Tuesday, March 16, 2021

Kemur eitthvað eldgos?

Lærðir og leikir eru að bíða eftir eldgosi á Reykjanesi… þar sem ég get líklega í þessu bæði flokkast sem lærður og leikinn, þá er ég að byrja að hallast að því að það verði ekkert eldgos… núna.

Meðfylgjandi mynd sýnir alla skjálfta á svæðinu síðustu fjóra sólarhringa og greinilegt er hvernig virknin hefur færst til.

Fyrir hálfum mánuði var ég nokkuð viss um eins og margir aðrir að það væri alveg að fara að gjósa í fjallakverk fyrir norðan Fagradalsfjall ekki langt frá Keili. Það mældist gosórói og það þýðir bara að kvika streymir nokkuð óhindrað í gegnum sprungur og er á leið til yfirborðs. Ég hafði eiginlega viljað meina að gosórói jafngilti eiginlega eldgosi. En svo gerðist bara ekki neitt og fréttamaður RUV flaug yfir og sá ekkert nema einhvern sandhól sem er kallaður Keilir.

Jarðskjálftavirknin færðist eftir sprungukerfinu suðvestur fyrir Fagradalsfjall og einnig var hægt að mæla bæði með GPS stöðvum á jörðu niðri og gerfitunglum sveimandi yfir hvernig yfirborð landsins seig, reis og hliðaðist í samræmi við það að kvikan væri að brjótast áfram í því sem er núna kallað kvikugangur.

Skjálftar voru mestir í Nátthaga, dalverpi sunnan Fagradalsfjalls og þar var sett upp vefmyndavél til að ná upphafi væntanlegs eldgoss á kvikmynd. En ekkert gerðist nema að skjálfti af stærri gerðinni varð dálítið vestar sunnudaginn 14. mars og í framhaldinu færðist jarðskjálftavirknin í þá átt. Hvað var að gerast þarna held ég að enginn viti alveg en ef kvikan var að fara eins og skjálftarnir sýndu þá gæti það endað mjög illa því þá gæti eldgos orðið mjög nálægt Grindavík. Þetta er hins vegar þvert á sprungustefnu og er ósennilegt – enda hætti þetta bara.

Núna eru skjálftarnir aftur komnir þar sem þeir voru fyrir háfum mánuði og ef það fer að gjósa núna þá myndi líklegast gjósa þar. Reyndar er það þannig að heppilegt væri að eldgos kæmi upp á öðrum hvorum þessara staða, norðan eða sunnan Fagradalsfjalls. Fá ef nokkur manvirki væru í bráðri hættu fyrir utan vegi sem ætti að flokkast sem algjört minniháttar tjón í eldgosi í námunda við stærstan hluta byggðar Íslands.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að hafa þá skoðun að úr því þetta er farið að dragast svona mikið á langinn þá virðist krafturinn í kvikuhreyfingunum hingað til ekki vera nægur til að kvikan komist til yfirborðs þá sé að verða líklegra að það gerist ekkert meira. Kvikan heldur eitthvað áfram að þræða sprungur við Fagradalsfjall en nær ekki til yfirborðs í þessu áhlaupi.

Það breytir samt ekki því að eldgos gæti hafist núna hvenær sem er og líklegast finnst mér að ef það verður eldgos þá verði ekki neinn sérstakur fyrirboði nema gosórói í einhvern mjög stuttan tíma áður en kvikan kemur upp.

Stórt eða lítið eldgos… það veit í raun enginn en líkur eru mestar á að það verði lítið og það er nær eingöngu út af því að eldgos á Reykjanesi síðustu árþúsundin hafa verið lítil. Miðað við hvað þetta er í raun róleg og langdregin atburðarás þá er hins vegar nær öruggt að eldgosið ef það verður, verður mjög rólegt. Það er hins vegar ómögulegt að segja hvort það verði langt eða stutt. Gæti orðið mjög stutt þar sem þetta er löng róleg atburðarás og krafturinn myndi ekki nægja til að viðhalda eldgosi nema í stutta stund… jafnvel ekki nema einhverja klukkutíma. Hin langdregna atburðarás getur líka bent til þess að þetta verði langt eldgos sem standi í a.m.k. í einhverja mánuði og þá verði þetta að lokum ekki svo lítið hraun sem kemur þarna upp.

En hvað veit ég, þó ég þykist vera bæði lærður og leikur í þessum efnum!

Að einhverju leyti er jarðskjálftavirknin að fjara út. Fyrir um viku var sambærilegt graf þannig að lítið sem ekkert sást í gegn fyrir skjálfta upp í 2 að stærð og alla daga var hellingur af skjálftum yfir 3. Núna er þetta sem sagt orðið eitthvað gisið og það er ekkert óhugsandi að þetta sé bara að fjara út.


Upphaflega birt á Facebook, 16. mars. sjá hér.

Að hafa rétt fyrir sér eða ekki, hvað var ég að hugsa... 4. apríl:

Hægt og rólega töldu margir að eldgos væri sífellt að verða ólíklegra og ég var sem sagt ekki einn um þá skoðun. Ekki hafði ég rétt fyrir mér en hafði samt sæmilega rétt fyrir mér að það væri öruggt að ef það yrði gos þá yrði það mjög rólegt gos.

Þetta var skrivað að kvöldi 16. mars upphaflega en gosið hófst þremur sólahringum seinna.

No comments: