Thursday, April 22, 2021

Hraunslettuskammtur númer 4: 21. apríl 2021

Fjórða ferðin að skoða eldgosið, 21. apríl 2021. Eiginlega sú erfiðasta. Fórum bræður hjólandi austan Fagradalsfjalls, leiðina sem flestir reyndar fjallahjóla skilst mér. Of miklar brekkur fyrir minn smekk enda ég hálf útkeyrður eftir vinnuálag síðustu daga, ekki búinn að borða almennilega og með einhvern magaverk. En það kemur málinu ekki við því við vorum að skoða eldgos.

Höfðum reyndar eiginlega báðir gert ráð fyrir að fara beint inn í Meradali sem átti að vera án mikillar hækkunar, skilja bara hjólin eftir þar og ganga að gosstöðvunum þar fyrir ofan. Ég var með track sem var sótt bara á Strava og svo mættum við Þorvaldi Þórðarsyni sem mælti eindregið með að fara að sem hann kallaði syðri leiðina. Þá komum við í skarð sunnan við Stóra-Hrút og þar vestan við er hraunið núna mest að skríða fram. Þetta tók allt of mikið á fyrir okkar smekkk að drösla reiðhjólum upp allar þessar brekkur.


Vorum helst til seint á ferðinni þannig að ég náði ekki að skoða aðstæður af neinu viti. Var auðvitað líka í drónamyndatökum og þetta var allt saman bara einhven veginn og einhvern veginn. Myndin að ofan sýni líklega svæðið hvað best af því sem ég þó náði að gera. Kúlupanorama sem var tekin um svipað leyti og á svipuðum stað líklega sýnir gossvæðið alveg sæmilega.

Myndirnar bera það með sér að vera ekki teknar í góðri birtu en gosið er samt líklega mest fyrir augað þegar það er farið að rökkva. Gossvæðið er annars gjörbreytt frá því ég var þarna síðast á öðrum degi páska. Fyrstu tvö skiptin sem ég fór að skoða gosið á degi þrjú og svo aftur viku seinna var gosið eingöngu í Geldingadal. Það var fyrir um mániði síðan. Á öðrum degi páska fyrir um tveimur vikum var efsti gígurinn sð opnast og hraun fór beint niður í Meradali. Sá gígur er núna þagnaður í bili a.m.k. en nýir gígar milli hans og Geldingadals með hvað mesta virkni. Núna rennur hraun að mestu í litla dalkvos vestan Stóra-Hrúts sem telst líklega vera efri hluti Meradala. Þegar sú kvos fyllist fer hraunið annað hvort í norður ofan í Meradali eða í suður ofan í Nátthagadalinn. Ég ætla áfram að veðja á Meradalina en samt er Nátthaginn vel líklegur líka.

Gengum að gígunum sem opnuðust eftir páska og þurftum þá að fara niður fyrir hrauntotu sem kemur úr Gelgingadal, sjá myndina hér til hliðar. Fórum fyrir hraunið þar sem guli punkturinner. Þessi hrauntota er orðin alveg óvirk og fór ég yfir hana neðst til að prófa að ganga á hrauninu. Það reyndist lítið mál þarna.

Vorum komnir þarna að nýjustu gígunum fjórum borðuðum smá nesti og sáum ljósin hinum megin hverfa hægt og rólega þegar svæðið var rýmt. Stöldruðum eitthvað við og fórum svo til baka. Gengum að hjólunum og það var reyndar frekar þægilegt að hjóla til baka sem var að mestu leyti niður brekkur.



No comments: