Thursday, March 04, 2021

Eldstöðvakerfin á Reykjanesi

Tekið saman rúmum tveimur vikum áður en eldgosið hófst

Aðeins (eða rúmlega aðeins) um eldstöðvakerfin á Reykjanesi og þá sérstaklega kerfið sem er nefnt við Fagradalsfjall og er hugsanlega við það að fara að gjósa.

Vitað er um tvær stórar gosmyndanir frá svæðinu. Það er annars vegar Fagradalsfjallið sjálft sem er myndað við eitt eða fleiri eldgos að mestu undir ís, líklega á síðasta jökulskeiði, aldur a.m.k. einhverjir tugir þúsunda ára. Hins vegar Þráinsskjöldur sem hefur verið aldursgreindur (Kristján Sæmundsson) sem 14.100 ára gamalt hraun.

Þar sem mikið er talað um að eldgos á Reykjanesi séu lítil þá þarf að taka mið af því að stærð eldgosa er afstæð og einnig að stærstu eldgosin sem vitað er um á Reykjanesi áttu sér stað við lok síðasta jökulskeiðs fyrir um 10 þúsund árum síðan og einhver árþúsund fyrir og eftir. Eldgos á Reykjanesi síðustu árþúsundin hafa verið minni. Þessar staðreyndir eru líklega helst notaðar til að setja það fram núna að við séum að búast við litlu eldgosi. Einnig er hægt að skoða hvað ummerki eru um mikla kviku að troðast inn í jarðskorpuna og það bendir væntanlega einnig freka til þess að væntanlegt eldgos verði lítið. Mig rámar hins vegar í að í aðdraganda Holuraunsgossins hefði talsvert verið talað um að við værum að búast við litlu gosi og hver má hafa sína skoðun á því hvort það hafi verið líið eða stórt en mér þætti það stórt úti á Reykjanesi.

Annað sem er athyglisvert er að Fagradalsfjall sem eldstöðvakerfi er allt öðru vísi en hin kerfin. Það vantar alla sprungurein með Fagradalsfjalli og kerfið er eiginlega kringlótt á milli Svartsengiskerfis og Krýsuvíkurkerfis. Miðað við jarðskjálftana þá má láta sér detta í hug að kerfin séu tengd í gegnum Fagadalsfjall enda hafa verið að mælast skjálftar núna einnig í Krýuvíkurkerfinu. Það kerfi er við skulum segja hættulegast fyrir byggð þar sem sprungusveimur þess nær inn undir efstu hverfi Reykjavíkur. Við skulum þó ekki gera ráð fyrir að eldgos komi þar upp þar sem hingað til hafa eldgosin verið nær miðjunni. Það gos sem hefur komið upp næst byggð er Búrfell í Heiðmörk.

Loks athyglisvert er að mikið er lagt út frá goshléum og að Reykjanes sé komið á tíma. Goshléin eru skoðuð fyrir hvert eldsöðvakerfi fyrir sig og ætti þá að vera komið að Eldgosi núna í Brennisteinsfjallakerfinu sem myndi þýða eldgos í nágrenni við Bláfjöll. Eldstöðvakerfið kennt við Fagadalsfjall er hins vegar ekki talið með hér og hefur ekki gosið í a.m.k. 6 þúsund ár að talið er.

Yfirlit yfir virk tímabil eldgosa á Reykjanesi eftir eldstöðvakerfum. Hér þarf að veita því athygli að Fagradalsfjall er ekki talið með enda hefur ekki gosið þar í meira en 6 þúsund ár.

----- Að mestu byggt á því sem kemur fram í bókinni um Náttúruvá
Upphaflega var þetta birt á Facebook, 4. mars.

Það sem eftirá (skráð 4. apríl) er skemmtilegt við þessa umfjöllun er að mér fannst í aðdraganda gossins mjög lítið gert úr því að eldgosið sem hugsanlega var í væntum væri í Fagradalsfjalli, sem, hafði ekki gosið í liklega uppundir 10 þúsund ár og gos þar verið dyngjugos eða í ætt við dyngjugos. Það var endalaust fjallað um að goshléið væri 800 ár en ekki neinn sérstakur gaumur gefinn að því að goshlé Fagradalsfjalls var búið að vera mörg þúsund ár og að allar þekktar goslotur á Reykjanesi hefjast austast á nesinu, þ.e. í Brennisteinsfjöllum.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé ekkert sem segi að goslota Rekjaness sé hafin þó það sé dyngjugos í gangi í Fagradalsfjalli. Það þarf að tengja það gos betur við eldgos í hefðbundnu eldstöðvakerfum Reykjaness til að það gangi upp í mínum huga.

No comments: