laugardeginum. Reynid mig eitthvað við Esjustein en fór bara um þriðjung í fyrsu ferð og stefndi líklega í að verða um klukkutíma upp. Fór í Fellsmörk eiginlega af því að Gunni fór og Mamma vildi svo fara líka. Úrið greindi bakslag sem svo gekk eitthvað aftur. Kominn heim og aftur áleiðis að Steini og gekk betur en bara farið upp að vaði á læk á eystri leiðinni. Svo í gær alla leið með útúrdúrum upp að Steini og útreiknaður bútatími rétt innan við 50 mínútur. Meira en 10 mínútum lakara en ég á að vera en samt eitthvað sem líklega margir væru ekkert mjög ósáttir við. Þegar ég steig á vigtina krossbrá mér. Sýnist ég hafa lést um 3-4 kg á þessari viku sem ég lá. Er núna ennþá í rúmlega léttara lagi, viku eftir að ég hætti á sýklalyfinu.

Kannski það sem þetta hefur sagt mér að svona almennt er ég í frekar góðu formi en það er ekki sjálfgefið að það verði alltaf þannig.

Það kom aldrei almennilega í ljós hvað þetta var. Ég á að panta mér tíma hjá heimilislækni í lok ágúst og þá fá fram hvort þetta sé ekki alveg afstaðið - eitthvað til að mæla sem Arna læknir lét í minnisblað til heimilislæknis skilst mér. Hvort þetta á að flokkast sem afleiðing bólusetningar veit ég ekki en ég teldi samt eðlilegt að hafa þetta skráð þannig. Hvort þetta skráðist þannig í kerfi læknanna veit ég ekkert um. Ég tilkynnti þetta ekkert sérstaklega sem slíkt enda hafði ég ekki neina heilsu til að skipta mér af slíku á meðan á stóð.

Ein lokasniðurstaða að auki. Afgreiðsla Bráðamóttökunnar á Borgarspítalanum er það versta við íslenska heilbrigðiskerfið sem ég hef lent í. Að láta fársjúkt fólk bíða þar í klukkutíma eða meira er ekki boðlegt. Framkoma fólks sem svarar þar í síma er fyrir neðan allar hellur og kæmi mér ekki á óvart þó hún hafi gert út af við einhvern endanlega sem gafst upp á að fara þangað - eða fór of seint. Ég slapp hins vegar held ég.

Tuesday, June 15, 2021

Það gerðist víst í gær, 14. júni

Þetta reynist mér vonandi sæmilega. Kom í ljós seinna um daginn að hurðina farþegamegin er ekki hægt að opna utanfrá. Það vonandi græjast í næstu viku þegar hann fær líka krók á sig aftanvert. Ég meina... er ekki megintilgangur bíla að bera hjólagrind þannig að hægt sé að komast eitthvað frá höfuðborginni til að leika sér á reiðhjóli!

Gosferð hin fimmta, 12. juní 2021


Ég hálfskammast mín fyrir litla frammistöðu en ég fór bara í fimmta sinn að eldgosinu við Fagradalsfjall um síðustu helgi. Kominn einn og hálfur mánuður síðan ég var þarna síðast og talsvert er þetta orðið með öðru sniði en var. Þetta var dálítið eins og hvert annað túristasvæði og minnti dálítið á Geysi í Haukadal stemningin. Og svo hefur bæst við talsvert mikil þotuumferð. Mér sýnist að flestar millilandaflugvélar lækki flugið yfir gosstöðvunum.

Var einn að þvælast og í raun á heimleið frá því að skoða bíl á Selfossi sem ég ætlaði e.t.v. að kaupa en er víst núna úr sögunni því ég keypti mér eitthvað allt annað.

Hraunið er ammars komið út um allt og ekkert hægt að komast að gígnum sem vellur aðeins úr en sýnileg virkni var lítil fannst mér. Hraunið er að verða þokkalega myndarlegt en þetta er í fyrsta skipti sem mér fannst að orðið "ræfilslegt" ætti e.t.v. við eitthvað af upplifuninni.

Sunday, May 30, 2021

Skokkað um brunarústir Heiðmerkur

Heiðmerkurskokk í dag sem varð meira göngutúr til að skoða hvernig brunasvæðið er að þróast. Þó þetta sé talsvert skelfilegt þá er líka mjög áhugavert að fylgjast með hvernig gróðurinn ýmist tekur við sér eða tekur ekki við sér.

Skráð inn löngu eftirá af Facebookfærslu

Wednesday, May 05, 2021

Heiðmekureldar

4. maí

Ekki það skemmtilegasta sem ég hef ljósmyndað. Einn af þeim stöðum sem skiptir mig hvað mestu máli brennur eins og ég veit ekki hvað! Ég varð að sjá hvað væri að brenna enda heldur RUV því fram að þetta sé við Vífilstaðavatn. Þetta er hins vegar sunnan Hjallabrautar eitthvað rétt vestan við þar sem Ullarstígurinn liggur yfir Hjallabrautina.

Ég gat ekki séð að slökkvistarfið mætti sín mikils því miður en vonandi næst að slökkva í þessu áður en allt hólfið sem er afmarkað af vegum brennur.
Kúlupanorama hér: https://kuula.co/post/7SsFx



Daginn eftir... 5. maí

Fór upp í Heiðmörk að skoða verksummerki eftir eldinn. Þó þetta sé ekki gott og líti ekki vel út þá er þetta skárra en ég hélt eða óttaðist. Líka alveg ljóst í mínum huga að slökkviliðið hefur unnið þrekvirki.
Kúlupanroma er https://kuula.co/post/7Sy6L og https://kuula.co/post/7SynZ

Skráð inn löngu eftirá af Facebook færslum.

Thursday, April 22, 2021

Hraunslettuskammtur númer 4: 21. apríl 2021

Fjórða ferðin að skoða eldgosið, 21. apríl 2021. Eiginlega sú erfiðasta. Fórum bræður hjólandi austan Fagradalsfjalls, leiðina sem flestir reyndar fjallahjóla skilst mér. Of miklar brekkur fyrir minn smekk enda ég hálf útkeyrður eftir vinnuálag síðustu daga, ekki búinn að borða almennilega og með einhvern magaverk. En það kemur málinu ekki við því við vorum að skoða eldgos.

Höfðum reyndar eiginlega báðir gert ráð fyrir að fara beint inn í Meradali sem átti að vera án mikillar hækkunar, skilja bara hjólin eftir þar og ganga að gosstöðvunum þar fyrir ofan. Ég var með track sem var sótt bara á Strava og svo mættum við Þorvaldi Þórðarsyni sem mælti eindregið með að fara að sem hann kallaði syðri leiðina. Þá komum við í skarð sunnan við Stóra-Hrút og þar vestan við er hraunið núna mest að skríða fram. Þetta tók allt of mikið á fyrir okkar smekkk að drösla reiðhjólum upp allar þessar brekkur.


Vorum helst til seint á ferðinni þannig að ég náði ekki að skoða aðstæður af neinu viti. Var auðvitað líka í drónamyndatökum og þetta var allt saman bara einhven veginn og einhvern veginn. Myndin að ofan sýni líklega svæðið hvað best af því sem ég þó náði að gera. Kúlupanorama sem var tekin um svipað leyti og á svipuðum stað líklega sýnir gossvæðið alveg sæmilega.

Myndirnar bera það með sér að vera ekki teknar í góðri birtu en gosið er samt líklega mest fyrir augað þegar það er farið að rökkva. Gossvæðið er annars gjörbreytt frá því ég var þarna síðast á öðrum degi páska. Fyrstu tvö skiptin sem ég fór að skoða gosið á degi þrjú og svo aftur viku seinna var gosið eingöngu í Geldingadal. Það var fyrir um mániði síðan. Á öðrum degi páska fyrir um tveimur vikum var efsti gígurinn sð opnast og hraun fór beint niður í Meradali. Sá gígur er núna þagnaður í bili a.m.k. en nýir gígar milli hans og Geldingadals með hvað mesta virkni. Núna rennur hraun að mestu í litla dalkvos vestan Stóra-Hrúts sem telst líklega vera efri hluti Meradala. Þegar sú kvos fyllist fer hraunið annað hvort í norður ofan í Meradali eða í suður ofan í Nátthagadalinn. Ég ætla áfram að veðja á Meradalina en samt er Nátthaginn vel líklegur líka.

Gengum að gígunum sem opnuðust eftir páska og þurftum þá að fara niður fyrir hrauntotu sem kemur úr Gelgingadal, sjá myndina hér til hliðar. Fórum fyrir hraunið þar sem guli punkturinner. Þessi hrauntota er orðin alveg óvirk og fór ég yfir hana neðst til að prófa að ganga á hrauninu. Það reyndist lítið mál þarna.

Vorum komnir þarna að nýjustu gígunum fjórum borðuðum smá nesti og sáum ljósin hinum megin hverfa hægt og rólega þegar svæðið var rýmt. Stöldruðum eitthvað við og fórum svo til baka. Gengum að hjólunum og það var reyndar frekar þægilegt að hjóla til baka sem var að mestu leyti niður brekkur.



Sunday, April 11, 2021

Um hættuástand á gosstöðvum í Fagradalsfjalli


Hér að ofan er kort sem sýnir hætusvæðið sem núna hefur verið skilgreint út af hugsanlegum nýjum sprungum sem geta opnast hvenær sem er. Einnig má sjá þrjár ferðir mínar hingað til sem ég hef farið til að skoða eldgosið og verið í mismunandi miklu návígi eins og greinilegt er.

Blái ferillinn er sá sem farinn var á öðrum goseginum, þegar ekkert hafði verið gefið út um hvar fólk ætti að fara fyrir utan að mælt var með að fólk myndi klöngrast erfiða leið yfir hraunið frá Bláalóninu. Ég ákvað að fara um Nátthagadal, þægilega leið án klöngurs eða mikils bratta. Við vorum meðvituð um að upphaflegar hugmyndir um hvar eldgosið kæmi upp tengdust Nátthaga og því höfðum við varann á þar.

Græni ferillinn var alfarið á ábyrgð almannavarna og viðbragðsaðila sem gáfu út stikaða gönguleið sem þeir aðilar væntanlega töldu öruggasta.

Blágræni (cyan) ferillinn lengst til hægri er svo þegar ég kom að gosstöðvunum úr austri og þyrla Landhelgisgæslunnar ómakaði sig við það að segja mér að svæðið væri rýmt og ég mætti ekki fara nær og þyrfti að koma mér í burtu.

Augljóslega skoðaði ég ekki mikið eldgos þegar ég var rekinn í burtu á svæði sem er fjarstæðukennt að hafi verið hættulegt. En út frá því hvernig græni ferillinn (opinberi ábyrgi ferillinn sem var metinn öruggur væntanlega af yfirvöldum) er borinn saman við bláa ferilinn (útfærður af mér út frá þeim upplýsngum sem ég var með um gosið á öðrum gosdegi) má spyrja má sig hvort það sé ekki bara betra að fólk með þokkalega útivistarreynslu og ágæta þekkingu á jarðvísindum fái að stýra eigin öryggi sjálft án opinberra boða og banna.

Tuesday, April 06, 2021

Þriðja gosskoðnarferðin

5. apríl 2021


Hugmyndin var að koma bakdyramegin að Fagradalsfjalli, leið sem er ekkert verið að loka neitt sérstaklega þegar svæðið er auglýst "lokað" og það er rýmt. Ég var í raun bara að fara í hjólaferð með viðkomu á gosstöðvunum. Aðallega langaði mig til að taka 360° panoramamyndir með drónanum. Verst að það passaði ekki alveg við flugreglur en af hverju ætti ég að vera að fara eftir öllum reglum þegar alvöru flugmennirnir eru ekki að gera það. Þeir fara of lágt og þá stelst ég bara til að fara of hátt.

Keyrði Reykjanesbrautina og beygði að Keili og svo átti að hjóla. Þegar ég var að nálgast þann stað sem skyldi hjólað frá, byrjuðu hádegisfréttir í útvarpinu og ég heyrði bara hætta, rýming og Fagradalsfjall. Jájá, hugsaði ég með mér... það er sem sagt of mikið gas eina ferðina enn... en þetta var eitthvað annað. Ný sprunga hafði opnast og ljóst var að ferðin hjá mér yrði eitthvað öðru vísi en ráð hafði verið fyrir gert. Ákvað að fara af stað þrátt fyrir að gera ekki ráð fyrir að geta skoðað eldgos að neinu ráði. Ég gæti a.m.k. reynt að taka einhverjar drónamyndir.

Hjólatúrinn gekk ágætlega og ómerkt leið sem ég var búinn að finna út yfir hraunið var hin besta. En þetta er nú samt alls ekki einfaldasta leiðin til að komast að eldgosinu en er samt svona ágæt privatleið sem er hægt að fara á eigin vegum.

Flugumferð talsverð og ég búinn að heyra í fréttum að það væri kannað úr lofti hvar fólk væri statt vegna rýmingar og líklega einhvers staðar skráð að einn maður í bláum jakka á hjóli nálgaðist Fagradalsfjall úr austri. Ég fór í raun lengra en ég hafði ætlað mér og var loks kominn á austur brún Meradala og þá mér til talsverðar furðu sá ég hvar hraunið var þar komið ofan í dalinn.


Var þarna staddur í vel rúmlega kílómeters fjarlægð frá hraunsporðinum. Gekk áleiðis upp á næsta hól þegar þyrla LHG flögraði yfir og lenti á hólnum. Var ég upplýstur - í einhverri vinsemd samt - að svæðið væri rýmt og ég eiginlega í óspurðum fréttum sagðist alls ekki ætla að fara lengra og færi bara til baka. Var það látið gott heita. Spurði reyndar og sagði svo hvort ég mætti fljúga á dróna. Sá frá LHG sagðist ekki geta bannað mér það en eindregin tilmæli að gera það ekki... held að hann hafi sagt ef ég gæti komist hjá því... sem ég komst auðvitað ekki hjá að gera og því eru til þessar ágætu drónamyndir úr ferðinni.


Ég sem sagt flaug drónanum eftir öfluga hvatningu frá Ragnhildi og Kristjáni. Sé ekki mikið eftir því en sé frekar eftir að hafa ekki flogið meira. Á myndinni að ofan er dróninn kominn nokkurn veginn að hraunjaðrinum sem er að skríða fram Meradalina í austurátt. Ælunin hafði svo verið að taka kúlupanoramamyndir og þar sem almennt hafði verið skrúfað fyrir flugumferð á svæðinu þá var það vel framkvæmanlegt. Endaði á að fljúga beint upp í loftið þar sem ég stóð.


--------------------
Kúlupanorama í fullri upplausn
--------------------
Hjólaði svo norður með Fagradalsfjalli og gekk upp á milli Meradalahnúka. Tók myndina efst í færslunni þar en útsýnið þar sem ég stóð er hér að ofan. Var náttúrlega algjörlega að stelast og átti von á því hvenær sem er að þyrla gæslunnar kæmi aftur og myndi núna gera alvarlegar athugasemdir við að ég væri ennþá á svæðinu. Ég er nú samt afar feginn að það var bara venjulegur LHG gaur sem talað við mig því seinna komst ég að því að sérsveit ríkislögreglustjóra hafði líka verið á svæðinu til að koma fólki í burtu. Ég játa að ég veit ekki á hvaða lyfjum þeir eru sem skipuleggja þetta. Tilfinningin hjá mér var dálítið eins og ég væri orðinn stríðsfréttaljósmyndari og kominn á hættu svæði þar sem ég gæti lent í óvinahöndum. Þeir komu ekki aftur en þegar ég heyrði í þyrlu þá ákvað ég að fara til baka. Sé talsvert mikið eftir því þar sem ég hefði þarna verið í nokkuð góðu færi að ná myndum af gígunum.

Þessi skrípaleikur að banna vönu útivistarfólki för um land þó það sé eldgos einhvers staðar í kílómeters fjarlægð er einhver mesta della sem hægt er að hugsa sér. Hættan sem ég var í þarna var algjörlega engin en ég sem sagt bara fór að koma mér til baka. Í heildina samt ágætlega heppnaður túr.

Tuesday, March 30, 2021

Gosmökkurinn

Ég sem ætlaði að gefa eldgosinu frí í dag og fara í Bláfjöll. Var eitthvað að myndast og náði líklega athyglisverðu fyrirbæri alveg óvart á mynd. Hafði tekið eftir áberandi skýjahnoðrum í stefnu eitthvað út á Reykjanes en svo brast á með þoku og éljagangi. Á bakaleiðinni var aðeins drónast og eftirá þá sé ég að þessir uppstreymisbólstrar yfir hrauninu sem ég var að heyra um í fréttum náðust þarna á mynd. Keilir sést ógreinilega og það passar að eldstöðin er rétt þar vinstra megin. Einhver 360° panorama þarna í kuula.co linknum [er sem sagt ekki víruslinkur] ... en það var upphaflegur tilgangur myndarinnar að prófa slíkt.

kuula.co linkurinn

Sunday, March 28, 2021

Eldgosið skoðað aftur, 26. mars

Farið aftur að skoða eldgos, 26. mars. Fjölskylduferð okkar systkina og Krstjáns að þessu sinni. Vel heppnuð ferð og tók heilar 6 klst og akstur að auki. fórum umhverfis Geldingadalinn og þar með eldstöðina. Aðstæður mjög góðar en samt talsvert kalt þar sem gosið náði ekki að hlýja manni.



Séð yfir hraunið. Það sem hér vakti mesta athygli mína var að hið ofurfína helluhraun sem var að myndast nokkrum dögum fyrr hafði ekki þolað álagið af hraunrennsli að fylla dalinn og hafði allt brotnað upp.

Helluhraunið orðið að frekar grófu apalhrauni. Það er hins vegar næsta víst að þarna á eftir að renna annað hraunlag yfir og ég vel mögulegt það endi sem helluhraun. Þegar helluhraunið kom að hækkuninni í dalbotninum kom fyrirstaða og innri þrýstingur kvikunnar sem náði ekki að ýta hrauninu áfram lárétt eða undan halla hefur sprengt það upp. Líklega á helluhraun mjög erfitt með að renna upp brekkur. Þar verður skriðbelti apalhraunsins að sjá um færsluna. Svona ef heimfært upp á klassíska straumfræði þá er þetta spurning um laminert eða turbulance rennsli.

Var mættur með nýjan (gamlan) dróna. Átti reyndar í talsverðum erfiðleikum með hann - enda ekki sérlega góðar aðstæður til að læra á nýjan dróna í þeim aðstæðum sem þarna voru. Skítkalt, einhver vindur og flug þyrlu og einkaflugmanna sem virti ekki almennar grundvallar flugreglur að trufla.

Séð ofan í hraunið. Náði jú einhverjum sæmilegum drónamyndum þrátt fyrir að vera ekki alveg að kunna þetta með nýjan ókunnugan dróna.

Þjóðhátíðarstemning. Þarna vantaði bara brekkusöng held ég - hef reyndar aldrei farið á Þjóðhátíð í Eyjum en þetta er eitthvað svoleiðis. Sátum þarna drykklanga stund.

Upplýstur gösmökkurinn blasir við þegar við vorum að nálgast Suðurstrandarveginn aftur á bakaleið. Svona miðað við almennilegan gosmökk þá er þessi þannig að mér finnst á mörkunum að það sé hægt að kalla þetta gosmökk. Veit eiginlega ekki almennilega hvort lögmálin um hvað gerist í öflugum gosmekki séu að fullu virk þarna.

Monday, March 22, 2021

Eldgosið skoðað

Við fórum þrjú saman að eldgosinu. Fórum líklega auðveldustu leiðina. Keyrðum til Grindavíkur og hjóluðum malbikaðan Suðurstrandarveg austur fyrir Festarfjall og gengum þaðan. Suður fyrir Borgarfjall og inn Nátthagadal. Auðveld brekka upp úr dalnum og þá er maður eiginlega kominn að gosinu. Þessi leiðarlýsing er sett inn án ábyrgðar að sjálfsögðu en ég tel rétt að þetta komi fram þar sem tillögur yfirvalda um hvaða leiðir eigi að fara eða hvernig sé best að skoða gosið virðast vera hættulegar nema fyrir mjög vant fólk. Skoðunarferð að gosinu upp á eigin spýtur er samt að sjálfsögðu ekki gáfuleg fyrir fólk með enga reynslu af fjallgöngum eða fólk í mjög lélegu formi. Mikið tekið af myndum en flestar áþekkar og sé eftirá að það voru mikil mistök að vera ekki með almennilegan þrífót. 


Textinn að ofan er úr Facebook myndasafninu frá 22. mars.

Eftirá þá var einhver umræða um það kaos sem myndaðist seinna þetta sama kvöld og fram á nótt. Málið er að yfirvöld virðast hafa ætlað að koma í veg fyrir að fólk skoðaði gosið með að gera það mjög erfitt. Suðrstrandarvegur var lokaður frá Grindavík og margir gengu þaðan. Við vorum á reiðhjólum og fórum auðvelda leið og nutum þess að skoða gosið. Yfirvöld mæltu svo helst með því að ganga frá Bláalóninu, yfir úfið og ógreiðfært hraun sem ég taldi áður en við fórum í okkar ferð, vera afar erfiða leið. Við fórum þá leið sem var á korti hægt að sjá fyrifram að væri mjög auðveld án þess að þekkja svæðið svo mikið og það gekk eftir.

Það kannski segir eitthvað að eftir að við vorum komin út fyrir mainstream leiðina þá þekkti ég um helminginn af fólkinu sem við mættum á leiðinni. Ýmist úr fjallamennsku, björgunarsveitum eða gædastarfi.

Friday, March 19, 2021

Og það kom eldgos!

Það er víst ekki alveg hægt að segja að ég hafi haft rétt fyrir mér þegar ég var farinn að telja líkur á eldgosi núna vera hratt minnkandi og eldgos í raun ósennilegt. Margir aðrir féll í sömu gildru en þó má alveg halda til haga að ég var aldrei búinn að segja að það myndi örugglega ekki koma neitt eldgos... En það er víst hafið núna.

Jæja... ætli þetta sé búið

Ekki hefur maður nú alltaf alveg rétt fyrir sér!

Jæja... ætli þetta sé búið. Engir skjálftar frá því líklega um hálfan sólahring við Fagradalsfjall en virknin hefur hoppað út í sjó undan Reykjanestá.

Það er þetta með líkur á eldgosi... það eru ennþá alveg líkur á eldgosi en þær fara og hafa farið hratt minnkandi tel ég síðustu daga. Það þýðir samt ekki að það gæti komið eldgos með mjög stuttum fyrirvara þarna við Fagradalsfjall ... en líkurnar fara minnkandi.

Það skemmtilega við líkur er að maður getur alltaf sagt að maður hafi haft rétt fyrir sér ef talað er um líkur á einstökum atburði svo framarlega sem maður fer hvorki í 100% líkur eða 0% líkur.

Líkur á eldgosi fyrir um viku síðan voru alveg 50% kannski er hægt að segja en núna kannski 1% til 5% en það segir ekki að maður hafi rangt fyrir sér þó það verði komið eldgos uppúr hádegi.


Birt fyrst á Facebook að morgni þess dags þegar gosið svo byrjaði!

Að hafa rétt fyrir sér eða ekki... það stendur svo sem ekkert þarna að ég hafi verið búinn að afskrifa eldgos morguninn áður en það hófst en í huganum var ég búinn að því og var bara frekar feginn að þurfa ekki að hugsa meira um þetta. Samt ætla ég nú að halda því til haga að það stendur ekkert annað þarna en að ég telji líklegast líkur á eldgosi fara minnkandi en það þýði samt ekki að eldgos geti alveg hafist með mjög stuttum fyrirvara - sem er nákvæmlega það sem gerðist!

Aðrir voru talsvert óheppnari, opinberu jarðvísindamennirnir sem vita mest og best sem létu hafa eftir sér í fjölmiðlum að þessu væri bara lokið á sama tíma og eldgosið var að hefjast - og svo þeir sem kölluðu eldgosið ræfil og sögðu það ræfilslegt og yrði að öllum líkindum lokið inann fárra daga ef það entist svo lengi!

Tuesday, March 16, 2021

Kemur eitthvað eldgos?

Lærðir og leikir eru að bíða eftir eldgosi á Reykjanesi… þar sem ég get líklega í þessu bæði flokkast sem lærður og leikinn, þá er ég að byrja að hallast að því að það verði ekkert eldgos… núna.

Meðfylgjandi mynd sýnir alla skjálfta á svæðinu síðustu fjóra sólarhringa og greinilegt er hvernig virknin hefur færst til.

Fyrir hálfum mánuði var ég nokkuð viss um eins og margir aðrir að það væri alveg að fara að gjósa í fjallakverk fyrir norðan Fagradalsfjall ekki langt frá Keili. Það mældist gosórói og það þýðir bara að kvika streymir nokkuð óhindrað í gegnum sprungur og er á leið til yfirborðs. Ég hafði eiginlega viljað meina að gosórói jafngilti eiginlega eldgosi. En svo gerðist bara ekki neitt og fréttamaður RUV flaug yfir og sá ekkert nema einhvern sandhól sem er kallaður Keilir.

Jarðskjálftavirknin færðist eftir sprungukerfinu suðvestur fyrir Fagradalsfjall og einnig var hægt að mæla bæði með GPS stöðvum á jörðu niðri og gerfitunglum sveimandi yfir hvernig yfirborð landsins seig, reis og hliðaðist í samræmi við það að kvikan væri að brjótast áfram í því sem er núna kallað kvikugangur.

Skjálftar voru mestir í Nátthaga, dalverpi sunnan Fagradalsfjalls og þar var sett upp vefmyndavél til að ná upphafi væntanlegs eldgoss á kvikmynd. En ekkert gerðist nema að skjálfti af stærri gerðinni varð dálítið vestar sunnudaginn 14. mars og í framhaldinu færðist jarðskjálftavirknin í þá átt. Hvað var að gerast þarna held ég að enginn viti alveg en ef kvikan var að fara eins og skjálftarnir sýndu þá gæti það endað mjög illa því þá gæti eldgos orðið mjög nálægt Grindavík. Þetta er hins vegar þvert á sprungustefnu og er ósennilegt – enda hætti þetta bara.

Núna eru skjálftarnir aftur komnir þar sem þeir voru fyrir háfum mánuði og ef það fer að gjósa núna þá myndi líklegast gjósa þar. Reyndar er það þannig að heppilegt væri að eldgos kæmi upp á öðrum hvorum þessara staða, norðan eða sunnan Fagradalsfjalls. Fá ef nokkur manvirki væru í bráðri hættu fyrir utan vegi sem ætti að flokkast sem algjört minniháttar tjón í eldgosi í námunda við stærstan hluta byggðar Íslands.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að hafa þá skoðun að úr því þetta er farið að dragast svona mikið á langinn þá virðist krafturinn í kvikuhreyfingunum hingað til ekki vera nægur til að kvikan komist til yfirborðs þá sé að verða líklegra að það gerist ekkert meira. Kvikan heldur eitthvað áfram að þræða sprungur við Fagradalsfjall en nær ekki til yfirborðs í þessu áhlaupi.

Það breytir samt ekki því að eldgos gæti hafist núna hvenær sem er og líklegast finnst mér að ef það verður eldgos þá verði ekki neinn sérstakur fyrirboði nema gosórói í einhvern mjög stuttan tíma áður en kvikan kemur upp.

Stórt eða lítið eldgos… það veit í raun enginn en líkur eru mestar á að það verði lítið og það er nær eingöngu út af því að eldgos á Reykjanesi síðustu árþúsundin hafa verið lítil. Miðað við hvað þetta er í raun róleg og langdregin atburðarás þá er hins vegar nær öruggt að eldgosið ef það verður, verður mjög rólegt. Það er hins vegar ómögulegt að segja hvort það verði langt eða stutt. Gæti orðið mjög stutt þar sem þetta er löng róleg atburðarás og krafturinn myndi ekki nægja til að viðhalda eldgosi nema í stutta stund… jafnvel ekki nema einhverja klukkutíma. Hin langdregna atburðarás getur líka bent til þess að þetta verði langt eldgos sem standi í a.m.k. í einhverja mánuði og þá verði þetta að lokum ekki svo lítið hraun sem kemur þarna upp.

En hvað veit ég, þó ég þykist vera bæði lærður og leikur í þessum efnum!

Að einhverju leyti er jarðskjálftavirknin að fjara út. Fyrir um viku var sambærilegt graf þannig að lítið sem ekkert sást í gegn fyrir skjálfta upp í 2 að stærð og alla daga var hellingur af skjálftum yfir 3. Núna er þetta sem sagt orðið eitthvað gisið og það er ekkert óhugsandi að þetta sé bara að fjara út.


Upphaflega birt á Facebook, 16. mars. sjá hér.

Að hafa rétt fyrir sér eða ekki, hvað var ég að hugsa... 4. apríl:

Hægt og rólega töldu margir að eldgos væri sífellt að verða ólíklegra og ég var sem sagt ekki einn um þá skoðun. Ekki hafði ég rétt fyrir mér en hafði samt sæmilega rétt fyrir mér að það væri öruggt að ef það yrði gos þá yrði það mjög rólegt gos.

Þetta var skrivað að kvöldi 16. mars upphaflega en gosið hófst þremur sólahringum seinna.

Thursday, March 04, 2021

Eldstöðvakerfin á Reykjanesi

Tekið saman rúmum tveimur vikum áður en eldgosið hófst

Aðeins (eða rúmlega aðeins) um eldstöðvakerfin á Reykjanesi og þá sérstaklega kerfið sem er nefnt við Fagradalsfjall og er hugsanlega við það að fara að gjósa.

Vitað er um tvær stórar gosmyndanir frá svæðinu. Það er annars vegar Fagradalsfjallið sjálft sem er myndað við eitt eða fleiri eldgos að mestu undir ís, líklega á síðasta jökulskeiði, aldur a.m.k. einhverjir tugir þúsunda ára. Hins vegar Þráinsskjöldur sem hefur verið aldursgreindur (Kristján Sæmundsson) sem 14.100 ára gamalt hraun.

Þar sem mikið er talað um að eldgos á Reykjanesi séu lítil þá þarf að taka mið af því að stærð eldgosa er afstæð og einnig að stærstu eldgosin sem vitað er um á Reykjanesi áttu sér stað við lok síðasta jökulskeiðs fyrir um 10 þúsund árum síðan og einhver árþúsund fyrir og eftir. Eldgos á Reykjanesi síðustu árþúsundin hafa verið minni. Þessar staðreyndir eru líklega helst notaðar til að setja það fram núna að við séum að búast við litlu eldgosi. Einnig er hægt að skoða hvað ummerki eru um mikla kviku að troðast inn í jarðskorpuna og það bendir væntanlega einnig freka til þess að væntanlegt eldgos verði lítið. Mig rámar hins vegar í að í aðdraganda Holuraunsgossins hefði talsvert verið talað um að við værum að búast við litlu gosi og hver má hafa sína skoðun á því hvort það hafi verið líið eða stórt en mér þætti það stórt úti á Reykjanesi.

Annað sem er athyglisvert er að Fagradalsfjall sem eldstöðvakerfi er allt öðru vísi en hin kerfin. Það vantar alla sprungurein með Fagradalsfjalli og kerfið er eiginlega kringlótt á milli Svartsengiskerfis og Krýsuvíkurkerfis. Miðað við jarðskjálftana þá má láta sér detta í hug að kerfin séu tengd í gegnum Fagadalsfjall enda hafa verið að mælast skjálftar núna einnig í Krýuvíkurkerfinu. Það kerfi er við skulum segja hættulegast fyrir byggð þar sem sprungusveimur þess nær inn undir efstu hverfi Reykjavíkur. Við skulum þó ekki gera ráð fyrir að eldgos komi þar upp þar sem hingað til hafa eldgosin verið nær miðjunni. Það gos sem hefur komið upp næst byggð er Búrfell í Heiðmörk.

Loks athyglisvert er að mikið er lagt út frá goshléum og að Reykjanes sé komið á tíma. Goshléin eru skoðuð fyrir hvert eldsöðvakerfi fyrir sig og ætti þá að vera komið að Eldgosi núna í Brennisteinsfjallakerfinu sem myndi þýða eldgos í nágrenni við Bláfjöll. Eldstöðvakerfið kennt við Fagadalsfjall er hins vegar ekki talið með hér og hefur ekki gosið í a.m.k. 6 þúsund ár að talið er.

Yfirlit yfir virk tímabil eldgosa á Reykjanesi eftir eldstöðvakerfum. Hér þarf að veita því athygli að Fagradalsfjall er ekki talið með enda hefur ekki gosið þar í meira en 6 þúsund ár.

----- Að mestu byggt á því sem kemur fram í bókinni um Náttúruvá
Upphaflega var þetta birt á Facebook, 4. mars.

Það sem eftirá (skráð 4. apríl) er skemmtilegt við þessa umfjöllun er að mér fannst í aðdraganda gossins mjög lítið gert úr því að eldgosið sem hugsanlega var í væntum væri í Fagradalsfjalli, sem, hafði ekki gosið í liklega uppundir 10 þúsund ár og gos þar verið dyngjugos eða í ætt við dyngjugos. Það var endalaust fjallað um að goshléið væri 800 ár en ekki neinn sérstakur gaumur gefinn að því að goshlé Fagradalsfjalls var búið að vera mörg þúsund ár og að allar þekktar goslotur á Reykjanesi hefjast austast á nesinu, þ.e. í Brennisteinsfjöllum.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé ekkert sem segi að goslota Rekjaness sé hafin þó það sé dyngjugos í gangi í Fagradalsfjalli. Það þarf að tengja það gos betur við eldgos í hefðbundnu eldstöðvakerfum Reykjaness til að það gangi upp í mínum huga.

Wednesday, March 03, 2021

Er komið eldgos?

Einfalt að kanna

Einfaldasta aðferðin (fyrir utan að líta bara út um gluggann) til að vita hvort það sé komið eldgos. Fara bar á: https://www.erkomideldgos.is/
Upphaflega sett sem færsla á Facebook. https://www.facebook.com/eirasi/posts/10224815538396806

Skráð hér, eftirá 4. apríl:
Þennan dag, miðvikudag 3. mars leit út fyrir að eldgos væri að hefjast.

Í tengslum við jarðskjálftana á Reykjanesi hafði mælst kvikuinnskot, sprung að fyllast af kviku, berggangur að myndast... eða það sem er eitt af tískuorðunum sem er orð sem varð til í tengslum við eldgosiðí Holuhrauni, kvikugngur. Aflögun á yfirborði mæld með GPS mælingum og einnig bylguvíxl mælingar frá gervihnöttum. Það var því búist við eldgosi.

Skyndilega eftir hádegi 3. mars mældist skyndilegur gosórói norðan Fagradalsfjalls líklega og allir ætluðu sér að sjá eldgos verða að raunveruleika í beinni útsendingu. Þyrlur flugu um loft með vongóða fréttamenn RUV og annarra miðla en gripu í tómt. Sjálfur var ég ekki í rónni og neitaði eiginlega að fara í badminton því ekki ætlaði ég að missa af upphafi eldgossins. Ekkert varð samt eldgosið þennan daginn og gosóróinn fjaraði bara út.

Það em væntanlega hafði verið að gerast var að kvika var að færast hratt í jarðskorpunni en hún lenti á einhverri fyrirstöðu þannig að hún komst ekki til yfirborðs. Líklegast stöðvaðist hún á um eins km dýpi ef ég man rétt.

Sunday, February 28, 2021

Jarðhræringar á Reykjanesi: Eftir hverju erum við að bíða?

May be an image of texti 

  Eftir hverju erum við að bíða? Stærstu skjálftar á Reykjanesskaga síðustu 100 árin voru 1929 og 1968 og voru í Brennisteinsfjöllum sem er hjá Bláfjöllum. Báðir skjálftar komu í kjölfar skjálftahringa árið á undan í líkingu við það sem við höfum núna í febrúar-mars 2021. Það er vitað að spennan sem losnar í skjálftunum við Fagradalsfjall og Kleifarvatn færist áfram í austur að Brennisteinsfjöllum og þar er því reiknað með skjálfta um eða yfir magnitude 6. Brennisteinsfjöll eru talsvert nær höfuðborgarsvæðinu en Fagradalsfjall eða Kleifarvatn og myndi því hafa talsvert meiri háhrif þar. Hann ætti þó ekki að valda neinum alvarlegum skemmdum, þ.e. engin hús ættu að hrynja en einhver hús gætu skemmst eitthvað.

Það veit hins vegar enginn hvernig framhaldið verður á þessu. Þessi stóri skjálfti í Brennisteinsfjöllum er yfirvofandi og atburðarásin 1929 og 1967-8 minnir á margt á þá atburðarás sem hófst í janúar 2020 með jarðskjálftum við Þorbjörn. Mér finns hins vegar áberandi í því sem kemur fram í þessu yfirliti hér að þegar stóru skjálftarnir hafa komið í Brennisteinsfjöllum þá hefur mánuðina á undan ekki verið skjálftar vestar á Reykjanesi. Ég ætla því að telja líklegast að þannig verði það líka núna. Við fáum ekki þennan stóra skjálfta í Brennisteinsfjöllum á næstu vikum en hann kemur þá frekar seinna á þessu ári eða á næsta ári.

Varðandi væntanlegt eldgos þá er nær öruggt að á næstu 1000 árum muni gjósa á Reykjanesi en hvenær er ekki vitað. Það nálgast en það er ekkert eða mjög fátt í þeim atburðum sem hafa verið núna sem er eðlilegt að tengja við eldgos. Á meðan ekki mælast neinar kvikuhreyfingar þá er í raun ekkert sem bendir til þess að eldgos sé yfirvofandi. Það gæti þó alveg komið öllum að óvörum - en telst varla líklegt.

Hér í link má sjá yfirlit yfir alla þekkta jarðskjálfta á Reykjanesi.

Um skjálftann 1929

Morgunblaðið 25. júlí 1929 segir frá jarðskjálftanum sem var daginn áður. Eins og fram kemur var ekki hægt að fá góðar upplýsingar um hann þar sem eini jarðskjálftamælirinn sem var til þá á Íslandi þoldi ekki skjálftann. Upplýsingar þá frá Englandi voru ekki réttar miðað við það sem núna er talið að hann hafi átt upptök sín í Brennisteinsfjöllum og stærðin hefur verið metin 6.3 ef miðað er við það sem er á yfirliti Veðurstofunnar.

Um skjálftann 1968

Vísir segir frá skjálftanum í desember 1968. þó ég muni ekki eftir þessu þá er þetta líklegast fyrsti jarðskjálftinn sem ég upplifði, tæplega tveggja ára gamall. Við bjuggum þá í Austurbrún 2 á 5. hæð en þar stöðvaðist lyftan vegna jarðskjálftans eins og kemur fram í fréttinni hjá Vísi. Þessi skjálfti varð í Brennisteinsfjöllum og stór skjálfti hefur ekki orðið þar síðan og við erum í raun að bíða eftir honum núna um mánaðamót febrúar - mars 2021.

Umfjöllun Morgunblaðsins um skjálftann 1968. Það sem er sérstakast er að fréttir af þessum jarðskjálfta fengu ekki almennilegt pláss á forsíðu eða baksíðu blaðsins. Forsíðan var að venju helguð erlendum fréttum eingöngu - það þurfti líklega eldgos til að komast á forsíðuna þá. Á baksíðunni var verið að fjalla um EFTA viðræður, öryggisbúnað í Álverinu í Straumsvík - eftir banaslys sem urðu þar eitthvað áður, hita í borholu á Reykjanesi, vígslu á kaþólskum biskup og svo örfrétt um jarðskjálftann sem vísar áfram um frekari umfjöllun á síðu 19. Plássið sem jarðskjálftinn fær er um helmingurinn af því sem fréttin um kaþólska biskupinn fær
Færslur fyrst settar á Facebook en færðar hingað einnig... seinna þegar eldgosið var löngu hafið!

Monday, February 22, 2021

Vonarskarð






......

....

Friday, February 12, 2021

Snerting eftir Ólaf Jóhann


Gaf sjálfum mér hana í jólagjöf - eða kannski frekar - ég skipti í hana eftir eitthvað annað sem ég fékk bókarkyns í jólagjöf. Það var reyndar jöklabók Helga Björnssonar sem var gefin mér en ég auðvitað átti. Skil ekki hvernig ég gæti ekki átt þá bók. En að Snertingunni sem ég á líka.

Eftir að ég las Sakramentið hans Ólafs Jóhanns, líklega fyrsta heila bókin sem ég las eftir hann - var allt í einu kominn einhver uppáhaldshöfundur og þessi bók var ekki að valda neinum vonbrigðum. Bókin náði ágætum tökum á sálinni í mér og fékk mig til að hugsa talsvert hvers konar lífi maður sjálfur hefur lifað. Það er spurningin hvor maður sé svo mikill aumingi að maður þori ekki að lifa lífinu sem maður hefði átt að geta lifað - eða svo mikill auli að hafa ekki fattað hvaða lífi maður hefði átt að geta lifað. Ætli það sé eitthvað fólk þarna úti sem er einhvern tímann að velta því fyrir sér hvað hafi orðið um mann... Stundum veit ég ekki hvort maður eigi að vera að lesa svona bækur...

En svona... lausir endar sem einhverfan í mér veltir fyrir sér:
  • Af hverju sá hann hana bara einu sinni reykja sígarettu en aldrei aftur...
  • Af hverju var hann svona lengi að tengja saman að það væri eitthvað merkilegt hvaðan hún var og miðað við hvað hún var gömul... að það væri einhver saga þar og það skipti öll máli... trúi ekki að meðvitaður stúdent um 1970 hafi ekki áttað sig á því undir eins...
Veit ekki hvort eitthvað annað sérstak hafi truflað mig í bókinni - jú, þetta með hvernig talað var um Covid 19 í bókinni fannst mér asnalegt en hjálpaði reyndar á köflum þar sem bókin gerist á alls konar tímum þá var ágætt að vita að ef einhver var með grímu þá var nokkuð ljóst að það var eitthvað sem átti að gerast í núinu. Um 1970 gekk fólk ekki um með grímur svona almennt.

Í það heila ekki sama búmmið og kom yfir mig þegar ég las Sakramentið en það var kannski af því að þá hafði ég ekki lestið neitt eftir hann nema eitthvað sem mér fannst ekki gott og ég gafst upp á. Alveg á pari sem sagt við Sakramentið og betri fannst mér heldur en Innflytjandinn frá í fyrra. Ég mæli sem sagt alveg með.
Mér skilst að það eigi að gera bíómynd eftir bókinnni. Hlakka alveg til að sjá þá mynd en væntanlega eru allar líkur á því að mér finnist bókin hafa verið betri!

Tuesday, February 02, 2021

Ný skíði

Upgrade eða frekar reyndar downgrade en samt örugglega ágætt ætla ég að vona

Upgrade eða ekki... nei ekki en samt kannski passandi betur.
Gömlu Fischer þarna líka að fá að vera með á myndinni.

Það var farið í Fjallakofann til endurnýjunar eftir brotnu skíði gærdagsins.


Alveg tvær heimsóknir í Fjallakofann. Var mættur fljótlega eftir opnun. Einhver strákur að afgreiða mig sem ég held að hafi nú ekki vitað neitt allt of mikið um gönguskíði... samt vissi hann nú svo sem alveg örugglega alls konar. En það breytti ekki því að þegar ég kom heim með skíðin þá sá ég að á eldri skíðunum stóð Medium og Plus. en bara Medium á þeim nýju. Sem sagt ekki alveg eins. Einnig var rautt undir miðjunni á nýju skíðunum. Tókst að komast að hvað þetta var og plus skíðin eru til að nota í hita sitt hvorum megin við frostmarkið en hin eru fyrir kulda... -5°C til -30°C... ekki alveg kjöraðstæðurnar fannst mér. Eftir smá spekúlasjón ákvað ég líka að ódýrari ekki keppnis útgáfan myndi henta mér betur. Það var því farið aftur í Fjallakofann.

Þar sem ég var núna að skipta og vesenast þá fékk Helmut það hlutskipti að afgreiða mig. Eftir miklar spekúlasjónir er ég kominn heim með XP20 skíði í staðinn fyrir keppnis RX10 og er með plús skíði fyrir ekki of mikinn kulda og það sem við Helmut komumst að var loks að fitabolla eins og ég þarf 204cm skíði með meiri stífleika. Þ.e. ekki medium heldur Hard. Medim skíðin eru fyrir fólk undir 90kg og ég er víst ekki þar og ekkert á leiðinni að verða of léttur ef miðað er við hvað stífu skíðin eru gefin upp fyrir. Ég má því fara að spyrna mér almennilega ef ég ætla að ná almennilegu gripi á þeim... nema ég beri bara gripdrasl á allan botninn eins og hann leggur sig.

Talaði svo eitthvað um klístur við Helmut... og jú, hann sammála mér að klístu er ekki bara til að nota á vorin heldur er það líka klístur það sem virkar á klakann.

En það þarf víst að fara að preppa eitthvað þessi nýju skíði er ljóst. Base og rennslis, sandpappír og læti.
--------------------------------------------------
Veit annars ekki hvað er langt síðan ég setti inn tvær bloggfærslur sama daginn!

Skíðamennskan ef mennsku skyldi kalla... brotið skíði

Hvort á maður að hlæja eða gráta

Á Kerlingardalshring... reyndar Höskuldur en ekki ég
á meðan skíðin voru góð síðasta laugardag

Það var farið á skíði í gærkvöldi... átti að vera bara einhverjir 6m/s skv. veðurmælum en mér fannst það dálítið gruggugt þar sem eiginlega hafði verið spáð meiri vindi. Fánar blökktu óeðlilega mikið við bensínstöðvar í Ártúnsbrekkunni miðað við það og á Sandskeiði var staðan tekin. það var alveg vindur en samt ekkert hávðarok. Veðurmælir sagði ennþá bar 6 m/s við Bláfjallaskála á mæli Veðurstofunnar... þannig að það var haldið áfram.

það var múgur og margmenni á efra bílastæði þannig að ég ákvað að byrja bara á neðra stæðinu og ekki veit ég hvar ósköpin dundu yfir - en ég er óttalegur skíðaböðull verður víst að játa. Fór á neðra stæðið og þar var ágætur vindur og algjör skítakuldi. Man ekki alveg í hvaða röð ég var að gera þetta en var að vandræðast með að komast almennilega í ólarnar á stöfunum og svo á skíðin. Hvort það var út af því að ég stíg yfirleitt á skíðið til að halda því kyrru þegar ég fer í bindingu veit ég ekki en gæti eins verið. Þurfti að fara yfir einhvern gaddfreðinn haugaruðning til að komast á skíðabrautina. Allt í lagi svo sem þegar var kominn þangað en hafði ekki gott grip fannst mér. Klístrið líklega farið að aldrast eitthvað hjá mér.

Var eitthvað einmanna þarna á þessum aukahring frá gamla bílastæði og ákvað að komast yfir til fólksins á Leiruhring. Snillingarnir eða ekki snillingarnir sem leggja þessar brautir gátu auðvitað ekki tengt þetta sman þannig að ég fór um einhvern skarasnjó yfir að hringnum út fyrir hólinn. Þar gekk eitthvað ágætlega. Skemmtilegur hringur með hlykjum fram og til baka sem hafði verið lagður fyrir keppni helgarinnar og var bara í góðu lagi að fara. Ég greinilega eitthvað að ná taki á brekkunum því það hefur snúist við hjá mér hvað ég skoða áður en ég fer í brekkur. Fyrir ári síðan þá athugaði ég hvort einhver væri að koma á eftir mér sem ég yrði fyrir en núna athuga ég meira hvort einhver sé fyrir framan mig sem augljóslega verði fyrir mér!

Fór ekki marga hringi en svo til baka í bílinn. Þegar skíðin voru komin á toppinn á bílnum sá ég það. Mér til mikilla vonbrigða, leiðinda og væntanlæegra peningaútgjalda sá ég einhverna misfellu á öðru skíðinu og það er bara brotið - ónýtt - haugamatur :-(

Kannski réði ég annars svona vel við skíðin af því að Þau vorui væntanlega ekki með besta rennsli sem hægt var að hugsa sér, klístur og fullkomlega engin spenna í skíðinu sem var brotið. Rann sem sagt bara á klísturdarslinu.

Sunday, January 31, 2021

Sunnudagar til matar

Ísinn smakkaður til

Fjölskyldur hittast eða hittast ekki. Mín stórfjölskylda hefur stundum verið dugleg að hittast en stundum ekki. Ragnhildur ákvað að gera eitthvað í málinu og ákvað að boða til vikulegs sameiginlegs snæðings. Hvert sunnudagskvöld skyldi haldið í Fagrahjallann. Fer vel af stað þó vikulega hafi líklega verið dálítið mikið þar sem það er dálítil fyrirhöfn að þó ekki nema tvöfalda eða hér um bil fjölda fólks í mat. Erum búin að fara tvisvar og kannski verður þetta mánaðarlegt eða á tveggja vikna fresti. Í öllu falli allt betra en ekkert. Prik til Ragnhildar og Fagrahjallans.

Tuesday, January 05, 2021

Árið

2020 til 2021

Á Geitlandsjökli um sumarsólstöður

Þá er það komið nýtt og þetta 2020 kemur væntanlega ekki aftur og flestir segja víst vonandi ekki aftur. Líklega lærdómsríkt og mjög sérstakt ár að baki og erfitt fyrir marga en það hafði nú alveg einhverja kosti líka held ég. Það sem truflar mig kannski mest er hvað allt Covid vesen hafði í raun lítil áhrif á mig. Talsvert business as usual og svo kom kannski betur í ljós en nokkurn tímann að það er ekkert allt of margt sem kemur mér úr því jafnvægi eða ójafnvægi sem ég er í. Í það heila má segja að það hafi verið margt annað sem truflaði mig mikið meira en Covid ráðstafanir þannig að þær voru frekar bara í bakgrunni hjá mér.

Svo er stóra spuringin hvað ég geri við þetta ár 2021.

Í könnunarferð á Geitlandsjökli einhverjum dögum fyrir sumarsólstöður. Þóra rennir sér áfram.